Þrjú stig komin í hús og alls ekki leiðinlegt að krækja í þau með glæsisigri. United sigrar Norwich með fjórum mörkum gegn engu. Kagawa með þrennu og Rooney með bombu á 90. mínútu.
Þar sem þetta er nú aðeins leikskýrsla númer tvö hjá mér, þá ætla ég að taka það aftur fram að í mínum leikskýrslum nenni ég ekki að fara yfir hvert einasta atriði sem gerðist í leiknum. Ég tek frekar saman það helsta sem mér þótti eftirtektarvert, sem við getum svo rætt áfram í athugasemdunum fyrir neðan.
Liðsuppstillingin
Eins og ég nefndi í upphituninni, þá var maður spenntur að sjá hvernig Ferguson og Mourinho myndu stilla upp liðunum í dag. Hvaða leikmenn fengu hvíld og hverjir myndu spila. Ef það var einhver vafi um hvaða titlar eru í forgangi hjá Ferguson og Mourinho, þá var honum algjörlega sturtað niður í klósettið í dag. Ferguson ætlar svo sannarlega að taka deildina í ár og tefldi hann fram mjög sterku liði gegn Norwich. Á sama tíma hvíldi Mourinho sína helstu lykilleikmenn þegar Real mætti Barcelona í El classico (sem kom reyndar ekki að sök þar sem þeir unnu 2-1).
Svona hafði Ferguson liðið í dag:
De Gea
Smalling Evans Vidic Evra
Valencia Anderson Carrick Kagawa
Rooney Van Persie
Og á bekknum voru: Lindegaard, Rafael, Cleverley, Nani, Young, Welbeck, Chicharito
Tölfræði leiksins
Í fyrri hálfleik var nánast bara eitt lið á vellinum. United var næstum allan tímann með boltann, átti ellefu skot og þrjú á rammann á meðan Norwich náði ekki einu skoti! Í seinni hálfleik náðu Norwich að halda boltanum ágætlega og náðu að skapa eitt stórhættulegt færi, sem endaði þó með að dæmt var á Holt fyrir að brjóta á Evra (Hvernig í ósköpunum klikkaði Martin á þessu færi samt?). En þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum, fór vörnin að opnast hjá Norwich og náði United að negla inn þrem stórglæsilegum mörkum með stuttu millibili (76., 87. og 90. mín).
Svona leit tölfræðin út eftir leikinn:
Manchester United | Norwich City | |
---|---|---|
19(7) | Shots (on goal) | 1(0) |
5 | Fouls | 14 |
7 | Corner kicks | 3 |
3 | Offsides | 2 |
65% | Time of Possession | 35% |
0 | Yellow Cards | 4 |
0 | Red Cards | 0 |
0 | Saves | 3 |
Mig langaði að finna síðu með góða tölfræði fyrir þessa skýrslu og eftir smá Google leit rakst ég á espnfc.com sem sýnir manni það mikilvægasta. Mér þótti sérstaklega gaman að skoða myndina sem sýnir hvar leikmenn United héldu sig helst á vellinum í dag (e. „Average Position“)
Þessi mynd sýnir greinilega hversu mikla yfirburði United hafði í þessum leik. Næstum allir leikmenn United eyddu tímanum á vallarhelmingi Norwich.
Stórglæsileg mörk
Þið hljótið að vera ánægð með mörkin sem við fengum að sjá í dag? Þetta voru alveg stórglæsileg mörk sem Kagawa og Rooney skoruðu.
Fyrsta markið var kannski ekki það fallegasta í dag en að sjá RVP ná boltanum sem kom frá Valencia og koma honum til Kagawa fékk mig til að brosa.
Þegar Kagawa skoraði mark númer 2 hló ég upphátt hér aleinn heima hjá mér. Af hverju? Því ég fékk þá tilfinningu að Rooney og Kagawa væru hreinlega að leika sér að fífla vörnina hjá Norwich. Rooney fær gullfallega sendingu frá Carrick, tekur boltann niður og kemst í góða stöðu til að annaðhvort skjóta eða senda boltann. Ákveður að senda á Kagawa sem skýtur laflaust en hnitmiðað framhjá Bunn í markinu og varnarmanninum sem reyndu allt hvað þeir gátu til að þvælast fyrir.
