Svo vitnað sé í undirritaðan í nýjasta hlaðvarpi Rauðu djöflanna
Preston er svo fornfrægt lið að það var meira að segja gott áður en ég man eftir mér
Preston North End voru stofnfélagar ensku deildarinnar og urðu Englandsmeistarar 1889 og 1890 og ekki nóg með það heldur unnu þeir bikarinn líka 1889 og voru því fyrsta liðið til að vinna það afrek. Því miður fyrir liðið endurtók það aldrei neitt þvílíkt, Bikarinn reyndar kom á Deepdale 1905 og 1938 og síðan ekki söguna meir. Liðið varð nokkrum sinnum í öðru sæti, síðast 1958.
1958 lék einmitt með liðinu þeirra mesti og besti leikmaður félagsins frá upphafi, Sir Tom Finney. Eins og aðalsnafnbótin bendir til var hann ekki einasta hetja Preston heldur einn merkari leikmaður enska boltans. Hann var af þeirri kynslóð þegar menn spiluðu fyrir sitt lið nema eitthvað sérstakt kæmi til. Þess vegna fékk hann ekki annað af persónulegu glingri en tvær medalíur fyrir annað sæti í deildinni. Hann lék hins vegar 70 leiki fyrir England og skoraði þrjátíu mörk. Vel af sér vikið hjá manni sem lék sinn fyrsta deildarleik 24 ára, áríð 1946 (Ef það þarfnast skýringar, spyrjið foreldra ykkar. Eða afa og ömmu)
Og með öllu þessu auglýsti hann pípulagningarþjónustu sína í leikskránni. Engin þrjúhundruðþúsund pund á viku þá. Það svíkur engan að lesa örlítið meira um þennan prýðispilt.
Preston hafði alltaf af og til komið við í annarri deildinni en árið 1961 var komið að leiðarlokum hjá Preston í efstu deild. Sir Tom hætti þrem árum síðar, kominn á fimmtugsaldurinn og frægð félagsins varð forn. Það sem eftir var sjöunda áratugsins mættust United og Preston tvisvar í bikarnum og þurfti aukaleik í bæði skiptin.
En Manchester United og Preston North End hafa ekki mæst síðan fimmta febrúar 1972 þegar hin heilaga þrenning Sir Bobby Charlton, Denis Law og George Best var alveg á síðasta snúning undir stjórn Frank O’Farrell en náðu þó að knýja fram 2-0 sigur á síðustu mínútum með mörkum Alan Gowling. Myndir frá leiknum líta út fyrir að vera jafn þunglyndar og þessi leikur virðist hafa verið.
En þrátt fyrir að hafa ekki mætt Preston í 43 ár er Preston engu að síður í 30. sæti yfir þau lið sem United hefur mætt oftast. Preston eru líka nágrannar United í Lankasskíri, og Gúgul frændi segir okkur að það séu einungis litlir 54km frá Old Trafford yfir til Deepdale og á auðri hraðbraut tekur það ekki nema 41 mínútu að skutlast þetta. Tengsl milli liðanna hafa líka verið ýmisleg í gegnum tíðina. Tommy Docherty var leikmaður Preston á sínum tíma og átti þar sín bestu ár og var síðar framkvæmdastjóri liðsins 1981 á þvælingi sínum milli liða eftir að hafa verið rekinn frá United og David Moyes þreytti síðan frumraun sína á stjórasviðinu á Deepdale. Sir Bobby Charlton færði sig til Preston eftir að ferli hans lauk hjá United og reyndi síðar fyrir sér sem stjóri þar með geysislökum árangri en fékk þó til sín fyrrum liðsfélaga sinn Nobby Stiles sem svo tók við stjórastöðunni.
