Í síðustu leikjum Manchester United hefur Louis van Gaal stillt upp í 3-4-1-2 uppstillingu sem hefur farið mikið í taugarnar á stuðningsmönnum United. Við hér á ritstjórninni munum á næstu dögum birta okkar skoðanir á því hvernig best væri að stilla upp liðinu, við vitum jú auðvitað miklu betur en Louis van Gaal!
Fyrirkomulagið er þannig að við birtum tvo byrjunarlið, eitt sem á að rúlla upp QPR á heimavelli og annað sem á að ná í sigur á Stamford Bridge gegn Chelsea. Runólfur birti sína færslu á mánudaginn. Á þriðjudaginn kom Bjössi með sitt álit, á miðvikudaginn lét Spaki maðurinn ljós sitt skína, á fimmtudaginn birti Sigurjón sitt óskabyrjunarlið. Maggi kom með sínar hugmyndir á föstudaginn og nú er komið að Tryggva Páli:
Áður en ég fer yfir mínar skoðanir á því hvernig best sé að stilla upp langar mig að fara aðeins yfir afhverju ég þoli ekki 3-4-1-2 uppstillinguna.
Eins og flestir er ég ekki mikill aðdáandi 3-4-1-2 uppstillingarinnar sem við höfum fengið að njóta undarfarnar vikur. Það er þó ekki hægt að neita því að hún veitir okkur ákveðið öryggi varnarlega enda er liðið ekki búið að vera að fá á sig mikið af mörkum undanfarið. Liðið spilaði 9 leiki í röð með þessa uppstillingu og fékk aðeins á sig 5 mörk og aldrei meira en eitt mark í leik. Þetta hefur gert það að verkum að eftir brösuga byrjun okkar manna eru nú aðeins tvö lið búin að fá á sig færri mörk í deildinni, Southampton og Chelsea.
Mörkin hafa hinsvegar látið á sér standa. Við skoruðum 3 gegn Liverpool og Newcastle og 2 gegn Southampton (úr ein færunum sem við fengum) en annars er liðið bara að skora 0-1 mark í leik. Ég tel ekki mörkin sem við skoruðum gegn QPR og Yeovil með enda komu þau eftir að Louis van Gaal breytti um uppstillingu í miðjum leik. Sóknarlega erum við því frekar daprir. Nei, við erum bara ógeðslega lélegir. Óneitanlega mjög sérstakt þar sem lið með leikmenn á borð við Mata, Rooney, Di Maria og Falcao ætti að vera að skora 2-3 mörk í leik.
Þessi fræga leikspeki sem Louis van Gaal er alltaf að tala um er svolítið á huldu en eitt er augljóst, miðverðirnir eiga að fá boltann frá markmanninum og þeir eiga að hefja sóknarleikinn. Þetta sjáum við í hverjum einasta leik. Miðverðirnir okkar þurfa því ekki bara að vera góðir varnarlega (sem þeir eru tæplega) heldur einnig að vera góðir sendingarmenn (sem þeir eru klárlega ekki). Hin gríðarlegu meiðsli í varnarlínunni hjálpa vissulega ekki til og mér þætti gaman að sjá stöðuna í deildinni ef liðin í kringum okkur hefðu þurft að glíma við svipaða meiðslatíðni í varnarlínunni. En það er sama þó að við kaupum Mats Hummels eða látum eitthvað nobody úr unglingaliðinu spila, þeir eiga alltaf að fá boltann og spila honum frá sér. Þetta er krafan, óháð því hvort að við spilum með tvo miðverði eða þrjá.
Þá komum við að því sem ég tel vera helst gallann við leikkerfið 3-4-1-2: Hún leggur of mikla ábyrgð á herðar veikustu leikmanna okkar á kostnað þeirra sterkustu.
