Við erum alltaf að tala um þá leikmenn sem gengu til liðs við félagið í sumar. Eðlilega. Þegar leikmenn fara frá United tekur maður kannski eftir þeim þegar það er minnst á þá en maður fylgist ekkert með þeim af viti. Nema auðvitað John O’Shea. Honum fylgist ég grannt með.
Til þess að skapa pláss fyrir alla leikmennina sem komu í sumar þurftu nokkrir að fara. Nani var einn af þeim og fregnir herma að hann hafi verið skiptimynt í kaupunum á Marcos Rojo frá Sporting. Við fengum Rojo, þeir fengu Nani á láni og fullt af pening til þess að borga launin hans. Já, við erum ennþá að borga launin hans og miðað við að hann fékk glænýjan samning fyrir einu ári síðan má gera ráð fyrir því að þau séu þokkaleg.
Nani var líklega kominn á einhverja endastöð hjá United. Hann tók þátt í 12 leikjum á síðasta tímabili og 15 leikjum tímabilinu á undan því. Maður var orðinn svolítið þreyttur á honum enda er Nani mest pirrandi leikmaður í sögu allra þeirra sem hafa spilað knattspyrnu. Þetta frábæra mark gegn Arsenal er eins Nani-legt mark og hægt er að skora. Í þessu krystallast Nani sem knattspyrnumaður:
Óutreiknanlegur, fáranlega hæfileikaríkur en með ákvarðanatöku á við mann sem er á 12. bjór klukkan korter í 4 á Ellefunni. Spáið aðeins í þessu marki. Hann gerir allt fáranlega vel, er í frábærri stöðu með þrjá leikmenn fyrir framan markið en hann ákveður að VIPPA YFIR MARKMANNINN. Nani er svona 5 sentimetrum frá endalínunni. Gjörsamlega óskiljanleg ákvörðun en sem betur fer var Manuel Almunia ekki mikið betri markmaður en Massimo Taibi.
Nani kom með þetta óútreiknanlega sem gerir fótboltann svo skemmtilegan en því miður fyrir hann virtist hann ekki alveg geta reiknað allar stöður á vellinum alveg til enda. Ég meina, hvaða annar leikmaður í heiminum er fær um álíka heimsku og þetta:
Síðustu tímabilin var þetta sá Nani sem könnuðumst við. Pirrandi og lélegur. Langt frá því að vera einn af bestu leikmönnum deildarinnar eins og hann var tímabilin 2010/2011 og 2011/2012. Fyrra tímabilið var hann í liði ársins, valinn besti leikmaður United, var stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar og skoraði 9 mörk. Það voru hann og Dimitar Berbatov sem drógu vagninn og tryggðu okkur Englandsmeistaratitilinn með frábærum frammistöðum yfir tímabilið. Tímabili 2011/2012 var hann á listanum yfir þá leikmenn sem komu til greina til að vinna Ballon d’Or, Hann var einnig með 10 stoðsendingar og 8 mörk þrátt fyrir að spila ekkert vegna meiðsla frá 22. janúar til 15. apríl.
Kannski var hugmyndin með því að lána hann til Sporting að reyna að endurlífga þennan Nani. Kannski voru menn bara æstir í að fá Marcos Rojo. Maður veit það ekki en Nani hefur verið að spila ágætlega með Sporting. Deildin er vissulega slakari en enska deildin en Nani er þó að spila í Meistaradeildinni sem er meira en allir leikmenn United geta sagt. Það er þar sem hann er að standa sig hvað best. Hann var af einn af bestu mönnum liðsins þegar það lagði Schalke 4-2 í síðustu umferð og Nani er nú kominn með þrjú mörk í fjórum leikjum og eina stoðsendingu. Í deildinni er hann með tvö mörk í 9 leikjum. Samtals er hann því með 5 mörk í 13 leikjum sem er bara ljómandi fínt fyrir kantmann.