Á síðustu árum hefur Preston verið eitt að þeim liðum sem hefur notið hvað mest að fá unga leikmenn United að láni og hófst sú saga með engum öðrum en David Beckham sem lék fimm leiki og skoraði tvö mörk fyrir Preston. Nú er svo markvörðurinn Sam Johnstone á láni hjá Preston og hefur leikið fimm leiki fyrir þá, en hann verður ekki látinn leika á morgun
Það er aðeins lengra milli liðanna í deildunum en er milli borganna, en áhugamenn um fornfræg lið hljóta að gleðjast yfir stöðu Preston í C-deildinni en þeir eru í hörkubaráttu um að komast í öruggt uppfærslusæti og ættu í það minnsta að fara í umspil. Lykillinn að stöðunni var sjö leikja vinningshrina fyrr í vetur og liðin fyrir ofan þá hafa verið að tapa stigum undanfarið. Preston hefur bara tapað einum leik á Deepdale síðustu 13 mánuðina og framkvæmdastjórinn er ekki alveg ókunnugur því að koma höggi á United. Simon Grayson var stjóri Leeds United þegar Leeds (af öllum h******* dj******** liðum) vann Manchester United í þriðju umferð bikarsins 2010. Á Old Trafford. Ekki nóg með það heldur er hetja Leeds frá þeim leik, Jermaine Beckford, í liðinu. Aðrir leikmenn sem við þekkjum hjá Preston eru framherjarnir Sylvain Ebanks-Blake sem einu sinni var hjá United og gamli maðurinn Kevin Davies. Engum þessara þætti leiðinlegt að setja boltann í netið í leiknum á morgun. Af þeim verður þó líklega bara Davies í byrjunarliði. Aðrir leikmenn eru minni spámenn en verða það ekki lengi ef þeir standa vel á morgun.
En að United liðinu. Þó að MK Dons sé þrem stigum ofan við Preston í deildinni þá er hægt að slá því föstu að ekki verði tekið jafn létt á leiknum á morgun og í þeim arga leik í haust. Louis van Gaal gæti ekki verið skýrari með það að hann stefnir á sigur í bikarnum og það verður ekkert gefið eftir. Michael Carrick er eini maðurinn sem er víst að verður ekki með. Óvíst er með Phil Jones og Daley Blind eftir leikinn á miðvikudaginn og Robin van Persie var bætt á þann lista á föstudaginn án þess að Van Gaal færi nánar út í hvers vegna.
Að spá fyrir um liðið hefur alltaf verið hálfgert ævintýri í vetur og það er ekkert öðruvísi núna. Van Gaal segist ekki vita hvert hans sterkasta lið sé og ekki veit ég það heldur. En prófum þetta
Að lokum nokkrir molar af borði Louis van Gaal frá blaðamannafundinum á föstudaginn:
[um ummæli Paul Scholes að liðið spili leiðinlegan bolta]
I don’t worry about it, It’s not so interesting I think.
Paul Scholes is one of the fans, I hope.
Fans can criticise, that is not a problem.
[en hann sagði líka]
The style of play is always very important. The club has a lot of fans, so you have to play for them.
In spite of the fact that we are looking for the balance, our results are not bad and our defensive organisation is not bad
[um hver tekur vítin]
I decide. I have secrets and we practise them every week. It’s good because set-plays are important.
[Fellaini er orðinn fimmti senterinn í hópnum!]
I am looking for different kinds of strikers and I hope you know I have five now,
[að lokum]
Next match we can show that we are still in our process and positive, when you see that it’s not bad I think
Við vonum svo sannarlega að hann hafi rétt fyrir sér þar!
Hjörvar says
Flott upphitun :D
Bjarni Ellertsson says
Jæja, stóra stundin nálgast. Heyrist á mönnum að nú verði hnífarnir brýndir og gengið hreint til verks. Ekkert hálfkák eða vantmat í gangi. Þegar sá gállinn er á okkur þá er ekkert sem stoppar okkur. Hef bullandi trú á okkar mönnum sama hverjir munu spila þennan leik, skiptir engu máli, hugurinn, eljan, drifkrafturinn og trúin á að vinna þennan leik er öllu yfirsterkari.
GGMU
Tryggvi Páll says
Virkilega fín upphitun. Það verður fróðlegt að sjá ástand vallarins í kvöld en vellirnir á Englandi hafa verið betri en akkúrat um helgina. Hér er völlurinn hjá Blackpool sem er ekki nema í hálftíma fjarlægð frá Preston
Vonum að vallarstarfsmennirnir á Deepdale sé betri en vallarstarfsmennirnir á Bloomfield Road!
Siggi says
Ef liðið tapar í kvöld þá held ég að það fari að hitna undir kallinum.
Fær Mata(heilt tímabil), Rojo, Shaw, Falco, Di Maria, Blind, Herrera, RVP búinn að vera heill, þarf ekki að kljást við Evrópukeppni og datt út gegn MK Dons í deildarbikar.
Spilamennskan hefur ekki verið merkileg, alltaf að fikta í leikerfum og er að láta menn spila í stöðum sem þeir nýtast ekki vel.
Ég er á því að þetta sé stórleikur fyrir LVG og hans framtíð. Ef hann tapar þessu og nær ekki í top 4 þá má hann fara.
Karl Garðars says
Sleik on…
Eigum við að skipta um stjóra á miðri leiktíð aftur??
Afsakið en ég hreinlega skil ekki þegar menn láta svona lagað út úr sér..