Ansi viðburðarríkum rússíbanaglugga er lokið og því er tilvalið að kíkja aðeins á þá leikmenn sem gengu til liðs við Manchester United.
Ander Herrera
Það muna allir eftir sirkusinum í fyrra varðandi kaupin á Ander Herrera. Það var öllu minni sirkus þegar við nældum í Herrera öllum að óvörum snemmsumars. Ég ætla ekki að eyða miklu púðri í að fara yfir þessi kaup enda gerðum við það á nokkuð yfirgripsmikinn hátt fyrr í sumar sem ég hvet alla til að lesa, hafi þeir ekki gert það núna. Við sáum hvað hann gat í æfingarferðalaginu um Bandaríkin þar sem hann hélt spilinu gangandi, skapaði mörk og kannski það sem kom mest á óvart, hvað hann er fastur fyrir og óhræddur við að láta finna fyrir sér. Ég er sannfærður um það að hann eigi eftir að vera mjög mikilvægur þessi liði í framtíðinni og vonandi að hann jafni sig á þeim meiðslum sem eru að plaga hann sem fyrst. Ég skrifaði þetta um hvaða væntingar ég hafði til hans og ég held að hann muni sýna okkur það á tímabilinu að þetta eigi vel við:
Á komandi tímabili mun Herrera vera sá leikmaður sem hefur sóknina, sá sem stingur boltanum inn a þann sem gefur stoðsendinguna. Hann er vítamínið sem miðjan okkar þarf á að halda.
Luke Shaw
Þegar Luke Shaw skrifaði undir hjá United var ljóst að félagaskiptaglugginn hjá United hafði byrjað frábærlega. Korteri eftir að glugginn opnaði var United komið með langtímaarftaka Patrice Evra. Allt síðasta tímabil voru enskir miðlar að birta fréttir af eltingarleiknum um Shaw þar sem við börðumst aðallega við Chelsea. Um leið og tímabilinu lauk var sagt frá því að United hefði lagt fram tilboð í kappann og að hann hefði beðið um að fá að fara frá Southampton. Skiljanlega vildi Southampton-menn geyma það að klára þessi kaup framyfir HM enda Shaw einhver heitasti bitinn á markaðinum fyrir ensku félögin. 18 ára gamall enskur bakvörður. Hæfileikaríkir ungir enskir leikmenn vaxa ekki beint á trjánum, hvað þá vinstri bakverðir.
Lengst af sínum ferli hjá United var Patrice Evra besti vinstri bakvörður í heiminum. Það var alltaf hægt að treysta á hann væri mættur til að styðja við sóknina og strax kominn aftur í vörnina til að verjast. Ólíkt öllum öðrum varnarmönnum United sem hann spilaði með meiddist hann heldur aldrei. Frá því að hann varð bakvörður nr.1 spilaði hann alltaf 45-50 leiki á tímabili og það er því kannski ekki skrýtið að síðustu 2-3 tímabil hafi Patrice Evra verið orðinn svolítið þreyttur og ekki jafn duglegur að hlaupa fram eða bakka þegar þess þurfti. Það var orðið auðvelt að gagnrýna hann enda var hann hættur að ná þeim fáranlega hæðum sem hann náði lengst af hjá United. Hann var lykilmaður í frábæru liði United sem vann Meistaradeildina 2008. Það var leiðinlegt að sjá á eftir jafn dyggum þjóni og Evra þegar hann fór til Juventus en líklega geta allir verið sammála um að þetta var rétti tímapunkturinn til þess að breyta til, bæði fyrir hann og United.
Þá þurfti að finna einhvern til þess að fylla í skónna hans Evra og þó hann sé ekki hár í loftinu voru skórnir hans risastórir. Shaw er aðeins 18 ára gamall en það er ýmislegt sem bendir til þess að hann muni fylla upp í skó Evra og rúmlega það. Á síðasta tímabili stóð hann sig afskaplega vel með mjög skemmtilegu Southampton-liði.
- Af öllum vinstri bakvörðum deildarinnar var hann með besta hlutfall heppnaðra tæklinga.
- Hann átti 40 tæklingar, vann meirihluta 50-50 návíga og gerði ekki ein varnarmistök sem leiddu til marks
- Almennt er Leighton Baines talinn vera besti sóknarbakvörðurinn í deildinni. Shaw átti fleiri heppnuð framhjáhlaup og fleiri skot en þó ekki jafn margar fyrirgjafir.