Spilið svo í þriðja markinu var alveg stórkostlegt. Ég hugsaði með mér að Kagawa var einmitt keyptur til að skapa og skora svona mörk. Spilið á milli Welbeck, Rooney og Kagawa gaf mér svipaða gæsahúð og ég fékk þegar ég sá Nani skora gegn City í góðgerðarskildinum 2011 eftir glæsilegt samspil milli Cleverley, Welbeck, Rooney og Nani. Vörnin hjá Norwich náði að galopnast og vippaði Kagawa boltanum snyrtilega yfir Bunn.
Fjórða markið var svo stórglæsilegt í alla staði! Það sýndi okkur hvað Rooney getur verið stórhættulegur ef honum er gefið smá pláss. Vel fyrir utan vítateiginn tekur hann boltann, ógnar skoti og kemst framhjá leikmanni Norwich og neglir svo tuðrunni framhjá Bunn í markinu, sem átti aldrei sjens í boltann. Gullfallegt mark!
Kagawa & Rooney
Það er ekki hægt annað en að tala um leikmanninn sem skorar þrennu fyrir liðið. Eftir fyrri hálfleikinn var ég búinn að undirbúa mig undir að skrifa um hvað hann átti frekar dapran leik þrátt fyrir að skora. En eftir að leiknum lauk gat maður ekki annað en að draga það allt til baka. Drengurinn er búinn að eiga erfitt á þessu tímabili eftir mjög góða byrjun og spila þá helst leiðindameiðsli þar inn. Frábærlega gert hjá drengnum og vonandi heldur hann þessu áfram. Eftir leikinn sagði Ferguson þetta um Kagawa:
„He’s gradually getting his form back because he missed that period of football in October and November which set him back a little bit.
He’s going to be a good player. Next year he’ll be far, far better too.“
Svipað og með Kagawa þá var ég búinn að punkta hjá mér, eftir fyrri hálfleik, að ræða allar feilsendingarnar hjá Rooney í þessum leik (Mikið djöf. voru þær margar). En eftir undirbúninginn og stoðsendinguna á Kagawa í marki nr.2 og glæsimarkið í lokin, þá ætla ég hreinlega að gefa honum frí í dag. Vonandi verður hann kominn í betri sendingargír á þriðjudaginn því líklegt verður að hann spili ca. 3-4 stöður í þeim leik.
Vörnin
Það er mjög ánægjulegt að sjá varnarmenn United brillera þessa dagana. Leikurinn í dag var fjórði deildarleikurinn í röð sem United spilar án þess að fá á sig mark. Miðvarðarteymið í þessum leikjum er búið að vera Ferdinand Evans (Fulham), Ferdinand Vidic(QPR) og Vidic Evans (Everton & Norwich). Það er alveg frábært að þeir séu að toppa á hárréttum tíma, eftir að hafa kostað okkur alveg óásættanlega mikið af mörkum á þessu tímabili, því núna eru allir leikir mikilvægir fyrir liðið. Að auki má segja að De Gea sé búinn að fá sína hvíld fyrir stórleikinn á þriðjudag þar sem hann þurfti lítið sem ekkert að gera í dag.
Staðan
Aftur erum við komnir með fimmtán stiga forskot á City og núna eru tíu umferðir eru eftir og City með leik til góða. Datt einhverjum í hug að við myndum ná slíku forskoti á þessu tímabili? Ef svo er, þá megið þið klappa ykkur á bakið því þið eruð snillingar! City spila á mánudag við Aston Villa á útivelli og bind ég litlar vonir við að Villa menn geri okkur einhvern greiða þannig að líklegt að þetta verði tólf stig á mánudag.
Nú koma tveir stórleikir í röð. Fyrst er það Real Madrid á þriðjudaginn í meistaradeildinni og svo Chelsea í FA Bikarkeppninni á sunnudag eftir viku. Party on!
