Fyrsta helgin í janúar þýðir aðeins eitt: Þriðja umferðin í ensku bikarkeppninni.
Það er af sem áður var að þetta var einn af stærstu dögum leiktíðarinnar, dagurinn þegar litlu liðin mættu stóru liðunum, dagurinn þegar dagurinn utandeildarlið sem hafði leikið allt að átta leiki til að komast í þriðju umferð fékk tækifærið á stóra sviðinu, Dagurinn þegar risar titruðu og litli maðurinn, rafvirkinn, múrarinn og skrifstofublókin stóðu andspænis landsliðsmönnunum með sama markmið í sama leik.
Þetta er dagurinn sem átt er við þegar talað er um rómantík bikarsins. Aldursforsetinn í ritstjórninni man eftir því þegar það var en nú er vissulega aðeins farið að falla á silfrið. Sigur í bikarkeppninni er ekki lengur það bjargræði sem hann var í eina tíð, skínandi merki þess að þrátt fyrir að allt hafi farið í steik í deild þá sé nafn Manchester United enn einhvers virði.
Og þó. Og þó.
Enn í dag skiptir þriðja umferð bikarkeppninnar máli. Það er enn þannig að draumar rætast stöku sinnum á þessum degi, það eru enn smá glæður í rómantíkinni. Og það er nú allt í einu aftur þannig að sigur í bikarkeppninni myndi setja flottan endapunkt á tímabil Manchester United.
Ellefu ár
Í vor verða ellefu ár liðin frá síðasta sigri Manchester United í bikarkeppninni og ég eins og fleiri segi að það sé allt of langur tími.
Í hópnum í dag er aðeins einn bikarmeistari, Darren Fletcher og það verða ekki mörg tímabilin í viðbót þar sem hann verður með. Við vitum öll hvernig fór í deildarbikarnum og það er ekki hægt að kvarta undan leikjaálagi fram á vor.
Þess vegna segi ég: Vinnum þennan bikar!
Andstæðingarnir á morgun
Yeovil Town var í áraraðir eitt af stóru litlu nöfnunum á Englandi. Í þá tíð þegar deildakeppnin var harðlokuð nema formenn félaganna kysu inn nýtt lið, á kostnað eins úr hópnum, var „utandeildarlið“ utandeildarlið sama hversu hátt liðið hefði hugsanlega getað náð í deildunum.
Yeovil Town átti frægð sína sem bikarlið fyrst og fremst að þakka góðum árangri í bikarkeppninni 1948-9. Þeir slógu út Sunderland, en mættu síðan bikarhöfum Manchester United sem reyndust ofjarlar þeirra. Rúmlega 81 þúsund manns troðfylltu Maine Road, tímabundinn heimavöll United á þeim árum, og sáu Jack Rowley, einn mesta markaskorara allra tíma hjá United, skora fimm mörk í átta-núll sigri.
Svo skemmtilega vill til að á morgun verður einn stuðningsmaður United á vellinum sem sá þennan markaleik fyrir tæpum sextíu og sex árum síðar. John Butterfield, „Old John“ er orðinn 81 árs gamall, skammtímaminnið lélegt en er enn fastagestur á leikjum United. Hann hefur til að mynda ekki misst úr nema tvo Evrópuleiki á útivöllum síðustu fimmtán árin. Gamla manninum þætti ekkert leiðinlegt að sjá svipuð úrslit á morgun!
Leikurinn 1949 var reyndar í annað sinn sem Yeovil tapaði fyrir United í bikarnum, fyrra skiptið var í þriðju umferðinni 1938. Eftir þessi bikarafrek Yeovil 1949 var svo sem ekki oft sem þeir gerðu stóra hluti, en engu að síður var nafn þeirra ætið sveipað ákveðinni dulúð, það vildi ekkert neðri deildarlið lenda gegn þeim í fyrstu umferð bikarsins. Yeovil sló út 17 deildarlið á utandeildarárunum en í þriðju umferð komust þeir ekki aftur fyrr en 1988. Þá var liðinu farið að ganga betur eftir nokkur slök ár og svo fór á endanum að 2003 komst Yeovil Town loks upp í fjórðu deild, eða þriðju deild eins og hún hét þá. Síðan þá hefur liðið að mestu haldið sig í þriðju deild, nei ég meina C-deild, nei ég meina League One, þar til í fyrra að þeir spiluðu loks í Championship deildinni. Það reyndist of stór biti og liðið varð langneðst og er nú komið á sinn „rétta stað“ í League One. Þar blæs þó ekki byrlega fyrir þeim og þeir sitja í neðsta sæti og hafa tapað síðustu þrem leikjum sínum.