Þetta eru afskaplega góðar tölur, sérstaklega þegar horft er til þess að leikmaðurinn er aðeins 18 ára gamall. 18 ára. Hann er ótrúlega þroskaður leikmaður miðað við aldur og reynslu enda aðeins spilað 60 leiki á ferlinum. Menn tala um að United hafi greitt of mikið fyrir þennan leikmann en 25-27 milljónir + bónusar og klásúlur mun líta út eins og gjafaverð eftir 10 ár þegar Shaw verður búinn að spila 300 leiki fyrir félagið.
Eftir þessi tvö kaup gerðist afskaplega lítið fram undir lok ágúst þegar allt fór af stað og United kláraði kaup á fjórum leikmönnum.
Marcos Rojo
Við stuðningsmennirnir vorum orðnir ansi pirraðir á seinaganginum í United þegar Woodward nældi loksins í Rojo. Þeir sem fylgdust með HM sáu Rojo slá í gegn sem vinstri bakvörður í argentísku vörninni sem var einstaklega örugg fram að 110. mínútu í úrslitaleiknum. Hann er þó ekki keyptur sem vinstri bakvörður til United þó að ef til vill fái hann að vera þar við og við þegar hvíla þarf Shaw. Rojo er keyptur sem miðvörður. Það verður að segjast eins og er að um þennan leikmann eru skiptar skoðanir eins og lesa má í kynningarpistlinum um Rojo. Það er ljóst að þarna er á ferðinni nokkuð hrátt talent og ekki sá heimsklassa leiðtogi sem United þurfti á að halda í vörninni eftir brottför Vidic og Rio. Menn eru þó sammála um að hann sé snöggur, sterkur og öruggur á boltanum en það eru eiginleikar sem eru einna mikilvægastir fyrir varnarmenn í kerfinu hans Louis van Gaal. Hann er þó aðeins 24 ára gamall og ætti að geta lært 1-2 trix af Louis van Gaal en menn með gott minni muna kannski að Ron Vlaar leit út eins og heimsklassa miðvörður undir stjórn LvG á HM.
Eitt sem hefur farið undir radarinn með þennan leikmann er að hann er eiginlega alveg snargeðveikur. Hjá Sporting fékk hann 21 gult spjald og 4 rauð í 49 leikjum.
He is a very impatient man with a lot of temper. He is the kind of player who can kick away the ball when the opponent have received a soft free-kick, when he is already on a yellow card. Rojo also has the tendency to throw himself into the tackles, which potentially can be career-threatening for other players. #
Eitthvað segir mér að stuðningsmenn annara liða eigi eftir að hata þennan leikmann. Það er fínt, það er lykilatriði að hafa a.m.k. einn óþolandi djöful í hverju liði og hann mun koma með gott ‘aggression’ inn í þetta annars dagfarsprúða Manchester United lið. Rojo hefur þó ekki ennþá fengið atvinnuleyfi en forráðamenn United eru vissir um að það gangi í gegn fyrir leikinn gegn QPR um aðra helgi. Hann á víst að hafa lent í deilum við nágranna sinn í Argentínu og flaska gæti hafa brotnað í átökunum. Málið er í rannsókn en þetta mun þó víst ekki hafa mikil áhrif á feril hans hjá United.
Ángel di María
Loksins er kominn verðugur leikmaður í treyju nr.7 hjá Manchester United. Maður er ennþá að melta það að United hafi keypt Ángel di María frá Real Madrid. Hann var vélin sem hélt stjörnuprýddu liði Real Madrid gangandi, límið sem hélt því saman. Maður leiksins í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þegar Real Madrid tryggði sér La Decima, tíunda Meistaradeildar titilinn. Stuðningsmenn Real vildu ekki missa hann, Carlo Ancelotti vildi ekki missa hann. En hann fór nú samt og gat því uppfyllt ævilangan draum sinn að spila fyrir Manchester United:
Since I was 13 or 14 years old, I’ve been telling my mother and my father that my dream is to play some day for Manchester United. #
Hann passaði þó ekki nógu vel inn í þetta Real Madrid lið af þeirri einföldu ástæðu að hann selur ekki nógu margar treyjur! Þessvegna var James Rodriguez keyptur. Þar með var ekki pláss fyrir okkar mann og Real Madrid seldi bara í alvöru einn af mikilvægustu leikmönnum sínum. Það segir allt sem segja þarf að Cristiano Ronaldo tók smá mini-rant um þessa ákvörðun yfirmanna Real Madrid. Di Maria þurfti þó að vinna fyrir þessu hlutverki sínu. Með komu Gareth Bale minnkuðu tækifærin hans en hann kom til baka og hreinlega vann sig aftur inn í liðið á mikilvægasta hluta tímabilsins, seinni hlutanum. Þar spilaði hann á miðjunni og átti flestar stoðsendingar allra leikmanna í Evrópu eða 17 talsins. Það kemur mönnum kannski á óvart en di María er einmitt meiri miðjumaður en kantmaður:
