Það er ekki hægt að segja að undanfarin ár hafi Manchester United stillt upp stöðugu liði, eða að besta ellefu manna lið þess hafi verið vel þekkt. Engu að síður var uppstilling oftast nær eins, vörn, tveggja manna miðja, kantmenn sem oft komu vel inn á miðjan völlinn í sóknum, einn í holunni eða svo, og framherji.
Búast má við að David Moyes haldi að mestu uppteknum hætti, þó að eitthvað nýtt komi til. Mögulegt er að hann noti meira tvo framherja saman, frekar en að annar liggi aftur, sem sést á notkun Danny Welbeck í fyrstu leikjunum og gætu orðið góðar fréttir fyrir Javier Hernandez þegar hann verður heill.
Síðast en ekki síst eru það kaupin á Fellaini. Þegar rykið fellur og leikmannamarkaðsfíaskóið fer að gleymast stendur eftir að við erum komin með gríðarfjölhæfan miðjumann sem getur leyst allar stöður á miðjunni og holuna á meira en sómasamlegan hátt.
Þá er hægt að fara að velta fyrir sér hvað Moyes getur gert úr þessu. Til þess þarf að eyða nokkru plássi, en það er nú einu sinni landsleikjahlé og fátt annað að lesa!
Vörn
Mark og vörn þarf lítið að ræða. Þessar stöður velja sig sjálfar ef allir eru heilir og í formi. Þetta er samt árið sem Jonny Evans hlýtur að líta til sem tækifæris til að hirða stöðu af Vidić eða Rio annað hvort með að stíga upp í formi og getu, eða vegna þess að elli kerling nær tökum á hinum. Lítið hefur sést í haust sem bendir til hins síðarnefnda. Phil Jones verður fyrsta varaskeifa fyrir þessa þrjá og Rafael, og Chris Smalling þar á eftir. Vinstra megin þarf Fábio að stíga upp þetta árið, annars má reikna með að hans tækifæri hverfi, enda má hann teljast frekar heppinn að Moyes náði ekki í Baines eins og ætlað var.
Hinn helmingur vallarins er öllu fjölbreyttari. Ef við reiknum með að Moyes spili áfram 4-5-1 sem breytist í 4-2-3-1 í sókn er hægt að skipta stöðunum aðeins upp
Miðjumenn
Inn á miðjunni verða tveir menn. Í fyrra var það næst undantekningarlaust Michael Carrick og Einhver Annar sem leystu þessa stöðu. Ah. já. Einhver Annar. Það var varla að nokkur leikmaður gerði almennilegt tilkall til þessarar stöðu. Cleverley lék oftast með Carrick en það kemur ykkur örugglega jafn mikið á óvart að það var Paul Scholes sem var næst oftast með Carrick, leik meira en Anderson.
Nú verður þetta auðveldara. Fyrsta val með Carrick er Marouane Fellaini. Þetta er staðan sem Fellaini vill helst spila, þó að Moyes hafi notað hann sem annan senter eða í holunni í fyrra. Það er enda sú staða sem hann spilar oftast með belgíska landsliðinu og þennan vetur er auðvitað óhemjumikilvægt að tryggja sér landsliðssæti á HM næsta sumar.
En nú erum við allt í einu komin með nýjan möguleika: Michael Carrick gæti hugsanlega hvílt nokkra leiki. Hann er jú orðinn þrjátíu og tveggja ára og því nauðsynlegt að spara hann af og til. Þá munu Cleverley og Anderson fá tækifæri til koma inn í liðið, en þau tækifæri hefðu annars verið færri en ella. Báðir þessir leikmenn þurfa bráðnauðsynlega á frábæru tímabili að halda til að tryggja sæti sín hjá klúbbnum. Miðjumannsleitin í sumar sýnir að Moyes er ekki sáttur við mönnunina og þessir tveir þurfa að grípa þetta tækifæri sem þeir þó nú hafa. Hvort það tekst er óvíst. Cleverley hefur ekki tekið skrefið upp eins og menn hefðu viljað en þarf núna að berjast fyrir sæti sínu, þó að líklega þurfi hann minni áhyggjur að hafa af sæti sínu í landsliðinu. Anderson er alltaf frábær svona tvo þrjá leiki í einu og meiðist svo. Það skyldi þó aldrei vera að þetta yrði kraftaverkaárið sem hann héldist meiðslalaus og helskafinn? Nei líklega ekki.