Þegar liðið spilar 3-4-1-2 spilum við því með þrjá menn í stað tveggja í þeirri stöðu þar sem við erum verst settir. Þá er einu minna pláss fyrir miðjumann og það er skortur á miðjuspili sem er helsta vandamál United sóknarlega. Andstæðingarnir pressa miðjumenn og sóknarmenn okkar þegar varnarmennirnir reyna að leita að sendingarmöguleika þannig að það er lítið í boði. Þessvegna sjáum við miðverðina yfirleitt annaðhvort spila boltanum á milli sín eða negla fram á við upp á von og óvon.
Tölfræðin styður þetta. Hlutfall sendinga fram á við (forward passes) er 29.4% sem er það lægsta í deildinni. United á flestar sendinga til hliðar (sideways passes) inni í eigin vallarhelmingi í deildinni, 3268 stykki. United er í 2. sæti þegar kemur að sendingum til baka (backward passes) inni í eigin vallarhelmingi eða 1227.
Í þau fáu skipti sem miðverðirnir finna miðjumann fá þeir yfirleitt boltann aftur vegna þess að með þrjá miðverði er alltaf einn laus. Þeir bjóða upp á einfalda og áhættulausa sendingarmöguleika. Skapandi miðjumennirnir okkar fá boltann sjaldan í hættulegum stöðum sem verður til þess að sóknarmenn okkar komast mun sjaldnar í hættuleg færi en ella. Miðverðirnir okkar, langveikustu leikmennirnir okkar eru því skyndilega nánast orðnir aðalmennirnir í liðinu.
Ef við erum veikastir í miðverðinum er vængbakvarðastaðan án efa sú næstveikasta. Þar hafa Ashley Young og Antonio Valencia ráðið ríkjum enda Rafael og Luke Shaw verið mikið frá vegna meiðsla. Það mæðir talsvert á vængbakvarðastöðunni, ekki síst vegna þess að leikmaðurinn er einn með heilan væng. Eins og andstæðingar okkar spila eru vængbakverðirnir oft galopnir með heila flugbraut á vængnum fyrir framan sig. Miðjan er pressuð þétt sem skapar pláss á vængjunum. Það er augljóslega lagt upp með að nýta sér þetta pláss, hversu oft höfum við ekki séð við t.d. Wayne Rooney negla í 30 metra skiptingu á galopinn Antonio Valencia?
Gallinn er einfaldlega sá að þessir leikmenn eru ekki í þeim gæðaflokki að geta haldið úti byrjunarliðssæti helgi eftir helgi. Antonio Valencia var eitt sinn alveg frábær en sá maður hefur ekki látið sjá sig í langan tíma. Hann fær boltann oft í verulega fínum stöðum en er lengi að athafna sig á ögurstundu. Framherjarnir er löngu búnir að klára hlaupin sín þegar Tony V dregur eina bragðið sitt upp úr hattinum: sparka boltanum áfram og dúndra eins fast og hann getur inn í teig. Þetta gerist oft í leik og með þesu klúðrar hann oft verulega fínum sóknarstöðum.
Það verður að viðurkennast að Ashley Young hefur komið svolítið á óvart á tímabilinu og það má alveg hrósa honum fyrir það enda var maður alveg búinn að afskrifa hann. Það breytir því þó ekki að hann er ekki og var líklega aldrei í þeim gæðaflokki sem við viljum sjá spila fyrir United. Hann, líkt og Valencia, hefur eitt bragð. Hann er réttfættur en spilar vinstra megin og þarf því að koma boltanum á hægri löppinna áður en hann kemur boltanum fyrir. Það gerir það að verkum að framherjarnir eru flestir búnir að klára hlaupin sín áður en að Young færir boltann yfir á réttan fót. Young getur alveg notað vinstri löppina eins og við sáum gegn Aston Villa en samt velur hann alltaf að koma boltanum yfir á betri löppina.
Þetta gerir þessa leikmenn alveg einstaklega fyrirsjáanlega og það er auðvelt að verjast þeim ef varnarmennirnir hafa unnið heimavinnuna sína. Þeir eru líka lengi að athafna sig og drepa allt flæði í sóknarleiknum með hægaganginum. Þetta er afskaplega bagalegt. Þetta mikla pláss sem vængbakverðirnir okkar eru að fá í leikjum nýtist því lítið sem ekkert til þess að létta á pressunni á miðjumönnunum okkar eða til þess að skapa hættuleg færi.