In reality, at no point in his seven-year European career has Di Maria played in a front three — he has generally been tucked inside into a deeper, more central position. The role of the shuttler involves great energy. Essentially, it means playing as a central midfielder but then providing width having made sudden diagonal bursts. In this particular position, Di Maria is arguably the world’s best. #
Undir stjórn Louis van Gaal mun hann líklega vera einn af þremur miðjumönnum í 4-3-3 kerfi hans. Þar mun hann koma með hraða og gríðarlegan sköpunarkraft inn á miðju sem hefur litið út fyrir að vera algjör andstæða þess, hæg og lamandi. Þetta er þó einstaklega fjölhæfur leikmaður og hann getur léttilega spilað á kantinum eða jafnvel í kantvarðarstöðinni ef LvG heldur áfram með 3-5-2. hann kannast ágætlega við þá stöðu enda hefur hann spilað hana með Benfica. Di Maria er einnig langt frá því að vera einhver lúxusleikmaður sem vinnur bara sóknarvinnu en skilar engu varnarlega. Hann hefur endalausa orku, er sívinnandi og er virkilega öflugur í pressunni. Hann sýndi hversu ótrúlega öflur leikmaður hann er í vináttuleik Argentínu og Þýskalands í gær þar sem hann sýndi allar sínar bestu hliðar. Hann lagði upp þrjú mörk og skoraði eitt í 4-2 sigri Argentínumanna
https://twitter.com/raududjoflarnir/status/507313613481467904
Svo er hér skemmtileg tölfræði í lokin:
The other element of deploying Di Maria deeper is that he scored fewer goals in La Liga last season, as might be expected, but created more: 17, the most in the division. It is one more than Juan Mata, Adnan Januzaj, Antonio Valencia, Shinji Kagawa, Danny Welbeck, Ashley Young, Marouane Fellaini, Michael Carrick, Tom Cleverley, Ryan Giggs, Darren Fletcher, Nani and Wilfried Zaha managed between them for United in the same period. #
Ekki slæmt og ljóst er að dýrasti leikmaður í sögu ensku deildarinnar og Manchester United mun spila stórt hlutverk í vetur og á komandi tímabilum.
Daley Blind
Manni fannst alltaf líklegt að United myndi næla sér í Daley Blind í þessum glugga. Hollenskur leikmaður sem stóð sig vel á HM, þekkti Louis van Gaal og leikkerfi hans upp á 10. Leikmaður sem gæti leyst nokkrar stöður og yrði ekki svo dýr. Maður hélt að menn myndu vera snöggir að klára þessi kaup enda fátt sem myndi standa í vegi fyrir þeim. Þetta dróst þó á langinn og eftir að Louis van Gaal sagði að United gæti klárað nánast hvaða leikmannakaup sem er á einum degi fékk maður tilfinninguna að Blind væri plan B, eitthvað sem hægt væri að grípa í með skömmum fyrirvara ef aðalskotmarkið á miðjuna klikkaði. Sögusagnir eru uppi um að Juventus hafi hafnað tilboði United í Arturo Vidal á föstudaginn. Þá virðist plan B hafa verið sett í gang og helgin fór í að klára kaupin á Blind. Þar með fékk United góða styrkingu á miðjuna.
Miðjuna segi ég því Blind er ekki bakvörður þó hann hafi spilað þar á HM, hann er heldur ekki miðvörður þó að hann geti leyst þessar stöður ágætlega. Daley Blind er afturliggjandi miðjumaður og þar spilaði hann stærstan hluta síðasta tímabils hjá Ajax og fyrir þær frammistöður var hann valinn leikmaður ársins í hollensku deildinni. Þar mun hann líklega spila fyrir United á komandi tímabil þó hann muni kannski fylla upp í hinar stöðurnar ef þess þarf. Eftir kaup sumarsins er United ansi þungt að framan og því munu leikmenn eins og Daley Blind og Michael Carrick spila stórt hlutverk. Þeirra hlutverk verður að vera aftast á miðjunni, sitja djúpt þar, detta niður í varnarlínuna þegar þess þarf, brjóta upp spil andstæðinganna og byggja upp spil okkar. Hann skaraði framúr í hollensku deildinni í nákvæmlega þessu hlutverki. Af þeim sökum held ég að kaupin á Daley Blind muni verða ein af þeim mikilvægari fyrir okkur á þessu tímabili. Einhver þarf að vernda vörnina okkar þegar allir sóknarmennirnir okkar eru að valda usla fram á við.
