Minnum á yfirferð okkar yfir byrjunarlið og leikkerfi – Runólfur – Bjössi – Elli – Sigurjón – Maggi.
Föstudagsleikur, hversu skrýtið er það? Samkvæmt vefsíðu félagsins hefur United ekki spilað á föstudegi (fyrir utan jólin auðvitað) síðan í apríl 2006. Þá spilaði liðið við Sunderland og gerði steindautt 0-0 jafntefli. Við skulum vona að við fáum skemmtilegri leik annað kvöld. Áður en ég fer yfir ástand mála hjá okkar mönnum er ekki úr vegi að kynna sér aðeins andstæðinginn, Cambridge United.
Cambridge er náttúrulega fyrst og fremst þekkt fyrir skólana sem starfa þar. Í Cambridge er auðvitað einhver frægasti og besti háskóli heimsins, Háskólinn í Cambridge. Allt snýst auðvitað um hann og afleidda starfsemi. Það vita það ekki margir en Cambridge og svæðið í kring er stundum nefnt Silicon Fen vegna fjölda hátæknifyrirtækja sem reka starfsemi sína þar. Svar Breta við Silicon Valley, geri ég ráð fyrir.
Knattspyrnufélögin í Cambridge eru kannski ekki þekkt fyrir afrek sín á knattspyrnuvellinum en knattspyrnan sem íþrótt á rætur sínar að rekja til Cambridge. Ef England er fæðingarland knattspyrnunnar var hún getin í Cambridge. Á 19. öld þróaði Knattspyrnufélag Cambridge-háskóla reglurnar sem Knattspyrnusamband Englands tók upp árið 1863 og hafa verið í gildi síðan, með ýmsum breytingum. Ein helsta nýjungin var auðvitað sú að samkvæmt Cambridge-reglunum var bannað að taka boltann upp með höndunum. Þessar reglur lögðu grunninn að knattspyrnu eins og hún er spiluð í dag og skildi hina fallegu íþrótt frá öðrum villimannaíþróttum. Þökkum Cambridge-mönnum kærlega fyrir það. Fyrstu leikirnir spilaðir samkvæmt þessum reglum voru spilaðir í almenningsgarði í Cambridge sem nefnist Parker’s Piece. Markmiðið með reglunum var einkum það að hæfileikar myndu sigra krafta.
Það er hinsvegar ekki samasemmerki á milli þess að semja reglurnar í fótbolta og geta eitthvað í fótbolta. Í Cambridge eru tvo fótboltalið, Cambridge United og Cambridge City. Hvorugt þeirra hefur afrekað mikið en eins og vera ber er United-liðið stærra og „sigursælla“ en City-liðið. Cambridge City liðið er reyndar eldra liðið en hefur mátt húka í neðri hluta enska deildarkerfisins og er um þessar mundir í Úrvalsdeild Southern League sem er 7.deild enska fótboltans samkvæmt mínum útreikningum.
Andstæðingurinn á morgun er þó stærra liðið í Cambridge, Cambridge United. Frá því að félagið var stofnað árið 1912 hefur liðið ekki afrekað margt. Bikaraskápurinn á Abbey Stadium er ekki mjög stór, líklega er þetta bara ein lítil vegghilla úr IKEA. Framan af var félagið í sama pakka og erkifjendurnir í City, fast í neðri deildum enska deilarkerfisins, hinum svokölluðu utandeildum. Það breyttist þó árið 1970 þegar félagið var kosið upp í alvöru deildarkeppnina, The Football League. Í þá daga var deildakeppnin harðlokuð nema formenn félaganna kysu inn nýtt lið, á kostnað eins úr hópnum. Bradford P.A. var kosið niður, Cambridge United kosið upp.
