Allir helstu miðlar Bretlandseyja hafa birt einhverjar vangaveltur um hver verði næsti knattspyrnustjóri Manchester United. Í gærkvöldi greindu bæði The Guardian og The Telegraph frá því að þrír stjórar væru á listanum: Carlo Ancelotti, Louis van Gaal og Diego Simeone, því miður virðist Jürgen Klopp vera staðráðinn í því að halda áfram með Dortmund, í bili. Þá var jafnframt greint frá því að Sirarnir Alex Ferguson og Bobby Charlton myndu fá að koma að ráðningu nýs stjóra en lokaákvörðunin yrðu alfarið í höndum Ed Woodward, Yfiraðstoðarvaraformanns stjórnar United. Þeir blaðamenn sem birta þessar greinar, Daniel Taylor og Mark Ogden eru einna áreiðanlegastir þegar kemur að United og ljóst að þeir fá þessar upplýsingar beint frá einhverjum aðilum innan klúbbsins.
Hvað sem því líður vonum við einfaldlega að vandað verði til verks þegar kemur að því að finna næsta stjóra, þessi ráðning mun móta framtíð Manchester United um ókomin ár. Við á ritstjórninni höfum tekið saman lista yfir öll helstu nöfnin sem nefnd hafa verið til sögunnar undanfarna daga og þá stjóra sem við myndum vilja sjá taka við stjórnartaumunum á Old Trafford.
Jürgen Klopp
Jürgen Norbert Klopp fæddist í Stuttgart 16.júní 1967. Klopp er fyrrverandi leikmaður og lék allan sinn feril hjá uppeldisfélagi sínu 1.FSV Mainz 05. Hann byrjaði feril sinn sem sóknarmaður og endaði hann sem miðvörður en Klopp er stór og stæðilegur, 1,93 á hæð. Hann lék með Mainz á árunum 1989-2001 og lék 337 leiki og skoraði í þeim 52 mörk.
Þegar Klopp lagði skóna á hilluna var hann ráðinn knattspyrnustjóri Mainz og stjórnaði þeim í 7 ár. Á tíma hans með liðið komst það í fyrsta sinn í sögu félagsins í Bundesliguna og liðið komst í UEFA Cup tímabilið 2005-2006. 2006-2007 tímabilið féllu Klopp og félagar úr Bundesligunni en hann ákvað að halda áfram með liðið. Klopp sagði af sér eftir 2007-2008 tímabilið þegar Mainz mistókst að vinna sér aftur sæti í efstu deild. Klopp stjórnaði liðinu í 270 leikjum.
Í maí 2008 ráku Borussia Dortmund þjálfarann Thomas Doll eftir að liðið hafði endað í 13.sæti. Ráðinn var Jürgen nokkur Klopp sem fékk nú tækifæri á stóra sviðinu enda Dortmund eitt af stóru liðunum í Evrópu. Á fyrsta tímabili sínu með liðið sigruðu Dortmund meistara Bayern München í bikarnum og endaði liðið í 6. sæti og svo 5. sætinu tímabilið eftir það. Það var svo 2010-2011 tímabilið þegar hlutirnir fóru að gerast en það tímabil enduðu Dortmund sem meistarar. Þetta var bara upphafið því næsta tímabil enduðu þeir einnig í 1.sæti með 81 stig sem var stigamet í sögu Bundesligunnar og 47 stigin á seinni hluta tímabilsins var líka met. Liðið sigraði 25 leiki sem jafnaði met Bayern frá 1972-1973 en 28 leikir í röð ósigraðir var met sem þeir átti einir. Til að toppa tímabilið þá unnu Dortmund líka bikarinn með 5-2 sigri á Bayern München. Það var fyrsta (innlenda) tvennan í sögu félagsins.
2012-2013 tímabilið var ekki jafn árangursríkt hjá Klopp og félögum og vilja margir meina að liðið hafi saknað Shinji Kagawa sem hafði verið einn besti leikmaður deildarinnar en hann var eins og margir muna seldur til Manchester United. Klopp sjálfur hefur viðurkennt að ástæðan hafi líka verið sú að liðið lagði mikið kapp á meistaradeildina eftir vonbrigði í keppninni tímabilið á undan. Dortmund lentu þar í riðli með Real Madrid, Manchester City og Ajax í riðli sem fékk hið ljóðræna nafn „dauðariðillinn.“ Dortmund töpuðu ekki leik í riðlinum og mættu einmitt Real Madrid aftur en þá í undanúrslitum keppnarinnar og gerðu sér lítið fyrir og slógu stórveldið út sem var að stærstum hluta vegna glæsilegs 4-1 sigurs á heimavelli þar sem Robert Lewandowski fór á kostum.
