Eftir frábæra frammistöðu um síðustu helgi gegn Man City var komið að því að leika gegn Sunderland heima. Fyrirfram var þetta svolítið hættulegur leikur, það er alltaf erfitt að halda uppi einbeitingu eftir jafn stóran sigur og gegn City, plús að United hefur verið í bölvuðu basli með liðin í neðri hluta deildarinnar á þessu tímabili. Chris Foy var dómari leiksins, veður var milt, 8 stiga hiti, 11km/klst vindur úr SSV, 85% raki og 988 mb loftþrýstingur. Svona var liðið skipað:
De Gea
Jones Ferdinand Smalling Evra
Valencia Carrick Cleverley Young
Rooney
Van Persie
United byrjaði leikinn mjög vel, virkuðu grimmir og tilbúnir í slaginn strax á fyrstu sekúndu. Þeir teygðu á Sunderland með því að spila mjög vítt á vellinum, Young og Valencia stóðu nánast á hliðarlínunni í hvert skipti sem þeir fengu boltann. Einnig hélt ég stundum að Rio Ferdinand væri kominn í hægri bakvörðinn með Jones, það lá við að þeir héldust í hendur á hægri kantinum. Þetta gaf leikmönnum United meira pláss til að halda uppi góðu spili sín á milli og Sunderland-menn þurftu að hlaupa mun meira til að loka svæðum. Þetta bar árangur á 16 mínútu þegar Young kom upp vinstri kantinn, hnoðaði boltanum inn í teig þar sem Van Persie var mættur og smellti honum í markið. Glæsileg afgreiðsla eins og sönnum framherja sæmir.
Aðeins 5 mínútum síðar kom svo annað mark frá okkar mönnum þegar Cleverley skoraði eftir alveg frábæra spilamennsku milli hans og Carrick. Smekklegur þríhyrningur framhjá varnarmönnum Sunderland, Cleverley kominn inn fyrir vörnina og smellir boltanum í fjærhornið framhjá Mignolet í markinu. 2-0 eftir aðeins 20 mínútur og United á flottu róli.
Menn slökuðu lítið á eftir mörkin og héldu áfram að sækja á Sunderland. Van Persie og Rooney báðir með góð færi sem hefðu hæglega getað orðið að mörkum. Kunnulegir draugar voru þó viðstaddir í eina færinu sem Sunderland fékk í fyrri hálfleik þegar Ferdinand gaf boltann frá sér á mjög hættulegum stað, ansi aulalega, en slæm ákvörðunartaka hjá James McClean gerði það að verkum að ekki fór verr.
Flott frammistaða hjá United í fyrri hálfleik, voru einbeittir og mjög öruggir í sínum aðgerðum. Góð mörk og nokkuð virkilega góð færi, hefði hæglega geta verið 4-0 í hálfleik.
Í hálfleik kom Scholes inn á fyrir Carrick, líklegast bara verið að hvíla Carrick en hann hefur spilað hvað mest af leikmönnum United í vetur. Eftir aðeins 1 mínútu í seinni hálfleik setti Rooney boltann í þverslána hjá Sunderland og rétt eftir það fékk Van Persie dauðafæri til að gera út um leikinn, en klikkaði á því að setja boltann á rammann.
Sunderland voru þó mun beittari í sínum aðgerðum í seinni hálfleik heldur en í þeim fyrri. Þeir fengu meira pláss og tíma til að athafna sig, sérstaklega fyrir utan vítateig United (þar sem Carrick hafði áður lokað svæðum vel) og það skapaði smá hættu en sem betur fer nýttu þeir færin sín illa. Afksaplega hættulegur leikur að spila því þriðja markið er svo mikilvægt í stöðunni 2-0.
Þriðja mark leiksins kom svo á 59 mínútu og sem betur fer datt það okkar megin. Van Persie fékk boltann á vinstri kantinum upp við endamörkin, sendi hann fyrir markið og þar var Rooney mættur og „tappaði“ honum inn í autt markið. Mikill léttir, úrslitin nánast ráðin og núna lítið annað að gera en að halda einbeitingu í 30 mínútur og ljúka verkefninu. Vidic kom inn á fyrir Ferdinand á 68 mínútu, afskaplega gaman að sjá fyrirliðann okkar aftur á vellinum.