Árið 1970 hóf félagið því leik í gömlu 4.deildinni, sem nú kallast Skybet League 2. Næstu tvo áratugina var liðið að jójó-ast upp og niður deildirnar. Átta árum eftir að hafa hafið leik í neðstu deild var liðið komið í næstefstu deild en 1984 og 1985 féll liðið um deildir og var því aftur komið á byrjunarreit. Næsta tímabil var heldur enginn dans á rósum og liðið endaði í einu af neðstu sætum neðstu deildarinnar. Liðið slapp þó við þriðja fallið í röð og farið var af stað með enduruppbyggingaráætlun. Við tók knattspyrnustjóri að nafni John Beck og hann hífði liðið upp á nýjan leik. Hann fór með liðið upp um tvær deildir í röð árin 1990 og 1991 og aftur var liðið komið upp í næstefstu deild. Tímabilið 1991/1992 gerði liðið harða atlögu að því að verða fyrsta liðið í sögu enskrar knattspyrnu til þess að fara upp um þrjár deildir í röð og var liðið á toppi deildarinnar um skeið.
Það tímabil fór liðið alla leið í umspil um sæti í efstu deild. Það hefði verið mikill hvalreki fyrir þetta litla félag að komast þangað enda hefði Cambridge United þá tekið þátt í í fyrstu leiktíð Úrvalsdeildarinnar sem þá var nýstofnuð og átti eftir að gjörbreyta landslaginu í enskri knattspyrnu. Kannski væri saga þeirra öðruvísi ef liðið hefði náð að næla í bita af sjónvarpspeningakökunni sem fylgdi hinni nýstofnuðu Úrvalsdeild, hver veit? Þangað komst liðið þó ekki enda datt það úr umspilinu gegn Leicester.
Á þessu tímabili mættust einmitt Manchester United og Cambridge United í tvígang og eru það einu leikirnir sem fram hafa farið á milli þessara félaga. Keppt var í deildarbikarnum, heima og heiman og fór United með sigur af hólmi, 4-1 samanlagt. Sagan segir að Dion Dublin hafi tryggt sér sölu til United með frammistöðu sinni í þessum leikjum en hann var aðalframherji og markamaskína Cambridge á þessum uppsveiflutíma. Hann skoraði einmitt eina mark Cambridge í þessari viðureign. Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir úr síðari leiknum í þessari viðureign sem fór fram 9. október 1991 auk þess sem að nálgast má svipmyndir úr fyrri leiknum á YouTube. Hann fór fram á Old Trafford og var gríðarlega ungur Ryan Giggs m.a. á meðal markaskorara.
Sir Alex Ferguson splæsti einni milljón punda til þess að fá Dion Dublin til liðs við Manchester United árið 1992. Ferill hans komst þó aldrei almennilega af stað hjá United og hann spilaði aðeins 12 deildarleiki fyrir United og skoraði í þeim 2 mörk. Hann fótbrotnaði illa í einum af fyrstu leikjum sínum fyrir United og hefur reyndar grínast með það síðan að hann sé ástæðan fyrir velgengni United vegna þess að meiðsli sín urðu til þess að Ferguson þurfti að leita að öðrum framherja. Sá maður var Eric Cantona og við vitum öll hvernig það fór.
Án síns helsta markaskorara varð lífið erfitt fyrir Cambridge. Næsta tímabil gekk illa og Beck var rekinn sem þjálfari og félagið fór að síga niður deildirnar. Það endaði með því að árið 2005 féll liðið niður í utandeildina, 35 árum eftir að hafa komið upp úr henni. Í kjölfarið lenti félagið í fjárhagskröggum og staðan var það alvarleg að menn hófu viðræður um sameiningu Cambridge-liðanna. Skiljanlega voru þó stuðningsmenn ekkert sérstaklega kátir með þessi áform og börðust gegn þessum áætlunum. Sameiningin gekk ekki eftir og árið 2006 tók ný stjórn við sem leysti smám saman úr fjárhagsvandræðunum. Undanfarin ár hefur aðeins birt til hjá Cambridge United. Félagið var í tvígang nálægt því að komast aftur upp í deildarkeppnina áður en það tókst á síðasta tímabili. Það var árangursríkt tímabil enda vann liðið einnig Utandeildarbikarinn. Félagið er því nýkomið aftur upp í deildarkeppnina og með bikar að auki til þess að setja á IKEA-hilluna sína.