Klopp er ekki ókunnugur því hversu óþolandi það er að fá á sig mörk frá Arjen Robben seint í leik því í úrslitaleiknum skoraði hann sigurmark leiksins á 89.mínútu. Það sumar fór annar máttarstólpi úr liðinu hann Mario Götze sem fyrr á árinu hafði verið keyptur til Bayern München sem eru byrjaðir að sanka að sér öllum bestu leikmönnum í Þýskalandi. Klopp skrifaði undir nýjan samning sem gildir til 2018. Okkar maður fékk 10.000 evru sekt eftir að hafa verið rekinn upp í stúku í leik gegn Mönchengladbach. Hann hafði látið dómara leiksins vel heyra það. Dortmund endar líklega í 2.sæti deildarinnar annað árið í röð en þegar þetta er ritað eru enn eftir 3 umferðir. Jürgen Klopp hefur stjórnað Dortmund í 263 leikjum og er enn og aftur að missa einn besta leikmann sinn en Robert Lewandowski fer á frjálsri sölu til? Jú, mikið rétt. Bayern München.
Þegar Jürgen Klopp tók við Dortmund var hann ekki með langan feril að baki eða einhverja titla en það sem hefur einkennt Dortmund lið Jürgen Klopp er það að leikin er falleg knattspyrna. Hraðar og árangursríkar sóknir og sterkur varnarleikur. Það er ljóst að allir meðlimir ritstjórnar þessarar síðu og meirihluti stuðningsmanna United vildu fá hann strax í fyrrasumar og það hefur ekki breyst neitt. Þetta hlýtur að vera sá maður sem á að fá starfið, punktur. Borgið Dortmund það sem þeir vilja og meira til.
X-Klopp á Old Trafford.
Louis van Gaal
Aloysius Paulus Maria van Gaal er 62 ára Hollendingur. Af þeim stjórum sem orðaðir eru við United er hann auðvitað með langsamlega lengstan feril sem rétt er að rekja aðeins. Hann hóf framkvæmdastjóraferill sinn hjá Ajax árið 1991 og stýrði félaginu gegnum seinni gullaldarár þess. Undir hans stjórn varð Ajax þrisvar meistari, vann UEFA bikarinn og komst í úrslit í Meistaradeildinni og vann hana loks 1995. Hirtu síðan bæði Ofurbikar Evrópu og heimsbikar félagsliða.
Eftir þetta sigurtímabil þar sem hann var að láta allar þessar tilvonandi stórstjörnur spila dúndurskemmtilegan fótbolta tók hann við Barcelona árið 1997. Tveir titlar komu í hús en honum fannst erfitt að koma sínu leikskipulagi fram gegn ‘Barcelona stílnum,’ samband hans við blaðamenn var stirt og eftir að hafa tapað titlinum til Deportivo vorið 2000 sagði hann upp störfum og tók við hollenska landsliðinu.
Ekki gekk það sem skyldi, hollenska landsliðinu mistókst að komast á HM í fyrsta sinn í 16 ár og Van Gaal hætti. Vorið 2002 var uppi orðrómur að hann myndi taka við United þegar Sir Alex hætti þá um vorið eins og áætlað var. Sir Alex hætti auðvitað ekki og af þessu varð ekki. Í stað þess fór Van Gaal til Barcelona og var þar í tvö önnur ár, og skildi við liðið 3 stigum frá fallsæti.
Þá var komið að smá endurnýjun, næsta stopp AZ Alkmaar og endaði á að skila deildartitli þar 2009. Þá bankaði næsta stórlið uppá, München var næsta stopp. Fyrra ár hans var gott, hann notaði unga leikmenn, skilaði meistaratitli og tapaði Meistaradeildarúrslitum fyrir Inter. En næsta vetur gekk ver, og endaði á að honum var sagt upp störfum.
Þá var bara að taka við Hollandi aftur, og í þetta sinn gekk betur, Holland vann alla leiki utan einn í undankeppni HM og Van Gaal verður með þá á HM í sumar.
