Uppstillingin fyrir leikinn var mörkuð af því að Rooney og Young meiddust á æfingu í gær og Danny Welbeck veiktist í nótt. Giggs og Scholes byrjuðu því saman inná,
En það var hvorugur þeirra sem gerði afdrifarík mistök strax á fjórðu mínútu heldur Michael Carrick sem missti boltann til Demba Ba. Ba skaut og De Gea varði boltann beint fyrir fætur James Perch sem skoraði örugglega. Skelfileg byrjun hjá United, enn eina ferðina enn fáum við á okkur fyrsta mark. Það má ef til vill að hluta kenna De Gea um þetta, en boltinn var erfiður á rennblautum velli.
Eftir markið var leikurinn frekar jafn, United sótti meira, en sóknirnar strönduðu alla jafna við vítateiginn. Hernandez átti þokkalegar rispur hægra megin en náði ekki að koma boltanum almennilega fyrir í bestu sókninni.
Rétt eina ferðina enn náðum við þó að jafna. Van Persie tók aukaspyrnu frá hægri, inn á teiginn að því er virtist beint inn á vörnina en boltinn datt síðan inn á Chicharito sem með harðfylgi náði skotinu. Krul varði, hélt ekki boltanum og Evans var fyrstur á staðinn og renndi boltanum í netið. Fjórða markið frá Evans í vetur, og fimmta markið hans á ferlinum. Varnarmennirnir okkar eru svo sannarlega að skila mörkunum í vetur.
En einungis nokkrum mínútum síðar setti Evans boltann í eigið net úr skoti frá Ba. Cissé var fyrir innan Evans í rangstöðu og truflaði Evans klárlega. Línuvörðurinn flaggaði en Mike Dean ákvað að Cissé hefði ekki áhrif á leikinn. Skelfilegt mark og Sir Alex varð öskuillur eins og vænta mátti.
Síðasta kortérið í hálfleiknum var nokkuð fjörugt, liðin sóttu á víxl, besta færið kom þó hjá Newcastle, Marveaux smellti aukaspyrnu í þverslánna.
Í fyrri hálfleik var nákvæmlega eins og marga grunaði, miðjan var ekki nógu hröð og hreyfanleg hjá okkur og vörnin var jafn viðkvæm og hún er búin að vera í allan vetur. Erfitt að geta ekki haft neinn af þeim Rooney, Young, Welbeck, Nani, Anderson eða Kagawa til að setja inn á í svona stöðu.
Eina breytingin sem virtist augljóst að gera var að setja Cleverley inn á en það kom þó ekki í hálfleik. Í staðinn hellti Fergie sér yfir Mike Dean dómara og línuvörðinn líka áður en seinni hálfleikurinn byrjaði og var heppinn að vera ekki sendur upp í stúku.
Leikurinn hélt áfram að vera fjörugur og loksins fundu United menn leið að marki úr því sem eitt sinn var ólíkleg átt, en Patrice Evra skoraði sitt fjórða mark í deild á vetrinum og kom sér í fjórða sæti yfir deildarskorara. Í þetta sinn var þetta ekki skalli eftir horn heldur flott skot utan teigs, gegnum vörnina og inn.
Þá hélt maður nú að þetta færi að koma, United sótti en gamli United maðurinn Gabriel Obertan kom inn á, lét það verða sitt fyrsta verk að rúlla upp Smalling á kantinum, gefa fyrir og Papiss Cissé var næsta óvaldaður, og skoraði þrátt fyrir örvæntingarfulla tilraun Evra til að blokkera skotið. 2-3
Þá loksins kom Cleverley inná fyrir Scholes og aðeins þrem mínútum eftir mark Cissé kom Van Persie okkur aftur inn í leikinn. Fyrirgjöf frá Valencia, skot Van Persie, Krul varði út í teiginn, Carrick setti fótinn í boltann og hann fór aftur á Van Persie sem í þetta sinn smellti tuðrunni inn.
Hvernig er það, er ekki talan yfir hjartaáföll þegar #MUFC leikir eru í gangi hærri en ekki? #Sturlun #EkkiFyrirHjartveika
— Runólfur Trausti Þórhallsson (@Runolfur21) December 26, 2012
Hasarinn var þá rétt að byrja og síðustu 20 mínúturnar voru endanna á milli. Chicharito komst framhjá Krul en var kominn upp að endamörkum og fyrirgjöfin fór í vörnina. Van Persie átti skot rétt framhjá eftir flotta sendingu Carrick inn á teiginn og mínútu síðar skallaði Chicharito framhjá eftir fyrirgjöf Valencia. Flott fyrirgjöf reyndar, og langt síðan maður hefur séð slíka frá Tony V.
