Þá eru seinni leikir þessara landsleikjahrinu búnir og þetta var mis-skemmtilegt fyrir okkar menn.
Robin van Persie meiddist á læri í leik Hollendinga og Ungverja og fór útaf í hálfleik, en að sögn Louis van Gaal, stjóra Hollendinga var það aðeins varúðarráðstöfun þannig að við vonum að hann verði með á laugardaginn kemur. Shinji Kagawa varð fyrir einhverjum bakeymslum fyrir leik Japan og Írak og byrjaði ekki leikinn, en hann segir sjálfur að það sé ekki alvarlegt. Kæmi þó svo sem ekki á óvart þó þeir yrðu hvíldir á móti Wigan.
Tom Cleverley var eini United maðurinn sem byrjaði í leik Englands og Úkraínu og stóð sig vel en brenndi tveim upplögðum marktækifærum og fær því ekki góða dóma. Danny Welbeck kom inn á fyrir hann í seinni hálfleik og átti stóran þátt í að England náði að skrapa jafntefli. Carrick kom ekki inná.
Jonny Evans spilaði aftur allan leikinn fyrir Norður-Íra í 1-1 jafntefli við Lúxemborg, vonum að þessi meiðsli hans séu ekki alvarleg og hann sé ekki að eyðileggja ökklann fyrir okkur. Robbie Brady lék sinn fyrsta leik fyrir Íra og skoraði mark og lagði upp tvö önnur í vináttuleik gegn Óman. Góð byrjun hjá þessum tvítuga strák sem var á láni hjá Hull City í fyrra og lék í bakverðinum í upphitunarleikjum United.
Joshua King kom inná sem fyrr fyrir Noreg og þótti frískur í 2-1 sigri á Slóvenum. Evra lék allan leik Frakka gegn Hvítrússum en Nani var tekinn útaf eftir 76 mínútur í 3-0 sigri Portúgal gegn Aserbaídsjan.
Antonio Valencia var rekinn útaf á síðustu mínútu í 1-1 jafntefli Ekvador og Úrúgvæ og missir af næsta leik. Sleppur þó ekki við ferðalög þá, þarf að leika seinni leikinn í tveggja leikja hrinu. Síðast en ekki síst skoraði Javier Hernandez eina mark leiksins þegar Mexíkó vann Kosta Ríka.
Þannig það verða Chicharito og Welbeck frammi móti Wigan og Robbie Brady á bekknum, eða hvað?
Björn Friðgeir says
Vert að bæta við að varaliðið skrapp til Stalybridge og gerði 1-1 jafntefli sem er helst markvert þar sem Darren Fletcher lék allan leikinn og stóð sig vel. Alexander Büttner átti líka góðan leik en fór útaf í lok leiks eitthvað smávægilega meiddur. Kiko Macheda skoraði markið.
Óskar Ragnarsson says
Flott að Fletcher er að spila svona mikið. Verður gott að fá hann til baka. Sumir vilja meina að RVP hafi ekki meiðst, held það væri fínt að hvíla hann á laugardag þó maður vilji alltaf sjá hann spila. Evans virðist vera orðin 100% og er ekki Rio orðin 100% líka. Ég væri til í að sjá Buttner spila sinn fyrsta leik á laugardag. Þ.e.a.s. ef hann er ekki mikið meiddur. Ætti að vera nokkuð safe leikur, og jafnvel óhætt að hvíla RVP. Svo eru 2 erfiðir leikir eftir það. Galatasaray og Liverpool. Verðum að hafa Persie með á móti poolurum.