Tottenham hefur verið að bera víurnar í Van Gaal í vetur og í þeirra herbúðum finnst mönnum sem Van Gaal hafi aldri gefið svar af því hann hafi verið að bíða eftir akkúrat þessu: Að Moyes verði rekinn og Van Gaal fái tækifærið sem gekk honum úr greipum 2002. Van Gaal leggur mikið upp úr að hafa einn þjálfara með sér úr fyrra þjálfarateymi og nema Giggs klúðri þessu alveg þá verður það Giggs.
Ef horft er á feril Van Gaal standa nokkrir hlutir upp úr. Hann kann að vinna titla, óhræddur við að nota unga leikmenn og hefur haldið tryggð við sitt leikskipulag, sem byggir á sóknarbolta og miklu spili. Allt þetta er eitthvað sem við viljum að stjóri Manchester United hafi. Van Gaal er að auki þekktur fyrir að lenda upp á kant við a.m.k. eina stórstjörnu í hverju liðið (Rivaldo, Luca Toni) og persónlega mætti hann alveg rífast svolítið í Rooney. A.m.k. sýnist manni ólíklegt að Rooney verði fyrirliði, enda leggur Van Gaal mikið uppúr því að fyrirliði hafi persónuleika sem honum líkar við. Óhollendingslegri leikmann en Rooney er erfitt að ímynda sér.
Á hinn bóginn er ljóst að ferill hans er fjarri því laus við galla og jafnvel þó hann væri yngri en 62ja ára sæi ég ekki fyrir mér að hann yrði langtímastjóri með haug af titlum. Van Gaal er þekktur fyrir að nýta 4-3-3 með senter og tveim köntum og leggur áherslu á tíuna, annað hvort sem annan senter eða þriðja miðjumann og svo tvo á miðjunni. Mata og Rooney ættu að berjast um tíuna, en eitt er víst: Robin van Persie mun ekki þurfa að kvarta.
Sem stjóri í 2-3 ár þangað til Klopp eða Guardiola, nú eða einhver annar sem sannar sig næstu ár, er tilbúinn í starfið þá er hann ágætur kostur. Það þarf mann til að rétta af dallinn, það gæti vel verið Van Gaal. Jafnframt gæti það verið áhugaverður kostur að fá Van Gaal inn með einhvern efnilegan stjóra sér við hlið sem gæti lært af honum og tekið við þegar Van Gaal stígur til hliðar.
Stærsti ókosturinn er auðvitað sá að Louis van Gaal er að fara að eyða sumrinu í Brasilíu. Eftir klúður síðasta árs þegar Moyes sat slakur á skrifstofunni í Liverpool þar til samningur rann út og hann mætti á Carrington 1. júlí, alltof seint til að hafa góðan tíma í leikmannakaup, þá væri það hroðalegt ef ekkert gerðist í þeim málum fyrr en eftir HM. Dílar á HM árum verða að klárast fyrir HM, annars hækka góðir leikmenn á sér verðmiðann, og misgóðir leikmenn slá tímabundið í gegn og eru keyptir út á það (Karel Poborský, einhver?). Þannig að ef Van Gaal verður fyrir valinu sem vissulega er líklegt, þá þurfa þau mál að vera í lagi. Fréttir í morgun gefa til kynna að United búist við að Van Gaal geti séð af þrem vikum fyrir HM í vinnu áður en Holland kallar.
Carlo Ancelotti
Öllum að óvörum eru ensku blöðin núna að segja að Carlo Ancelotti sé efstur á óskalista United. Ancelotti er flestum okkar að góðu kunnur, hefur komið víða við sem stjóri og leikmaður. Hann var lykilmaður hins frábæra Milan liðs á seinni hluta níunda áratugarins, var síðan framkvæmdastjóri Reggiana og Parma. Tók við Juventus 2001. Vann þar Intertoto bikarinn en varð tvisvar í öðru sæti í deild og var rekinn í hálfleik í síðasta leik tímabilsins þó enn væri smá möguleiki á titli. En þá um haustið tók hann við Milan og stjórnaði þeim í átta ár. Hann varð ekki ítalskur meistari með þeim nema einu sinni en vann Meistaradeildina tvisvar og ýmislegt annað smálegt.