Kantar
Þá er komið að þriggja manna línunni framan við þessa tvo. Þetta er línan sem sér um sóknarfærslurnar, en þarf að sinna miðjuhlutverki þegar boltinn tapast. Byrjum á köntunum. Við þurfum lítið að minna okkur á þá hörmung sem kantarnir okkar voru í fyrra. Nú erum við búnir að fá nýjan kantmann og vonum að Nani og Valencia bara geti ekki verið eins slakir og í fyrra. Það slæma er að þessir tveir og Zaha eru allir að upplagi hægri kantmenn.
Til að leysa stöðuna vinstra megin þarf Ashley Young að fara að gera svona 100 sinnum betur, sem er ólíklegt, eða að Danny Welbeck eða Shiniji Kagawa verði kallaðir til. Kagawa lék flesta sína leiki í þeirri stöðu í fyrra og má búast við öðru eins í ár. Það rímar við það að þó Moyes hafi spilað mjög breitt hjá Everton, þá þóttu kantarar hans frekar útiliggjandi miðjumenn en alvöru kantmenn. Eitt helsta einkenni á leik Everton síðustu ára hefur verið samspil Steven Pieenar og Leighton Baines á vinstri kantinum. Pieenar var stillt upp sem vinstri kantmanni en hélt mest til inni á miðjum vellinum sem opnaði á pláss fyrir Baines til þess að marsera upp og niður kantinn og gefa fyrirgjafir. Á síðasta tímabili var Baines sá leikmaður sem átti flestar fyrirgjafir í deildinni og hafði tvo turna til að miða á, þá Fellaini og Jelavic.
Líklegt er að Moyes muni reyna að endurskapa þetta hjá United þar sem Evra tekur yfir hlutverk Baines og Kagawa yfir hlutverk Pieenar. Þetta fyrirkomulag hentar mannskap okkar einstaklega vel og leysir ýmis vandamál sem Moyes glímir við. Slík uppstilling skapar pláss fyrir Kagawa og Rooney í sama byrjunarlið og nýtir styrkleika þeirra vel. Kagawa fær að spila meira á miðsvæðinu en áður þar sem hann spilar best á meðan við nýtum allt það besta sem Rooney bíður upp á. Hann fær að vera aftar á vellinum og taka þátt í spilinu en þegar Kagawa dregur sig inn á miðjuna skapast pláss fyrir Rooney til þess að fara inn í boxið. Þetta fyrirkomulag leysir einnig skortinn á örvfættum kantmönnum og einnig þarf varla að taka fram að Fellaini, van Persie og Rooney eru allir mjög sterkir skallamenn og myndu hakka í sig auknar fyrirgjafir af vinstri kantinum. Evra/Kagawa à la Baines/Pieenar á vinstri kantinum gæti því skapað mikinn usla og auðveldað starf Moyes með því að leysa ýmis vandamál sem hann stendur frammi fyrir.
Danny Welbeck gæti einnig þurft að koma inn í stöðu svipaða og lýst er að ofan, frekar en að sitja á bekknum, sama hvað hann er duglegur að skora fyrir England
Næst á eftir Kagawa í þessari stöðu í fyrra voru það Ashley Young og Ryan Giggs sem léku þarna oftast. Það þarf eitthvað mikið að vera að, eða að Ashley Young taki skref uppávið til að sú verði raunin í vetur. Ef Moyes vill samt spila með alvöru kantmann má ættu Nani eða Zaha að geta tekið það að sér og skilað betra verki en Young. Það mun fara mikið eftir því hvernig formi kantmennirnir okkar eru í en á pappírnum virðist alveg ljóst að besta samsetningin væri Nani og Valencia. Valencia er eingöngu nothæfur hægra megin og Nani hefur margoft leyst stöðuna vinstra megin þó auðvitað sé hann mun betri hægra megin.
