Hvar byrjar maður? Á liðunum kannski. United stillti upp eftirfarandi liði:
Bekkur: Valdes, Rafael, Rojo, McNair, Januzaj, Di Maria, Falcao
City-liðið var svona.
Bekkur: Caballero, Mangala, Kolarov, Fernando, Nasri, Lampard, Dzeko
Það var augljóst í vikunni sem leið að United-menn væru sigurvissir fyrir þennan leik og ég var sannarlega einn af þeim. Þegar nær dró leik var þó alltaf einhver rödd aftan í kollinum sem sagði manni að City-menn myndu mæta dýrvitlausir í þennan leik eftir vonbrigði síðustu umferða. Kannski, bara kannski, myndu okkar menn leyfa sér smá værukærð eftir frábært gengi undanfarið.
Maður var ósköp hræddur um að þessi rödd hefði haft rétt fyrir sér vegna þess að City-menn byrjuðu af miklum krafti. Ákefðin var þeirra, tæklingarnar voru þeirra og fyrsta markið var þeirra. Það lá í loftinu. Okkar menn virtust varla vera með. Silva, Aguero og félagar sendu og hlupu framhjá okkar mönnum eins og þeir væru ekki inni á vellinum. Markið kom á 8 mínútu eftir að varnarmenn United höfðu horft á City-mennina labba inn í teig. Silva fékk boltann í góðri stöðu, kom boltanum á Agüero sem þurfti bara að að ýta boltanum yfir marklínuna. 0-1.
Í sannleika sagt hefði City getað verið búið að skora áður en að fyrsta markið kom. Smalling, Carrick og Jones höfðu átt tæklingar á ögurstundu inn í teig United á meðan De Gea varði vel frá Navas úr fínu færu vinstra megin úr teignum. City-menn gerðu vel í að nýta sér veikleika Blind og hann átti ekki séns í ferðina á Navas. Þetta leit illa út á meðan City-liðið leit ansi vel út. City-menn nýttu sér vel háa varnarlínu United og Agüero og Navas voru alltaf klárir í að fá háar sendingar yfir hana. De Gea þurfti að vera vel á verði og sýndi á sér nýja hlið þar sem hann sópaði frábærlega upp eftir þessa sóknartilburði City.
Jöfnunarmark United kom upp úr slíku sópi. Slök baksending og pressa frá Agüero gerði það að verkum að De Gea þurfti að mæta hátt á völlinn, hann náði á undan í boltann og negldi háum bolta fram til þess að hreinsa. Þessi hreinsun reyndist vera frábær sending beint á kollinn á Fellaini. Boltinn barst til Herrera, boltinn fór inn í teig og þar var Ashley Young mættur og hann skoraði af harðfylgi. 1-1 og aðeins 14 mínútur liðnar.
Þetta var líklega óverðskuldað mark en það sem gerðist næstu 75. mínúturnar var ekki óverðskuldað á neinn hátt. Smám saman tók United yfir leikinn og með því fylgdu yfirburðir United líkt og við sáum gegn Tottenham og Liverpool. Ákefðin færðist okkar megin og með því tæklingarnar og allt annað. Upp úr þessu uppskárum við markið sem kom okkur yfir. Frábær samvinna Blind og Young á vinstri kantinum bar ávöxt. Þeir skiptust á boltanum þangað til Young fann kollinn á Fellaini sem yfirgnæfði Clichy á fjærstönginni. 2-1. Old Trafford í stuði.
2-1 var staðan eftir fyrri hálfleik sem var algjörlega frábær skemmtun, bæði lið sóttu vel og þetta var enski boltinn eins og hann gerist bestur. Í hálfleik fór Vincent Kompany útaf meiddur en rétt fyrir lok hálfleiks var hann heppinn að fjúka ekki út af fyrir ljóta tæklingu á Daley Blind. Krýningin á afleitu tímabili hjá Belganum sterka.
Veislan hélt áfram í seinni og United-menn héldu áfram að vera með yfirhöndina. Marouane Fellaini át Yaya Toure, Michael Carrick stjórnaði ferðinni og á vængjunum unnu Mata og Valencia annars vegar og Young og Blind hinsvegar afskaplega vel saman. Þriðja markið kom á 67. mínútu. Fellaini vann boltann á miðjunni, Blind kom honum á Rooney sem beið eftir hlaupinu frá Mata. Hann fékk boltann í örlítilli rangstöðu en ekkert flagg sást á lofti. Vörn City var eins og Rauðahafið í Biblíunni og Mata rölti í rólegheitunum að markinu áður en hann klobbaði Joe Hart. 3-1. Vá.