Í 3-4-1-2 byrjar allt og endar á miðvörðunum okkar og vængbakvörðunum okkar sem eru okkar langverstu stöður. Eins og ég sagði í upphafi leggur 3-4-1-2 of mikla ábyrgð á herðar veikustu leikmanna okkar á kostnað þeirra sterkustu. Þessir tveir þættir gera það að verkum að uppspil United er hægt og fyrirsjáanlegt.
Þegar liðið stillir upp, hvort sem það er gegn Chelsea eða QPR vil ég að það sé gert með því sjónarmiði að hæfileikar okkar bestu leikmanna fái að njóta sín og að spilið sé bæði hratt og ófyrirsjáanlegt (duh!). Að mínu mati er okkar bestu leikmenn Angel di Maria og Wayne Rooney. Ég vil að þetta séu fyrstu leikmennirnir niður á blað og að leikkerfið snúist um að ná sem mestu út úr þessum leikmönnum.
Í fullkomnum heimi myndi ég vilja sjá einhverja útfærslu af 4-2-3-1/4-5-1 gegn stærri liðunum en ég held að við höfum ekki mannskapinn í það eins og er. Þess vegna myndi ég vilja sjá liðið spila demantinn, hvort sem það er gegn Chelsea eða QPR, munurinn liggur í mannskapnum sem byrjar leikinn:
Gegn QPR:
Eins og ég sagði áðan snýst þetta um að ná sem mestu út úr bestu leikmönnunum okkar. Ángel di Maria er með flestar stoðsendingar, flestar lykilsendingar, flest framhjáhlaup (dribbles) og flestar stungusendingar allra leikmanna í Manchester United. Hann er lykilmaðurinn liðsins, drifkrafturinn. Þegar hann fer af stað með boltann gerast hlutir. Við höfum séð hann spila á miðjunni, á kantinum og frammi. Þessi framherjatilraun var bara eitthvað grín og gekk ekki upp. Á kantinum er hann þokkalegur en þá fáum við ekki að sjá þessi hlaup hans frá djúpum stöðum á miðjunni sem skapa yfirleitt mikla hættu. Það er betra fyrir hann að fá boltann á miðjunni og hlaupa út á kantana, fremur en að fá hann á köntunum og hlaupa inn. Í demantinum nýtast allar hans bestu hliðar. Hann er vinstra megin á miðjunni og þarf bæði að sinna miðjuskyldum og kantskyldum og getur fengið boltann á miðjunni og keyrt sóknina áfram. Ángel á því að vera á miðjunni og ekkert múður.
Wayne Rooney er að mínu mati miklu betri sem framherji en miðjumaður eins og við þróunin hefur verið undanfarin tímabil. Hann státar af ansi laglegum árangri í markaskorun og er á góðri leið með að verða markahæsti leikmaður í sögu United OG enska landsliðsins. Bjartsýnustu menn gætu jafnvel tekið undir það að hann muni slá markamet Alan Shearer í Úrvalsdeildinni. En bara þeir bjartsýnustu. Það eru til margir miðjumenn betri en MiðjumannaWayne en þeir eru ekki svo margir sem eru betri en FramherjaWayne.
Rooney er svo auðvitað nokkuð alhliða leikmaður, sem er ástæðan fyrir því að hann getur spilað á miðjunni. Þar er sköpunarkraftur hans sem vegur þyngst. Næststoðsendingahæstur og í þriðja sæti yfir lykilsendingar og stungusendingar. Þetta+framherjahæfileikar hans gera hann að stórhættulegum leikmanni ef hann fær að spila frammi. Hann getur dregið sig aðeins neðar á völlinn úr framherjastöðunni og skapað pláss og færi fyrir fremsta framherjann en jafnframt verið fremsti maður og klárað færin. Þegar hann spilar á miðjunni fara kraftar hans helst í því að negla í 40 metra þversendingar á Antonio Valencia/Ashley Young. Það kemur afskaplega lítið úr því. FramherjaWayne er 20/10 maður. 20 mörk, 10 stoðsendingar á leiktíð. Það er ómetanlegt en það gerist ekki nema hann spili frammi.