Liðið er um þessar mundir í SkyBet League 2 og siglir þar bara nokkuð lygnan sjó um miðja deild. Liðið er í 12. sæti, 6 stigum frá umspilssæti og á inni leik til góða á flest liðin fyrir ofan sig. Cambridge er eina liðið úr þessari deild sem eftir er í FA-bikarnum og ekkert annað lið sem eftir er í keppninni er í lægri deild en mótherjar okkar. Þeir hafa mætt Luton, Mansfield og Fleetwood í fyrri umferðum keppninnar en þessi lið eru öll í sömu deild og Cambridge fyrir utan Fleetwood, sem er í deildinni fyrir ofan. Liðið hefur því ekkert verið í því sem kallast „Giant-killing“ þótt að þeir láti eflaust reyna á það á morgun. Þetta er líklega stærsti leikur liðsins frá því að félagið spilaði umspilsleikina um að komast upp í efstu deild árið 1992 og því viðbúið að Cambridge-menn spili þennan leik á 200% getu enda í beinni gegn stærsta liði Englands og þótt víðar væri leitað.
Það er auðvitað engin stórstjarna í liði Cambridge en menn ættu þó að kannast við eitt nafn. Fegurðardrottningin Luke Chadwick spilar fyrir Cambridge en það er hans uppeldisfélag. Hann spilaði nokkra leiki með United, nógu marga til þess að vinna sér inn einn Úrvalsdeildartitil sem er nú meira en flestir leikmenn geta sagt. Draumur hans var þó öllu minni og hann er hvergi ánægðari en að spila með heimaliði sínu. Í viðtali við BBC á síðasta ári sagði hann að það væri hans helsti draumur að vera hluti af liðinu sem kæmi Cambridge United á nýjan leik upp úr utandeildinni. Það er gott að hann er ánægður enda náði hann aldrei að feta sig almennilega eftir að hann yfirgaf United. Hann er lykilmaður í liðinu ásamt markaskorurunum Kwesi Appiah og Tom Elliot.
Líkt og í leiknum gegn Yeovil munum við mæta liði á pínulitlum velli þar sem allir munu leggjast á eitt með það að markmiði að fella risann. Leikmennirnir munu spila langt umfram getu og þeir munu berjast og tækla á velli sem ég geri ráð fyrir að sé ekkert í sérstöku ásigkomulagi. Dion Dublin sagði núna skömmu fyrir þennan leik að leikmenn United myndu fá menningarsjokk við að mæta á Abbey Stadium og allt yrði gert til þess að láta stórstjörnunum í United líða sem verst. Í gegnum tíðina hefur stuðningurinn við Cambridge verið góður, menn hættu ekki að mæta á leiki þó að liði dytti niður í utandeildina og við getum ekki búist við að 70% af vellinum styðji United eins og í leiknum gegn Yeovil. Á pappír ættum við að rúlla auðveldlega í gegnum þetta en það er náttúrlega ekkert gefins í FA-bikarnum. Ég reikna því fastlega með sterku liði United á morgun enda ljóst að Louis van Gaal og leikmenn liðsins leggja áherslu á því að vinna þessa keppni enda alltof langt síðan við fengum að sjá United vinna þessa keppni.
Ég ætla ekki að fara morgum orðum um United enda búinn að skrifa allt of mikið um Cambridge United. Louis van Gaal hélt blaðamannafund í dag og sagði margt skemmtilegt. Ashley Young, Chris Smalling og Jonny Evans verða fjarri góðu gamni en Luke Shaw og Robin van Persie eru klárir í slaginn á nýjan leik. Blaðamenn á Englandi hafa slegið því föstu í vikunni að Victor Valdes muni byrja sinn fyrsta leik fyrir United á morgun en Louis van Gaal gaf ekkert uppi um það en lét hafa þetta eftir sér:
I find it unbelievable how the media can write that. I don’t want to say anything about my line-up until three quarters of an hour before the game.
