„My first sight was of him floating over the pitch so effortlessly you would have sworn his feet weren’t touching the ground. He carried his head high and looked as relaxed on the park as a dog chasing a piece of silver paper in the wind“.
Þegar kemur að tilvitnum úr sögu Manchester United eru það líklega aðeins togaraeltandi mávar sem slá þessi orð Sir Alex Ferguson af toppnum. Það þarf varla að kynna Ryan Giggs fyrir ykkur. Stór hluti stuðningsmanna Manchester United þekkir ekki lífið án Ryan Giggs og hefur fylgt þessum frábæra leikmanni alla tíð.
Ryan Giggs skrifaði undir atvinnumannasamning við Manchester United 1. desember 1990, tveim dögum eftir 17 afmælisdag sinn og lék sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið fjórum mánuðum seinna, 2. mars 1991. Frá því að Sir Alex Ferguson tók við United hafði hann lagt ofuráherslu á að byggja aftur upp unglingastarf liðsins sem fyrri stjórar höfðu leyft að drabbast niður. Tveim árum fyrr höfðu nokkrir ungir strákar komið fram þegar erfiðlega gekk veturinn 1988-9 og heillað stuðningsmenn en enginn þeirra náði árangri sem heitið gat, utan að Mark Robins og Lee Martin hjálpuðu til við að vinna bikarinn 1990. Ryan Giggs var fyrsta merkið um að eitthvað væri virkilega að gerast meira á unglingasviðinu.
Frá fyrsta leik vissu stuðningsmenn að þarna var á ferðinni einstakur leikmaður. Þetta fyrsta vor hans var hann þó ekki í aðalhlutverki. Lee Sharpe var eldri og enn stjörnukanturinn í hópnum. Sharpe hélt Giggs utan við hópinn í úrslitaleiknum í Evrópukeppni bikarhafa, en það var líka í síðasta skipti sem það var.
Árið eftir, 1992, var ár vonbrigðanna og United missti af titlinum. En Ryan Giggs var fastamaður í liði United, var valinn ungi leikmaður ársins af leikmönnum og sló taktinn fyrir næstu ár. Titlarnir röðuðust inn og glæsimörkin komu hvert á fætur öðru.
Hápunkti var náð þann 14. apríl 1999
https://www.youtube.com/watch?v=quI_LkMj4HI
Besta mark aldarinnar sögðu sumir og það er erfitt að mæla því í mót.
Rúmum mánuði síðar var Manchester United búið að vinna þrennuna og Giggs var á hátindi ferilsins 25 ára að aldri sem hluti af ‘bestu miðju allra tíma’
Næstu tvö árin duttu fyrirhafnarlausir titlar inn, eitt ár í hlé og svo enn einn titillinn og þetta var allt svo auðvelt, þó að hann missti vissulega þó nokkuð af leikjum úr vegna meiðsla. En 2003 var Ryan Giggs orðinn þrítugur. og eins og United dalaði á milli 2003 og 2007 þá dalaði Ryan Giggs líka. Þó að hann hefði byrjað jógaæfingarnar sem fleyttu honum á endanum á fimmtugsaldur sem leikmanni þá voru meiðsli fyrri ára farin að setja á hann mark og hann missti hraða. Á þessum árum var hann oft skotmark þeirra sem voru að leita að ástæðum fyrir slöku gengi og ekki alltaf að ástæðulausu, þó að vissulega hafi hann liðið fyrir það að það var ekki verið að bera hann saman við aðra leikmenn, heldur hans eigin stórfengleik á fyrri árum.
En það er eðli frábærra leikmanna að geta aðlagast aðstæðum. Þegar Ronaldo var orðinn besti kantmaður í heimi og Manchester United fór að spila 4-3-3 með þá Tevez, Rooney og Ronaldo frammi (sem breyttist stundum í 4-0-6 eða 4-6-0) var orðið pláss fyrir Ryan Giggs á miðjunni sem séðan og útsjónarsaman leikstjórnanda sem þurfti minna á hraðanum að halda og var lykilmaður í liðinu sem vann titilinn þrjú ár í röð. Það verður þó að viðurkennast að það hafði meira með heiðurinn að gera, og það að enginn afgerandi framúrskarandi leikmaður var á sviðinu að Ryan Giggs var valinn leikmaður ársins 2009 af leikmönnum.
