Það er ansi margt að gerast á Old Trafford þessa dagana. Á næstu dögum verður nýr stjóri kynntur til leiks og stjórnin virðist vera á fullu í að vinna að leikmannamálum og þjálfaramálum. Samningaviðræður eru í gangi um kaup á Luke Shaw frá Southampton, auk þess sem að svo virðist sem Phil Neville og Chris Woods séu á förum frá félaginu. Einnig eru sögusagnir um að Rene Meulensteen verði í þjálfarateymi Louis van Gaal, það yrði frábær viðbót enda Rene einn af arkítektunum á bakvið spilamennsku United þegar hún var upp á sitt besta frá ca. 2006-2010.
Þetta eru hinsvegar allt sögusagnir og óstaðfest, í bili í það minnsta. Það sem er hinsvegar á kristaltæru er það að Rio Ferdinand og Nemanja Vidic eru á förum frá félaginu. Vidic er á leiðinni til Inter Milan og óvíst er hvort að Rio leggi skóna á hilluna eða hvort hann haldi áfram að spila. Þessir tveir leikmenn hafa verið miklir máttarstólpar í vörn United frá því að þeir gengu til liðs við félagið og m.a. vegna hversu traustir varnarmenn þeir voru gátu leikmenn eins og Ronaldo, Rooney, Tevez, Berbatov, Nani og fleiri leikið lausum hala fram á við. Það er því ekki úr vegi að renna aðeins yfir feril þeirra hjá United.
Rio Ferdinand
Rio Ferdinand braust fram á sjónarsviðið hjá West Ham United, einn af mörgum enskum gæðaleikmönnum sem komið hafa þaðan. Þaðan fór hann til Leeds árið 2000 og var mikilvægur hluti af Leeds-liðinu sem var mjög sterkt á þeim tíma, gerði harða atlögu að enska titlinum og komst m.a. í undanúrslit UEFA-bikarsins og Meistaradeildarinnar tímabilin 1999/2000 og 2000/2001. Það var hinsvegar dýrt spaug fyrir liðið enda er það enn þann dag í dag að greiða reikninginn fyrir þetta tímabil í sögu félagsins. Eftir að liðinu mistókst að komast í Meistaradeildina þurfti að selja leikmenn og Sir Alex Ferguson var ekki lengi að grípa það tækifæri. Eftir HM í S-Kóreu og Japan þar sem Ferdinand hafði verið einn af betri leikmönnum Englands. Manchester United keypti Rio á 30 milljónir punda og varð hann þar með dýrasti leikmaður í sögu United og dýrasti varnarmaður í heiminum.
Ferdinand varð mikilvægur leikmaður fyrir Manchester United en fyrst um sinn átti hann í nokkrum erfiðleikum, hann var mikið meiddur á fyrsta tímabilinu og í upphafi tímabilsins 2002/2003 missti hann af lyfjaprófi og var dæmdur í 8-mánaða bann, þrátt fyrir að hafa boðist til þess að taka lyfjaprófið sama dag og hann átti að fara í það. Nokkuð harður dómur, sérstaklega í ljósi þess að mánuði áður hafði leikmaður Manchester City misst af lyfjaprófi en fengið aðeins 2000 punda sekt fyrir vikið. Knattspyrnusamband Englands hefur þó aldrei verið þekkt fyrir mikið samræmi og hefur líklega ákveðið að gera þyrfti jafn þekktan leikmann og Rio Ferdinand að fordæmi í þessum málum. Þetta gerði það að verkum að Rio missti af öllu leiktímabilinu og sneri ekki aftur á fótboltavöllinn fyrr en ári seinna.
Á þessum tíma var lið Manchester United í töluverðri lægð. Jose Mourinho umturnaði enska boltanum þegar hann tók við Chelsea og framtíðin virtist ekkert sérstaklega björt fyrir Rio og félaga. Roy Keane var til dæmis ekkert sérstaklega hrifinn af Rio Ferdinand. Í frægu viðtali við MUTV árið 2005 hraunaði hann allhressilega yfir nokkra leikmenn United í kjölfar 4-1 taps gegn Middlesboro. Viðtalið var aldrei sýnt en fljótt spurðist út um hverja hann hefði hann hefði verið að tala. Rio Ferdiand fékk víst hörðustu gagnrýnina og á Roy Keane að hafa sagt þetta um hann:
Just because you are paid £120,000-a-week and play well for 20 minutes against Tottenham, you think you are a superstar.