Falcao
Vá. Ég keypti ekki orðrómana sem hófust kvöldið fyrir DEADLINE DAY um að United væri að berjast við Real Madrid og City um að fá Falcao. Ekki í eina sekúndu. Ég hélt að þetta væri bara klassískur Jorge Mendes að nefna nafn United til þess að ýta á þessi lið um að A) Ganga frá kaupunum í tæka tíð og B) Koma á smá verðstríði. Ein af fyrstu kennslustundunum í Umboðsmenn 101 fer í gegnum það hvernig það virkar alltaf að nefna það að United hafi áhuga á umbjóðenda sínum til þess að fá viðsemjendur til þess að hækka tilboð sitt. Þegar þessi sprengja datt inn ætlaði ég ekki að trúa mínum eigin augum:
https://twitter.com/DTguardian/status/506368717501255680
Falcao til United á árs láni. Ótrúlegt. Þetta kostar okkur einhverja peninga en þó ekki nálægt því eins mikið og andstæðingar okkar dreyfa svo samviskusamlega um netið. Fyrstu fréttir gáfu til kynna að United myndi greiða Falcao 350.000 pund+ á viku þegar raunveruleikinn er að United greiðir um 6 milljónir til þess að fá hann á láni og talsvert lægri laun. The Guardian segir 190.000 á viku en The Telegraph segir að hann fá 265.000 pund á viku og verði þar með lauanhæsti leikmaður Manchester United. Það eru athyglisverðar upplýsingar þar sem almennt er talið (þó að vel upplýstir stuðningsmenn United viti betur) að Wayne Rooney fái um 300.000 pund í vikulaun. En eins og með upplýsingarnar sem nú fara víða um netið er það bull. Talið er að heildarpakkinn við þennan lánssamning Falcao sé um 20 milljónir fyrir árið. United hefur einnig forkaupsrétt. Danny Welbeck fór svo til Arsenal fyrir svipaða upphæð og því ljóst að United hefur tekist að skipta út ágætum framherja fyrir einn besta framherja heims um þessar mundir, fyrir svipaða upphæð. Woodward, þú ert snillingur.
Einn besta framherja heims segi ég. Hvert sem hann fer, þar skorar hann mörk.
- Porto – 51 leikur, 41 mark
- Atleticó Madrid – 68 leikir, 52 mörk
- Monaco – 20 leikir, 11 mörk.
Hann skorar þau líka í öllum regnbogans litum. Hjólhest, skalla, langskot, pot, með vinstri, með hægri. Hann er hinn fullkomni framherji. Sjáið þetta myndband af hans 20 bestu mörkum. Þau eru hvert öðru betra:
Hér er á ferðinni einn af allra bestu leikmönnum heims í dag og það er alveg rétt sem Louis van Gaal sagði. Þegar svona leikmaður er á lausu, þá læturðu ekki slíkt tækifæri renna þér úr greipum. Þetta er líka mjög sniðugur samningur. Falcao sleit krossbönd fyrr í vetur og ef einhver vandræði koma í ljós með það sleppir United einfaldlega því að nýta sér kaupréttinn á honum.
Góðvinur okkar Tor-Kristian Karlsen er afskaplega hrifinn af Falcao og segir hann vera frábæran í alla staði:
Falcao is as impressive off the pitch as on it. People at River Plate always rave about his eagerness to learn upon arriving there (2/5)
— Tor-Kristian Karlsen (@karlsentk) September 2, 2014
Previous coaches also point out Falcao’s attitude in training & positive influence in the dressing room, quiet yet exudes authority (3/5)
— Tor-Kristian Karlsen (@karlsentk) September 2, 2014
Having had met (& worked with) many professional footballers in my life, I have to say Falcao rates among the most intelligent & humble(4/5)
— Tor-Kristian Karlsen (@karlsentk) September 2, 2014
(Falcao –>) Extremely humble, well-educated, polite, a real gentleman. He’ll be a great ambassador for Manchester United (5/5)
— Tor-Kristian Karlsen (@karlsentk) September 2, 2014
Þessir leikmenn kostuður okkur samtals um 150 milljón pund. Á móti kemur að ansi margir leikmenn fóru í burtu auk þess sem að stórir launapakkar hjá leikmönnum eins og Evra, Ferdinand, Vidic og Giggs eru farnir. Með risastórum auglýsingasamningum og minnkandi skuldum er ljóst að Manchester United hefur fyllilega efni á þessu og ég sé ekki alveg hvað er vandamálið við að félagið eyði sínum eigin peningum í leikmenn. Það virðist þó fara eitthvað svakalega fyrir brjóstið á stuðningsmönnum annara liða sem þó töluðu margoft fyrir tímabil að þetta United-lið væri alls ekki nógu gott og þyrfti að eyða 200 milljónum í stórstjörnur til þess að eiga einhvern séns á einhverju.