Á 72 mínútu skoraði Sunderland mark, eða ætti ég kannski að segja að United gaf þeim mark? Sunderland áttu góða fyrirgjöf frá hægri kanti sem allir leikmenn United stóðu og horfðu á fljúga framhjá markinu, Sessegnon tók við boltanum á vinstri kantinum, gaf hann aftur fyrir og þar var Fraizer Campbell ALEINN og skallaði í opið markið. Einbeitingarleysi algjört hjá okkar mönnum og Sunderland fékk þarna mark sem mér fannst þeir beint ekki eiga skilið. Eftir þetta hresstust Sunderland menn svolítið og fór ég að verða aðeins stressaður yfir hlutunum. Þeir voru nokkrum sinnum nálægt því að minnka muninn í 3-2, vörnin sýndi gamla takta og vissi lítið hvar hún væri staðsett, De Gea þurfti að hrækja á hanskana nokkrum sinnum, en sem betur fer hélt þetta til leiksloka. Niðurstaðan 3-1 sigur.
Það voru margir góðir punktar í þessum leik. United mættu virkilega vel stemmdir til leiks, spiluðu eins og sannir meistarar fyrstu 20 mínúturnar og gerði þá nánast út um leikinn með tveimur mörkum. Héldu áfram að leika vel næstu 40 mínúturnar, bættu við öðru marki og hefðu hæglega getað skorað 3-4 til viðbótar. Hinsvegar þegar staðan var orðin 3-0 þá fóru menn að vera full kærulausir, sérstaklega í aftast á vellinum. Sunderland skorðu mark og það var ekki United að þakka að Sunderland skoraði ekki annað. Ef staðan hefði verið 3-2 á 80 mínútu, þá er spurning hvað hefði gerst. Það var greinilegt að leikur liðsins dalaði við þær þrjár skiptingar sem voru gerðar. Scholes var ekki að skila sömu frammistöðu og hinn pottþétti Carrick og lítið sem ekkert kom út úr því sem Giggs gerði. Vidic var að spila sinn fyrsta leik í langan tíma þannig að hann var eðlilega smá ryðgaður, fáránlegt að ætlast til kraftaverks af honum á þessum tímapunkti
Heilt yfir var þetta þó fín frammistaða hjá United, góður sigur og loksins horfði maður á fótboltaleik án þess að stressast allur upp. Á þeim 60 mínútum sem tók að vinna þennan leik fannst mér allir leikmenn vera að spila nokkuð jafnan leik, spila sem eitt lið, en þar sem Van Persie var með mark og stoðsendingu þá ætla ég að gefa honum mann leiksins að þessu sinni.
Hér eru nokkur tíst að lokum:
https://twitter.com/siggigisli1/status/279983951655886849
https://twitter.com/raududjoflarnir/status/279981021074706433
https://twitter.com/BusbyMUFC/status/279994291579916288
Sveinbjorn says
Djö var gaman að sjá liðið okkar spila svona,
frábær mörkin okkar og nokkuð solid vörn fyrripartinn.
Líka sérstaklega gaman að sjá Young spila eins og hann
gerði fyrstu leikina eftir að hann kom til Man. Utd. Einnig
flott að sjá Cleverley spila, hugsa að hann eigi eftir að verða
magnaður í framtíðinni með Anerson (ef þeir eru ekki alltaf að meiðast).
RvP maður leiksins.
Ingi Rúnar says
Flottur leikur og lofar gódu. Madur hafdi strax á tilfinningunni ad vid værum ad fara ad vinna hann sannfærandi, smá stress sidasta hálftimann samt, eftir ad Scholes og Giggs komu inná. Leidinlegt ad fá mark á sig, en teir hljóta ad geta byggt vel á sjálfstraustid núna, og koma í veg fyrir ad lenda undir, sem er frekar pirrandi. City vann tví midur, en Liverpool tapadi, sem er geggjad.
Mork vinna leiki.
:)
Ingvar J says
Glæsilegt! Hefði reyndar viljað sjá menn standa við stóru orðin og slátra þeim en maður getur nú ekki kvartað yfir 3-1 sigri. Ég vil samt fara að sjá Valencia „step it up“, kom alltof oft fyrir í þessum leik að hann hikaði og hægði á sóknum okkar manna. Gummi Ben kom oft inn á þetta og ég er algjörlega sammála honum, farið að minna mann á Nani. Valencia hefur verið einn af mínum uppáhaldsmönnum út af því hve ákafur hann er og keyrir á menn með því að halda hraðanum uppi.