Ansi hörð orð sögð á þeim tímapunkti sem verður ekki lýst á annan hátt en að hafa verið lægsti punktur í sögu stjóratíðar Sir Alex Ferguson. Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst segir einhverstaðar og skömmu eftir að Roy Keane hélt til Celtic keypti Sir Alex ákveðin ungan serbneskan miðvörð. Fram að því hafði Rio Ferdinand tæpast haft við hliðin á sér miðvörð í háum gæðaflokki. Mikael Silvestre, Laurent Blanc, Wes Brown og John O’Shea höfðu allir skipt stöðunni með sér en enginn þeirra náði að eigna sér stöðuna við hliðina á Rio á afgerandi hátt. Blanc var of gamall, O’Shea of fjölhæfur, Brown of brothættur og Silvestre ekki nógu góður. Það var ekki fyrr en Nemanja Vidic steig fram á sjónarsviðið að eitt besta miðvarðapar allra tíma varð til.
Nemanja Vidic
Sir Alex kom flestum að óvörum þegar tilkynnt var um kaupin á serbneskum miðverði frá Spartak Moskvu sem enginn hafði heyrt um. Vidic kom til liðsins í janúarglugganum 2006 fyrir 7 milljónir punda og fæstir bjuggust við miklu af honum til þess að byrja með. Hann kom á sama tíma og Patrice Evra til félagsins og fyrsti alvöru leikurinn þeirra var Manchester-slagurinn. Þeir áttu báðir skelfilegan leik og liðið tapaði 4-1. Fátt benti til þess að Nemanja Vidic myndi verða lykilmaður Manchester United um ókomna tíð. Rio sjálfur hafði efasemdir um Vidic í fyrstu eins og hann lét í ljós á Facebook eftir að Vidic var kvaddur:
It took time for us to grow into a dominant force after a start where even I questioned if he was right guy to come in after his first few training sessions!
Bæði Vidic og Patrice Evra hafa sagt hvað fyrstu mánuðirnir hafi verið erfiðir fyrir þá. Vidic sagði þetta í nýlegu viðtali um erfiða byrjun þeirra félaga:
For us, the league was much quicker, the players were much stronger and in the first few weeks I found that really hard. I remember Patrice saying ‘can we succeed here? Maybe it is better for us to go back to the places we were at before. But afterwards, we start training harder and we got used to it.
Fyrsta tímabilið þeirra gekk brösulega saman en sem betur fer hafði Sir Alex trú á Vidic og tímabilið á næsta tímabili spiluðu þeir félagar lykilhlutverk í að endurheimta úrvalsdeildartitilinn eftir þriggja ára fjarveru hans frá heimahögunum. En á næsta tímabili voru Rio Ferdinand og Nemanja Vidic ekki lengi að smella saman. Það hjálpaði auðvitað mikið til að Sir Alex hafði loksins fundið arftaka Peter Schmeichel í markinu eftir mikið rót í þeirri stöðu þar sem Barthez og Howard voru einfaldlega ekki nógu góðir markmenn. Edwin van der Saar kom frá Fulham og Patrice Evra, líkt og Vidic, var búinn að hrista af sér slenið. Þessir fjórir ásamt Gary Neville og Wes Brown í hægri bakverðinum mynduðu afar stöðuga vörn þar sem miðverðirnir Vidic og Rio spiluðu stærsta hlutverkið.
Á tímabilunum 2007 til 2010 fékk liðið á sig minna en 30 mörk í deildinni og tímabilið 2008-2009 fékk liðið ekki á sig mark í 14 leikjum í röð. Á því tímabili þar sem Rio og Vidic voru upp á sitt besta spilaði liðið besta varnarleikinn í deildinni og áttu þeir stóran þátt í velgengni liðsins á þessum tíma. Liðið vann Englandsmeistaratitilinn 2007,2008, 2009 og 2011, Meistaradeildina árið 2008 auk þess sem að komast í úrslit 2009 og 2011. Liðið vann deildarbikarinn 2006, 2009 og 2010 auk þess sem að liðið hampaði Heimsmeistaratitli félagsliða árið 2008. Allt þetta var byggt á öftustu varnarlínunni þar sem þessir félagar réðu ríkjum. Edwin van der Saar hafði þetta um þá félaga og varnarlínuna að segja:
I played with a lot of great defenders in my career, but I would say that the triangle with Rio and Vida was the best I had. I was much older and had the experience. With that, and the abilities of Rio and Nemanja, we were able to anticipate and help each other, and the relationship between the three of us worked very well.
