Það má skipta ferli Antonio Valencia í tvo hluta. Þegar hann gat eitthvað og svo þegar hann gat ekki neitt.
Valencia mætti til klúbbsins sumarið 2009 og þurfti þar að fylla stærstu skó sem félagið hafði séð. Hvernig í ósköpunum átti eitthvað ‘no-name’ frá Ekvador sem spilaði með Wigan Athletic að geta komið í stað Cristiano Ronaldo? Svo gott sem ómögulegt en Valencia stóðst prófið eins vel og hægt var að vona. Framan af í það minnsta. Hann byrjaði ágætlega. Fyrsta tímabil sitt var hann stoðsendingahæstur með 11 stykki, setti að auki 5 mörk og fékk sæti í PFA-liði ársins. Því miður ökklabrotnaði hann í upphafi næsta tímabils og var frá stærstan hluta tímabilsins en kom sterkur inn síðasta þriðjung tímabilsins. Innkoma hans var reyndar svo sterkt að hann sló hreinlega Nani út úr liðinu sem var að eiga sitt langbesta tímabil í rauðu treyjunni.
Tímabilið 2011/2012, árið eftir ökklabrot Valencia sló hann í gegn. Hann skoraði 6 mörk og lagði upp 15 mörk. Hann var valinn leikmaður ársins af liðsfélögum sínum í United og þetta mark var valið mark ársins hjá félaginu. Á þessum tíma var alveg yndislegt að horfa á þennan mann spila knattspyrnu. Hann var einhverskonar blanda af Hulk og Roadrunner. Krafturinn og hraðinn var slíkur að afskaplega fáir réðu við Valencia. Hann var áræðinn og fylginn sér og virtist varla geta tekið ranga ákvörðun. Hann átti auðvitað aldrei séns í það að ná hæðunum hans Ronaldo en hann var að spila langt umfram allar væntingar sem hægt var að gera til hans.
Eins og allir vita er treyja nr. 7 algjörlega heilög hjá Manchester United. Bobby Charlton, George Best, Bryan Robson, Eric Cantona, David Beckham, Cristiano Ronaldo, ehm…Michael Owen. Sir Alex var svo ánægður með Valencia að honum fannst hann verðskulda ábyrgðina sem fylgir því að vera nr. 7 hjá United. Þetta virtist vera rökrétt ákvörðun þegar hún var tekin enda var Valencia einn af lykilmönnum liðsins. Eitthvað virðist ábyrgðin þó hafa farið öfugt ofan í Valencia. Í treyju nr. 7 skoraði hann 1 mark og lagði upp 5 og fór smám saman að breytast í þann leikmann sem við þekkjum í dag[footnote]Valencia 2009-2012: 92 leikir, 16 mörk, 29 stoðsendingar – Valencia 2012-2015: 98 leikir, 5 mörk, 13 stoðsendingar[/footnote].
Þessi áræðni og kraftmikli leikmaður breyttist í hræddan og veikburða leikmann algjörlega án alls sjálfstrausts. Í stað þess að vera leikmaður sem keyrði framhjá varnarmönnum án þess að hugsa mikið um það breyttist hann í leikmann sem gat varla tekið ákvörðun án þess að fá utanaðkomandi aðstoð. Hann var lengi að öllu, hægði á spilinu og það kom ekkert út úr honum sóknarlega. Hver kannast ekki við að sjá Antonio Valencia fá boltann í hættulegri stöðu á kantinum bara til þess að sjá hann hika nógu lengi til þess að drepa sóknina áður en hann gefur boltann til baka á næsta leikmann. Hver kannast ekki við að sjá Antonio Valencia fá boltann í hættulegri stöðu, taka varnarmanninn á með eina bragðinu sínu eftir langa mæðu bara til þess að dúndra boltanum eins fast og hann getur í fyrsta varnarmann?
Þessi umbreyting var svakaleg og svo virðist sem hann hafi ekki höndlað athyglina sem fylgdi því að vera einn af aðalmönnum Manchester United. Hann sneri aftur í treyju nr. 25 en það breytti litlu. Hinn slaki Antonio Valencia var kominn til að vera. Eins og flestir átti hann slakt tímabil á síðasta tímabili og þolinmæði margra gagnvart fyrirliða Ekvador var nánast á þrotum.