Það á því að vera léttur leikur í vændum á morgun þegar United ferðast til Somerset í vestur Englandi. Knattspyrnuáhugamenn í Somerset eiga ekki um auðugan garð að gresja, sýslan er fámenn, aðeins tæp milljón manns á stóru svæði og Yeovil er eina deildarliðið í sýslunni.
Heimavöllur Yeovil, Huish Park tekur 9.565 manns og eins og gefur að skilja er uppselt á leikinn.
Lið United
Og þá er loks komið að því að ræða aðeins lið United. Við vitum hvernig fór gegn MK Dons í ágúst síðastliðnum. Þá var stutt frá síðasta leik og Louis van Gaal gaf ýmsum leikmönnum séns. Af þeim eru tveir seldir frá félaginu, Welbeck og Kagawa og þeir Marnick Vermijl, Michael Keane, Nick Powell og Javier Hernandez voru sendir í lán. Anderson fékk séns sem varamaður í leiknum á eftir og síðan ekki meir og Saidi Janko og Reece James hafa ekki komið nálægt aðalliðinu síðan.
Þannig að jafnvel þó að Van Gaal feginn vildi þá munum við ekki sjá lið á morgun sem er neinu líkt þessu liði fyrir fjórum mánuðum. Hann hefur verið að segja fyrir leikinn að hann vilji sannarlega vinna bikarinn og því býst ég við frekar sterku liði. Það eru leikmenn að koma inn úr meiðslum sem þurfa leiktíma og það verður prýðilegt að sjá þá á morgun. Þá er auðvitað fyrst og fremst að vona að Ángel di María sé leikfær. Januzaj og Wilson eru klárlega að fá tækifæri á morgun til að sýna hvað þeir geta.
Eftir meiðsli Valencia og Young er held ég alveg ljóst að við förum að spila með fjóra varnarmenn í næstu leikjum og nauðsynlegt að nota þennan leik til að slípa það. Shaw og Rafael fá að spila sig í form og líklega fá Evans og Smalling að hvíla.
Ég beiti óskhyggju og ákveð að ástæðan fyrir að Falcao fór útaf á fimmtudaginn hafi verið til að hvíla hann fyrir þennan leik sem eigi að koma honum enn frekar í form. Nick Powell er kominn til baka úr láni og það gæti verið að hann fari beint inn en ég tel það verulega ólíklegt.
Staðan er síðan einfaldlega sú að þrír miðjumenn eru meiddir og ef valið stendur á milli Fletcher og Carrick held ég að Carrick verði einfaldlega hvíldur.
Svo er alveg eins líklegt að Ben Amos eða Lindegaard fari í markið.
En þetta eru algerar getgátur og ég tel hreinlega ólíklegt að ég sé að giska rétt. Það kemur í ljóst á morgun, leikurinn hefst kl. 15:30
DMS says
Ef allt er eðlilegt munu Jones eða Rafael sennilega meiðast í þessum leik. Líst engu að síður vel á þetta byrjunarlið. Falcao þarf leiki til að komast betur í gang…og sennilega nokkrar sprengikraftsæfingar inn á milli.
Björn Friðgeir says
DMS: „eða“?
Björn Friðgeir says
Nýjasta nýtt er að Daley Blind gæti verið orðinn nógu góður til að vera á bekknum á eftir.
Svo gleymdi ég auðvitað því að Herrera á að vera kominn´i gang. Hann kemur þá í það minnsta inná á eftir eða byrjar jafnvel
Egill says
Frábæe upphitun að vanda, en Fletcher er ekki eini bikarhafinn í liðinu, Mata vann bikarinn með Chelsea.
En núna er tækifæri fyrir Wilson og Januzaj til að sýna að þeir geti eitthvað, þeir hafa enn ekki sýnt neitt sem réttlætir að þeir fái að spila með aðalliðinu, ef þeir nýta tækifærið ekki núna mega þeir hanga lengur með varaliðinu eða fara á lán.
kjartan tryggvason says
kjartantr
Þeir sem hafa orðið bikarmeistarar eru: 2004 Darren Fletcher, 2005 Robin van Persie,
2012 Juan Mata og 2013 Ángelo Henriques með Wigan en sat að vísu á bekknum allan
leikinn, en hann er auðvitað ekki í hópnum þar sem hann er í útláni. Þá má geta þess að Fletcher var skipt útaf í leiknum fyrir Nicky Butt sem þar lék sinn síðasta leik fyrir Man Utd.
Gleðilegt og vonandi sigursælt ár góðir United aðdáendur.