Tíst dagsins
https://twitter.com/TheBusbyBabe/status/307871887231418370
https://twitter.com/halldorm/status/307882291328344064
https://twitter.com/furqanshahid/status/307899546342682624
https://twitter.com/tryggvipall/status/307897506837184512
https://twitter.com/EPLStuff/status/307896380234530819
https://twitter.com/stephenfry/status/307904554085781504
Viðtal við Ferguson eftir leikinn
http://www.youtube.com/watch?v=002s2i4yu-U
Sveinbjorn says
Kagawa er madur manadarins. Fannst Rooney vera frabær i seinni og lika finn i fyrri. Hann hlytur ad byrja a moti Madrid asamt Welbeck.
sigurjón says
Commentið hér að ofan er það besta sem ég hef séð. Maður mánaðarins! í dag er 2. mars. Sveinbjörn, sérðu fram í tímann?
Sveinbjorn says
Eg tok svona til orda vinur.. Held nu ad flestir hafi nad thvi.
En nei, eg se ekki fram i timann frekar en nokkur annar.
Max says
Kagawa chantið
http://www.youtube.com/watch?v=ABfvkqirrz4
Cantona no 7 says
Frábær sigur.
Liðið spilar mjög vel.
Næst er leikur sem að allir bíða eftir.
Áfram Man. Utd.
DMS says
Fínn leikur hjá okkar mönnum og gaman að sjá Kagawa springa út. Það var flott spil í kringum hann í þessum leik og góð hreyfing á honum. Var hann að spila vinstra megin á miðjunni hjá Dortmund? Var hann ekki yfirleitt í holunni fyrir aftan framherjann? Hvað sem því líður þá var hann flottur í dag.
Eru komnar einhverjar fréttir með ástand á leikmönnum fyrir stórleikinn gegn Real? Robin van Persie í lagi?
Friðrik says
Þetta lítur ansi vel út núna, 15 stig og City þarf að vinna alla sína leiki til að eiga einhvern möguleika. City á eftir mjög erfiða útileiki eins og Tottenham , Swansea , Everton og United.
ellioman says
Jæja þetta gekk. Búinn að hjúkra veiku konunni, elda matinn og skrifa skýrsluna. Nú opna ég bjór, ég á hann skilið!
Egill Guðjohnsen says
DMS – til að svara spurningunni þinni þá er RVP klár í slaginn gegn R.Madrid hann átti bara að spila klst.
ellioman says
Jei! Ég fann GIF hreyfimynd af De Gea þegar hann bjargar boltanum frá því að gefa Norwich hornspyrnu.
http://www.abload.de/img/degeagzp8b.gif
Sæmundur says
Ellionman, áttu ekki við að þú sért búinn að elda konuna, skrifa matinn, opna skýrsluna og svo hjúkra bjórnum?
siggi United maður says
Djös meistara skýrsla frá Ellioman og meistara tíst frá Stephen Fry, þvílíkur snillingur. “ There are three teams with swear words in their name: ARSEnal, sCUNThorpe and Manchester Fucking United“
Þar sem þessi síða er að stimpla sig allhressilega inn sem frábær stuðningsmannasíða með málefnalegri umræðu, hvet ég lesendur til að kommenta meira, það er svo skemmtilegt að lesa hvernig menn eru að sjá leikinn á mismunandi hátt, og með aðra vinkla en maður sjálfur.
Tryggvi Páll says
Um að gera að halda því til haga að þriðja mark Kagawa/United kom í kjölfarið á þessum meistaratöktum hjá De Gea. Hann hélt boltanum inni og við brunuðum í sókn.
McNissi says
Ein spurning til allra hér:
Af þessum liðum: Chelsea, T’Ham, Arsenal og Everton sem eru að keppa um seinustu 2 sætin sem gefa þátttökurétt í meistaradeildina, hverja viljið þið sjá ná þessum 2 sætum?
ásgeir says
McNissi: pottþét Tottenham og svo eiga Chelsea að ná topp 4 með þennan leikmannahóp en ég hef engann áhuga að sjá þá í meistaradeildini. væri gaman að sá Everton komast í 4 sæti en ég held að það sé ekki að fara að gerast.
Hannes says
Það væri samt næs ef Tottenham kæmist ekki í meistaradeildina og Bale myndi fara að væla um að hann vildi spila með liði í meistaradeildinni og United myndi gera tilboð sem hann gæti ekki hafnað.