Ég púsla því mönnum í kringum þessa tvo leikmenn.
De Gea og Shaw eru sjálfkjörnir. Rojo er að mínu mati sá miðvörður sem hefur verið að spila best á þessu tímabili. Ég hefði getað valið hvern sem er af Smalling, Jones eða Evans við hliðin á Rojo. Það er ekki mikill munur á þessum leikmönnum. Af þeim hefur þó Smalling líklega verið að spila skást á tímabilinu og hann hefur því vinninginn. Þrátt fyrir að vera ekki mikill aðdáandi Valencia í vængbakverðinum finnst mér hann nýtast mun betur í bakverðinum. Hann er agaður leikmaður, öskufljótur og nautsterkur sem eru góðir eiginleikar í vörninni. Það mæðir ekki jafn mikið á honum sóknarlega í þessari stöðu þannig að veikleikar hans hafa ekki jafn mikil áhrif á sóknarleik liðsins.
Carrick situr fyrir framan vörnina og verndar hana og dreifir spilinu. Herrera er hægra megin við hann. Ég skil ekki afhverju hann fær ekki fleiri tækifæri undir Louis van Gaal. Liðið spilar alltaf betur með hann innanborðs og hann er alhliða leikmaður, góður jafnt sóknarlega sem varnarlega. Vinstra megin er svo maðurinn sem allt á að snúast um. Angel di Maria á að vera drifkrafturinn í liðinu. Í þessari stöðu er hann einn besti leikmaður heims eins og Michael Cox skrifaði í grein fyrir tímabilið.
Gegn QPR og öðrum minni liðum er Mata góður kostur. Hann er ótrúlega naskur á að vera á réttum stað á réttum tíma í teig andstæðinganna og sérstaklega gegn minni liðunum á Old Trafford. Fyrir framan hann eru svo Wayne Rooney og Falcao. Ég vel Falcao fram yfir Robin van Persie vegna þess að mér finnst hann töluvert betri að skapa sér færi en Hollendingurinn sem hefur verið ótrúlega staður á tímabilinu. Falcao er að djöflast í mönnum allan liðlangan leikinn auk sem við erum bara að bíða eftir að þessi frábæri framherji smelli í gang. Um leið og hann fær betri þjónustu fara mörkin að flæða og með því færanýtingin.
Gegn Chelsea myndi ég henda þessu svona upp:
Fellaini kemur inn fyrir Herrera til þess að fá bastarð inn á miðjuna til þess að vera með almenn leiðindi. Mata dettur út enda á hann til að týnast í stóru leikjunum. Rooney fer í holuna og getur þá hjálpað til á miðjunni ef þess þarf.
Pælingin með þessum báðum liðum er sú að með tvo miðverði í liðinu fækkar þessum auðveldu sendingamöguleikum til baka um einn, miðjumennirnir okkar verða að taka meiri áhættu með boltann og með þá miðjumenn sem við höfum er þessi áhætta alveg þess virði. Að auki er auka miðjumaður kominn á völlinn í stað auka miðvarðar og því fleiri leikmenn á miðjunni til þess að gefa á. Miðjumennirnir okkar komast betur inn í leikinn og framherjarnir fara að fá betri þjónustu. Okkar bestu leikmenn eru í sínum bestu stöðum, Rooney er ekki á miðjunni og Angel di Maria er ekki frammi. Demanturinn hentar einfaldlega best miðað við þá leikmenn sem eru til staðar hjá United í dag.
