Eftir að hafa átt í töluverðum vandræðum með West Ham í þriðju umferð FA bikarsins var komið að því að taka á móti Fulham í fjórðu umferð á Old Trafford. Á síðustu tveimur árum hefur Manchester United gengið frekar vel gegn Fulham, í síðustu 6 viðureigum hefur United 5 sinnum haft betur og einu sinni hafa liðin gert jafntefli. Maður var því tiltölulega bjartsýnn fyrir leikinn í dag og drengirnir okkar sýndu að maður hafði allan rétt á því. Ferguson gerði sex breytingar á liðinu frá leiknum við Tottenham.
De Gea
Rafael Jones Smalling Evra
Carrick Anderson
Nani Rooney Giggs
Hernandez
Leikurinn byrjaði fjörlega því eftir aðeins 72 sekúndur skoraði United fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu. Eftir ágæta sókn á fyrstu sekúndum leiksins fékk United hornspyrnu. Rooney smellti boltanum inn í boxið, Smalling stekkur upp og var við það að skalla boltann þegar Aaron Hughes, sem stökk upp með Smalling, rak vinstri hendina í knöttinn. Clattenburg tók 1-2 sekúndur í að hugsa málið og flautaði svo víti, sem var samkvæmt endursýningu alveg rakið. Giggs tók vítið og skoraði, ekki svo örugglega því Schwarzer náði að setja hendurnar í boltann. Virkilega góð byrjun á leiknum.
Á næstu mínútum eftir markið datt leikurinn hálfpartinn niður í „gönguhraða“ ef við getum sagt svo. Fulham héldu boltanum ágætlega á milli sín á miðju vallarins sköpuðu sér þó engin færi. Á 20 mínútu átti United svo að fá annað víti þegar Duff augljóslega setti hendina viljandi í boltann. Clattenburg sá atvikið vel en virtist réttlæta aðgerðir Duffs með einhverjum hætti gagnvart Giggs og Evra sem mótmæltu. Ég hef ekki hugmynd um hvaða rök Clattenburg hafði gegn því að dæma víti því þetta var ansi augljóst gagnvart öllum á vellinum, þar á meðal Duff. Í kjölfarið að þessu atviki fékk United horn og upp úr því gott færi þegar Rooney skaut að marki en Schwarzer varði í þverslá.
Fátt annað markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Eins og ég hafði áður sagt þú héldu Fulham boltanum ágætlega fyrri hluta hálfleiksins en ógnuðu ekkert, áttu til dæmis bara eitt skoti á rammann. United voru yfirvegaðir í sínum varnaraðgerðum en sóknarlega voru hlutirnir kannski ekki alveg jafn vel smurðir. Í lang flestum tilvikum kom boltinn upp miðjan völlinn og menn voru að reyna að þræða boltanum í gegnum vörn Fulham, nú eða reyna skot sem voru flest hver hættulaus. Í öðrum tilfellum var boltanum komið á Nani á hægri kantinum en það virtist vera alveg vonalaust fyrir greyið manninn að koma boltanum inn í teiginn, annað hvort stoppaði hann sóknina með því að klappa boltanum aðeins of mikið (og allir varnarmenn Fulham voru mættir á sinn stað) eða þá að sendingarnar hans höfnuðu í fyrsta varnarmanni Fulham. Það voru helst föstu leikatriðin sem sköpuðu mestu hætturnar í fyrri hálfleik. Allavega, 1-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur byrjaði næstum því jafn fjörlega og sá fyrri. Nani átti loksins góða uppbyggingu á hægri kantinum, gaf fyrir á Rooney sem átti hörku skot sem Aaron Hughes varði á línu. Rooney brást hinsvegar ekki bogalistinn nokkrum mínútum seinna þegar hann skoraði loksins annað mark United í leiknum, nánar tiltekið á 50 mínútu. Anderson fékk boltann á miðjunni og átti frábæra stungusendingu á Rooney, sem lék vel á varnarmenn Fulham og negldi honum framhjá Schwarzer í markinu, með vinstri takk fyrir! Loksins kom markið sem maður var búinn að bíða eftir í 48 mínútur.
