Nú eru ekki nema rétt tæplega tvær vikur í að félagskiptaglugginn lokar. Woodward og Glazerarnir hafa rétt tæplega tvær vikur til þess að vinna vinnuna sína svo að Louis van Gaal geti unnið vinnuna sína. Hvað er vinnan hans? Að ná titlinum til baka en fyrsta skrefið í átt að því er að koma liðinu í Meistaradeildina á nýjan leik. Það er verkefni tímabilsins.
Hvað þurfa Louis van Gaal og leikmenn liðsins að gera til þess að ná því? Fjórða sætið er lágmark. Það er alveg sama hvað David Moyes reynir að verja sig, hann klikkaði á öllum markmiðum tímabilsins og skilaði í hús lélegustu titilvörn síðustu ára. 7. sæti. 64 stig.
Það var ekki nógu gott, það er ekki nógu gott. Við vitum öll að Louis van Gaal mun bæta þann „árangur“. Spurningin er hinsvegar, hversu mikið mun hann bæta stigasöfnunina og er eitthvað svigrúm til þess?
Byrjum á því að skoða stigafjölda liða í 4. sæti frá því að það sæti fór að gefa keppnisrétt í Meistaradeildinni
Meðaltalið er ca. 70 stig og það virðist því vera algjör lágmarksstigafjöldi til þess að ná 4. sæti. Á síðasti tímabili setti Arsenal „met“ með því að klára tímabilið með 79 stig í fjórða sæti. Samkvæmt þessu má áætla að þau lið sem nái 80 stigum á tímabilinu verði í fjórða sæti eða ofar. Setjum það sem efra markið. United þarf því á bilinu 70-80 stig til þess að ná fjórða sætinu. Líklega verða 70 stig of lítið þó það sé auðvitað ómögulegt að segja hvernig tímabilið þróast. Þau lið sem kláruðu í efstu fjórum sætunum hafa styrkt sig vel auk þess sem að Tottenham og Everton eru í góðum málun. Það verður því við ramman reip að draga fyrir Louis van Gaal. Gefum okkur að United þurfi 75-80 stig til að ná fjórða sætinu. Hann þarf að töfra fram stigabætingu upp á 11-16 stig. Er það hægt, er eitthvað svigrúm til þess að bæta sig? Skoðum stigasöfnunina á síðasta tímabili:
Það er margt sem stingur í augun þarna. 0 stig gegn erkifjendunum í Liverpool og City, töp gegn Sunderland, Stoke og WBA, jafntefli gegn Cardiff, Fulham og aðeins 1 stig gegn fyrrum stiganýlendunni Tottenham. Alls ekki nógu gott.
Brjótum þetta aðeins niður í smærri einingar og reynum að finna hvar er hægt að plokka þessi auka stig.
Byrjum á því sem vel gekk. Liðið vann báða leikina gegn eftirtöldum liðum:
- Aston Villa
- Crystal Palace
- Hull
- Norwich
- West Ham
Þarna eru komin 30 stig en satt best að segja á lið eins og Manchester United alltaf að hirða alla punkta sem í boði eru gegn liðum eins og þessum, með fullri virðingu fyrir þeim. Ég gef mér það að United nái mjög svipuðum úrslitum gegn þessum liðum (Tel Leicester sem Norwich). Krotum niður 27-30 stig.
Færum okkur yfir í milliflokkinn, leikir þar sem við unnum einn leik og gerðum eitt jafntefli.
- Arsenal
- Cardiff
- Fulham
- Swansea
Það er ágætlega vel af sér vikið að ná fjórum stigum gegn Arsenal. Auðvitað vill maður alltaf sigra liðin sem eru í mestri samkeppni við okkur en það er staðreynd að ef maður næði fjórum stigum gegn þeim öllum væri maður vel settur í titilbaráttunni. Cardiff og Fulham féllu bæði og það er óafsakanlegt að ná ekki í sex stig gegn liðunum sem falla. Auðvitað vill maður ná í öll stigin gegn liðum eins og Swansea, Newcastle og þessum liðum en ekkert lið vinnur alla þá leiki sem það á að vinna. Það er staðreynd. Með bætingu gegn QPR og Burnley, getum við í það minnsta bætt 4-6 stigum við þennan flokk. Þá stöndum við í 27+18=45
Skoðum þá liðin sem við skiptum stigunum jafnt á milli okkar:
- Newcastle
- Stoke
- Sunderland
- WBA
Hér er að mínu mati eitt mesta tækifærið á bætingu. Gegn þessum liðum fengum við 12 stig. Undir engum kringumstæðum á United að tapa leik gegn Sunderland og WBA. Stoke og Newcastle geta verið snúin. Í heildina ættum við að minnsta kosti að fá 15-18 stig gegn þessum liðum. 45+15=60
Að lokum komum við að liðunum sem ekki vannst leikur gegn í fyrra:
- Southampton
- Liverpool
- Man City
- Everton
- Spurs
- Chelsea
Við fenguð aðeins 2 stig gegn Southampton í fyrra. Á þessu tímabili hefur liðið veikst talsvert og er með nýjan stjóra. United á að taka 6 stig gegn þessu liði. Everton og Spurs eru hörkulið. Everton vann báða leikina gegn okkur á síðasta tímabili og við náðum einu jafntefli gegn Spurs. Það verður erfitt að sigra báða leikina gegn þessum liðum. Á góðu ári ættum við að næla okkur í 10-12 stig gegn þessum liðum en ég er ekki viss um að við séum á góðu ári núna. Raunsæ spá gefur okkur 7-8 stig í þessum leikjum. 60+13=73
Áður en við komum að stórliðunum gefur tiltölulega raunsætt mat (kannski smá bjartsýnt) okkur 73 stig úr 32 leikjum.
