Til að byrja með vill ég benda öllum á að lesa leikskýrsluna hér að neðan eftir frækinn sigur liðsins gegn Liverpool í gær. Einnig vill ég taka fram að þessi grein var í raun rituð fyrir Liverpool leikinn en uppfærð með smá tölfræði úr honum. En að greininni sjálfri … :
Tímabilið 2005/2006 lenti Manchester United í 2.sæti í ensku Úrvalsdeildinni. Heilum átta stigum á eftir Chelsea. Liðið datt út gegn Liverpool í 5. umferð FA bikarsins og mistókst að komast upp úr vægast sagt auðveldum riðli í Meistaradeild Evrópu. Liðið vann vissulega Deildarbikarinn en fyrir titla þyrsta stuðnigsmenn liðsins var það ekki nóg. Flestir reiknuðu með að Sir Alex Ferguson myndi rífa upp veskið enda Chelsea vægast sagt óárennilegir á þessum tíma. Ferguson, ekki í fyrsta skipti, kom öllum á óvart. Hann keypti einn leikmann sumarið 2006 (kannski var hann upptekinn að horfa á HM?). Ég endurtek, EINN. Sá leikmaður var ekki Pirlo, ekki Gattuso, ekki Seedorf, ekki Gerrard, ekki van Bommel. Þessi leikmaður sat sem fastast á bekknum hjá Englendingum yfir sumarið.
Sá leikmaður var Michael Carrick, enskur miðjumaður frá Tottenham. Ekki beint þessi glamúr, spennandi, S-Ameríski leikmaður sem allir vilja heldur hljóðlátur breskur leikmaður sem hafði verið tvö tímabil hjá Tottenham og þar áður West Ham. Á þessum tveimur tímabilum hafði hann spilað 68 leiki, skorað tvö mörk og lagt upp 12 mörk. Ekki beint leikmaðurinn sem United þurfti til að rífa sig upp eftir þrjú titlalaus ár, eða hvað?
Tímabilið 2006/2007 reyndist besta tímabil United í heil þrjú ár. Liðið vann deildina með sex stiga mun, komst í 4-liða úrslit í Meistaradeildinni og alla leið í úrslitaleik FA bikarsins. Því miður tapaði liðið fyrir AC Milan í Evrópu og Chelsea í FA. Mikilvægi Carrick enduspeglast ef til vill best í því að hann byrjaði alla leiki liðsins í Meistaradeildinni og FA bikarnum (19 leikir samtals). Ásamt 33 leikjum í deild (kom inn á sem varamaður í fjórum leikjum). Hann skoraði fimm mörk og lagði upp fjögur. Næsta tímabil var ennþá betra. Liðið vann deildina, vann Meistaradeildina og komst í sjöttu umferð FA bikarsins (á einhvern ótrúlegan hátt tapaði liðið fyrir Portsmouth sem endaði á því að lyfta dollunni).
Carrick byrjaði þó tímabilið frekar hægt en United byrjaði tímabilið einstaklega illa (sem hefur svo sem gerst áður og síðan), hann endaði þó með 31 leik spilaðan í deild (7 sem varamaður), spilaði alla leikina í Meistaradeildinni og þrjá leiki í FA bikarnum. Þegar kom að „squeaky bum time“, eins og Sir Alex kallaði oft lokahlutann á tímabilinu þá byrjaði Carrick hvern einasta leik. Barcelona; heima og úti, Roma; heima og úti, Arsenal og Chelsea í deildinni – Í apríl spilaði hann níu leiki og kláraði alla nema einn. Yfir allt tímabilið lagði hins vegar aðeins upp tvö mörk og skoraði þrjú.