Ekkert múður en það væri afskaplega gaman að sjá Valdes fá tækifæri á morgun. Van Gaal ræddi aðeins um andstæðinginn og sagði að menn þyrftu að passa sig enda Cambridge United á bullandi þriggja sigurleikja siglingu. Hann og Giggs væru búnir að kortleggja andstæðinginn en það væru nokkrir nýjir leikmenn komnir inn sem gætu valdið usla. Það er augljóslega mikið lagt upp með að vanmeta ekki andstæðinginn enda augljóst að sigur í þessari keppni er eitt af markmiðum tímabilsins. Louis van Gaal hefur unnið bikarkeppnir á Spáni, Hollandi og í Þýskalandi og hann er eflaust æstur í að bæta þessum bikar við í safnið. Ég býst því fastlega við sterku liði á morgun.
Persónulega myndi ég vilja sjá eitthvað þessu líkt á morgun:
Vörnin velur sig sjálf vegna meiðsla. Á miðjunni væri fínt að gefa Carrick smá hvíld auk þess sem að Fellaini gæti lækkað rostann í leikmönnum Cambridge sem ætla sér að vera með einhvern yfirgang. Að auki eru 5-6 leikmenn Cambridge yfir 1.90 á hæð og því ekki vanþörf á manni eins og Fellaini inni á vellinum. Ég er mjög hrifinn af Herrera og finnst liðið einfaldlega spila betur með hann innnaborðs. Di Maria má fá hvíld og það væri fínt að eiga hann og Mata inni á bekknum ef mörkin láta eitthvað bíða eftir sér. Samkvæmt þeim sem þekkja til er holan uppáhaldsstaða Januzaj og ég vil endilega að hann fái tækifæri á morgun í stöðu sem hann þekkir vel til. Maður er farinn að hafa áhyggjur af honum og ég er hreinlega farinn að sakna unga Belgans okkar.
Wilson vann sér einfaldlega inn byrjunarliðssæti með frammistöðu sinni gegn QPR um síðustu helgi og ég sé enga ástæðu fyrir því að Robin van Persie ætti að labba inn í þetta byrjunarlið þrátt fyrir að vera orðinn heill. Falcao hefur svo verið að vinna vel og maður er bara að bíða eftir því að þetta smelli í gang hjá honum. Að auki unnu hann og Wilson afskaplega vel saman gegn QPR. Ég gef Rooney hvíld í þessum leik og leyfi honum bara að vera heima með Coleen, Kai og Klay á þessu föstudagskvöldi. Þau geta haft það kósí og borðað föstudagspizzuna í rólegheitum.
Ég hef þó enga trú á því að Louis van Gaal sé að lesa þessa upphitun og geri fastlega ráð fyrir því að liðið sem hefji leik annað kvöld verði eitthvað á þessa leið:
Það er ekki hægt að neita því að varnarlega spilar liðið betur með þessari uppstillingu og varnarleikurinn virðist vera fókusinn hjá þjálfaraliðinu um þessar mundir. Í seinni hálfleik gætum við svo fengið að sjá liðið skipta um taktík líkt og gegn QPR.
Við eigum þó í það minnsta von á hörkuleik sem hefst annað kvöld kl. 19.55
Bjarni Ellertsson says
Ég heimta að menn leggi sig fram og vinni þennan leik með minnst 3 mörkum.
Runólfur Trausti says
Mikið væri rooosalega gaman ef Van Gaal (og Giggs) myndu lesa þessa upphitun og henda í efra byrjunarliðið.
Hræðist þó að Van Gaal stilli upp sínu „sterkasta“ liði í 3-4-1-2 leikkerfið þar sem það eru svo 8 dagar í leikinn gegn Leicester.
PS. Stórkostleg upphitun (þú lætur okkur hina líta illa út Tryggvi minn).
Kv. RTÞ
Ottó says
Frábær upphitun!
Ef United leggur jafn mikin metnað í leikinn og Tryggvi lagði í þessa upphitun á verður þetta rólegt, gott og skemmtilegt kvöld með nóg af mörkum
Keane says
Glæsileg upphitun, kærar þakkir!