Cantona no 7 says
Held að RVP hafi ekki orðið bikarmeistari,en verður það vonandi í vor.
Er sammála að Wilson og Januzaj verða að fara að sýna að þeir séu framtíðarmenn.
G G M U
kjartan tryggvason says
Jú RVP hefur orðið bikarmeistari með Arsenal í leik á móti United
kjartan tryggvason says
Leikurinn fór fram 21. maí 2005 og endaði 5-4 í vítaspyrnukeppni og skoraði RVP úr
3. vítaspyrnu Arsenal.
Atlas says
Liðið er komið inn á Soccernet.
De Gea
Smalling-McNair-Blackett
Rafael-Shaw
Herrera-Fletcher-Rooney
Falcao-Wilson
Bjarni Ellertsson says
hehe, vörnin höndlar ekki smá pressu frá hálfatvinnumönnum, hef enga trú á að þessi leikur fari vel, er annar leikur ef þetta fer jafntefli? Annars alveg típýskur UTD leikur gegn neðri deildar mótherjum, gömul saga og ný.
Bjarni Ellertsson says
Er snillingur Evans kominn í liðið, eru ekki allir hestarnir heima, ég bara spyr.
Rúnar Þór says
Skelfilegur fyrri hálfleikur! Þessi spilamennska er ekki boðleg. Einnig sér maður svaka mun þegar Carrick/Blind eru fjarverandi, Fletcher er ekki í sama flokki og gerir lítið annað en bak- og hliðarsendingar. Einnig er Carrick/Blind mun betri að finna opin svæði og bjóða sig fyrir varnarmennina, sást oft að Fletcher var dekkaður og hreyfði sig ekkert þannig varnarmennirnir þurftu bara að negla framm eða senda á De Gea. (er Fletcher maður og var hrikalega ánægður þegar hann kom tilbaka eftir veikindin en hann verður bara uppfyllingarefni). 1 spurning, hvenær ætlar LVG að fatta að 352 er ekki að virka? Unnum nokkra leiki en flestir óverðskuldaðir eða MJÖG ósannfærandi. Tígulmiðjan virkar mun betur, sérstaklega varnarlega eins og sást í fyrri hálfleik þá voru öftustu 3 hrikalega stressaðir í hvert skipti sem boltinn kom því þeim líður bara ekki vel í þessarri uppstillingu. Til samantektar, er hrikalega svekktur yfir frammistöðunni en ánægður með að við séum enn í keppninni og bíð spenntur eftir að tígumiðjan verði endanlega tekin í notkun.
Runólfur Trausti says
Held það sé löngu ljóst að liðið er mjög háð Carrick hvað varðar uppspil – svipað og með Scholes á sínum tíma. Vonandi tekst Blind að taka jafn vel við og Carrick hefur tekist.
Var ég annars búinn að minnast á hatur mitt á þessu blessaða 3-5-2 kerfi? …. ÚFF!
Hvernig er það samt, er ég sá eini sem er stressaður við að missa Januzaj? Já hann hefur ekki spilað neitt frábærlega en hann er mikið efni og leikur sem þessi ætti að vera leikur þar sem hann fær 90 mín (allavega 45+) – í staðinn fær hann 0.
DMS says
Skil ekki þörfina á að spila 3-5-2 þegar við erum loksins búnir að endurheimta bakverðina aftur (Shaw og Rafael). En það var víst stutt stopp því Shaw, McNair og Rafael meiddust allir í dag. Er Rojo meiddur?
Einnig hef ég pínu áhyggjur af Falcao. Mér finnst hann lúkka þreyttur, ekki sami leikmaður og áður. Eins og staðan er núna þá myndi ég telja það glapræði að eyða 40-50 millum í hann í sumar, en margt getur auðvitað breyst á nokkrum mánuðum og vonandi rífur hann sig upp. Væri nær að henda þessum pening í nýja varnarmenn.
Mikið verður gott að fá Blind og Carrick til baka. Gaman að sjá Di Maria fá mínútur. Það þarf ekki að kvarta undan skort á sprengikrafti hjá honum. En tek undir með þeim sem hafa áhyggjur af Januzaj, þetta hefði einmitt verið leikur fyrir hann til að spila.
Úrslitin voru fín en frammistaðan slök. Það má hinsvegar ekki taka það af Herrera að þetta var frábært mark sem kauði skoraði, hrikalega flott. Afgreiðslan hjá Di Maria var líka fín, það var enginn að fara að ná honum á sprettinum þarna af miðjunni.
Nú er bara að vonast eftir heimaleik í næstu umferð svo við eigum séns á sæmilegri frammistöðu.