Þessi viðureign á síðasta tímabili situr ennþá í mér. Hún fór fram í byrjun desember í fyrra. United var enn í þokkalegri stöðu í deildinni og var að fara að fá leikjatörn sem leit þægilega út á pappír. Það þurfti bara að fara fyrst í gegnum Everton. Everton var að spila vel undir stjórn arftaka David Moyes. Framtíðarfótbolta sem var gaman að horfa á. United var að spila sæmilega undir stjórn arftaka Sir Alex Ferguson. Fortíðarbolta sem var leiðinlegt að horfa á. Ef það var eitthvað sem gat hjálpað David Moyes var það sigur gegn sínu gamla félagi. Það er skemmst frá því að segja að United yfirspilaði Everton í þeim leik en allt kom fyrir ekki, boltinn vildi hreinlega ekki inn þrátt fyrir fjölmörg færi. Auðvitað náði svo Everton að pota boltanum inn á 90. mínútu og hirða alveg einstaklega óverðskulduð þrjú stig. Við þekkjum framhaldið. Þessi Everton-leikur fór hrikalega í taugarnar á mér. Þessvegnar var sigurinn í dag alveg einstaklega sætur.
Louis van Gaal stillti liðinu upp svona
Á bekknum: Lindegaard, Thorpe, Blackett (Shaw – 71′), Fletcher, Fellaini (Valencia – 79′), Januzaj, Wilson (Falcao – 73′)
Everton liðið:
Leikurinn byrjaði afskaplega vel. Það voru ekki 10 mínútur liðnar og United hafði skapað sér tvö mjög fín færi. Bæði komi eftir fínar fyrirgjafir, stundum snýst þetta ekki um magn heldur gæði. Það fyrsta fékk Falcao eftir flotta fyrirgjöf frá Shaw á vinstri kantinum. Falcao náði góðum skalla en Howard gerði mjög vel í því að verja boltann út við stöng. Síðara færið kom eftir fína spilamennsku. Valencia gerði vel í að vinna boltann á miðjunni. Blind kom boltanum á Dí María sem gaf fyrir þar sem Robin van Persie kom aðvífandi en hann mokaði boltanum yfir. Þetta gaf fyrirheit fyrir fyrri hálfleikinn.
United stjórnaði öllu í fyrri hálfleik. Rojo og McNair sáu alfarið um Lukaku. Blind sat aftastur á miðjunni og stoppaði flesta sóknartilburði Everton. Valencia stóð sig vel framanaf og kom mér skemmtilega á óvart í nýrri stöðu á miðjunni. Í sókninni réð svo Ángel di María ferðinni. Þegar hann fær boltann sér maður lappirnar á andstæðingunum byrja að titra. Þegar hann fær boltann gerist alltaf eitthvað spennandi. Auðvitað var það svo hann sem skoraði fyrsta mark United í leiknum. Rafael kom boltanum inn í teig. Falcao tók fjögur mismunandi hlaup á þremur sekúndum, varnarmennirnir eltu hann, boltinn hrökk til Mata sem lagði hann á dí María og Argentínu-maðurinn lagði hann snyrtilega í hægra hornið. 1-0 og hlutirnir litu vel út. Hálftími liðinn.
Eftir markið róuðust hlutirnir aðeins. Everton-menn færðust aðeins í aukana en McNair var einfaldlega með Lukaku í gjörgæslu þannig að Belgíu-maðurinn sem á það til að dómínera varnarmenn sá aldrei til sólar í þessum leik. Þetta var skemmtilegt þar sem að það var augljóst að Lukaku var sagt fyrir leik að hann ætti að herja á McNair. Paddy-kallinn var þó vandanum vaxinn og er líklega ennþá að dekka hann í Everton-rútunni á leiðinni til Liverpool.
