Jonny Evans hefur verið fundinn sekur um að hafa hrækt á/að Papiss Cisse í leiknum gegn Newcastle á miðvikudaginn. Hann fær 6 leikja bann sem er það viðmið sem FA setur við slíku broti. Athygli vekur að refsingin hefur tvöfaldast frá því á síðasta tímabili en þá fékk George Boyd þriggja leikja bann fyrir að hrækja á Joe Hart. Jonny Evans neitaði sök í yfirlýsingu í fyrrdag og lét m.a. eftirfarandi orð falla:
It is not in my character or in my nature to spit at anybody nor is it something I have ever done or would ever do. It is certainly not something that I did last night.“ #
Papiss Cissé játaði á sig sitt brot og fékk 7 leikja bann, 6 leiki fyrir slummuna og 1 að auki fyrir að hafa fengið rautt spjald á leiktíðinni. Vegna þess að Evans neitaði sök var málið tekið fyrir hjá aganefnd FA og skoðað frekar en það breytti engu. Evans var fundinn sekur og ekki er búist við því að Evans muni áfrýja dómnun. Hann mun því missa af eftirfarandi leikjum:
Þetta bann kemur á versta tíma fyrir Evans. Hann hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu en verið að koma sterkur inn upp á síðkastið með tveimur fínum frammistöðum gegn Sunderland og Newcastle. Mikið hefur verið rætt um að hann verði einn af þeim leikmönnum sem fari á brott frá félaginu í sumar en þó er talið að Louis van Gaal hafi álit á Evans sem varnarmanni. Þetta bann hjálpar Jonny Evans þó líklega ekki neitt þegar sumarið kemur.
Mörgum þykir bannið ansi stíft enda eru skiptar skoðanir um alvarleika brotsins. Líkt og Jamie Carragher veltir upp í nýjasta pistli sínum hefði hann frekar kosið að sitja uppi með slummu í andlitinu fremur en brotinn fótlegg eftir viðskipti sín við Lucas Neill í leik Blackburn og Liverpool árið 2003. Ég er nokkuð viss um að Stuart Holden sé sama sinnis en hann hefur spilað 8 keppnisleiki frá því að hann meiddist eftir tæklingu frá Evans í leik Bolton og United árið 2011. Evans fékk rautt spjald og hefðbundið þriggja leikja bann fyrir vikið. Athygli vekur einnig að John Terry fékk aðeins fjögurra leikja bann fyrir kynþáttafordóma í garð Anton Ferdinand. Samkvæmt FA eru því kynþáttafordómar ekki jafn alvarlegt brot og að hrækja að einhverjum!
Það breytir því þó ekki að þeir félagar Cissé og Evans sýndu af sér afskaplega heimskulega hegðun og þeir skammast sín vonandi fyrir þennan leikþátt sem þeir settu upp á St. James Park. Líkt og kynþáttafordómar eða yfirgengilega hættulegar tæklingar á þetta ekki heima á knattspyrnuvellinum undir neinum kringumstæðum. Allt við þetta atvik var einstaklega vandræðalegt og ég vona að þetta kenni Jonny Evans að munnvatnið á heima upp í munni eða í það minnsta í góðri fjarlægð frá öðrum leikmönnum. Hann hefur í það minnsta nógan tíma til þess að læra þessa lexíu.
Hjörtur says
Mér er ómugulegt að skylja í manninum að mótmæla því að hafa hrægt, það sést greinilega á myndbandinu að hann hrækir, en hvort slumman lenti á Cisse er ekki eins gott að sjá. 6 leikja bann finnst mér allt í lagi, og það má þyngja refsingar fyrir fleira sem er að gerast á vellinum, t.d. olnbogaskot, tæklingar af grófari gerðini, sífeld mótmæli o.fl.o.fl. þá kanski fara leikmenn að sjá að sér, ef refsingarnar eru þungar.
Audunn Sigurdsson says
Að hrækja á eða í átt að einhverjum er það viðbjóðslegasta sem menn geta gert á knattspyrnuvellinum og fleiri stöðum ef út í það er farið.
Það er verra en að segja að einhver sé negri að mér finnst.
Evans sleppur vel, hann hefði alveg átt skilið 12 leikja bann að mér finnst.