City-menn gáfust nánast upp við þetta mark og 6 mínútum seinna var Chris Smalling búinn að koma boltanum í netið eftir aukaspyrnu frá Young. Líklega hefðu flestir leikmenn United verið í rangstöðu ef ekki hefði verið fyrir Mangala, miðvörð City, sem kom inná fyrir Kompany. Hann braut rangstöðuvörn City og hljóp alltof snemma af stað og gerði alla leikmenn United réttstæða. Takk kærlega fyrir það. Smalling var alveg einn og skallaði boltann snyrtilega framhjá Hart í markinu. 4-1.
Eftir þetta breyttist leikurinn í góðgerðarleik. Falcao og Di Maria fengu að spreyta sig og Agüero tókst að skora uppbótarmark fyrir City. Skömmu áður hafði Michael Carrick skipt sjálfum sér út vegna meiðsla að því er virtist. Rojo hafði komið inn fyrir Jones á undan Di Maria og Falcao og því voru skiptingarnar uppurnar. Mikilvægi Carrick kom því bersýnilega í ljós, eingöngu án hans inni á vellinum gátu City-menn skorað mark.
Það er varla hægt að hrósa einum umfram aðra eftir svona frammistöðu. Liðið sýndi ótrúlegan karakter að koma til baka eftir virkilega öfluga byrjun hjá andstæðingunum. Mörk breyta leikjum segja menn og það reyndist sannarlega raunin hér í dag.
Fellaini steig ekki feilspor og hann át Yaya Touré á miðjunni sem hefur nú aldeilis oft látið okkur kenna á því með því að taka yfir miðjuna í leikjum þessara liða. Hann fékk aldrei tækifæri til þess í þessum leik.
Michael Carrick stjórnaði förinni hér í dag. Hann verndaði vörnina sem átti í erfiðleikum framan af. Það rennur varla blóðið í honum og það er mikilvægt að hafa svona mann inni á vellinum. Hann skipti sjálfum sér útaf undir lok leikins og virtist vera meiddur. Ef það er einn leikmaður sem við höfum ekki efni á því að missa þá er það Michael Carrick og því vonum við að þetta sé ekkert alvarlegt.
Carrick isn’t injured, he just dropped the mic and left
— Robert Martinez (@elrob) April 12, 2015
Miðjan hjá City náði aldrei að klóra sig aftur inn í leikinn eftir að hafa misst undirtökin. Það sést best á þessum tölfræðiþáttum en yfirleitt er City með um kringum 55-60% ‘possession‘. Ashley Young átti stórleik, lagði upp tvö mörk, skoraði eitt og hefði átt að skora eitt í viðbót ef hann hefði gert allt annað en það sem hann gerði þegar hann fékk algjörlega frían skalla í seinni hálfleik. Hann og Blind mynda ótrúlega gott teymi á vængnum, líkt og Mata og Valencia hinum megin. Svona gæti ég haldið áfram og talið upp hvern einasta leikmann en það er einn maður sem á skilið allt það hrós sem hægt er að fá. Louis van Gaal. Það var hlegið að okkur á síðasta tímabili og það var hlegið að okkur í upphafi þessa tímabils. Það hlær enginn núna. Nema við. Og hann. Liðið brotnar ekki undir álagi, það nær alltaf að snúa til baka og halda áfram. Árangur hans í stóru leikjunum á þessu tímabili er hreinlega stórfenglegur.
Last three big games now (including Spurs given it was in CL race at time), United the dominant, assertive team for majority of game. — Miguel Delaney (@MiguelDelaney) April 12, 2015
Frammistaðan sem hann er að ná út úr mönnum sem búið var að afskrifa og henda á haugana er ekkert annað en ótrúleg. Fyrir þetta tímabil hefðu flestir stuðningsmenn viljað losna við leikmenn eins og Fellaini og Young. Þessir leikmenn áttu stærstan þátt í sigrinum hér í dag og hafa spilað stórfenglega að undanförnu. Það besta við Louis van Gaal er þó það að liðið spilar sem heild og er miklu sterkara fyrir vikið. Munurinn á CIty og United hér í dag var einfaldlega sá að að einstaklingarnir sem City treystir á náðu sér ekki á strik á meðan liðsheild okkar vann saman sem eitt. Það er enginn að skara framúr hjá okkur þessa dagana, það eru allir að gera sitt., allir að blómstra í einu. Ander Herrera skorar tvö mörk í leiknum gegn Villa, Juan Mata gengur frá Liverpool, Rooney og Fellaini gegn Tottenham.
Og spilamennskan, maður lifandi. Það er eitt að vinna leiki gegn City, Spurs og Liverpool. Það er allt annað að pakka þessum liðum saman á afskaplega sannfærandi hátt.