Everton-menn fengu þó smá vonarglætu í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Á 45. mínútu hlupu þeir fram í sókn sem endaði með því að Tony Hibbert. Já, Tony Hibbert fékk boltann inn í teig þar sem Luke Shaw braut á honum. Menn voru eitthvað að tala um Shaw hefði náð boltanum fyrst en þegar menn þurfa 3-4 endursýningar til að sjá það er varla hægt að ætlast til þess að dómarinn nái því í rauntíma. Það skipti því engu máli því að David de Gea gerði sér lítið fyrir og varði vítið frá Leighton Baines. Fyrsta vítið sem Baines klikkar á í úrvalsdeildinni og algjör risavarsla fyrir David de Gea sem gekk til leikhlés með Old Trafford að syngja nafnið sitt.
Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum. Everton-menn komust betur inn í leikinn og uppskáru mark á 55.mín. Valencia framdi algjört óþarfa brot á Lukaku vinstra megin á vellinum. Everton-menn tóku nokkuð smart útfærslu á spyrnunni sem endaði með því að Naismith hamraði boltann í netið af stuttu færi. Varnarmenn United voru sofandi og Everton-menn fengu því líflínu í leikinn. Liðin skiptust á að sækja. Falcao fékk dauðafæri eftir góðan undirbúning di María fljótlega eftir Everton-markið en hann var eitthvað stressaður og setti boltann framhjá. Hann var svo mættur í vörnina skömmu seinna og bjargaði á línu eftir skalla frá Jagielka. Falcao hristi þó af sér stressið á 62. mínútu þegar Angel dí Maria tók einn eina skotstoðsendinguna. Hann dúndraði á markið og böltinn hrökk fyrir fætur Falcao sem stýrði boltanum í netið. Hans fyrsta mark fyrir United staðreynd og staðan orðin 2-1.
Luke Shaw virðist vera á sama lýsisskortsmataræði og restin af varnarmönnunum okkar og fór hann meiddur af velli eftir 72. mínútur. Vonandi ekkert alvarlegt en hann benti en van Gaal sagði eftir leik að hann hefði fengið spark í hnéið. Eftir þetta bakkaði United-liðið aðeins og Everton-menn sóttu hart að marki United á lokamínútunum. Því miður fyrir þá var David de Gea búinn að ákveða að fá ekki á sig fleiri mörk og hann lokaði marki sínu alfarið og átti 2-3 stórbrotnar vörslur undir lokin. Síðasta varslan var einfaldlega fáranleg. á 94. mínútu datt boltinn fyrir Oviedo fyrir utan teiginn. Hann náði góðu skoti sem virtist vera að fara að syngja í þaknetinu en ég veit ekki hvernig de Gea náði að teygja sig í þennan bolta. Ótrúleg varsla og nokkuð ljóst að frammistaða hans í dag tryggði stigin þrjú fyrir United.
Þrjú stig því staðreynd í dag. Virkilega flott enda má segja að þetta sé fyrsta alvöru prófraunin á lið Louis van Gaal. Þetta var fyrsti leikurinn gegn liði sem endaði fyrir ofan okkur á síðasta tímabili en eins og frægt er orðið nældum við okkur 5 stig gegn þeim liðum á síðasta tímabili. Ef liðið ætlar sér eitthvað á þessu tímabili þarf að bæta þá stigasöfnun. Það tókst í dag með fínum sigri og liðsmenn United geta farið ánægðir inn í landsleikjahléið áður en að undirbúningur fyrir næstu leiki hefst. Næsti leikur er gegn WBA en svo kom tveir leikir í röð gegn Chelsea og City. Það verður alvöru.
Það er ekki hægt að skrifa þessa skýrslu án þess að minnast á Paddy McNair sem er að koma gríðarlega sterkur inn í þetta. Hann var flottur á móti West Ham og gjörsamlega eignaði sér Romelu Lukaku í þessum leik. Ef þetta heldur svona áfram þurfa þeir félagar Jones, Smalling og Evans að fara að finna sér þægilega stellingu á bekknum.
Svo má heldur ekki sleppa því að minnast á Ángel dí María. Vá. Þvílíkur leikmaður, þvílík kaup. Hann hefur gjörsamlega kveikt í sóknarleik United og það er yndislegt að horfa á hann spila fótbolta. Það er stórhætta í hvert skipti sem hann fær boltann, hann skorar eða leggur upp í hverjum einasta leik, stundum bæði. Loksins, loksins er búið að finna einhvern sem á séns á því að fylla upp í eyðuna sem Cristiano Ronald skyldi eftir árið 2009.
