Leikurinn gegn Preston North End í FA-bikarnum í vikunni var merkilegur fyrir nokkrar sakir, ekki síst vegna þess að í leiknum tókst Manchester United að gera eitthvað sem var áður talið eitt af aðalsmerkjum félagsins en hafði ekki tekist hingað til á þessu leiktímabili: United vann leik eftir að hafa lent undir! Undur og stórmerki.
Kíkjum aðeins á tölfræðina hvað þetta varðar:
Þangað til á mánudaginn var United gjörsamlega fyrirmunað að ná að landa sigri eftir að hafa lent undir í leik. Að vísu er liðið oftar en ekki að næla sér í jafntefli sem er vissulega betra en ekkert. Það er þó af sem áður var en undir stjórn Sir Alex var liðið auðvitað alveg sérstaklega vel versað í að landa sigri eftir að hafa verið undir. Meira að segja undir stjórn David Moyes tókst liðinu að landa nokkrum endurkomusigrum. Hér má sjá hvernig þetta hefur verið á þessu tímabili og hvernig þetta var á tímabilinu í fyrra og síðasta tímabilinu undir stjórn Sir Alex:
Eins og sjá má var síðasta tímabilið undir stjórn Sir Alex alveg ótrúlegt endurkomutímabil. Aftur og aftur lenti liðið í vandræðum en náði þó oftar en ekki að snúa taflinu sér í vil. Það var þó eiginlega allt eða ekkert undir hjá Sir Alex enda gerði liðið bara tvo jafntefli eftir að hafa lent undir. Undir stjórn David Moyes snýst þetta við og liðið fer að tapa mun oftar þegar það lendir undir, vissulega nær hann í fjóra endurkomusigra en 15 töp er ansi há tala. Louis van Gaal hefur svo náð að snúa þessum töpum í jafntefli sem er jákvæð þróun þó betur megi ef duga skal, liðið er að gera of mörg jafntefli og við þurftum að bíða núna fram í febrúar til þess að sjá fyrsta endurkomusigurinn.
Þetta er merkileg þróun og sjá má þrjú mismunandi einkenni þessara stjóra í þessum myndum. Sir Alex náði oftar en ekki að snúa tapaðri stöðu í sigur, David Moyes tapaði einfaldlega þegar liðið var í tapaðri stöðu og Lois van Gaal nær að snúa töpum upp í jafntefli. Fyrir þessu eru eflaust margar útskýringar en mér dettur í hug nokkrar:
Í fyrsta lagi æfðu United-menn grimmt þá leikstöðu að vera undir með lítinn tíma eftir í stjóratíð Sir Alex. Þetta kom fram í viðtali við Rene Meulensteen og sást einfaldlega á leik liðsins. Það var engin örvænting og sem stuðningsmaður missti maður aldrei trúnna á því að United myndi ná að sigla sigra heimi þrátt fyrir að vera með klukkuna teljandi niður í tap. Þvert á móti, maður bjóst bara við því að United myndi skora. Það kæmi mér ekkert á óvart ef að þessi venja að æfa þessa leikstöðu hafi horfið þegar þjálfarateymi Sir Alex var látið fara og hafi ekki verið æft að neinu viti síðan.
Í öðru lagi má nefna þennan fræga fear-factor sem oft hefur verið rætt um. Clive Tyldesley mælti þau ódauðlegu orð „Can they score? They always score“ þegar hann var að lýsa bestu endurkomu allra tíma. Þessi orð fanga stjóratíð Sir Alex alveg fullkomlega. United skoraði alltaf. Þetta vissu andstæðingarnir, þetta vissu liðsmenn United, þetta vissu allir. Þessi hræðsla við United hvarf einfaldlega á síðasta tímabili þegar andstæðingarnir fundu lyktina af blóðinu úr því svöðusári sem sem síðasta tímabil var. Að auki virtust leikmenn United ekki hafa haft mikla trú á David Moyes, sérstaklega undir það síðasta og því kannski ekki barist af eins miklum eldmóð og á tímabilunum á undan.
Þetta virðist ekki vera jafnmikið vandamál undir stjórn Louis van Gaal, leikmennirnir virðast trúa á hann og ef það er eitt orð sem lýsir Louis van Gaal þá er það sjálfsöryggi. Þetta gerir m.a. það að verkum að United-menn hætta ekki ef þeir lenda undir, berjast fyrir liðið sitt og stjórann og ná að uppskera að minnsta kosti eitthvað fyrir erfiðið. Liðið er þó að spila of varfærnislega til þess að ná að stela sigrunum eftir að hafa jafnað enda krefst það ákveðinnar ævintýramennsku af liðinu sem virðist vera bæld niður af hálfu van Gaal, af einhverjum ástæðum sem eru eflaust góðar og gildar í hans huga.
Eins og er erum við með yfirhöndina í einhverri hörðustu baráttu um Meistaradeildarsætin sem við höfum séð. Lykilinn að árangri í henni virðist einfaldlega vera sá að skora fyrsta markið í leiknum. Eins og sjá má á efstu skýringarmyndinni hefur liðið unnið 15 af þeim 17 leikjum sem liðið skorar fyrsta markið en þegar liðið þarf að elta gengur illa að ná í sigurinn. Baráttan er það hörð um 3-4. sæti að ekkert lið í þessari baráttu má einfaldlega við því að misstíga sig mikið. Við eigum erfiða leiki núna á síðasta fjórðung tímabilsins og því ljóst að annaðhvort þurfa framherjarnir okkar að nýta þau færi sem þeir fá snemma leiks eða þá að Sir Alex, Mike Phelan og Meulensteen þurfa að fara líta við á æfingum og kenna leikmönnunum gömlu handtökin.
Annað sem þyrfti að laga núna þegar farið er að síga á seinni helminginn er útivallargengi liðsins sem er varla boðlegt. Það er himinn og haf á milli frammistöðu og gengi liðsins eftir því hvort það spilar á Old Trafford eða á útivelli. Á útivelli er liðið oft í bölvuðum vandræðum:
Þetta útivallargengi er klárlega eitthvað sem þarf að lagast enda t.d. erfiðar ferðir á Anfield, Goodison Park og Stamford Bridge á dagskránni framundan. Af þessum liðum sem eru í baráttu um 3-4 sæti erum við með besta árangurinn á heimavelli og versta árangurinn á útivelli ef við lítum á hlutfall stig/leik það sem af er tímabili:
Öll liðin eiga tiltölulega strembna dagskrá framundan. Liverpool, Arsenal og Spurs eru öll í Evrópukeppni auk þess sem að við, Liverpool og Arsenal erum ennþá í bikarnum og Spurs á eftir úrslitaleikinn í deildarbikarnum. Southampton glímir einnig við töluverð meiðsli en liðið trjónir á toppnum á meiðslatöflunni. Þetta er því gjörsamlega galopið og verður það líklega fram á síðasta leikdag.
Til gamans útbjó ég þessa töflu sem áætlar lokastöðuna í deildinni miðað við hlutfall marka í leik og stigasöfnun hingað til: Það er auðvitað margt sem á eftir að spila inn í þessa baráttu en þetta sýnir einfaldlega hvað lítið má útaf bregða. Það eru spennandi tímar framundan.
Rauðhaus says
Mjög góður pistill, hafðu þakkir fyrir!
Sigurjón Arthur Friðjónsson says
Tek undir með Rauðhaus 100 %
kv,
SAF
Andri says
Takk fyrir góđa grein, alltaf gaman ađ smá statistík.