Komið þið sæl og blessuð og verið öll hjartanlega velkomin í þessa splúnkunýju útgáfu af „Spáum í spilin“, þar sem tvö lið eru tekin fyrir og greind í frumeindir. Eins og alltaf þá er enginn er óhultur fyrir miskunnarlausri gagnrýni í okkar þætti og þrátt fyrir þráláta orðróma um hið gagnstæða þá tek ég ekki við neinum mútuboðum! Ég heiti Elvar, kalla mig „ellioman“ á veraldarvefnum og verð með ykkur næstu 5-10 mínúturnar eða þann tíma sem tekur ykkur að lesa öll orðin þar til þið sjáið „Skrifa ummæli“. Sem ég mæli eindregið með að þið gerið!
Í þættinum í dag ætlum við að taka fyrir sannkallaðan stórleik í ensku deildinni en það er nágrannaslagurinn á milli Manchester United og hávaðasömu nágrannanna í Manchester City. Það verður breytt út af vananum í dag og verður þátturinn þannig að fyrst verður skoðað hvort lið fyrir sig og svo verður sjálfur leikurinn annað kvöld tekinn fyrir. Við skulum byrja á að fræða ykkur aðeins um Manchester City. Ekki fara langt því fjörið hefst hér eftir stuttar auglýsingar….
…
Manchester City
Velkomin aftur í „Spáum í spilin“. Englandsmeistararnir í Manchester City koma aftur í heimsókn á Old Trafford, í fyrsta skipti síðan 23. október 2011 eða þegar United var niðurlægt með hrikalegu 1-6 tapi. Þetta þrjátíu og fimm þúsund milljarða biljarða geimdollara lið hefur ekki gengið sem skyldi á þessu tímabili. Þrjátíu leikir spilaðir, átján sigrar, átta jafntefli, fjögur töp, 55 mörk skoruð og 26 fengin á sig (+29). Ef við einföldum þetta fyrir hlustendur þáttarins; City hefur tapað stigum í tólf af þrjátíu deildarleikjum sínum eða 40% af öllum deildarleikjum sínum! Á sama tíma hefur United einungis tapað stigum í fimm deildarleikjum af þrjátíu eða 16,67%. Þarna, kæru hlustendur, kristallast ástæðan fyrir því að United leiðir deildina með fimmtán stigum sem á morgun getur orðið allt að átján stigum.
Í síðustu sex leikjum hefur City unnið þrjá, gert eitt jafntefli og tapað tvisvar. Ég get sagt ykkur góðir hlustendur, að eftir að hafa rætt við nokkra hlustendur þá eru litlar vonir á meðal leikmanna og stuðningsmanna City um Englandsmeistaratitil þetta árið. Í staðinn binda þeir vonir við FA bikarinn þar sem þeir mæta í næsta leik á eftir United, eða sex dögum síðar. En ég fullyrði að það mun ekki breyta nokkuð sköpuðum hlut því þeir munu mæta á Old Trafford alveg snarbrjálaðir, sem er eðlilegt þar sem við erum nú að tala um „derby“ slag á milli tveggja af bestu liðum Englands.
Vincent Kompany á það til að búa til einhver furðuleg verðlaun þegar City á ekki möguleika að vinna einhvern eðlilegan. Í fyrra sagði hann City vera ‘Moral Winners’ eftir tapleik gegn United í FA Bikarnum. Svo í þessari viku ræddi hann við fréttamenn í vikunni og reyndi að hvetja sína menn með því að tala um að vera „Champions of Manchester“, hvað svo sem það á að þýða. Þýðir það blár plastfáni í verðlaun ef þeir vinna á morgun?
Eníweis…. Kíkjum aðeins á ólukkutöfluna hjá City.
Meiðsli/Veikindi/Leikbönn:
- D. Silva (smámeiðsli) => Tilbúinn: 8th Apr
- S. Nasri (ökkli/fótur) => Tilbúinn: 8th Apr
- M. Nastasić (ökkli/fótur) => Tilbúinn: 8th Apr
- J. Rodwell (læri) => Tilbúinn: 8th Apr
- M. Richards (hné) => Tilbúinn: 14th Apr
- Maicon (hné) => Tilbúinn: ekki gefið
Samkvæmt töflunni ættu fjórir leikmenn að verða orðnir tilbúnir á morgun og munar nú ekki um minna þegar einn af þeim er David Silva. Michael Richards og Maicon hinsvegar eiga engan sjens á að ná þessum leik. Lítur semsagt nokkuð vel út hjá City en hvern ættu United helst að hræðast á morgun?
Lykilmaður Manchester City
Fyrir mig er þetta mjög einfalt val, eins skrítið og það hljómar með þennan leikmannahóp sem City ræður yfir. Eins mikið og þessi maður fer í taugarnar á mér í hvert skipti sem ég sé hann spila, þá á sama tíma get ég ekki annað en dáðst að honum. Yaya Toure er alveg óþolandi frábær fótboltamaður! Hann er ekta leikmaður sem á góðum degi getur hreinlega átt og stjórnað miðjunni á sama tíma og hann vælir yfir öllu á vellinum. Tvisvar sinnum hefur hann náð að skora gegn United: í síðasta deildarleik á Etihad sem United vann 2-3 og árið 2011 þegar mark hans náði að slá út United í fjórðungsúrslitum FA Bikarsins. Ef United nær að slökkva á honum þá á liðið góðan möguleika að sigra á morgun. Næst ætlum við að líta á rauða liðið í Manchester.