Hann hefur þó gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undir stjórn Louis van Gaal á þessu tímabili. Líkt og Sir Alex Ferguson kom van Gaal auga á að hægt væri að nýta krafta hans í vörninni. Þetta er ekki svo galið vegna þess að maðurinn er auðvitað ógnarsterkur og ótrúlega snöggur, að þessu leyti hefur hann forskot á flesta þá leikmenn sem hann mætir. Undanfarið hefur hann spilað í hægri bakverði en framan af spilaði hann í hægri vængbakverði. Ef maður horfir á varnartölfræði hans er mjög erfitt að kvarta yfir frammistöðu hans.
Enginn leikmaður United reynir eða vinnur fleiri tæklingar[footnote]Valencia hefur unnið 78 af þeirri 91 tæklingu sem hann hefur farið í. Fellaini er næstur með 49 unnar tæklingar af 69.[/footnote], enginn leikmaður United vinnur boltann aftur fyrir lið sitt jafn oft og Antonio Valencia[footnote]144 stykki eða á 14 mínútna fresti.[/footnote] og aðeins Wayne Rooney og Daley Blind hafa reynt fleiri sendingar en hann en hvorugur þeirra nær að vera með 90% hlutfall heppnaðra sendinga. Hann er öruggur í flestum sínum aðgerðum, vinnur boltann þegar á þarf að halda og umfram allt missir hann ekki boltann frá sér en það er eitthvað sem Louis van Gaal er ekki hrifinn af eins og við höfum séð.
Það var ansi pirrandi að fylgjast með honum fram á við þegar hann spilaði í vængbakvarðar-stöðunni. Þá bar hann ábyrgð á öllum hægri vængnum og á síðasta þriðjungi vallarins sáum við þann Antonio Valencia sem við höfum fengið að sjá síðustu 2-3 tímabil. Hann var ragur og lengi að athafna sig og gat ekki staðið undir því að þurfa að bera upp sóknarleikinn hægra megin. Eftir að hann var færður aftar á völlinn er þó farið að koma meira út úr honum sóknarlega, eins undarlega og það kann að hljóma.
Hann hefur grætt ansi mikið á að spila aftar á vellinum með hæfileikaríkari leikmenn fyrir framan sig, sérstaklega þá félaga Ander Herrera og Juan Mata. Þessir leikmenn hafa myndað ansi áhrifaríkt þríeyki í undanförnum leikjum. Það hentar honum vel að Herrera og Mata eru leikmenn sem vilja leita inn á völlinn, það opnar pláss fyrir Valencia eins og sjá má á þessari mynd úr leiknum gegn Villa og gegn Liverpool:
Í staðinn fyrir að vera einn með allan þennan væng eins og fyrri hluta tímabilsins er hann að vinna með tveimur frábærum knattspyrnumönnum beint fyrir framan sig og það bíður upp á talsvert fleiri möguleika fyrir hann sem og liðið. Ef maður skoðar hvaða leikmenn eru að gefa á hverja í leikjum poppar einhver samblanda af Valencia, Mata og Herrera upp:
Ég hvet menn eindregið til þess að taka eftir þessu í næstu leikjum liðsins. Þessir þrír leikmenn eru alltaf nálægt hver öðrum og bjóða alltaf upp á sendingarmöguleika og hreyfanleika. Þessi samvinna gerði það t.d. að verkum að Antonio Valencia skapaði flest færi af öllum í leiknum gegn Villa. Á tímabilinu er hann jafnframt með betra hlutfall heppnaða fyrirgjafa en t.d. Angel di Maria. Ólíkt Di Maria er Valencia aðeins þó með 2 stoðsendingar undir sínu belti. Sóknarlega er hann því hvorki að skapa mörk eða skora þau en með því að vera alltaf klár á hægri vængnum gefur hann Herrera og sérstaklega Mata færi á að vera hreyfanlegri. Þetta skapar usla og þetta teygir á vörnum andstæðinganna og er að mínu mati stór þáttur í því að liðinu er farið að ganga töluvert betur að opna varnir andstæðinganna. Hann er því að styðja afskaplega vel við þá leikmenn sem eru hvort sem er margfalt betri en hann sóknarlega. Við sjáum þetta raunar líka á vinstri vængnum þar sem Daley Blind er alltaf mættur í framhjáhlaupið framhjá Ashley Young eða Fellaini. Þannig varð t.d. fyrsta markið í leiknum gegn Aston Villa til.
Það er ekki annað hægt en að hrósa Valencia fyrir það hversu stöðugur hann hefur verið á þessu tímabili. Vissulega finnst manni það vera pirrandi þegar hann púllar Valencia á þetta og stoppar í 10 sekúndur áður en hann dúndrar lélegum bolta inn í teiginn en í grófum dráttum er hann að standa sig mjög vel varnarlega og að auki er hann að styðja vel við þá leikmenn sem eru fyrir framan hann. Er þetta ekki starfslýsingin á hægri bakverði?