Hinu megin átti Sammy Ameobi skot í stöng eftir að hafa fengið að athafna sig alltof frjálslega í teignum, De Gea feginn að fá boltann í fangið eftir það. Svo skallaði Chicharito aftur, þetta sinn beint á Krul, hefði mátt gera mun betur þar.
En á slaginu 90 mínútur kom þetta loksins. Enn ein snilldarsending Michael Carrick, inn á teiginn og þar sá Chicharito við rangstöðunni, var aleinn á teignum og kláraði snyrtilega.
Undir lok leiksins meiddist Vurnon Anita leikmaður Newcastle eftir slæma tæklingu Valencia sem hefði átt að rjúka útaf fyrir annað gult í það minnsta, Tony heppinn þar.
En loksins flautaði slakur dómari leikinn af og sigurinn var í höfn. Ótrúlegur leikur. Gersamlega ótrúlegur leikur. Það var eins og allt það sem við höfum verið að kvarta undan og fagna í vetur kæmi í einn leik. Vörnin var slök, sér í lagi Smalling í bakverðinum, stóð sig ekki mjög vel og kom lítið fram á við. Vonandi ekki ástæða fyrir að hann spili þar aftur frekar en Jones. Ferdinand var óöruggur á tíðum og Evans átti sjálfsmark. Jafnvel þó dæma hefði átt rangstöðu á Cissé breytir það ekki að þetta gríðarslakt.
Miðjan var næsta ósýnileg fyrir utan Michael Carrick sem enn eina ferðina enn er að stjórna spilinu og eiga snilldarsendingar, lagði upp mörk númer þrjú og fjögur. Það er gersamlega ótrúlegt að enn séu einhverjir þarna úti sem sjá ekki mikilvægi hans fyrir liðið, sér í lagi þegar restin af miðjunni er að spila undir getu eða samkvæmt aldri.
Líka var eins og Valencia vaknaði aðeins undir lokin og við sáum glefsur af Valencia tímabilsins frá í fyrra. Alveg kominn tími á það. Það er líka alveg kominn tími á að spila ekki með Scholes og Giggs saman. Sitt í hvoru lagi ætti að vera í lagi, sér í lagi ef Giggs er á kantinum
Frammi voru Van Persie og Hernandez ekki sannfærandi fyrr en í hasarnum síðustu 20 mínúturnar. Van Persie skoraði ekta markaskoraramark sem við keyptum hann til að gera, og Chicharito hefði getað verið búinn að klára þetta, en þetta kom þó á endanum og til þess er hann þarna.
Á sama tíma var City að tapa, og núna stöndum við uppi með sjö stiga forskot. Það er svo gjörsamlega ótrúlegt ef ég á að segja nákvæmlega það sem mér finnst, en taflan lýgur ekki. United er trekk í trekk að spila allt að því illa, vörnin lekur eins og gatasigti, menn vilja helst gefa miðjuna til fjórðu deildarliðs (nema Carrick!!) en samt hefst þetta alltaf. Þar er auðvitað fyrst að þakka Robin van Persie sem er að borga kaupverðið til baka í hverjum leik. Rooney hefur komið sterkur inn eftir meiðslin í haust og Hernandez hefur sett nokkur kvikindi líka.
En ég ætla að ljúka þessari skýrslu um þennan ótrúlega leik á eftirfarandi statistikk: í leikjum United í deildinni í vetur hafa miðjumenn United skorað 9 mörk. Varnarmenn United hafa hins vegar sett heil 10! Og á meðan við skorum fleiri mörk en við fáum á okkur þá ætla ég ekki að kvarta! (mikið)
Björn Friðgeir says
Og skv Sir Alex er Rooney frá í 2-3 vikur vegna meiðsla. Og það eru 2 og hálf vika í Liverpool leikinn!
Barði Páll Júlíusson says
Björn Friðgeir, ætla að tippa á að Ferguson sé að segja þetta bara til að hvíla hann vel eða hann sé frá í 1 viku og vilji bara nota tækifærið og hvíla hann því ég er alveg 100% viss um að Rooney er ekki að fara missa af Liverpool leiknum!
Sveinbjorn says
Helvíti leiðinlegt að þurfa að missa af seinni hálfleiknum, en hvað um það.
Er nokkuð sammála þér eins og flestir Man. Utd. stuðningsmenn um að það
borgar sig ekki að byrja með Scholes og Giggs saman (nema núna :)).
En í þessarri viku eru 3 deildarleikir þannig ég skil fullkomlega ákvörðunina hans SAF,
það þarf augljóslega að rótera mikið í kringum þessa leiki. West Brom á laugardaginn
og þá mun kallinn henda Clev inná (og kannski Anderson??).