Svo má auðvitað ekki gleyma David de Gea. Hann vann þessi stig hérna í dag. Hann er búinn að hrista flesta gagnrýnendur sína af sér en það eru einhverjar eftirlegukindur eftir sem hanga á síðasta hálmstráinu um að hann vinni aldrei nein stig fyrir United. Jæja, hann gerði það svo sannarlega í dag. Vonandi geta menn nú hætt þessu rugli og séð að David de Gea er einfaldlega einn af bestu markmönnunum í þessari deild og þó víðar væri leitað.
https://www.youtube.com/watch?v=duVST_xXnn0
Betur má ef duga skal en þetta var flottur stökkpallur fyrir framhaldið.
sveinbjorn says
Sérstakt að velja Fletcher sem varafyrirliða en spila honum ekki þegar fyrirliðinn er meidddur, og það er pláss fyrir hann í liðinu.. Ekki það að ég kvarti yfir því.
Annars lýst mér vel á liðið.. Eigum að öllu jöfnu að vinna, en maður veit aldrei með United í dag.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Kom mér á óvart að sjá Valencia þarna en vá hvað mér finnst alltaf jafn gaman að sjá sókina okkar, hún er geggjuð þó að það vanti Rooney
ellioman says
Ekki beint sterkasti bekkur sem United hefur haft í gegnum árin. Þetta verður erfiður leikur. Vonandi náum við að spila í sókn allan tímann :)
Björn Friðgeir says
Flott að sjá Wilson á bekknum, en maður spyr sig. Hann fór meiddur útaf í U21 í vikunni
Krummi says
De Gea MOTM
DMS says
Mjög góður sigur gegn fínu Everton liði. Gaman að sjá Falcao komast á blað, tekur aðeins pressuna af honum. Di Maria heldur áfram að spila vel og Mata með gott assist í fyrsta markinu. Ekki slæmt að eiga mann eins og hann til taks í fjarveru Rooney. En fjandinn hafi það, David De Gea á þennan sigur! Þessar vörslur hjá honum undir lokin voru bara í ruglinu. Varðandi vítaspyrnuna þá fannst mér Shaw fara í boltann fyrst en De Gea sá auðvitað um að redda þessu bara, eins og öllu öðru í dag.
Hver sagði svo að United hefði selt sálu sína með sölunni á Danny Welbeck? Í dag voru McNair, Blackett og Wilson að spila.
Siggi says
3 stig eru eina það sem skiptir máli en og aftur er liðið samt langt í frá sanfærandi og DeGea bjargaði að þetta hefði dottið niður í 1 stig eða jafnvel 0 stig.
Hjörtur says
Jæja þá andar maður léttar eftir þennan leikinn. De Gea bjargaði heldur betur þremur stigum í höfn. Vonandi verður áframhald á þessu, og menn fari nú að hætta að meiðast, þetta er orðið einum of hvað meiðsli varðar. En ekki get ég skilið hvers vegna RM seldi Di María þennan frábæra leikmann, en til allra lukku náði Utd að krækja í kappann.
eeeeinar says
Di Maria og De Gea mínir menn leiksins. Þvílík björgun frá De Gea þarna í lokin! Úff, síðustu 10 mínúturnar voru alltof shaky – Annað mark lág í loftinu hjá Everton. Everton eru mun sterkar en taflan sínir, trúi ekki öðru en þeir endi í 5-7 sæti.
Það var frábært að sjá McNair á móti Lukaku. Virkilega sterkur og steig hann margoft út.
Gísli G. says
Í hádegismat át ég ofan í mig það sem ég sagði um Rafael fyrir hálfum mánuði síðan. Ég var eitthvað pirraður út í hann þá en hann var góður í þessum leik og mjög góður í leiknum á móti West Ham líka. Held að ég sé bara búinn að öðlast trú á drengnum aftur :-)
En De Gea ótrúlegur í þessum leik… klárlega maður leiksins. Hvað er hægt að segja um þessar markvörslur hjá honum ? Með sama áframhaldi verður hann besti markvörðurinn á jarðarkringlunni. Það er nú bara þannig.