Það er nokkuð ljóst að félagið er á höttunum eftir hægri bakverði. Rafael virðist vera alveg út úr myndinni, ef til vill vegna þess að honum gengur ekki jafn vel að fylgja fyrirmælum og Valencia og leikmenn eins og Dani Alves og Clyne hafa verið orðaðir við félagið. Fyrir nokkrum mánuðum hefði ég alltaf valið nýjan hægri bakvörð en í dag er ég ekki alveg svo viss. Það breytir því þó ekki að félagið mun mjög líklega kaupa hægri bakvörð en það er alveg morgunljóst að Antonio Valencia er búinn að tryggja framtíð sína hjá Manchester United með því að vera leikmaður sem hægt er að treysta á að skili alltaf sínu, ekki mikið meira en það en alls ekki minna.
Halldór Marteinsson says
Skemmtilegur lestur. Gaman að fá svona pistla.
Ég var svo handviss um að Rafael myndi verða einn af þessum leikmönnum sem myndi blómstra hjá Van Gaal. Fannst m.a.s. spennandi tilhugsun að sjá hvað hann gæti sem wingback. En hann virðist ekki hafa þessa aðlögunarhæfni sem er nauðsynleg til að spila í Van Gaal liði og menn eins og Young, Fellaini, Herrera, Valencia og fleiri hafa sýnt að þeir hafi. Rafael fékk þó allavega tímabilið til að reyna að sanna sig, sem er meira en sumir aðrir fengu.
Stefán Agnarsson says
Frábært pistill og gaman að lesa :)
Einar says
Mjög skemmtileg pistill :)
DMS says
Flottur pistill.
Rafael er sennilega aðeins of villtur fyrir Van Gaal. En sammála með Valencia, hann er vonandi að læra betur inn á þessa nýju stöðu. Held það henti einmitt Mata og Herrera vel að vita af honum að sleikja hliðarlínuna í overlappi með sinn mikla sprengikraft.
Auðunn Sigurðsson says
Veit ekki hvort það þurfi að hrósa honum sérstaklega fyrir að gera það sem hann fær brjáluð laun fyrir að eiga að gera inn á vellinum.
Það er ekki eins og hann sé að eiga eitthvað geðveikt tímabil, það finnst mér langur vegur frá.
Valencia er ekkert meira en þokkalegur leikmaður og ekkert þokkalegri en það að það verður alveg pottþétt keyptur nýr hægri bakvörður í sumar sem betur fer.
Valencia er að mér finnst ekki nógu góður fyrir klúbb eins og Manchester United.
Valdi Á. says
Valencia hefur alltaf verið fyrir mér alveg frábær „squad player“. Í flestum tilvikum hægt að treysta á hann. Væri gott að kaupa bakvörð en vita síðan af honum Valencia á bekknum og þegar meiðsli eiga sér stað.
Rauður sláni. says
Valencia virkar ákaflega vel sem hægri bakvörður en mig langar innilega að sjá Rafael fá uppreisn æru, hann hefur hæfileikana.
Rauðhaus says
Góð grein. Valencia hefur þjónað okkur vel í gegnum tíðina. Hann er kraftmikill leikmaður en fyrst og fremst góður liðsmaður og flottur karakter. Hann er leikmaður sem yfirleitt er hægt að treysta á því þú veist hvað þú færð frá honum. Það verður kannski ekkert stórkostlegt (ekki lengur), en ekki heldur e-h klúður sem maður gat alls ekki séð fyrir (mistökin gegn Arsenal um daginn voru dýr, en afar ólíkt Valancia).
Þessu er þveröfugt farið hjá Rafael. Hann er á góðum degi betri bakvörður en Valencia, það held ég að fáir efist um. En því miður er bara ekki hægt að setja traust sitt á hann því hann gerir sig ítrekað sekan um einhvern óþarfa sem skynsamir leikmenn ná að sneiða hjá því að gera. Hann kostar okkur alltof mikið af stigum vegna heimskupara. Þess vegna fær hann ekki að spila, honum er ekki treystandi.