Hola eða framherji
Þessi staða er líklega sú mest spennandi í vetur. Hvernig David Moyes mun stilla upp liðinu má lesa úr því hver spilar hér. Einn af fimm „nýjum“ leikmönnum, Wayne Rooney, („He’s just like a new signing“: Hinir fjórir eru Nani, Valencia og Anderson þegar þeir hætta að meiðast/spila eins og aular, og svo auðvitað Fletcher) getur leyst þessa stöðu hvort sem Moyes leggur hana upp sem holustöðu eða sem aftari sóknarmann og þarf ekkert mikið að ræða það hversu sterkur hann er í hvoru sem er hlutverkinu.
Þetta er auðvitað langbesta staða Shinji Kagawa. Það myndi gleðja marga ef hann fengi, og nýtti, tækifæri í þessari stöðu. En það gerist þá nær örugglega á kostnað Wayne Rooney. Kagawa myndi líklega ekki koma eins sterkur út sem annar miðjumaðurinn fyrir aftan Rooney og Van Persie (nú eða Van Persie og Hernandez) og því myndi þetta því þá aðeins gerast að Kagawa festi sæti sitt þarna að við værum að sýna snilldarleiki. Það væri ekkert slæmt svo sem?
Þriðji möguleikinn ef þessi staða er holustaða í uppstillingunni er auðvitað Fellaini. Hann lék þarna allt síðasta tímabil og kann mjög vel við sig, eins og við komumst að. Þó að Rooney og Kagawa séu líklega betri kostir en Fellaini í þessari stöðu munum við örugglega sjá Fellaini spila eitthvað hér, sérstaklega ef leiktíminn er að renna út og okkur vantar nauðsynlega að skora mark.
Framherjar
Robin van Persie.
Sem fyrr segir hefur Moyes oftast spilað með tvo framherja. Ef Chicharito fær einhver tækifæri í vetur þá verður það auðvitað í 4-4-2 uppstillingu ef ganga á frá einhverjum minni liðum, nú eða Chelsea. Rooney mun auðvitað spila eins og fyrr er að komið og þá detta í 4-4-2 stundum og sama á við ef Fellaini er í holunni. Danny Welbeck var enn að sýna hvað hann getur með enska landsliðinu og mun eiga eftir að gera tilkall til að spila með Van Persie eins og hann hefur gert í fyrstu leikjunum.
Það virðist ljóst að ef 4-4-2 verður notað verða hraði og tilfærslur á miðjunni og köntunum að vera miklar til að annars vegar loka holunni milli miðju og sóknar og hins vegar að miðjumenn komist í stöður til að stinga á sóknina og kantmenn nái fyrirgjöfum. Margir möguleikar sem við höfum farið yfir gefa þessa niðurstöðu, hvort sem er Nani/Valencia kantpar, Kagawa vinstra megin, frjáls að koma inn á miðjuna, eða eitthvað af hröðustu miðjupörunum, og þá er spurning hvort leikstjórn Carrick vegur þyngra en hraðari færsla á Cleverley/Fellaini parinu.
Komið á óvart
Að lokum, nokkrir möguleikar til að koma á óvart og reyna nýja hluti, eitthvað sem gæti gerst sér í lagi eftir innáskiptingar:
Einn möguleiki sem ég verð að viðurkenna að væri mjög áhugaverður er mjó 4-2-2-2 uppstilling. Carrick og Fellaini; Welbeck og Kagawa (sem gætu líka dottið út á kanta og frammi Hernandez og Van Persie. Eitthvað segir mér það að ef á að brjóta niður þrjóska vörn og kantmennirnir eru í sama formi og síðasta vetur þá sé þetta eitthvað sem mætti henda í til síðustu 20 mínúturnar.