Di Maria rosalega góður en það er eins og hann fari aðeins út þegar líður á leikina. En 3 stig í höfn í dag og það er fyrir mestu. Vonandi verðum við komnir í fantaform þegar við förum að mæta enn sterkari liðum.
Bragi Skafta says
Roberto Martínez er eins og stendur í símanum við Paddy McNair að grátbiðja hann um að skila Lukaku. Hann ku vera fastur í vasanum á McNair.
Viðar Einarsson says
Flottur sigur hjá okkar mönnum!
Hefði samt verið til í að sjá Persie fara útaf en ekki Falcao fyrir Wilson þar sem hann var á gulu spjaldi og líka bara að leyfa Falcao að klára heilan leik.
elmar says
Úff annar leikurinn í röð sem maður getur varla horft á fyrir stressi. Stigin 3 kærkomin og de gea algjörlega magnaður! Ber reyndar gríðarlega virðingu fyrir everton og sömuleiðis Martines og vona að þeir nái að klífa eitthvað upp töfluna ì næstu leikjum.
Ingvar says
@ Viðar Einarsson:
Sammála þessu, mér fannst persie búinn að vera lélegur í þessum leik og átti alls ekkert skilið að fá að klára hann. Falcao hinsvegar var búinn að vera virkilega öflugur og ótrúlega duglegur, bæði í vörn og sókn. Ætli van gaal sé ekki bara hræddur við að styggja hollenska fílupúkann.
Rauðhaus says
Einkunnir:
DDG – 9: Algjör heimsklassa frammistaða. Vann einn síns liðs amk tvö stig fyrir okkur í dag. MOM.
Rafael – 6: Nokkuð solid leikur hjá honum. Nokkur skipti sem hann hefði mátt krossa betur en heilt yfir fínn.
McNair – 6: Ótrúlegt hversu vel hann er búinn að spila þessa tvo leiki! Var með Lukaku í vasanum.
Rojo – 6: Spilaði ágætlega en mér finnst hann stundum á tæpasta vaði með sendingar úr vörninni.
Shaw – 5: Var í smá basli á köflum en jafnframt hættulegur fram á við. Óheppinn með meiðsli.
Blind – 7: Hefur komið sterkur inn í liðið. Gerir hlutina einfalt og tekur réttar ákvarðanir með boltann.
Valencia – 8: Hans besti leikur árið 2014? Maður sá alveg hvernig liðið dalaði þegar hann fór út af.
Di Maria – 9: Hvað er hægt að segja? Yfirburðamaður leik eftir leik.
Mata – 6: Bjóst við meiru frá honum. Skilaði þó ágætum leik, með assist o.s.frv. Getur samt miklu betur.
Falcao – 6: Skoraði markið sem hann þurfti svo mikið á að halda. Opið fyrir flóðgáttir?
RvP – 5: Vonbrigði. Hélt hann væri að ná sér á strik eftir góðan leik gegn WH. Virkar enn þungur.
Varamenn:
Blackett – 7: Kom sterkur inn og bjargaði frábærlega rétt áður en DDG átti vörslu tímabilsins so far.
Fellaini – 6: Það er eitthvað að þegar maður er mikið downgrade frá Antonio Valencia.
Wilson – 6: Ekki slæmur, ekki góður.
Cantona no 7 says
Góður sigur og liðið á réttri leið.
G G M U
Hjörtur says
Það vantar hjá liðinu að halda dempóinu út allan leikinn, fyrri hálfleikur í undanförnum leikjum hefur verið frábær, en svo dalast allt í þeim seinni. Ég er búinn að halda þeirri skoðun hjá mér, og upplýsi hana nú, að klárlega hefði átt að halda Welbeck frekar en RVP því hann er bara ekki að gera nógu góða hluti fyrir liðið að mínu mati. Welbeck aftur á móti ungur leikmaður duglegur fljótur, og á eflaust eftir að blómstra í framtíðini. Já ég hefði frekar viljað sjá Welbeck í liðinu en RVP.