Ég held það sé nokkuð ljóst að Rafael verður seldur í sumar. Þá held ég einnig að við munum kaupa nýjan hægri bakvörð sem er ætlað að verða okkar fyrsti kostur þar. Persónulega vona ég að Clyne verði keyptur, hann er bæði sterkur og fljótur, auk þess að vera fínn í fótbolta og ungur að árum. Valencia verður svo áfram hjá okkur, hann er fínn squad player með gott attitude.
ellioman says
Auðunn skrifaði: „Veit ekki hvort það þurfi að hrósa honum sérstaklega fyrir að gera það sem hann fær brjáluð laun fyrir að eiga að gera inn á vellinum.“
Get nú ekki alveg tekið undir þetta því með þessum rökum getum við aldrei hrósað neinum leikmanni því hann er á svo góðum launum.
Tryggvi Páll says
@Auðunn Sigurðsson
Ef við drögum launin alltaf inn í þetta er ekki hægt að hrósa neinum einasta leikmanni. Þeir fá allir milljónir í laun. Til hvers skrifa fjölmiðlar þúsundir orða um Ronaldo og Messi í hverri viku, eru þeir félagar ekki bara að gera það sem þeir fá borgað fyrir? Kommon.
—
Hvað varðar Valencia hefði ég fyrir ekki svo löngu verið hjartanlega sammála þeim sem telja Valencia ekki nógu góðan fyrir United. Ég var ekki hrifinn af honum í vængbakvarðarstöðunni vegna þess að sóknarhæfileikar hans eru alltof takmarkaðir. Að auki hefur hnignun hans farið verulega í taugarnar á mér síðustu 2-3 tímabil, líklega vegna þess hve góður hann var þegar hann kom fyrst.
Mér finnst hann þó hafa blómstrað í bakverðinum. Eins og ég fer yfir í greininni er lítið hægt að setja út á varnarvinnu hans og samvinna hans við Spánverjanna okkar framar á vellinum er mjög góð. Líklega kaupum við hægri bakvörð en ég á erfitt með sjá að hvaða leikmaður myndi stórbæta þessa stöðu miðað við hvernig Valencia er að spila í dag. Það er nú ekki eins og það þurfi einhvern stjörnuleikmann í þessa stöðu. Það sem þarf er öruggur varnarmaður sem getur stutt vel við sóknarleikinn og það er nákvæmlega það sem Valencia er að gera í dag.
Auðvitað getur þetta verið tímabundið form á kappanum og andlegi þátturinn virðist skipta máli hjá honum ef miðað er við feril hans hjá United hingað til. En eins og er á hann klárlega hrós skilið fyrir að vera að vinna vinnuna sína vel.
Hvað varðar Rafael hef ég hef alltaf verið hrifinn af honum en hann virðist bara ekki eiga séns undir stjórn Louis van Gaal og það er án efa vegna þess hve villtur hann er, það virðist hreinlega vera eitur í beinum LvG.
Björn Friðgeir says
Þegar ég sá að Tryggvi ætlaði að fara að skrfia um TonyV leið mér ekkert vel.
Ég vissi hann myndi skrifa einhverja vel pælda grein um það hvernig TonyV, eins og 2-3 aðrir leikmenn hafi blómstrað undanfarið og hrósa honum fyrir að eigna sér bakvarðarstöðuna og mér er barasta ekkert vel við það.
Greinin er komin og það er erfitt að vera ósammála þessu, kallinn hefur staðið sig þokkalega undanfarið.
En.
EN!
Núna eru að koma tveir risaerfiðir leikir og þá mun sannarlega koma í ljós hvort þessi grein er skrifuð of snemma, því að í svona leikjum kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir
Og sjáið þið TonyV taka þennan pól í hæðina?
Ekki er ég að fara að búast við því
Tryggvi Páll says
Kannski ekki. Antonio Valencia er þó ekki hrifinn af Liverpool-mönnum. Hann hlýtur að fá einhver stig fyrir það.
Halldór Marteinsson says
Rauðhaus talar um að Valencia sé flottur karakter og það sé meðal þess sem setji hann framfyrir Rafael. Get ekki alveg tekið undir það. Mér finnst Rafael vera margfalt meiri karakter, hann hefur skemmtilegan persónuleika og er litríkur bæði innan vallar sem utan. Valencia er hins vegar alltaf eins og vélmenni og er ekki einu kominn með almennileg tök á enskunni ennþá.
En ég skil samt pointið með að hann er góður squadplayer. Hann er ekki með neitt múður heldur sinnir sínum störfum, sama hvaða stöðu hann er settur í.
ellioman says
Hey hey, má ég vera memm í myndafjörinu??
lampi says
Rauðhaus says
Næstum slétt 14 ár frá því þetta gerðist í leik liðanna https://www.youtube.com/watch?v=k8O6poP9gF4