Á sínum degi er Nani miklu betri en Ashley Young og Antonio Valencia á köntunum. Fjandinn hafi það, á sínum degi er Nani einn af bestu leikmönnunum í deildinni eins og hann sýndi tvo tímabil í röð fyrir ekki svo löngu. Hann er á splunkunýjum fimm ára samningi hjá United og er að finna sig aftur hjá Sporting. Kannski það væri ekki það versta að senda eftir kallinum í janúar-glugganum? Sérstaklega ef Louis van Gaal ætlar að halda sig við leikkerfið sem hann hefur notað í síðustu leikjum.
[poll id=“13″]
Þess þarf þó að geta að það er alls ekki víst að það sé hægt. Í fyrsta lagi gæti verið einhver klásúla í lánssamningnum um að það sé ekki hægt að endurkalla hanna. í öðru lagi gæti það verið vesen eins og einhverjir hafa haldið fram. United gæti t.d. þurft að borga einhverskonar skaðabætur fyrir að fá hann fyrr en ætlað var. Það er þó ómögulegt að spá fyrir hvað samningurinn á milli Sporting og United segir um þessi mál. Kannski er vel mögulegt að fá Nani og kannski er það ómögulegt. Tíminn leiðir það einn í ljós. En þó að möguleikinn væri fyrir hendi er ekkert víst að Nani vilji koma heim fyrr en áætlað var, honum líður vel hjá Sporting.
Friðrik says
Ég held samt að Nani sé ekkert rosa hrifinn af Van Gaal. Ég man í einum æfingaleiknum í sumar þá setti hann Nani inná í hálfleik og tók hann svo útaf á 60.minótu
Jón Þór Baldvinsson says
Æji leyfum honum bara að vera hjá sporting. Eins og Friðrik bendir réttilega á þá er góð ástæða fyrir að hann var lánaður burt. Og ef hann fýlar sig hjá sporting og spilar vel eru meiri líkur að við fáum meiri aur fyrir gaurinn sem við getum notað í að laga vörnina. Hann hefur sýnt undanfarin 2 ár að hann hefur engann áhuga á að spila vel fyrir klúbbinn og á köflum á undirbúningstímabilinu sást greinilega hvað hann var viljalaus og áhugalaus. Við vitum vel að hann getur spilað vel sem leiðir líkum á að hannn sé viljandi að spila illa til að losna. Farið hefur fé betur, látum hann bara eiga sig.
DMS says
Finnst aðrar stöður á vellinum mikilvægari. Þó hann hafi átt sæmilegan sprett hjá Sporting núna undanfarið er ekkert sem segir okkur það að hann muni finna sig aftur hjá United. Leyfum honum að klára seasonið í Portúgal, næsta sumar má endurmeta stöðuna. Ef Van Gaal vill tempó og hratt spil í leik United, þá þarf Nani sérkennslu í því hvenær skuli losa boltann strax og hvenær skuli taka menn á eða hægja á leiknum. Alltof oft sem kauði var bara í því að fá boltann á kantinum og gera einhverjar skæraæfingar yfir boltann í kyrrstöðu fyrir framan varnarmanninn.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Er fólk búið að gleyma hvað allir voru orðnir pirraðir á honum undir lokin? Ég tel réttara að gefa einhverjum yngri sénsinn frekar en að kalla hann inn.
Snorkur says
Nani er að mínu mati ekki svarið .. ég er bara búinn að pirra mig á honum of oft :P
Persónulega vona ég að hann nái að hækka verðmiða sinn svo við fáum aukakrónur fyrir vörnina Það er hægt að rótera mun meira framarlega á vellinum en nú er gert og ekki viljum við (ég) að Mata fari að fá enn færri mín. á vellinum.
Ekki má heldur gleyma því að það verður ekki ódýrt að yngja upp sóknina okkar .. og þó það sé ekki eitthvað sem þörf er á núna þá styttist verulega í það.
Það er spennandi uppbygging framundan og mitt atkvæði fellur ekki með því að reyna að rífa upp leikmenn sem hafa verið í langri lægð… en ef af verður, er svo sem sama sé hvaðan gott kemur:)