Hann tók síðan við Chelsea, vann tvöfalt með þeim 2010, lenti síðan í öðru sæti á eftir United 2011 sem var auðvitað næg ástæða til að reka hann. Reyndar hefðu kaupin á Torres verið næg ástæða. Veturinn þar á eftir tók hann svo við Paris Saint-Germain á miðju tímabili og fékk enn að eyða olíupeningum þar sem skilaði fyrst 2. sæti í deild og svo Frakklandstitlinum. En Real Madrid var í símanum og Ancelotti svaraði kallinu í fyrrasumar. Peningarnir þar eru aðallega að láni en það skiptir litlu, Isco, Illaramendi og Bale kostuðu sitt en komu samt. Real er nú þegar búið að vinna spænska bikarinn og á í harðri baráttu um Spánartitilinn við Atlético og Diego Simeone sem við tölum um hér fyrir neðan. Svo spila þeir við Pep Guardiola og Bayern í kvöld í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Sem fyrr segir þá er enska pressan með það á tæru að United viji Ancelotti og ljóst að þeir fá þær upplýsingar beint frá félaginu. Það eru því einhverjir inann félagsins sem telja það mögulegt að Ancelotti sé fáanlegur. Daniel Taylor, blaðamaður Guardian greindi frá því í gær að spænskir blaðamenn gætu alveg séð Ancelotti yfirgefa Real Madrid. Það kæmi þó verulega á óvart ef sú yrði raunin að eftir aðeins eitt ár í Madrid ákveddi hann að söðla um. Eitt er víst, það eru fáir jafn hoknir af reynslu í að eyða peningum og Ancelotti og gæti verið spennandi að sjá hvað hann vill í þeim efnum. Við nefnum engin nöfn en það er nú kannske einhver í Real sem við vildum sjá í rauðu treyjunni…
Ancelotti er ekki nema 54 ára og gæti þess vegna verið í nokkur ár hjá United ef hann vildi og undan spilamennsku liða hans er ekki hægt að kvarta og reynsluleysi er ekki vandamál. Líkurnar á að hann segi já við United hljóta hins vegar að teljast litlar.
Diego Simeone
Það var ekki fyrr en David Moyes var rekinn að ég áttaði mig á því að ég var ekki enn búinn að fyrirgefa Diego Simeone fyrir að hafa lokkað David Beckham útaf með rautt spjald á HM 1998. Beckham var hataðasti maður Bretlandseyja árið eftir og var púaður niður í 90 mínútur á hverjum einasta útivelli á eitt ár, þökk sé Simeone. Beckham fékk þó uppreisn æru þegar Inter kom í heimsókn á Old Trafford í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. United rúllaði yfir Mílanó-menn í leiknum og hver einasti leikmaður United-liðsins virtist hafa það sem takmark að taka a.m.k. eina lífshættulega tæklingu á Diego Simeone.
Síðan þá eru liðin 15 ár og þó svo Giggs hafi spilað enn einu sinni í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir 3 vikum síðan, þá er hinn virti þjálfari Diego Simeone kominn með lið sitt, Atlético Madrid, í undanúrslit Meistaradeildarinnar og spænski titillinn virðist einnig blasa við þeim. Allt frá því Simeone byrjaði fyrst í þjálfun, árið 2007 með Racing í Argentínu, hefur verið tala um hann sem mikið þjálfara-talent, „hinn nýji Mourinho“ segja þeir sem þekkja til. Hann var fljótur að næla sér í titla í Argentínu og eftir stutt stopp á Ítalíu með Catania var hann ráðinn þjálfari Atlético árið 2011. Á þeim tíma var liðið að klára spænsku deildina í 7-9 sæti og nákvæmlega ekkert í kortunum sem virtist ætla að trufla risana tvo, Real Madrid og Barcelona, í að einoka deildina næstu áratugi. Simeone hefur umturnað Atlético á stuttum tíma, á þremur árum hefur hann unnið UEFA Super Cup tvisvar, spænska bikarinn einu sinni og Evrópudeildina einu sinni. Núna er hann, eins og áður hefur komið fram, 90 mínútum frá úrslitum Meistaradeildarinnar og með 4 stiga forustu á toppi spænsku deildarinnar.
En myndi Simeone henta Manchester United? Það er auðvitað erfitt að segja til um, eitt er ljóst að hann er harður í horn að taka og mikill leiðtogi. Atlético Madrid spilar gríðarlega agaðan varnarleik, eru mjög hreyfanlegir án bolta, og rota andstæðinga sína með blússandi syndisóknum. Þeir hafa sýnt mikinn karakter í vetur, þrátt fyrir að hafa misst sinn besta mann (Falcao) síðasta sumar, eru vinna leiki eitt-tvö núll þrátt fyrir að vera kannski að spila illa. Þó Atlético sé frábært lið þá er Manchester United allnokkrum númerum stærri klúbbur, þannig að það væri töluverð áhætta í að ráða Simeone, en á sama tíma spennandi kostur fótboltalega séð.