Manchester United
Fyrir United er þetta prógrammið: City(h), Stoke(a), West ham(a), Aston Villa(h), Arsenal(a), Chelsea(h), Swansea(h), WBA(a). Með öðrum orðum, eftir átta deildarleiki og fjörtíu og tvo daga er þessu tímabili lokið og sumar-leikmanna-kaup-og-sölu-geðveikin hefst.
Ég ætla að segja ykkur eitt. Ég neita að láta einhver vonbrigði í FA bikarnum og meistaradeildinni skemma eitthvað fyrir þeirri tilhlökkun sem ég hef fyrir þessum leik. Af hverju? Setjið á ykkur hlulausu gleraugun og hlustið. Liðið sem við styðjum stefnir hraðbyrði í að vinna sinn tuttugasta deildartitil, er að taka titilinn frá erkifjendunum og fær tækifæri á morgun til að gulltryggja sér titilinn og koma með smá „in your face“ á sama tíma. Svo til að bæta smá rjóma ofan á þetta, Robin Van Persie. Leikmaðurinn sem kom til United til að vinna loksins titla (eftir margra ára vonlausa baráttu hjá ónefndu stórliði), leikmaðurinn sem valdi númerið 20 því hann ætlaði að redda United tuttugasta deildartillinn (eitthvað sem mér þykir ótrúlega svalt), leikmaðurinn sem án efa hefur verið besti leikmaður United þetta tímabil, leikmaðurinn sem sagði nei við 300 þúsund punda vikulaunum hjá City, leikmaðurinn sem mætir bitrum stuðningsmönnum á Emirates með vonandi deildartilinn á bakinu (eitthvað sem þeir hafa ekki snert síðan 2004!). Hann fær loksins tækifæri að vinna titil og góður leikur á morgun tryggir þessum manni loksins alvöru titil!
Kannski er ég voðalega mikil pollýanna og einfaldur en ég hefði umhugsunarlaust sagt já við þessu síðasta sumar.
Á fréttamannafundinum sagði Ferguson:
„I was asked about only winning one trophy. I think that’s a strange question in the context of the kind of competition we have as we’re up against teams from London – Arsenal, Tottenham and Chelsea – plus Liverpool and Everton.
„There are massive challenges every year [for both Manchester clubs]. For every one of those teams, the supporters want to win one trophy. I think we can win the one that really does matter to the fans in particular.
„Yes, I’d love to win the Champions League again but I’d say that we were knocked out in circumstances everyone is still talking about. The disappointment at being knocked out by Chelsea is obvious but the league form has been fantastically consistent.“
Á þessu tímabili er United með langbestu markatöluna eða +39, búnir að skora 15 fleiri mörk en andstæðingurinn á morgun. United hefur ekki endilega verið að spila besta fótboltann í síðustu deildarleikjum en staðreyndin er samt sú að United hefur unnið síðustu 7 leiki og ekki tapað í síðustu átján leikjum! Síðasta tap United kom 17. nóvember 2012 gegn Norwich á útivelli. Á heimavelli hefur United unnið síðustu 12 leiki og kom síðasta tap 29. september 2012 gegn Tottenham. Svo í þokkabót hefur liðið ekki fengið á sig deildarmark í 627 mínútur sem hækkar vonandi í 717 á morgun.
Í öðrum fréttum þá endurtók De Gea það sem við höfum talað um síðustu 2 tímabil, ROM ræddi við nokkra QPR stuðningsmenn um Fabio, Nani sagði að vonbrigði síðasta tímabils hafi eflt þá og Ferguson hrósaði Phil Jones og De Gea og sagði að Van Persie muni skora brátt fyrir liðið og þurfi enga hvíld. Lítum aðeins á ólukkutöflu United.
Meiðsli/Veikindi/Leikbönn:
- N. Vidic (bak) => 8th Apr
- J. Evans (læri) => 8th Apr
- W. Rooney (nári) => 8th Apr
- P. Scholes (hné) => 8th Apr
- Rafael (nári) => no return date
- D. Fletcher (sáraristilbólga) => óvíst
Ferguson sagði á fimmtudag að Rooney og Rafael væru byrjaðir að æfa með liðinu og eru því mjög líklegir til að spila á morgun. Evans og Vidic voru ekki orðnir tilbúnir en hann vonaði að þeir myndu byrja æfa á föstudag eða laugardag og eiga því góðan sjens. Sem er einn af fáum kostum þess að spila þennan leik á mánudagskvöldi. Nú tökum við stutt auglýsingahlé og endum þetta svo með því að líta aðeins á leikinn sjálfan.
…
Leikurinn
Við skulum hafa eitt á hreinu kæru hlustendur, ég elska stórleiki og þá sérstaklega nágrannaslagi!