Louis van Gaal hefur þvi tekið hressilega til í hópnum og er búinn að koma með mikil gæði inn og losa félagið við leikmenn sem hreinlega voru ekki nógu góðir. Það er mikill munur á hópnum frá því að hann tók við og eins og staðan er í dag. Það er varla hægt að segja annað en að þessi gluggi hafi verið árangursríkur fyrir Manchester United og Louis van Gaal. Það er athyglisvert að allir þeir leikmenn sem keyptir voru í sumar, að Falcao undanskildum, geta spilað fleiri en eina stöðu sem bíður á mikinn taktískan sveigjanleika. Margir telja að nú munu LvG færa sig í þessa uppstillingu og því lista ég hópinn og þá leikmenn sem hægt er að nota í hverja stöðu í þessari uppstillingu. Hann gæti alveg jafn auðveldlega stillt upp í sína uppáhalds 4-3-3 eða jafnvel haldið sig við 3-4-1-2. Það kemur þó allt í ljós fljótlega.
Það er ekki hægt að kvarta yfir þessu. Jafnframt má fastlega gera ráð fyrir því að bætt verði í eyðsluna í janúarglugganum frekar en hitt. Spennandi tímar framundan.
Ægir says
og því munu leikmenn eins og Danny Blind og Michael Carrick.
Aðeins verið að ruglast á Danny og Daley
Magnús says
Flott grein og fræðandi. Verður gaman að sjá þessa kappa í næstu leikjum.
Tryggvi Páll says
Daley Blind, ekki Danny Blind
Daley Blind, ekki Danny Blind
Daley Blind, ekki Danny Blind
Daley Blind, ekki Danny Blind
Daley Blind, ekki Danny Blind
Spái því að þessi ruglingur muni koma reglulega upp hjá okkur.
Bjarni says
Já það eru spennandi tímar framundan en það verður að sækja 3 stig í næsta leik og byggja ofan á það, ekkert múður. Held áfram með mínar vonir að Ronaldo komi seinna en við þurfum meistaradeildarsæti til þess. Nú eru komnir leikmenn í hópinn sem trekkja að og það er gott upp á framhaldið.
stefan says
Geggjadur pistill, og frabaer uppsettning, elska forgangsrodina a valencia og young. Svona a thetta ad vera. Svo er lika almennileg samkeppni en CB og CDM verda samt orugglega baett vid en tvilik byrjun, spurning lika med annab varnarsinnadan winger eins og cuadrado.
Sigurjón Arthur says
Kærar þakkir fyrir góða grein Tryggvi Páll..virkilega spennandi (og stressandi) tímar framundan hjá okkur :-)
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Mikið rosalega er gaman að lesa svona greinar :) Takk fyrir þetta.
Annars að þá kemur eitt blótandi YES frá mér sambandi við Rojo http://www.433.is/enski-boltinn/marcos-rojo-faer-atvinnuleyfi-og-getur-byrjad-ad-spila/
Ég veit ekki afhverju en ég er svo spenntur fyrir þessum leikmanni, get ekki beðið eftir að sjá hann á vellinum hjá okkur :D
Jóhann Már says
Svona er mitt byrjunarlið, ásamt varaliði, þegar allir eru heilir.
þeas ef þetta HTML dæmi virkar í chattinu.
Jóhann Már says
ok, það virkaði ekki þannig að hérna er linkur á liðið fyrir áhugasama.
http://lineupbuilder.com/2014/custom/?sk=4fx6r
Tryggvi Páll says
Hér er liðið hans Jóhans Más:
Runólfur says
http://lineupbuilder.com/2014/custom/?sk=4fy1q
Ég kann ekkert að birta þetta hér í commenti en ég myndi líklega stilla þessu svona upp með alla heila. Örvarnar á Carrick eru í einhverju tjóni en annars eru restin af örvunum að sýna hvert leikmenn eiga að fara í sókn. Carrick er í liðinu mínu því hann á það einfaldlega skilið – að því sögðu þá veit maður lítið sem ekkert hvernig þessi meiðsli fara með hann en miðjan með Di Maria og Herrera er full „light weight“ fyrir minn smekk svo Carrick bætir smá þyngd + varnar stöðugleika þarna inn í.
Tryggvi Páll says
Hér er liðið hans Runólfs: