Minnum á 5. þátt af Podcasti Rauðu djöflanna
Okkar menn eru komnir áfram í 4.umferð FA-bikarsins eftir skítsæmilegan sigur á C-deildarliði Yeovil.
Louis van Gaal hélt sig við 3-4-1-2 í 7. leiknum í röð en menn héldu ef til vill að fyrst að Rafael og Shaw væru að snúa aftur myndi 4 manna varnarlína fá að láta ljós sitt skína. Þeir félagar voru í byrjunarliðinu en miðverðirnir voru eftir sem áður 3:
Nokkuð sterkt lið enda ljóst að Van Gaal ætlaði ekki að láta MK Dons fíaskó-ið endurtaka sig. Fyrir leikinn talaði hann um að hann vildi vinna FA-bikarinn enda alltof langt síðan liðið hampaði þessari sögufrægu dollu. Gott gengi í bikarnum þýðir jafnframt að við fáum að sjá fleiri leiki en það er töluvert lægra framboð af þeim á þessu tímabili en eftirspurn er eftir. Það var fínt að sjá að menn tækju þetta alvarlega.
Menn tóku þetta þó ekki jafn alvarlega og leikmenn Yeovil sem mættu til leiks mjög ákveðnir og staðráðnir í því að leyfa stóra liðið frá Manchester ekki að sleppa frá þessum leik auðveldlega. Leikmenn Yeovil spiluðu líklega svona 200-300% yfir getu í þessum leik, pressuðu vel og mættu af krafti í allar tæklingar og návígi. Kannski kom þetta okkar mönnum í opna skjöldu en fyrri hálfleikurinn var alveg afskaplega braðgdaufur og snerist að mestu leyti um tæklingar, misheppnaðar sendingar og stöðubaráttu, mjög svipað seinni hálfleiknum gegn Tottenham núna um daginn.
Um það bil eina markverða sem gerðist í hálfleiknum var að Paddy McNair og framherji Yeovil lenti all harkalega saman í markteig okkar og fossblæddi úr okkar manni. Menn héldu að hann myndi koma útaf en hann þraukaði allan leikinn með ansi laglegt hárband.
Við þetta bættist að að Rafael og Shaw meiddust báðir í hálfleiknum. Maður tók þó reyndar ekki eftir því á meðan leiknum stóð. Þeim var skipt út af í hálfleik en það virtist vera vegna þess að Van Gaal vildi hressa upp á mannskapinn. Þegar leik lauk kom svo í ljós að Rafael var með brákað kinnbein og Shaw með ökklameiðsli. Ekki er vitað um alvarleika þessa meiðsla en við vonum auðvitað að þetta sé eitthvað smávægilegt þó litlar líkur séu á því enda eru þeir félagar jú auðvitað varnarmenn Manchester United.
Evans og Mata komu inn fyrir Shaw og Rafael, Smalling og Evans tóku miðvörðinn og McNair og Blackett færðu sig í bakvarðarstöðurnar. Já, þið lásuð rétt, fjögurra manna varnarlína. Ég veit ekki hvort það sé tilviljun eða ekki en leikurinn varð töluvert skárri í seinni hálfleik. Okkar hættu þessum endalausu kýlingum fram úr vörninni og reyndu aðeins að spila boltanum betur. Yeovil menn héldu áfram að tækla duglega og berjast af krafti en það er alveg ástæða fyrir því að leikmenn Yeovil eru leikmenn Yeovil. Tæknilega hliðin hjá leikmönnum liðsins var mjög döpur og þeir voru mikið í því að láta nappa sig óþarflega rangstæða. Yeovil menn sköpuðu sér tvo færi í leiknum. Í fyrra skiptið datt boltinn til framherja Yeovil í teignum en skot hans var alveg einstaklega lélegt úr algjöru dauðafæri. Heppilegt fyrir okkur því þarna var staðan 0-0.
Okkar menn voru þó ekkert að skapa sér nein dauðafæri heldur þrátt fyrir að vera mikið meira með boltann og maður sá ekki fram á að við myndum skora mark í þessum leik. Fyrsta markið kom upp úr engu og var af dýrari gerðinni. Fletcher átti misheppnaða sendingu, boltinn barst af varnarmanni Yeovil á Ander Herrera sem sneri baki í markið, hann skaut í snúningnum og boltinn söng í netinu, óverjandi fyrir markmann Yeovil. Það þurfti eitthvað svona stórkostlegt mark til þess að brjóta ísinn.
Eftir þetta dró mikið af Yeovil-mönnum, þeir voru augljóslega orðnir þreyttir og okkar menn gátu sent boltann á milli sín á miðjunni. Yeovil-menn fengu þó eitt horn og skoruðu næstum því úr því. Boltinn barst á fjærstöng þar sem leikmaður Yeovil stangaði boltann að marki. Angel di Maria hafði skömmu áður komið inn á fyrir Falcao og hann veit að ef maður er settur í að dekka stöngina á maður ekkert að vera að færa sig þaðan. Hann gat því skallað boltann frá á marklínunni en endursýningar sýndu að David de Gea hefði líklegast náð að blaka boltanum fá marki.
Það var svo Di Maria sem rak smiðshöggið á þetta. Yeovil-menn fengu horn á lokamínútunum og sendu alla fram. Boltinn barst út fyrir teig þar sem Rooney fékk boltann og hann gaf alveg hreint yndislega sendingu á Angel di Maria sem skyldi varnarmann Yeovil eftir og lyfti svo boltanum laglega yfir markmann Yeovil.
0-2 sigur staðreynd og okkar menn verða því í hattinum annað kvöld þegar dregið verður í fjórða umferð. Þetta var þó ansi döpur frammistaða og ef andstæðingurinn hefði verið aðeins sterkari hefði getað farið illa. Enn og aftur sjáum við hvað það er auðvelt fyrir andstæðinga okkar að pressa á miðjumenn okkar sem neyðir varnarmenn okkar til þess að negla fram á við. Miðverðirnir okkar eru ekki nógu öruggir með sig á boltanum til þess að gefa áhættusamar sendingar sem virðist vera nauðsynlegt til þess að létta þeirri pressu sem miðjumennirnir okkar eru undir. Því fá framherjarnir okkar úr litlu að moða. Þetta er helsti gallinn á þessu leikkerfi en á móti kemur að liðið er ekki að tapa og er að ná í þokkaleg úrslit í leiðinni.
Okkar menn kláruðu dæmið og það er vel. Það var gaman að sjá Di Maria kom inn auk þess sem Herrera og Wilson fengu dýrmætan spilatíma. Það var leiðinlegt að heyra að Rafael og Shaw væru meiddir en sem betur fer eru Blind og Rojo að snúa aftur. Framundan er mikilvæg törn í deildinni og leikir framundan gegn botnliðunum sem verða að flokkast sem skyldusigrar. Næsta verkefni er þó heimaleikur gegn Southampton eftir viku.
Rúnar Þór says
Skelfilegur fyrri hálfleikur! Þessi spilamennska er ekki boðleg. Einnig sér maður svaka mun þegar Carrick/Blind eru fjarverandi, Fletcher er ekki í sama flokki og gerir lítið annað en bak- og hliðarsendingar. Einnig er Carrick/Blind mun betri að finna opin svæði og bjóða sig fyrir varnarmennina, sást oft að Fletcher var dekkaður og hreyfði sig ekkert þannig varnarmennirnir þurftu bara að negla framm eða senda á De Gea. (er Fletcher maður og var hrikalega ánægður þegar hann kom tilbaka eftir veikindin en hann verður bara uppfyllingarefni). 1 spurning, hvenær ætlar LVG að fatta að 352 er ekki að virka? Unnum nokkra leiki en flestir óverðskuldaðir eða MJÖG ósannfærandi. Tígulmiðjan virkar mun betur, sérstaklega varnarlega eins og sást í fyrri hálfleik þá voru öftustu 3 hrikalega stressaðir í hvert skipti sem boltinn kom því þeim líður bara ekki vel í þessarri uppstillingu. Til samantektar, er hrikalega svekktur yfir frammistöðunni en ánægður með að við séum enn í keppninni og bíð spenntur eftir að tígumiðjan verði endanlega tekin í notkun.