Ég skrifaði pistil um Louis van Gaal eftir að HM lauk og þar kom ég inn á það hvaða væntingar ég bæri til hans:
Louis van Gaal fékk þriggja ára samning sem líklega verður hans síðasti á ferlinum. Hans hlutverk er ósköp einfalt:
Að endurvekja hræðsluna við Manchester United.
Maður myndi alltaf taka þrjú stig gegn Liverpool og City, sama hvernig frammistaðan væri. Sigrarnir á þessum liðum og Tottenham að auki ætti að gera stuðningsmenn annara liða skíthrædda. Menn geta gleymt þeirri tilhugsum um að United væri búið spil eins og margir létu sig dreyma um eftir síðasta tímabil.
Við höfum snúið aftur. Passið ykkur.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Hefði viljað sjá City vera áfram með Milner á bekknum og helst með 2 frammi líka, það hefur virkað mjög illa fyrir þá.
En ég hef fulla trú á því að United taki þetta :D
Ingi Utd says
Jæja, komið að okkur að vinna shitty
Sama hvernig farið er að því, bara 3 stig.
Kjartan Jónsson says
Rautt spjald þarna á Bad Kompany, engin spurning
Helgi P says
djöfulsins snild erum að spila vel
Robbi Mich says
*BEEB* JÁ!!
DMS says
Frábær leikur. Louis Van Gaal kann svo sannarlega að vinna stóru leikina. Erum núna komnir með fleiri stig en á öllu síðasta seasoni.
Var pínu smeykur að sjá Carrick fara út af þarna í lokin. Kom svo sem ekkert á óvart að City hafi náð að klóra inn einu marki á þeim tíma meðan þeir voru einum fleiri í þokkabót. Nú er bara að leggjast á bæn og vona að Carrick sé ekki alvarlega meiddur og verði klár gegn Chelsea. Algjör lykilmaður í miðjubaráttunni hjá okkur…og miðjan hjá Chelsea er ekkert slor.
Valdi Á. says
Michael Carrick spilar eins og hann sé bara að fara í sunnudags göngutúr. Ég er alltaf rólegur þegar hann er á boltanum. Hann er svo stabíll. Bara hreint útsagt geggjaður leikmaður. Hann veit sitt hlutverk og er ekkert að pæla í hvort hann fái heiður frá fjölmiðlum, því hann fær það svo sannarlega frá leikmönnum og stuðningsmönnum.
Keane says
Áhrif Louis van Gaal loksins að skila sér undanfarið, við erum bæði að halda boltanum og gera árás á andstæðingana. Framtíðin er flott.
KPE says
Var það ekki Herrera sem átti sendinguna með vinstri í fyrsta markinu hjá Young, en ekki Blindarinn?
Tryggvi Páll says
Jú, sé það þegar ég horfi á þetta aftur. Mér fannst þetta alltaf vera Blind. Þarf að fara að fá mér þessi gleraugu sem allir eru að tuða í mér um að fá.
Halldór Marteinsson says
Kannski er minnið eitthvað að svíkja en ég man ekki eftir mörgum leikjum á síðustu 2-3 títímabilum Fergie, hvað þá á síðasta tímabili, þar sem Unitedliðið spilaði álíka flottan og skemmtilegan bolta og það hefur verið að gera síðustu vikur.
Nú hlakkar maður bara til að fá fleiri stóra leiki. Held að United muni koma vel samkeppnishæft til leiks í meistaradeildina næsta haust
Toby says
Er ég eini sem bara get ekki hætt um hugsa um þennan leik. Þetta var gjörsamlega MAGNAÐUR leikur. Allt liðið fær eitt risastórt hrós. Þvílík frammistaða. Fokkin elska að horfa á United spila núna, ætla að legja leikinn á morgun og horfa á hann aftur.
Cantona no 7 says
Glæsilegur leikur hjá okkar mönnum í dag.
Stórveldið er komið í gang.
Nú kannast maður við Man. Utd.
Vonandi spilum við svona gegn Chelsea næsta laugardag.
G G M U
Einar T says
Dúndur stöff…. fer glaður á koddann.
óli says
Ég hef ekki beint verið í stuðningsmannaklúbbi Van Gaal en þessir sigrar undanfarið segja meira en mörg orð. Tottenham, Liverpool og City liggja öll í valnum. Ef Chelsea væri ekki að kreista út alla þessu tæpu sigra væri maður farinn að lata sig dreyma….
Rauðhaus says
Sérstaklega gaman að sjá hversu Smalling og Jones hafa verið vaxandi undanfarið. Smalling er búinn að vera virkilega öflugur allt frá því hann náði botninum á Ethiad í haust.
Veit einhver hvers vegna Jones fór af velli í gær? Meiddur?