Í kvöld spilum við aftur við Cambridge United í 4. umferð FA-bikarsins eftir frekar dapurt jafntefli gegn þeim þarsíðasta föstudag. Fyrir fyrri leikinn gerði ég óþarflega ýtarlega upphitun og ég vísa að mestu leyti í hana. Þar fór ég yfir sögu knattspyrnunnar í Cambridge en þar eru menn undarlega lélegir í knattspyrnu ef miðað er við að þar var knattspyrnan fundin upp, hvorki meira né minna. Saga Cambridge United er svo í meðallagi áhugaverð og í upphitunni má finna létta yfirferð yfir hana og hvernig Manchester United og Cambridge United tengjast. Hvet alla til þessa að renna yfir það hafi menn mikinn áhuga á Cambridge United.
Okkar menn eru á þokkalegasta flugi. 1 tapleikur í síðustu 15 en óþarflega mikið af jafnteflum. Spilamennska liðsins í þessum leikjum hefur verið þokkaleg og á þessu tímabili erum við líklega á pari vallarins, fyrir neðan efstu liðin sem hafa verið að spila best og rétt fyrir ofan næstu lið sem hafa öll lent í ákveðnum vandræðum. Betur má ef duga skal og par vallarins er ekkert merkilegt fyrir félag eins og Manchester United. Við komum ekki undir parið ef við náum bara einu af þessu frægu Meistaradeildarsætum en við gætum nælt okkur í fugl ef við bætum við sigri í bikarkeppninni.
Til þess höfum við alla möguleika enda hristi síðasta umferð í bikarkeppninni verulega upp í hlutunum. Chelsea og City duttu bæði út gegn neðrideildarliðum og önnur lið sem hafa verið að gera sig gildandi á þessu tímabili á borð við Southampton og Tottenham duttu út. Af topp 10 liðum í efstu deild eru aðeins við, Liverpool, Arsenal, West Ham og Stoke sem hanga inn í þessari keppni. Við getum því ekki gert kröfu um neitt annað en að við förum alla leið í þessari keppni.
Til þess þurfum við í fyrsta lagi að fara í gegnum Cambridge United. Við sáum það í fyrri leiknum að þarna er á ferðinni gríðarlega skipulagt og agað lið með klókan stjóra. Að mati Michael Cox/Zonal Marking setti hann leikinn gegn United fullkomlega upp og baráttan í leikmönnum þessara þriðjudeildarliðs var aðdáunarverð. Þeir lokuðu svæðum gríðarlega vel og voru alltaf mættir til baka þegar á þurfti. Þeir voru 200% tilbúnir í þann leik enda á heimavelli og allra augu á þeim. Í raun og veru fengu þeir nákvæmlega þau úrslit sem þeir vildu fá. Jafntefli var í raun betra en sigur enda viðurkenndi stjóri Cambridge að stjórnarformaðurinn hefði líklegast ekki verið alsáttur ef liðið hefði náð að pota inn marki í restinna og slá þar með út risana frá Manchester.
I am certainly sure the chairman would not have been very happy if we’d scored in the second half. #
Ástæðan? Cambridge United fær 45% af þeim tekjum sem United fær fyrir að halda þennan leik auk sjónvarpstekna enda báðir leikir í þráðbeinni. Menn hafa reiknað það út að liðið fái um 1.5 milljónir punda fyrir það að mæta á Old Trafford og er það algjör lottóvinningur fyrir þetta lið sem hefur glímt við fjárhagsvandræði undanfarin ár. Menn eru samt skynsamir þarna í Cambridge og ætla ekki að sturta peningunum niður í einhverja vitleysu enda er planið að fjárfesta í nýjum klósettum og fleira til þess að endurnýja heimavöllinn sem er bæði orðinn gamall og þreyttur.
Ég reikna ekki með að leikmenn Cambridge mæti til leiks jafn ótrúlega hátt gíraðir eins og í fyrri leiknum. Þar munu þeir mæta á algjörlega nýjar slóðir, þar sem allt er í hæsta gæðaflokki, allt frá klósettum að grasinu á vellinum. Að auki munu okkar menn ekki dirfast til þess að vanmeta Cambridge-menn eins og örlaði ef til vill á í fyrri leiknum. Þeir munu líklega reyna sama leik, verjast á 11 mönnum en ég hef alla trú á því að í þetta sinn takist að brjóta varnarmúr þeirra niður. Lykillatriðið er einfaldlega að skora snemma leiks til þess að brjóta niður æsinginn hjá Cambridge. Það þarf að mæta til leiks snemma og sýna þeim að þeir eigi engan séns á Old Trafford.
Cambridge-menn hafa spilað tvo leiki síðan í jafnteflisleiknum gegn United. Fyrir viku síðan gerði liðið 1-1 jafntefli við Dag & Red og um helgina mátti það þola 3-2 tap gegn Luton Town.
Það héldust allir heilir gegn Leicester að því ég best veit. Carrick er meiddur næstu vikurnar eins og allir vita en Smalling, Evans og Young eru allir farnir að nálgast endurkomu. Ég reikna með að Van Gaal stilli up tiltölulega sterku liði með það að markmiði að klára leikinn sem fyrst svo hægt sé að hvíla lykilmenn síðar í leiknum. Ég væri til í að sjá liðið prófa 4-3-3 á morgun. Um að gera að nýta sér vængmenn til þess að teygja aðeins á þessum rosalega varnarmúr sem átti tiltölulega auðvelt með að glíma við uppstillinguna í síðasta leik.
Ég held að það ætti að vera óhætt að hleypa Valdes í byrjunarliðið í fyrsta skipti. Hann spilaði með u-21 liðinu gegn Liverpool um daginn og stóð sig vel. u-21 liðið spilaði gegn Fulham í gær og þar var Valdes ekki með þannig að það er spurning hvort að hann fái tækifærið á morgun. Rafael spilaði 90 mínútur í þeim leik og verður því ekki með í kvöld.
Ef Herrera spilar ekki svona leiki getur hann bara farið að pakka saman enda þá fulljóst að Louis van Gaal hafi ekkert álit á honum. Fellaini kemur inn enda Cambridge United afskaplega hávaxið lið. Januzaj var sprækur á laugardaginn og Robin van Persie sýndi fína tilburði. Þetta lið ætti að fara tiltölulega auðveldlega með Cambride-liðið og tryggja okkur áfram í næstu umferð þar sem útileikur gegn Preston eða Sheffield United bíður sigurliðsins.
Leikurinn er í kvöld og hefst klukkan 19.45.
Bjarni Ellertsson says
Ég reikna með öruggum sigri okkar manna, en ef þeir sleppa bensíngjöfinni þá fer leikurinn í framlengingu og við töpum í vítaspyrnukeppni.
Audunn Sigurdsson says
Ég vill sjá A Periera og Rafael fá sénsinn í kvöld.
Hjörtur says
Enginn leikur auðveldur, og þessi verður það heldur ekki.