Þá komum við að erfiðustu leikjum tímabilsins. Skoðum aðeins gengi United gegn toppsætunum fjórum frá því í fyrra
Þetta er afskaplega lélegt gengi og ófyrirgefanlegt að ná í aðeins 1 stig gegn Chelsea, Liverpool og Manchester City í 6 tilraunum. Ég var búinn að reikna með stigunum gegn Arsenal í reikningunum. Ef við ætlum okkur í 80 stigin þurfum við því 6-7 stig úr þessum leikjum. Það verður að teljast mjög geranlegt, sérstaklega ef að við styrkjum okkur eins og ýmislegt bendir til. Þessi lið hafa þó styrkt sig vel, þá sérstaklega Chelsea og City sem eru ógnarsterk. Þessi leikir fylgja þó sínum eigin lögmálum. Leikirnir við Liverpool eru alltaf erfiðir fyrir bæði lið óháð því hvernig gengið er í deildinni. Við sáum á HM að Louis van Gaal stóð sig vel í að láta lið sitt núlla út sterk lið Spánverja og Argentínumanna og sé ekki ástæðu til annars en að hann ætti að geta gert það með United.
Eins og David Moyes lagði upp þessa leiki átti liðið litla möguleika að vinna stórleikina. Þolanlegur árangur gegn toppliðunum plús tiltölulega eðlilegur árangur gegn smærri liðunum ætti að ýta okkur upp í 75-80 stig sem ætti að gera okkur kleyft að vera í það minnsta afskaplega nálægt fjórða sætinu, aðeins tvisvar áður hefur lið náð meira en 73 stig í fjórða sætinu eins og sjá má á myndinni hér efst. Þetta verður þó ekki auðvelt og alls ekki víst að það takist.
Það er þó ekkert gefið í þessari deild eins og allir þekkja. Þó að við eigum að vinna flest lið í deildinni á pappírnum fræga er ekkert víst að það takist eins og sannaðist gegn Swansea um síðustu helgi. Þar glataðist tækifæri til þess að bæta stigasöfnunina frá því í fyrra enda gerðu þessi lið jafntefli á Old Trafford. Það er jafnframt ekkert víst að Chelsea og City labbi yfir þessa deild eins og flestir spá. Ég hef hinsvegar reynt að líta raunsætt á stöðuna og ekki reiknað með 6 stigum gegn öllum liðunum sem enduðu fyrir neðan okkur í deildinni. United á góðan möguleika á að berjast um Meistaradeildarsæti á þessu tímabili og sérstaklega ef liðið bætir eitthvað við sig af leikmönnum eins og rætt er um.
Frumskilyrði fyrir því að liðið bæti sig er þó betra gengi gegn liðunum sem enduðu fyrir ofan okkar í deildinni á síðasta tímabili og bæting gegn liðum eins og Stoke, WBA og Sunderland.
Fyrsta skrefið er sigur gegn Sunderland á sunnudaginn.
DMS says
Talandi um að bæta við sig leikmönnum, þá vil ég sjá Van Gaal og Woodward leggja allt kapp á að klára Di Maria fyrir lokun gluggans. Leikmaðurinn hefur farið fram á sölu og núna er tækifærið. Skítt með það þó við þurfum að borga 40-50m punda. Ef það er sett í samhengi við að missa aftur af meistaradeildarsæti þá eru það bara smámunir. Mögulega hægt að gera einhvern pakkadíl þar sem Khedira er líka til sölu, en spurning hvort Van Gaal vilji Khedira. Eitthvað segir mér að hann muni bíða eftir Strootman. Það er sá leikmaður sem hann ætlaði að forma hollenska liðið í kringum, sagði það sjálfur á fyrirlestri og útskýrði hvernig hann þurfti að breyta upphaflega planinu sínu fyrir HM eftir að Strootman meiddist þetta lengi.
Daley Blind er líka flottur kostur, getur leyst nokkrar stöður og ætti ekki að kosta meira en max 15-20m punda. En fyrst við erum Man Utd og Woodward er búinn að sýna spilin sín opinberlega í fjölmiðlum þá er ekkert ósennilegt að verðið myndi hoppa upp í 25m punda…og þá myndi Woodward fara í baklás og United enda á að kaupa engan.