Ryan Giggs
Ryan Giggs er núverandi stjóri Manchester United. Að vísu bara tímabundið en hann heldur engu að síður um stjórnartaumana. Hann fær að stýra liðinu í þeim fjórum leikjum sem eftir eru af tímabilinu. Það er eitthvað sérstaklega heillandi við það að Ryan Giggs taki við liðinu. Tilhugsunin um að leikjahæsti og sigursælasti leikmaður liðsins frá upphafi stýri liðinu er einfaldlega frábær og ótrúlega rómantískt, hið fullkomna framhald á hinum fullkomna ferli.
Sannleikurinn er hinsvegar sá að Ryan Giggs er líklega engan veginn tilbúinn til þess að taka við Manchester United. Menn hafa líkt honum við Pep Guardiola en í raun eiga þessir menn fátt sameiginlegt nema það að þeir eru báðir goðsagnir hjá sínum liðum sem leikmenn. Guardiola sannaði sig hjá B-liði Barcelona áður en hann tók stóra skrefið upp. Giggs hefur enga reynslu sem knattspyrnustjóri og takmarkaða reynslu af því að vera þjálfari. Ef liðið spilar vel í næstu fjóru leikjum munum við heyra frá einhverjum að hann eigi að fá tækifæri til þess að spreyta sig en það verður lítið að marka þessa fjóra leiki. Það verður engin pressa á Giggs og leikmönnum liðsins og að engu að keppa. Það er afskaplega lítið sem Giggs mun geta gert í þessum fjórum leikjum sem eftir eru og engin leið til þess að dæma hæfni hans sem knattspyrnustjóra að þeim liðnum.
Það er mun vænlegri kostur að Ryan Giggs haldi áfram í þjálfaraliðinu, taki jafnvel að sér aðstoðarþjálfarastöðu þar sem hann getur axlað ábyrgð og lært fræðin af einhverjum reynslumeiri stjóra. Ef Louis van Gaal verður fyrir valinu myndi ég segja að Ryan Giggs við hlið hans væri góður kostur. Van Gaal myndi aldrei stýra liðinu lengi og hann og Giggs gætu undirbúið framtíðina í sameiningu með það að markmiði að Giggs tæki svo við af van Gaal þegar sá síðarnefndi myndi hætta. Í öllu falli á Giggs að halda áfram hjá félaginu, að minnsta kosti sem þjálfari.
Aðrir stjórar sem koma til greina
José Mourinho
Þið vitið ALLT um José sem við vitum. Er einhver raunverulegur séns á því að hann myndi taka við? Hann er til í það, enginn vafi á því, en tímasetningin er hörmuleg fyrir hann, Að auki má efast um að United nenni að díla við hann en samt er nafn hans sterkt inni akkúrat núna.
Carlos Queiroz
United-menn þekkja Carlos Queiroz ágætlega. Hann vann frábært starf við hlið Sir Alex Ferguson þegar hann var aðstoðarþjálfari liðsins. Queiroz ber að miklu leyti ábyrgð á því liði sem United var með á árunum 2006-2008, líklega skemmtilegasta liði sem United hefur átt í seinni tíð. Hann þekkir félagið út og inn og líklegt að leikmennirnir treysti honum. Það væri hægt að leita til hans til þess að rétta við skútuna í 1-2 tímabil áður en að leitað yrði á önnur mið. Sem knattspyrnustjóri hefur Queiroz aðallega náð árangri með unglingalið. Hann hefur þó tekið að sér tvo stór störf. Hann þjálfaði Real Madrid tímabilið 2003-2004 og stýrði landsliði Portúgal á HM 2010. Það verður seint sagt að hann hafi náð einhverjum blússandi árangri með þessi lið og stýrði hvorugu liðinu í langan tíma. Hann mun stýra liði Íran á HM í sumar. Hann verður að teljast ólíklegur kostur í stöðuna, einfaldlega vegna þess að það eru betri menn en hann á lausu.