Full neikvæður eftir góðan sigur, ég viðurkenni það en ég vil sjá Valencia eins og hann hefur verið, keyrandi á menn og ekkert „fancy“ kjaftæði.
DMS says
Sammála með skiptingarnar, fannst þær gera lítið fyrir okkur í dag.
Af hverju er Valencia orðinn svona hikandi? Það er eins og hann viti ekki alltaf hvort hann eigi að reyna að taka manninn á eða ekki, bíður með boltann í stað þess að keyra áfram. Oftar en einu sinni sem þessi staða kom upp, Valencia beið með boltann og gaf leikmönnum Sunderland tækifæri að koma sér aftur í stöður í vörninni, sendir svo boltann til baka eða nær ekki að komast framhjá varnarmanninum.
En flott spilamennska heilt yfir í þessum leik. Young var flottur sem er mjög jákvætt, ekki mikið komið út úr honum á þessari leiktíð hingað til.
De Gea var vel á verði þegar þurfti á að halda. Þetta mark sem Sunderland skoraði var svo týpískt mark til að fá á sig, við höfum séð þetta gerast svo ótrúlega oft á þessari leiktíð. Gengur illa að koma boltanum frá marki eftir föst leikatriði og það kemur önnur fyrirgjöf inn á teig og menn með hugann allt annarsstaðar.
En þessi McClean er gull af manni. Djöfull er ég feginn að það var hann sem náði boltanum af Rio Ferdinand þarna í fyrri hálfleik en ekki einhver annar. Vel gert hjá De Gea engu að síður að verja 1vs1.
Maður leiksins: Robin van Persie. Þessar 24m punda eru klink fyrir þennan mann, heimsklassi út í gegn.
Bjarni Þór Pétursson says
Mikið væri nú dásamlegt ef að Tom Cleverley myndi nú komast á gott skrið og festa sig í sessi á miðjunni. Allt önnur vinnsla og þéttleiki á miðjunni í dag og gegn City en verið hefur. Klassa mark frá honum og suddalegur bolti inn fyrir á Young í seinni hálfleik.
Að sama skapi verður Smalling vonandi heill í lengri tíma. Þvílíkur íþróttamaður þar á ferð.
Jóhann Ingi says
Fanns ég horfa á tvo ólíka leiki í dag. Þ.e. fyrir og eftir skiptingar. Mér fannst við þvílíkt solid með Carrick og Cleverley inn á miðjunni en mjög slappir eftir að scholes kom inn á . Hann er búin kallinn og Giggs líka. Það er mín skoðun og þarf ekki að endurspegla skoðun almennings. Ég hefði frekar byrjað seinnihálfleikinn með Fletcher í stað Carrick úr því að það þurfti að skipta honum út af. Meiddist hann eða bara verið að hvíla ??
Annars lítum við hrikalega vel út sóknarlega. Young er að bæta sig og mér fannst Valencia bara ágætur en ekki komin í sitt besta form. Vantar aðeins uppá touchið. Phil Jones er hrikalega flottur og þar fer maður sem gefur manni smá von um að við gætum kannski haldið hreinu einhverntímann aftur.
Gleðipunkturinn hlítur þó að vera að sjá Vidic vera komin aftur sem og að sjá hvað við erum hrikalega beittir sóknarlega. Skandall að skora ekki fleiri mörk í þessum leik.
Áfram United alltaf og allstaðar.
Runólfur says
Ótrúlegt að maður sé pirraður eftir 3-1 sigur en vanhæfni liðsins þegar kemur að því að halda hreinu er að gera mig brjálaðan. Liðið er að fá á sig gífurlega ódýr mörk sem hægt væri að koma í veg fyrir með smá skynsemi. Óþolandi að vera pirraður eftir 3-1 sigur en þessi leikur átti að fara allavega 5-0, þetta er sama kæruleysi og kostaði liðið titilinn í fyrra og mér finnst menn ekkert hafa lært af mistökunum í fyrra.
Jói says
Eru menn í alvörunni að gúddera það að Scholes og Giggs geti ekki einu sinni lengur komið inná á móti jafn lélegum liðum og Sunderland og stýrt leiknum heim? Þetta hlýtur að vera þeirra síðasta tímabil.