Bambo says
Mjög góður pistill og við skulum aldrei gleyma því að flestir leilmenn þessa liðs hafa unnið titilinn áður. Sem er gjörsamlega algjörlega eina ástæðan fyrir að við unnum deildina 2013. Ég vona að með tilkomu van gaal þá verði þessir sömu leikmenn minntir á akkúrat þetta og nýju leikmennirnir séu tilbúnir í að fórna sér fyrir liðið.
Með þessum factorum þá held ég að við séum að fara í hörkuslag um meistaradeild, og ef við fáum topp miðjumann, miðvörð sem getur fengið bolta í fætur, hægri wing-back og að persie haldist heill þá erum við til alls líklegir
Runólfur says
Í sambandi við Di Maria. Hvar ætla menn að spila honum? Það kemur aldrei í umræðuna – við erum að spila 352 (hvernig sem menn túlka það) til að koma RVP,Rooney og Mata öllum í liðið í sínum stöðum, hvar ætlaru að koma Di Maria inn í þetta leikkerfi?
Og persónulega skil ég ekki af hverju Daley Blind er ekki löngu kominn, held að LvG vilji hreinlega ekki fá hann eða hann vilji ekki koma – hann er svo rosalega basic kaup. Þekkir stjórann og getur spilað 3-4 stöður þar sem við erum rosalega short á mönnum. Stór undarlegt allt saman. Annars frábær pistill (eins og venjulega). Vonandi að við gerum það sama og Arsenal í fyrra, töpum fyrsta leik – kaupum leikmann (reyndar enginn Özil) og förum á flug.
Kristjans says
Frábær pistill, virkilega áhugavert að rýna í þetta.
Sammála Runólfi hérna að ofan. Átta mig ekki alveg á því hvar Di Maria ætti passa inn í þetta 3-5-2 kerfi Van Gaal, varla verður hann wingback og ætti hann þá að vera á miðjunni með Herrera?
Hjartanlega sammála þessu með Daley Blind, myndi glaður vilja fá hann til Man Utd. Einkennilegt að ekkert hefur heyrst með hann. Annars er ég farinn að óttast það versta – að það komi ekki fleiri leikmenn í þessum glugga.
DMS says
Myndi hann ekki bara skipta yfir í 4-3-3 ef Di Maria kæmi? Er svo sem sammála því að Di Maria myndi sennilega ekki fitta sem vængbakvörður í hinu kerfinu, en maður á kaliberi Di Maria myndi alltaf styrkja liðið.
„At this moment, we have five No.9s and four No.10s – and we don’t have wingers to give us attacking width. Or, I should say, we don’t have wingers of the highest level, like Ronaldo or Di Maria or somebody like that. So, I have to play in another way – and you have seen that already. I only buy when I think we need to buy – in the position that is necessary.“
Bjarni says
Jæja, því miður miður byrjaði leiktíðin ekki vel og er ég hræddur um að það verði framhald þar á í næstu leikjum, vonandi hef ég rangt fyrir mér en ég verð að segja það að spilamennskan er algjör meðalmennska og það mun taka nokkra mánuði að slípa þetta til en þá er það kannski orðið of seint að ná eina markmiði vetrarins, meistaradeildarsæti. Ég held að fyrsti leikurinn hafi ekki verið eitt „fluke“, vörnin er léleg, miðjan óörugg og sóknin hugmyndasnauð eins og var í fyrra, þó það komi inn nýjir leikmenn þá eru þarna fyrir leikmenn sem muna sinn fífil fegurri. Ánægður að hafa fengið Rojo, við þurfum að hafa einn aggressífan argentínumann í liðinu sem veður í allar tæklingar og ber enga virðingu fyrir neinum, vona bara að hann detti ekki í sama miðjumoðið og hinir heldur nái að rífa þá upp með krafti sínum.
Pillinn says
Sagði van Gaal ekki að fyrstu þrír mánuðirnir hans væru alltaf erfiðir. Reikna má með því að taki smá tíma. En Woodward er á síðasta séns. Hann verður að gera eitthvað í þessum glugga eða director of football verður bara nauðsynlegt. Ef hann kemur ekki með allavega tvö nöfn í viðbót í hópinn þá þarf hann að pakka. Hann er mikilvægur að fá stóra auglýsingasamninga en hingað til hefur hann ekkert getað í kaupum á mönnum. Keypti Fellaini á uppsprengdu verði, borgaði buy out clause, Mata á metverði, maður sem Chelsea vildi losna við, Herrera á buy out clause og svo ungan pjakk á 27 milljónir. Þetta er svakalega dýrt og tvisvar virkjað buy out clause.
Það þarf allavega hægri sinnaðan varnarmann, Valencia og Rafael eru of líklegir til að meiðast. Smalling, Evans og Jones eru líka of líklegir til að meiðast. Ég vil sjá Vidal og di Maria og svo einhvern öflugan í vörnina. Sjáum til ennþá rúm vika þangað til að félagaskiptaglugginn lokast en við þurfum að bæta okkur, eða Woodward þarf að bæta sig.