Tveimur mínútum seinna gerði Hernández út um leikinn með því að setja þriðja mark United. Eftir góða skyndisókn, sem virtist reyndar vera að fjara út, fékk Rooney boltann á hægri kantinum, gaf fyrir og þar var Litla Baunin einn og óvaldaður, tækifæri sem Mexíkaninn sleppir sko ekki. Gott mark og loksins gat maður farið að halla sér aftur í sætinu og njóta lífsins.
Á 61 mínútu var Carrick skipt útaf fyrir Scholes og 5 mínútum seinna skoraði Hernández svo annað mark sitt í leiknum og fjórða mark United. Það var smá heppnisstimpill yfir því marki því boltinn átti viðkomu í varnarmanni Fulham og skoppaði svo rólega framhjá Schwarzer sem var búinn að skutla sér í það horn sem boltinn virtist stefna í. Þar með var leikurinn búinn og Ferguson ákvað að grípa tækifærið og nota restina af skiptingunum sínum þegar Kagawa og Valencia komu inn á fyrir Anderson og Giggs.
Fulham klóraði í bakkann á 76 mínútu þegar Aaron Hughes skallaði boltann í netið eftir horn. Í stöðunni 4-0 þá skipti þetta mark engu máli, en hefði þetta til dæmis verið jöfnunarmark þá hefði ég orðið ofboðslega pirraður út í Rooney, sem var alveg út á þekju í því að dekka sinn mann. Rooney ætlaði reyndar að bæta upp fyrir þau mistök þegar hann skoraði að mínu mati fullkomlega löglegt mark á 83 mínútu. Clattenburg dæmdi hinsvegar brot á Hernández í aðdraganda marksins. Rangur dómur þar á ferðinni, fáránlegur satt best að segja, og kórónaði dómarinn þar með slakan frammistöðu sína í dag. Það mun hinsvegar enginn aðdáandi samsæriskenninga muna eftir framistöðu Clattenburg í dag fyrst United vann leikinn auðveldlega.
Þar með er það upptalið úr leik dagsins, góður og sanngjarn sigur United á Fulham. Þessi lið eigast aftur við eftir nákvæmlega viku, þá á Craven Cottage í Lundúnum. Sá leikur verður pottþétt erfiðari en við skulum kannski fyrst einbeita okkur að leiknum gegn Southampton á miðvikudaginn. Nokkrir koma til greina sem maður leiksins í dag. Giggs var til dæmis mjög góður, Anderson líka og öll vörnin hreinlega. Ég er ennþá að reyna að finna eitthvað sem ég get kennt De Gea um…það hlýtur að koma eitthvað fljótlega.
Að lokum, tvö tíst:
https://twitter.com/OptaJoe/status/295241204235390976
https://twitter.com/OptaJoe/status/295240569339387904
ellioman says
Fúlt að þessi tölfræði hjá Rooney sé ekki 8 in eight appearances. Þetta brot sem dæmt var á Hernandez var algjört bull!
En flottur leikur, vörnin stóð vaktina hrikalega vel. Hún náði gjörsamlega að loka á Berbatov sem sást varla í leiknum. Anderson var að mínu mati besti leikmaður liðsins. Mér finnst liðið vera mun ferskara og hættulegra í sóknum þegar hann er inn á vellinum. Nær að halda uppi alvöru tempói og skapa hættu fyrir andstæðingana. Sendingin í öðru marki United var frábær sem og afgreiðslan hjá Rooney.
Nú er bara að slátra Southampton á Old Trafford!
Pétur says
Hvað segja stuðningsmenn annarra liða er ManUtd OneManTeam? RVP á bekknum og skorum 5 fullkomlega lögleg mörk!
Flott frammistaða þótt leikurinn hafi kannski ekki verið mjög skemmtilegur.
Kristjan says
Talandi um „brotið“ hjá Hernandez, hugsa að Clattenburgh hafi fengið samvisku bit yfir að hafa dæmt vítið snema leiks.