Eftir þriggja ára titlaleysi og leiðindi á Old Trafford var United aftur komið þar sem það átti að vera. Þeir voru að spila frábæran sóknarbolta og menn eins og Rooney, Ronaldo og Bolabíturinn (hann verður ekki nefndur á nafn hér) voru að brillera. Einnig höfðu kaupin á Hargreaves, Nani og Anderson fyrir tímabilið ekki skemmt fyrir en á einhvern ótrúlegan hátt tókst Carrick alltaf að vera skilinn útundan. „Hann skorar ekki“, „Hann leggur ekki upp“, „Hann gefur bara til hliðar og til baka“ voru setningar sem heyrðust í sífellu þegar Michael Carrick var ræddur. Málið er einfaldlega að Carrick er engin stórstjörnutýpa og virðist aldrei hafa sóst eftir því.Einnig spilar inn í að þegar hann kom til Manchester United þá var hann að spila á miðjunni með manni að nafni Paul Scholes ,sá hinn sami er talinn einn sá besti (ef ekki sá besti) miðjumaður síns tíma. Það var því mjög eðlilegt fyrir Carrick að gefa boltann einfaldlega á Scholes þegar tækifæri gafst.
Þetta er er þó gífurleg einföldun þar sem Michael Carrick er einstaklega góður fótboltamaður og þá sérstaklega í þeirri list sem felst í því að halda boltanum innan liðs en til þess þarftu að vera alltaf laus, geta tekið við og losað boltann frá þér undir pressu og fleiri skemmtilega hluti sem fela ekki í sér að skora eða leggja upp. Það virðist skipta litlu máli hvort hann spilar sem hafsent eða sem miðjumaður, hann er alltaf með í kringum, eða yfir, 90% af heppnuðum sendingum. Í gær var Carrick til dæmis með 94% heppnaðar sendingar og það í stöðu sem hann spilar mjög sjaldan. Til að setja þetta í betra samhengi þá voru mennirnir í kringum hann ekki nálægt þessari tölfræði. Jonny Evans var með 73% heppnaðar sendingar, Phil Jones með 84%, Marouane Fellaini 81% og Wayne Rooney 84%. Einu leikmennirnir sem komust nálægt Carrick í gær voru Juan Mata með 91% og Antonio Valencia með 93% (Mest sjokkerandi tölfræði leiksins). Verandi með hollenskan þjálfara sem elskar að halda boltanum mætti því áætla að Carrick sé lykilmaður í öllum hans plönum, ekki skemmir að United hefur unnið alla sex leikina sem Carrick hefur startað. Og svo er þetta ágætis tölfræði líka (var tekin saman fyrir Southampton leikinn að ég held)
Þetta dömur mínar og herrar, er alls engin tilviljun. Þetta köllum við „Gæði“ á gamla góða ylhýra. Ég persónulega geng svo langt að kalla Carrick mikilvægasta leikmann liðsins síðastliðin 6-7 ár. Það er rosalega erfitt að dæma hann út frá því að horfa á leiki í sjónvarpinu því leikurinn hans er ekki beint sjónvarpsvænn ef svo má að orði komast. Hér má svo sjá Gary Neville segja svona um það bil það sama :
https://www.youtube.com/watch?v=XDgAC2dQfqM
Tölfræðin Michael Carrick talar svo sínu máli. Frá því hann kom til liðsins 2006 hefur hann spilað 365 leiki fyrir félagið, skorað í þeim 22 mörk og lagt upp 26. Á þessum tíma hefur hann unnið Ensku Úrvalsdeildina Fimm sinnum. Ásamt því hefur hann unnið Heimsmeistarakeppni Félagsliða, Meistaradeild Evrópu, Deildarbikarinn og Góðgerðaskjöldinn (þeir telja það með á manutd.com) fjórum sinnum. Ásamt þessu þá hefur Carrick tvisvar verið í tapliði í úrsitaleik Meistaradeildar Evrópu (ég er ennþá í fýlu út í Barcelona) og einu sinni hefur hann verið í tapliði í úrslitum FA bikarsins. Að lokum er einn persónulegur titill sem mig grunar að Carrick haldi hvað mest upp á. Þau fékk hann fyrir tímabilið 2012/2013 – fyrsta tímabil Robin van Persie með liðinu. Þegar það tímabil er rætt þá er talað um að Persie hafi unnið deildina „einn síns liðs“ – leikmenn Manchester United voru allavega ekki sammála því og völdu Carrick sem „Player´s Player of the Year“.
Endum þetta svo á Youtube myndbandi af árinu hans Carrick:
https://www.youtube.com/watch?v=G1WxIDmv-Ak
Steinar says
Það er mikið til í þessu. Ferguson var svo above and beyond eins og þeir segja í allir sinni hugsun. Hann hefur alltaf lofsamað Carrick þegar aðrir tala um að það vanti miðjumann. Herrera og carrick gætu myndða frábæra miðju saman.