Lykilatriðið er samt það, burtséð frá því hvaða kerfi við spilum er að áherslan verði á það að bestu leikmennirnir okkar axli mestu ábyrgðina og að boltinn fari í gegnum þá frekar en að spil okkar velti á okkar verstu leikmönnum eins og er raunin með því að stilla up í 3-4-1-2.
Sigurjón Arthur Friðjónsson says
Amen…
McNissi says
Feitletraða línan er algjörlega spot on og á hún vel skilið að koma fyrir 2x í greininni :)
Ég er sammála með uppstillinguna og nánast allan mannskap. Eina sem mér finnst skrýtið er að þið talið allir um að Herrera eigi að fá að spila meira, spilið flæði mikið betur þegar hann er inná og að hann sé alhliða miðjumaður sem getur varist og sótt.
Hann hefur einnig skorað nokkur mörk á þessari leiktíð bæði inní teig og fyrir utan hann sem er alltaf gott fyrir miðjumann. Hann hefur persónulega komið mér mikið á óvart varnarlega og virðist hann vera sá miðjumaður sem er óhræddastur við að fleygja sér niður í tæklingar og vinnur hann þær lang oftast, hann fær samt ekki mikið af spjöldum allavega ekki miðað við Fellaini sem á erfitt með að stíga á gras án þess að olnboga einhvern titt í tennurnar og fá gult spjald fyrir sem breytir spilamennsku hans og gerir hann varkárann restina af leiknum.
Mín spurning til ykkar ritstjórnar menn: Af hverju finnst ykkur Herrera ekki eiga að fá séns í stóru leikjunum þar sem ætti að vera enn mikilvægara að flæði á miðjunni sé gott. Því betri andstæðingur, því meiri áhersla á að vera á að láta boltann vinna og það gerist best með góðu flæði sendinga í allar áttir og Herrera hefur sýnt gæði sín í að halda bolta. Í þau fáu skipti sem menn hafa dottið í létt tiki-taka spil á leiktíðinni hefur Herrera nánast undantekningalaust verið með í því.
Ég skil samt alveg af hverju þið veljið The Big Fella í stórleikina og hann hefur staðið sig vel undanfarið og vil ég sjálfur sjá hann spila en fyrir mér er mikilvægara að United spili flottan sendingabolta (með sóknartilgangi). Spurning hvort að það megi ekki bara fórna einum striker til að hafa þá báða inná.
Rúnar Þór says
100% sammála Tryggva hérna. Herrera verður að fá að spila meira, Fellaini tilvalinn til að djöflast á miðjunni í stóru leikjunum og Falcao ALLAN DAGINN fram yfir RVP því hann gefur meira fyrir liðið og hann MUN hrökkva í gangi og þá verður sko gaman :)
Cantona no 7 says
Skil ekki hvað sumir halda að Falcao fari einhvertímann í gang þ.s. hann er búinn að vera mjög slakur.Hann er búinn að fá mörg tækifæri og er einfaldlega bara ekki nógu góður fyrir Man Utd.
Okkur vantar einfaldlega ca fimm klassaleikmenn t.þ.a. taka stóru titlana,
GGMU
Tryggvi Páll says
McNissi:
Það kom einmitt mjög á óvart hvað Herrera var öflugur varnarlega. Maður hélt að þetta væri einhver ekta spænskur miðjumaður sem hefði bara áhuga á því sem gerðist framar á vellinum. Þvert á móti. Eins og ég set þetta upp er pláss fyrir þrjá miðjumenn. Carrick er ósnertanlegur í varnarmiðjustöðinni og Di Maria er að mínu mati ómissandi sóknarlega. Þá er eitt sæti eftir og ég /við metum það einfaldlega þannig Fellaini henti betur þar inn til þess að fá þennan tuddaskap sem oft vantar upp á hjá miðjumönnum United. Það er hinsvegar ómetanlegt að eiga leikmann eins og Herrera inni. Hann eykur breiddina talsvert. Mikið rosalega hlýtur hann samt að vera dapur á æfingum eða eitthvað, hann er alltaf fyrsti maður sem dettur úr liðinu.