Einn af stórleikjum ársins er á morgun þegar Liverpool kemur í heimsókn.
Eins og alltaf í aðdraganda þessara leikja hefur undanfarna daga mikið púður farið í að tala um liðin, og alltaf snýst umræðan um hvort Liverpool sé nú ekki örugglega stórlið, og jafnvel stærra en United. BBC birti töflu þar sem bikarafjöldi Liverpool telst þrem fleiri en United, telur reyndar þá ekki með keppnir eins og Góðgerðaskjöldinn, Ofurbikar Evrópu og Heimsmeistarakeppni félagsliða, en, hey, leyfum þeim það.
Það þarf hins vegar enga bikaratöflu til að vita það að síðan Liverpool varð síðast Englandsmeistari hafa bæði Fram og Víkingur orðið Íslandsmeistarar og einmitt núna í vor verður stór hluti þeirra háskólanema sem klára sitt þriggja ára nám á ‘réttum’ tíma fædd eftir þennan merka atburð. Þeir geta huggað sig við það að það eru amk ekki komin 26 ár. Yfir á kop.is fór hann Tryggvi Páll okkar yfir leikinn með þeirra manni Kristjáni Atla og svaraði fimlega góðum skotum púlarans.
En nóg um skotin, það sem gefur Liverpool tilkall til stórliðstignar í dag eru fyrst og fremst stuðningsmennirnir enda er það ljóst að hér á Íslandi munu vinnustaðir, skólastofur, samfélagsmiðlar og spjallforrit loga á mánudag þegar leikurinn á morgun verður gerður upp, miklu frekar en þegar United og City etja kappi saman. Það væri því algerlega rangt að halda fram að þessi leikur skipti ekki miklu meira máli en t.d. leikur gegn West Bromwich eða Swansea svo við tökum nú liðin sitt hvoru megin við Liverpool í töflunni í dag.
Liverpool hefur gengið brösuglega í vetur. Þeir klúðruðu leikmannaskiptaglugganum eftirminnilega í haust og hafa þurft að reiða sig á Luis Suarez til allra hluta síðan þá. Þessu hafa þeir bætt úr með kaupum á Daniel Sturridge frá Chelsea sem á að hjálpa til við markaskorunina. Þeir hafa átt þokkalega leiki upp á síðkastið en inn á milli komu töp gegn Stoke og Villa. Einhver hélt því fram á twitter að Liverpool hefði enn ekki unnið lið sem var fyrir ofan þá í töflunni (hvort meint var liðin fyrir ofan þá nú eða á leikdegi hef ég ekki hugmynd um og nenni ekki að skoða). Sem sé, frammistaða þeirra hefur verið nokkurn veginn eins og við er að búast af liði í 8. sæti. Þeir hafa þó fjórum stigum meira en úr sömu leikjum á síðasta tímabili sem bendir til að Brendan Rodgers sé eitthvað að taka til hjá þeim.
En að okkar mönnum. Fréttir í gær komu um að meiðslalistinn okkar væri að hreinsast upp. Nani og Anderson verða í hóp á morgun og Rooney og Jones eru byrjaðir að æfa og verða með á móti West Ham. Virkilega góðar fréttir þar. Reyndar væri ég ekkert hissa ef Rooney byrjaði á morgun, býst amk við honum á bekknum, svona bara ef þarf á honum að halda.
Það er erfitt að spá Nani og Anderson beint inn í liðið, þó að klárlega ef báðir væru í leikæfingu þá væru þeir þar. Þess vegna spái ég liðinu svona:
De Gea
Rafael Ferdinand Evans Evra
Valencia Cleverley Carrick Young
Hernandez Van Persie
Það er helst Hernandez sem ég er óöruggur með. Kagawa er ekki að spila eins og hann á að geta, ég á ekki von á einhverri fimm manna miðju, og eins og áður sagði, Rooney gæti komið sterkur inn. Jonny Evans er fyrir mér alveg búinn að stimpla sig inn í byrjunarliðið og þó ég vilji frekar sjá Vidic inni en Ferdinand, þá hefur Vidic ekki verið sannfærandi undanfarið og virkar ansi mikið rýrari og hægari en hann var.
En í 90 mínútur á morgun verður ekki spurt um stöðu í deild eða nýlega titla, það verður blóðug barátta og ég spái markaleik sem fyrr hjá okkur. Það eru sextán leikir síðan leikur þessi á Old Trafford endaði með jafntefli, og það heldur áfram 3-2 fer þetta. Suarez fær sanngjarnt víti, en besti sóknarmaður deildarinnar mun sjá um þetta.
Eftir það tekur við að fylgjast með leik Arsenal og City og væri ekki leiðinlegt að sjá Arsenal hirða stig þar.
Ljúkum þessu með smá skilaboðum frá Úrúgvæ:
https://twitter.com/AndyMitten/status/289822274444480512
ggs says
Frábær pistill !
Gunnar Þorláksson says
Er ekki eitthvað skrítið að hafa Jones í miðverðinum er hann ekki að stíga upp úr meiðslum.
Björn Friðgeir says
Hvað meinarðu Jones? Þarna stendur skýrt og greinilega Evans.
*kindarlegur* takk fyrir ábendinguna, búinn að leiðrétta!
Djemba djemba says
Hvað er liverpool án fortíðar? Fulham í rauðum búningum
Ingi Rúnar says
Lítid sem ekkert stressadur fyrir leikinn, walk in the park. 3-0 fyrir utd.
Sjáum á morgun hvort ég hafi rétt fyrir mér.
Púllari says
Sjáum hvað setur djöfull
Alli says
Getur einhver utskyrt tessa forlan mynd?
Már Ingólfur Másson says
Diego, Woaa-a-ohhh
Diego, Woaa-a-ohhh
he came from uraguay
he made the scousers cry
Diego, Woaa-a-ohhh