Sveinbjorn says
Hann ætti ekkert að hafa samviskubit yfir því.. Fulham gaurinn setur hendina fyrir hausinn
á Smalling og slær hann burt, breytir engu hvort það var snemma eða seint í leiknum. Plús
það að við áttum annað víti inni eftir að hinn Fulham gaurinn sló boltann (að vísu ekki mikið,
en samt hendi) þegar Evra var kominn upp að endamörkum þannig að ef eitthvað er hefði
hann átt að líta framhjá þessu „broti“ hjá Hernandez.
Þvílíkt gimpa seinna mark samt hjá Hernandez. Elska hann.
Héðinn says
Það var vitað mál að eftir vítið sem Clattenburg dæmdi í byrjun þá myndi hann einfaldlega ekki þora að dæma meira okkur í vil, sama hversu augljóst það yrði. Fjölmiðlaumfjöllun og samsæriskenningar eru farnar að hafa áhrif og það er langt síðan við höfum fengið góða dómgæslu í okkar leikjum, dómarar virðast einfaldlega ekki þora að dæma okkur í vil. Atvikið þegar við áttum að fá víti var mjög furðulegt, því að það var alveg klárt á viðbrögðum dómarans að hann sá boltann fara í höndina. Hann var síðan að reyna að réttlæta það fyrir mönnum (og sjálfum sér held ég) að þetta hafi ekki verið ólöglegt. Virtist gefa til kynna með handahreyfingum að þetta hafi verið svo lítil snerting (sé ekki af hverju það skiptir máli) og síðan á hann að hafa sagt í hálfleik við leikmenn að hann hafi ekki dæmt af því að þetta hafi verið óvart og hendin hafi verið í „náttúrulegri stöðu“… Allt í einu farinn að nota aðra afsökun.
DMS says
Mikið svakalega var Mark Clattenburg slakur í þessum leik. Maður var nú ekki mikið að kippa sér upp við það þar sem við stjórnuðum ferðinni allan tímann í þessum leik, en það voru atriði þarna sem voru nokkuð furðuleg.
En þetta var fínn leikur af okkar hálfu. Mér fannst þetta Fulham lið ansi áhugalaust og öll uppbygging í spilinu hjá þeim var hæg og fyrirsjáanleg. Dimitar Berbatov virðist týnast svolítið þarna upp á toppnum hjá þeim. Manni finnst hann líka pirrast ansi fljótt á liðsfélögum sínum enda líklega vanur að vera með hæfileikaríkari menn í kringum sig.
Anderson og Giggs voru menn leiksins að mínu mati. Frábært að sjá Anderson aftur, vonandi helst hann heill lengur en í 2-3 vikur í þetta skiptið.
Ari says
Anderson besti maður liðsins.. Smalling og Jones nokkuð góðir… og þið Nani haters… hann gerði meira en Valencia hefur gert í mánuð.. en skítt með það. Anderson stal senunni .. MOM .. Giggs var lika góður
siggi United maður says
Ari: ég held það sé engir hérna inni sem sjái ekki hæfileika Nani. Ég held það sé meira hvernig hann spilar úr þeim hæfileikum sem pirrar menn. Ákvörðunartaka hans getur verið mjög slök. En hann er töframaður með boltann, það er engin spurning. Hann er einn af heimsins bestu á litlu svæði. Manni finnst bara alltaf eins og hann gæti gert betur.
úlli says
Ég veit ekki hvort það þýði endalaust að tala um hina miklu hæfileika hjá Nani. Að sama skapi er hægt að tala um ótrúlegan skilning minn á knattspyrnu, en skort á hæfileikana til að framkvæma þá hluti sem ég vil. Menn þurfa einfaldlega að hafa allan pakkann og Nani hefur hann ekki. Engu að síður frábær leikmaður sem fer ekki jafn mikið í taugarnar á mér og mörgum öðrum stuðningsmönnum.
Friðrik says
Ef að Crystal Palace kemst upp í úrvalsdeildina þá held ég að það væri sniðugt að lána Zaha aftur til þeirra á næsta leiktímabili. Þar myndi hann spila alla leiki liðsins sem lykilmaður og kæmi þá tilbaka sumarið 2014 með leikreynslu úr úrvalsdeildinni í staðinn fyrir að fá helmingi færri leiki með United.