Ef að Moyes vill kasta í demant þá er það nokkuð gefið, Fellaini aftast, Carrick og Cleverley eða Anderson miðja og Kagawa oddurinn. Fyrir framan demantinn myndi ég frekar velja Van Persie og Hernandez en Van Persie og Rooney. Ferguson reyndi þetta tvisvar í fyrra með svipaða menn og gafst ekki vel. Þá er spurningin hvort Fellaini geti gert gæfumuninn þarna
En ef að kantmennirnir okkar eru í stuði en við viljum samt eitthvað nýtt væri líka hægt að prófa 4-1-4-1 sem ýmis lið spila en krefst sterkari varnarmiðjumanns en United hefur haft yfir að ráða hingað til. Nú er sá leikmaður kominn og með Fellaini sem akkeri mætti setja Cleverley, Anderson, Kagawa og jafnvel Rooney í fremri miðjustöðurnar tvær. Ekki viss um þetta henti okkur, en, enn og aftur, við höfum ekkert verið með Fellaini týpuna til að geta reynt þetta þannig þetta gæti skilað skemmtilegu spili
Moyes var þekkur fyrir það hjá Everton að laga uppstillingu sína að andstæðingnum og má alveg búast við því að hann geri það áfram. Það væri í raun ekkert verra enda þarf Moyes líka að komast að því hvernig liðið spilar best og það verður nóg af leikjum gegn slakari liðum sem eiga að vinnast þó að smá tilraunastarfsemi sé í gangi
Það má ekki gleymast að það er ætlunin að David Moyes verði við stjórnvölinn næstu árin. Fyrstu leikirnir þrír í deildinni nú voru geysierfiðir og þó ekki hafi gengið sem skyldi er óþarfi að lesa of mikið út úr þeim. Framundan eru auðveldari leikir (og einn borgarslagur) sem vonandi gefa okkur betur til kynna hvernig nýtt United verður. Kagawa, Nani og Hernandez hafa ekki verið leikfærir og það takmarkar aðeins fjölbreytileikann sem við höfum svo sannarlega sýnt að sé mögulegur hjá United. Þannig að framundan er spennandi tímabil.
Fyrir þau sem vilja fylgjast vel með United frá taktísku sjónarhorni hljótum.við að mæla með manutdtactics.com.
Heiðar says
Flottur pistill. Gaman hvað koma Fellaini hefur marga möguleika í för með sér. Umræðan þessa dagana snýst nær eingöngu um Özil og Arsenal en ég er sannfærður um að Fellaini á eftir að skila ManUtd jafnmiklu og Özil Arsenal í vinnuframlagi, ef ekki meiru. Þetta eru ólíkir leikmenn, Fellaini er sterkari og fjölbreyttari, hægt að nota hann allt frá DMC og upp í FC. Svo má ekki gleyma því hversu frábær hann er í föstum leikatriðum. Hef tröllatrú á þessu.
Sveinbjorn says
Mer finnst vid vera bunir ad styrkja okkur slatta i sumar, tho vid hofum bara keypt Fellaini. Heldum Rooney og Nani buinn ad skrifa undir nyjan samning, og hann ætti nu ad hafa rætt vid Moyes um meiri spilatima en hann hafdi verid ad fa. Svo er madurinn sem eg er rosa spenntur fyrir, Zaha. Hef trollatru a ad hann muni sanna sig og rumlega thad i vetur. Ekki er hann bara rosa godur, heldur hefur hann enntha mikid potential til ad vera ad betri leikmanni en hann er nu thegar. Finnst ad hann og Nani ættu ad vera fyrsta val a kanntana i vetur.
Annars er eg bara drulluspenntur fyrir thessu ollusaman.
Max says
Flott grein. Meira svona.
Brandur Jonsson says
Vill helst sjá Kagawa,Nani og Chico meira inná,má ekki treysta of mikið á Welbeck þótt hann sé góður.
Og náttúrulega RvP,Rooney og Fellaini,þvílíkir möguleikar með uppstillingar frammi,glæsilegt,nú vantar bara Ronaldo aftur :)
Runólfur says
Skemmtileg grein.
Það sem ég held að spili stóran þátt í sóknarleik okkar manna sé líkamlegt form Patrice Evra. Ef að uppstillingin verður þannig að Rooney sé í holunni og Kagawa á vinstri þá grunar mig að það sé aðeins varnar uppstilling. Þannig að þegar liðið væri að sækja þá myndi Rooney fara ofar, og Kagawa undir framherjana og þá er stóra spurningin hvort líkamlegt form Evra sé nógu gott til að hann geti verið þessi umtalaði Rennilás upp og niður vænginn.
En eins og var sagt í greininni, Moyes er líklegur til að breyta uppstillingunni þannig séð reglulega eftir mótherjum.