Ljúft að vera með 7 stiga forystu á toppnum.
Lol á City.
Eeeeeinar says
Þessi klúbbur mun ganga fram af mér einn góðan (slæman) veðurdag.
Þvílíkur sigur og frábær 3 stig!
Tveir neikvæðir punktar þrátt fyrir 7 stiga forystu á toppnum:
1. Það verður eitthver að fara senda þetta vidjó á Chicharito – http://www.youtube.com/watch?v=iumvllM8yTw
2. Ég man ekki eftir neinu liði sem hefur unnið titilinn og verið jafn slakir varnalega og Man. Utd. í ár – Í hvert skipti sem Newcastle komst fram yfir miðju fór um mann. Een fuckit, við skorum oftar en ekki fleiri mörk en andstæðingurinn.
Bambo says
Vonleysi og stjónlaus gleði eru fyrstu 2 orðin sem mér dettur í hug eftir þennan leik. Frábært að fá 3 stig í hús og alveg hreint ótrúlegt að þetta er annar leikurinn á tímabilinu þar sem Evra og Evans skora báðir. (hefði ekki sett 10 krónur á það fyrir tímabilið að þeim tækist báðum að skora yfir höfuð í vetur)
Javier kemur manni alltaf til að brosa fyrir rest þó maður hafi skammast yfir honum oft í leiknum, gaman að sjá Valencia koma til (þó ekki nema í nokkrar mínútur) og hrikalega heppinn að fá leyfi dómarans til að klára leikinn.
Sjálfsmark Evans var hrikalegt, burtséð frá því hvort að Cisse hafi áhrif á leikinn eða ekki þá á Evans ekki að setja þennan bolta í egið mark.
Carrick klárlega maður leiksins og hrikalega gaman að sjá hann koma í sína gömlu stöðu aðeins framar á miðjunni.
Friðrik says
Þegar Cisse skoraði 2-3 þá hélt ég að CIty myndi klára sinn leik og bilið orðið 1 stig. En þetta breytist fljótt og í lok dags erum við með 7 stiga forskot á City. þvílík snilld.
Cantona no. 7 says
G G M U
siggi United maður says
Þetta er alveg ótrúlegt hvernig þetta gengur hjá okkur þetta tímabilið. Ég nenni ekki einu sinni að telja upp alla gallana á leik liðsins eins og maður er búinn að vera gera svo oft áður í haust. Ég ætla bara að halda áfram að vera með gæsahúð yfir að sjá Van Persie skora í United búningi. Mér líður í hvert einasta skipti eins og ég muni brátt vakna af værum blundi, og hann ennþá í Arsenal. Ef þessi gæji er ekki að sjá eftir árum sínum í Arsenal núna, þá veit ég ekki hvað. Hann er svo gjörsamlega mótaður í þann prófíl sem maður vill helst sjá hjá United manni. Tæknilega frábær, liðsmaður, smá „dirty“ og tapsár. Bestu kaup Fergie í langan tíma og mest sé ég eftir að hafa ekki fengið hann mun fyrr, og þá kannski sleppt Tevez gerpinu í staðinn.
Mills says
Bambo og leikirnir tveir sem að Evra og Evans hafa báðir skorað í eru einmitt gegn Newcastle. Það hefði verið hægt að auðgast vel á því að veðja á það =)
Egill Óskarsson says
Þetta var magnaður leikur en einhvern veginn held ég að Mourinho hafi setið einhversstaðar í Madrid glottandi yfir vörninni og þá sérstaklega hjálpinni sem kom frá miðjunni. Ef ekki hefði verið fyrir Carrick þá ætla ég að giska á að við hefðum fengið einu til tveimur fleiri mörk á okkur. Hann var sá eini af miðjunni sem veitti einhverja hjálp til baka í þessum leik.
Það getur ekki verið að SAF sjái ekki að á meðan þetta rót er á vörninni þá þurfi nauðsynlega að gefa henni meira skjól frá miðjunni.
sigurjón says
1. Nennir einhver að kenna Bauninni að spila boltanum?
2. Af hverju eru svona margir meiddir? er þjálfun nægilega góð hjá okkur?
3. hvenær ætlar liðið að spila vörn sem lið. Liðið spilar sókn sem lið.
4. hversu góður árangur mun nást þegar varnarleikur liðsins verður almennilegur?
Dolli says
Það þarf nauðsinlega að bæta vörn liðsins, ekki ásættanlegt að vera búnir að fá á sig 28 mörk, og mótið rétt hálfnað.