Að mörgu leyti voru Rio og Vidic hið fullkomna miðvarðapar. Þeir bættu hvorn annan fullkomlega upp, Vidic var svokallaður no-nonsense varnarmaður. Gríðarlega öflugur í skallaeinvígum og tæklingum og las leikinn frábærlega, hann sá um skítverkin og bjarganirnar ef eitthvað slapp í gegn. Á móti kom að Rio var afslappaður og rólegur, alltaf á réttum stað til þess að stoppa hlutina ofar á vellinum. Ég efast um að við munum sjá betra miðvarðapar saman hjá Manchester United á nýjan leik. Sir Alex Ferguson sagði þetta um Rio og Vidic eftir tímabili 2007/2008 þar sem liðið vann deildina og Meistaradeildina og fékk aðeins á sig 22 mörk í deildinni:
I’ve always said the foundation for any championship-winning side is the defence. They’ve formed a great understanding. The secret is in their character, determination and attitude.
En því miður líður tíminn áfram og hann er algjörlega miskunarlaus. Eftir því sem þessir félagar urðu eldri misstu þeir eitt af því mikilvægasta sem varnarmaður í ensku úrvalsdeildinni getur haft, hraðann. Vidic varð fyrir slæmum meiðslum og Ferdinand, verandi eldri en Vidic, varð alltaf hægari og hægari.
And deeper and deeper. In fact, this is exactly what Rio Ferdinand has been doing in the past couple of years, and now Vidic has started doing it too. Those two were once the best defensive partnership in Europe – now, they only look comfortable when they can defend in the sanctity of the penalty box.
Þetta sagði Michael Cox um þá félaga árið 2011. Maður sá þá alltaf detta neðar og neðar á völlinn og það dró allt liðið neðar á völlinn. Þessi þróun hefur bara haldið áfram og ef til vill hefðum við átt að vera búin að kveðja þá félaga. Manchester United er miskunarlaus klúbbur þar sem ekkert gildir nema árangur, ef þú ert ekki nógu góður er þér fórnað fyrir næsta leikmann sem er nógu góður.
Núna eru þeir hinsvegar farnir og nú er loksins pláss fyrir Chris Smalling, Jonny Evans og Phil Jones að eigna sér þessar stöður í staðinn fyrir að vera sífellt í skugganum á Rio Ferdinand og Vidic. Þökk sé þeim vita þó þessir ungu arftakar þeirra væntanlega nákvæmlega hvað þarf að gera til þess að ná árangri.
Við sem höldum United tölum í sífellu um liðið sem vann Meistaradeildina árið 2008, hversu frábærlega sóknarsinnað það var, hversu frábæra knattspyrnu það spilaði, hversu góðir Wayne Rooney, Cristiano Ronaldo og Carlos Tevéz voru en ekkert af þessu hefði getað gerst nema fyrir þá staðreynd að fyrir liðið spilu bestu miðverðir í heiminum þess tíma. Varnarleikur þeirra gerði þessum leikmönnum kleyft að leika listir sínar fram á við. Fyrir það og allt það sem þeir gerðu fyrir United stöndum við í mikilli þakkarskuld við þá.
Ritstjórn Rauðu djöflanna óskar þeim velgengni hjá nýjum liðum og í hverju sem þeim munu taka sér fyrir hendur. Þeir munu alltaf fá hlýjar viðtökur á Old Trafford.
Tony says
Það minnsta sem maður getur gert er að kommenta á þessa góðu grein. Samstarf félaganna verður lengi í minnum haft og synd að þurfa að kveðja þá en menn koma í manna stað. Sannir meistarar sem fara frá klúbbnum.
Ég hefði samt kosið að Rio hefði fengið betri brottför frá klúbbnum og hann hefði fengið að kveðja stuðningsmennina eins og Vidic í síðasta heimaleiknum.
Gunnar Helga says
The Great Wall of Manchester!
Frábær grein btw.