Ég elska…
- …spennuna sem fylgir svona leikjum
- …hnútinn sem ég fæ í magann fyrir leikinn
- …að sjá menn berjast eins og ljón
- …sjá Rooney skora svona mark
- …að sjá Rafael gegn Tevez
- …að sjá Ferdinand sýna City stuðningsmönnum hver sé maðurinn
- …að sjá Van Persie skora sigurmark í uppbótartíma
- …að sjá Rooney skora sigurmark í uppbótartíma
- …að sjá Michael Owen skora sigurmark í uppbótartíma
Tölfræði
- United hafa unnið 18, tapað einum og gert eitt jafntefli í síðustu 20 heimaleikjum.
- United hefur haldið hreinu í 10 af síðustu 20 heimaleikjum.
- United hefur skorað amk eitt mark í síðustu 65 heimaleikjum.
- City hafa unnið 10, tapað fjórum og gert 6 jafntefli í síðustu 20 útileikjum.
- City hefur haldið hreinu í 8 af síðustu 20 útileikjum.
- City hafa skorað amk eitt mark í 14 af síðustu 20 útileikjum.
- Hvorki United né City hafa tapað leik eftir að hafa skorað fyrsta mark leiksins.
Líkleg byrjunarlið
De Gea
Rafael Vidic Ferdinand Evra
Carrick Jones
Valencia Rooney Welbeck
Van Persie
Hart
Zabaleta Kompany Nastasic Clichy
Touré Barry
Milner Tevez Silva
Agüero
Það eru þrír stórleikir eftir af þessu tímabili: City á morgun, Arsenal 28. apríl og Chelsea 4. maí. Á morgun er hinsvegar sá mikilvægasti. Með sigri á morgun getur United aukið forskot sitt í 18 stig og þegar sjö leikir eru eftir af tímabilinu. Með sigri getur United farið upp í 80 stig og átt góðan möguleika á að ná stigameti Chelsea (95 stig). Með sigri getur United nánast gulltryggt sér tuttugasta deildartitilinn. Með sigri getur Van Persie nánast sett aðra höndina á sinn fyrsta deildartitil og klappað sjálfum sér á bakið. Með sigri getur United algjörlega þaggað niður í Mancini sem segir United ekki eiga skilið þetta forskot og að liðin sem mæti United gefist upp.
Ég segi þar af leiðandi að ég heimta að sjá United hrista af sér slenið og koma snarbrjálaða inn í þennan leik. Enda þetta tímabil með stæl! Taka titilinn plús stigametið! Og fyrsta skrefið?
Enda þennan þátt með flottu upphitunarvídeói af Manutd.com og kveð ykkur að þessu sinni. Sjáumst á morgun góðir hlustendur og munið að skrifa ykkar skoðun hér fyrir neðan.
Björn Friðgeir says
Þú gleymdir því besta… Fergie er ekki að fara að spila Park Ji-sung bara af því að hann er stórleikjamaður :)
Pétur says
Frábær upphitun! Sammála byrjunarliðinu nema vil sjá Kagawa inn fyrir Valencia og sjá þá Kagawa Rooney og Welbeck spilað free flowing football fyrir aftan Persie, allir geta þeir leyst AMR AMC og AML.
Andri Már Halldórsson says
Völlur Shitty manna heitir ekki Emirates heldur Etihad.. en flott grein :)
ellioman says
@Andri
Bahhh! Hárrétt hjá þér, búinn að laga. Takk fyrir ábendinguna!
Sveinbjorn says
Thegar menn skrifa svona tha verdur madur ad gefa theim credit fyrir ad taka ser tima til ad gera thetta. Thetta er haklassaupphitun sem Ellioman skrifadi.
Annars er eg semi-smeikur vid thennan leik thvi eg veit ad City menn koma brjaladir inn i thennan leik. Their hafa tho oft adur gert thad en vid samt unnid. Eg held vid tokum thetta aftur 3-2 thar sem Persie skorar aftur sigurmarkid a sidustu minutunum, ur viti samt, ekki aukaspyrnu eins og seinast.
Og hey, talandi um Persie og aukaspyrnur. Herna er ein fra honum sem eg gæti horft a i 2-3 daga i rod :D
http://www.youtube.com/watch?v=688yrtNjFug
Solvigunn says
„Í síðustu sex leikjum hefur City unnið þrjá, gert tvö jafntefli og tapað tvisvar.“
Ég er ekki sá skarpasti í stærðfræði en þetta er eitthvað skrýtið, allaveganna ég spái 6-0 sigri þar sem RVP verður með þrennu, Rooney tvö og Valencia tvö !
ellioman says
@Solvigunn
Bahh sinnum tveir! Búinn að laga. Takk!
siggi utd maður says
Upphitun á öðru leveli, algerlega geggjuð.
Egill says
Er ég einn um að fá ónotatilfinningu í magann í hvert skipti sem við eigum mánudagsleiki?
Vona samt það besta, ÁFRAM MAN UTD!
KristjanS says
Mögnuð upphitun! Þakkir fyrir þennan pistill, gaman að lesa þetta.
Eruð að standa ykkur frábærlega með þessa síðu!