Roberto Martinez
Hvernig væri bara að sækja næsta stjóra til Everton fyrst það gekk svona vel síðast? Martinez hefur unnið frábært starf með Everton á tímabilinu. Hann lætur liðin sín spila blússandi sóknarbolta og virðist vera alveg afskaplega fær taktísklega séð. Hann vann FA-bikarinn með Wigan og er það með t.d. með stærri bikara á ferilskránni en Moyes getur státað af. Það er ótrúlegt afrek ef honum tekst að koma Everton í Meistaradeildina enda liðið að keppa í umtalsvert lægri deild fjárhagslega en hin hefðbundnu topplið. Líklega er tímaspursmál hvenær hann fer til stærra liðs og spurning hvort að hann væri til í að stökkva á tækifærið til þess að stjórna liði þar sem til er nóg af peningum og væntingarnar í takti við þær væntingar sem hann virðist gera til sjálfs síns og leikmanna sinna?
Antonio Conte
Líkt og Klopp, Martinez og Frank de Boer er Conte einn af þessum þjálfurum sem eru leiðandi í taktískri þróun í fótboltanum í dag. Conte hefur stýrt Juventus-liðinu af mikilli festu heimafyrir. Frá því að hann tók við liðinu árið 2011 hefur liðið sigrað Serie A í tvígang og er á góðri leið með að sigla þriðja titlinum í land. Hann hefur þó ekki ná að setja mark sitt á Evrópu. Hann er mjög taktískur þjálfari sem leggur áherslu á sóknarleik. Hann lætur þó lið sín spila taktík sem sést varla á Englandi. Juventus stillir oft upp í 3-5-2 og snýst leikur liðsins um að stýra miðjunni. Conte þyrfti líklega sinn tíma til þess að gera hugmyndum sínar veruleika hjá United.
Frank de Boer
Frank de Boer hefur smám saman unnið sig upp hjá Ajax, uppeldisfélagi sínu. Hann hóf störf sem þjálfari árið 2007 eftir að hann lagði skónna á hilluna. Hann vann einnig með hollenska landsliðinu á HM í Suður-Afríku. Eftir að Martin Jol var látinn fara frá Ajax árið 2010 tók hann við liðinu og stýrði því til sigurs í hollensku deildinni á sínu fyrsta tímabili. Hann lét ekki þar við sitja og hefur hann stýrt liði Ajax til sigur í deildinni síðustu þrjú tímabil og er á góðri leið með að vinna fjórða titilinn í röð á þessu tímabili. Hann hefur verið orðaður við stærri lið, Liverpool hafði áhuga á honum árið 2012 og líklega er það aðeins tímaspursmál þangað til hann fer til stærra liðs.
De Boer spilar mjög Ajax-legan bolta sem er byggður á þeim prinsippum sem Johan Cruyff og Louis van Gaal lögðu áherslu á þegar þeir stýrðu Ajax. Einnar-snertingar sóknarbolti þar sem allt snýst um að menn hreyfi sig án bolta og að menn spili fyrir liðsheildina. De Boer þykir einnig hafa staðið sig vel í að byggja upp liðið ár eftir ár enda Ajax eitt af þessum liðum sem missir leikmenn sína ansi oft til stærri liða. Hann er líklega að komast á endastöð með Ajax-liðið enda aðeins hægt að ná vissum árangri með það lið. Það er spurning hvort að hann væri tilbúinn til þess að starfa við hlið Louis van Gaal sem aðstoðarmaður hans til nokkurra ára með það að markmiði að hann tæki við félaginu. Það er margt vitlausara, ekki satt? Það er þó kannski erfitt fyrir knattspyrnustjóra að sætta sig við að vera allt í einu aðstoðarmaður einhvers annars.
Skúli says
Skemmtileg samantekt!
Mig langar að koma með einn punkt, það er þetta með Alex Ferguson og Þjóðverja. a) http://www.youtube.com/watch?v=UAFzjHZlOQ0 – Typical Germans kommentið frá Fergie eftir leik við Bayern og b) að enginn þýskur leikmaður hefur leikið alvöruleik með ManU – aðeins einn markmaður í reserves.
Er ekki ólíklegt að Klopp (eða einhver annar Þjóðverji, Löw?) taki við á meðan gamli er enn í brúnni?
Auðunn Atli Sigurðsson says
Ég held að það sé verið að bíða eftir svari frá Ancelotti, hann yrði frábær lausn fyrir United.
Ef hann segir nei þà verður það mjög mjög líklega Van Gaal.