Í millitíðinni hafði Giggs slegið heildarleikjamet Bobby Charlton þegar hann lék sinn 759. leik fyrir United, og valdi til þess ekki minna svið en úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu vorið 2008 þar sem hann skoraði úr síðasta víti United í vítakeppninni og sá síðan Van der Sar færa United titilinn.
Það hefði einhver haldið að þarna væri hinn fullkomni endapunktur en því fór fjarri. Sex tímabil í viðbót, 204 leikir, 24 mörk og þrír titlar. Eftir þrjátíu og fimm ára aldur.
Og svo lauk hann ferlinum með að vera spilandi framkvæmdastjóri.
Það er hægt að ræða það fram og til baka hver hafi verið hæfileikaríkasti leikmaður United frá upphafi og hver var mesta goðsögnin. Var það Meredith? Edwards? Charlton? Law? Best? Robson? Cantona? Ronaldo? Giggs? Hver veit, hver kynslóð á sína goðsögn, hver aðdáandi sinn uppáhaldsleikmann og þar sem við erum Manchester United mun í framtíðinni bætast á þennan lista. Hitt er víst að stórkostlegasta og sigursælasta ferli nokkurs leikmanns í Englandi er lokið. Takk fyrir okkur, Ryan Giggs
Jón says
Það hlýtur að vera þreytandi að halda úti jafn metnaðarfullri síðu eins og þessari fyrir jafn lélegan hóp af stuðningsmönnum eins og United menn á íslandi eru. ekki eitt komment!
Rúnar Þór says
nákvæmlega, ef einhver á skilið fullt af frábærum commentum um einn lanbesta feril eins langbesta leikmanns allra tíma þá er það SIR RYAN GIGGS!!!!!!!! a.k.a the welsh wizard
Jón Sæmundsson says
Legend!
lampamaður says
ryan giggs á skilið alla mína virðingu
Hjörtur says
Þeir eiga kanski eftir að detta hér inn kommentarnir, menn eru kanski ekki alltaf með tölvuna við nefið. En það sem ég hef um Ryan Giggs að segja, er að hann var bara snillingur, og það hafa og fara ekki margir í hans fótspor.
Pillinn says
Held að eini gallinn hjá Ryan Giggs hafi verið að skora ekki í PL á þessari leiktíð. Fékk reyndar ekki nógu mikið af tækifærum til þess, Moyes sá um að halda honum utan við liðið. En hann skoraði þó allavega öll hin tímabilin og held ég að það met verði ekki slegið í bráð, ef einhverntímann. #Legend
Sigurjón Arthur says
Það er bara einn Ryan Giggs og mér er til efs að hans met verði einhvern tíman slegin….maðurinn er lifandi goðsögn og mun aldrei gleymast !! Man vel eftir því þegar ég las viðtal við kappann fyrir all nokkrum árum, þar var hann að lýsa gleði sinni með að David Beckham væri orðin vinsælasti leikmaður manutd og sá sem mesta athygli vakti….og þ.a.l. minni athygli á Giggs sjálfan !!
kv,
SAF
úlli says
Ótrúlegur ferill að baki. Markið hans á móti Arsenal er magnaðasta stund sem ég hef upplifað sem stuðningsmaður okkar ástkæra félags. Hins vegar verður fróðlegt að fylgjast með honum við hlið Van Gaal. Eins mikið og ég elska Giggs þá finnst mér eins og hann sé enginn eldflaugaverkfræðingur og ekki endilega efni í góðan stjóra. Hvað um það, við komust víst að því síðar.
Rúnar Þór says
Mikið ofboðslega er sorglegt að shá hversu fá comment eru kominn á þessa grein, á svo skilið miklu meira, það mætti halda að umferðin á þessari síðu stoppi bara alveg þegar tímabilið klárast