Helgi Bárðarson says
Minn maður allan daginn alltaf….
en hvernig er það, eru fleirri en ég að lenda í vandræðum með greinar hérna á þessari síðu þegar þær eru lesnar í gegnum google Chrome? Vantar iðulega setningar inní og allt verður gjörsamlega samhengislaust…
Audunn Sigurdsson says
Carrick hefur verið einn af mínum uppáhalds leikmönnum United síðan hann kom og ég man eftir að hafa varið hann með kjafti og klóm á spjallsíðum fyrir nokkrum árum.
Það voru margir stuðningsmenn United sem vildu hann burt á sínum tíma, ég vill hinsvegar meina að það séu menn sem skilja ekki knattspyrnu almennilega.
Menn sem sjá bara stjörnur í þeim sem skora mörk og verja víti, en gleyma hinum hlekkjum liðsins.
Ég hef alltaf heillast mikið af leikmönnum eins og Carrick, Blind, Matic ofl
þetta eru mennirnir sem eru að vinna þessa skíta vinnu inn á vellinum og fá oft ekki það hrós sem þeir eiga skilið, held reyndar að þeim sé nokk sama.
Það er gríðarlega mikilvægt og nánast algörlega nauðsinlegt að hafa svona menn innanborðs ætli lið sér að ná árangri.
Carrick á ennþá eitthvað eftir og svo eigum við Blind sem ég hef mikla trú á í þessu hlutverki líka.
Hann þarf tíma til að aðlagast, ekki amalegt fyrir hann að æfa með manni eins og Carrick, er viss um að hann muni læra alveg heilan helling af honum..
Runólfur Trausti says
Ég veit ekkert um Google Chrome vandamálið en hef spurt aðra meðlimi ritstjórnar um þetta.
En annars er ég sammála því að Carrick hafi fengið ósanngjarna gagnrýni (oftar en einu sinni) og ótrúlegt hvernig landsliðsþjálfarar Englands hafa horfið framhjá honum. Svo vona ég að hann skóli Blind eins vel til og hann geti – þá ættum við ekki að hafa of miklar áhyggjur þegar hann hættir.
Svo ef menn vilja má hér lesa Didi Hamann segja um það bil það sama og greinin hér að ofan (greinin hér að ofan var þó skrifuð á undan): http://www.bbc.com/sport/0/football/30472067
Kv. RTÞ
Sigurjón says
Helgi Bárðarson, nú hef ég aldrei lent í þessu veseni áður með Chrome (né neinn af okkur pennum hér sem eru að nota Chrome). Ef þú gætir hent skjáskoti á mig á sigurjon@sigurjon.com með þessu vandamáli þá væri það vel þegið! Takk!
Keane says
Carrick er frábær leikmaður og gríðarlega mikilvægur uppá svo margt að gera. Alltaf minna stress þegar hann er inná.
Halldór Marteinsson says
Carrick hefur verið í miklu uppáhaldi lengi og þeir eru varla margir, ef nokkrir, sem komast uppfyrir hann ef valinn væri vanmetnasti leikmaður úrvalsdeildar frá stofnun hennar.
Hann er gæinn sem auðveldar störf samherja sinna, bæði í vörn og sókn. Gæinn sem lætur hina leikmennina í kringum sig líta betur út.
Emil says
Góð grein Runni – Carrick er og hefur alltaf verið ótrúlega mikilvægur þessu liði. Við erum alltof oft hauslausir á miðjunni þegar að Carrick er ekki með, sérstaklega þegar Scholes hætti að vera fastamaður í liðinu. Þetta minnir mig smá á Makalele þegar Chelsea var að vinna sína titla 2005 og 2006, þó hann og Carrick séu mjög ólíkir leikmenn. Hann sást ekki alltaf í leikjum en hann var akkerið á miðjunni.
Varðandi Chrome vesen. Ég lenti í þessu á Windows 7 í vinnutölvunni minni og var alltaf að leita að uppfærslum en það kom ekkert. Endaði á því að henda Chrome bara út og downloada aftur og það virkaði.