Eftir gott gengi undafarnar vikur var alveg hroðalegt að sjá andleysið sem einkenndi spilamennsku United í gær. Mér fannst liðið reyndar byrja þennan leik ágætlega þrátt fyrir að lenda marki undir snemma leiks. Seinna mark Everton drap hinsvegar allan lífsvilja United-manna og lélegasta frammistaða liðsins undir stjórn Louis van Gaal leit dagsins ljós í gær. Þetta tap hleypir örlítilli spennu í baráttuna um Meistaradeildarsætið þó að niðurstaða hennar sé ennþá fyllilega í höndum okkar manna.
Mánudagspælingar þessa vikuna eru þríþættar að þessu sinni og snerta á varnarsinnuðum andstæðingum, Michael Carrick og Jorge Mendes.
Skora fyrst!
Við höfum átt í erfiðleikum með lið sem bakka og leyfa okkur að klappa boltanum fyrir framan teig. Ólíkt og í leikjunum gegn Tottenham, Liverpool og City sem öll eru lið sem vilja vera með boltann sáum við Chelsea og Everton spila leik þar sem allt snerist um að vera sem minnst með boltann. Í raun spiluðust síðustu tveir tapleikir alveg nákvæmlega eins þar sem bæði lið vörðust á agaðan hátt og biðu eftir mistökunum frá okkar mönnum. Leikplanið gekk fullkomnlega upp og þrátt fyrir að okkar menn geti lýst yfir sigri í helstu tölfræðiþáttum skiptir það engu máli þegar uppi er staðið.
Það er of snemmt að segja að önnur lið séu búinn að finna lausnina á því hvernig á að spila gegn United undir stjórn Louis van Gaal en það er alveg á kristaltæru að WBA-menn munu mæta á Old Trafford með nákvæmlega sömu leikaðferð og Everton og Chelsea hafa gert í síðustu leikjum. Vikan þarf að fara í að finna lausnir á þessu og ég er með eina hugmynd þó að Van Gaal megi útfæra það hvernig sé best að koma þeirri hugmynd í framkvæmd.
Liðið þarf að skora fyrst, hvernig sem það fer svo að því. Það er ekki flóknara en það. Við höfum farið yfir þetta áður og tölfræðin varðandi þetta er hreint út sagt sláandi:
Þetta er ótrúleg tölfræði og magnað hvað liðið vinnur nánast alltaf leiki þegar það skorar fyrst en getur varla keypt sér sigur ef andstæðingurinn skorar fyrst. Gegn liðum sem pakka í vörn er alveg sérstaklega mikilvægt að vera fyrri til að skora mark og helst eins snemma leiks og kostur er á. Það neyðir andstæðinginn til að koma úr skotgröfunum sem opnar allan leikinn sem eykur líkurnar á sigri okkar manna.
Það vill svo til að í tapleikjunum tveimur fengu United menn fín færi á upphafsmínútunum. Rooney skaut framhjá strax í byrjun leiks gegn Chelsea úr upplögðu marktækifæri og Fellaini fékk dauðafæri til að jafna gegn Everton nánast í næstu sókn eftir mark andstæðinganna ásamt því að aðrir leikmenn fengu ágætis skotfæri skömmu síðar. Ef þessir boltar hefðu legið í netinu hefðu þessir leikir spilast á allt annan hátt. Þetta er lausnin og nú geta Van Gaal, Giggs og restin af þjálfarateyminu fundið út hvernig best er að fara að þessu.
Mikilvægasti leikmaður liðsins
Michael Carrick, liðið hreinlega stendur og fellur með honum. Hann kom inn í liðið um miðjan október og liðið fór á sigurhrinu, hann kom inn í liðið í mars og liðið fór á sigurhrinu. Hann meiðist og liðið fer á taphrinu. Fróðari menn en ég segja mér að stigasöfnunin á tímabilinu með og án Michael Carrick sé eitthvað á þessa leið:
United have won 37.5% of their Premier League games without Michael Carrick in the team and 72.2% with him. We rely on him far too much. — Dane Hume (@danehume) April 26, 2015
Þetta staðfestir bara það sem maður sér á vellinum og ég veit hreinlega ekki hvernig við eigum að fara að því að finna arftaka þessa 33 ára miðjukonungs. Sá leikmaður þarf ekki bara að geta skýlt vörninni og stoppað sóknir heldur þarf hann einnig að geta stýrt hraða leiksins með sendingagetu sinni. Slíkir leikmenn vaxa ekki á trjám. Daley Blind hefur spilað þessa stöðu og leyst hana sæmilega en eins og sást í gær gegn Everton er hann enginn Michael Carrick.
Í fyrsta lagi er hann ekki jafn stór og stæðilegur og Carrick og alls ekki jafn öflugur tæklari. Í öðru lagi er hann alltof ákafur í að pressa miðjumenn andstæðinganna og er þessvegna oft út úr stöðu. Carrick er mun agaðri leikmaður sem heldur sig aftarlega á miðjunni þar sem hann er alltaf klár í að stoppa sóknir andstæðinganna en að sama skapi í stöðu til að fá boltann og halda spilinu gangandi.
Nú er auðvitað of snemmt að segja um hvort að Blind vaxi í þessari stöðu eða hvort hann verði bara það sem hann hefur verið á þessu tímabili: Tiltölulega solid squad player svo ég sletti. Engu að síður, að finna arftaka Carrick hlýtur að verða aðalhausverkur United-manna í næstu gluggum.
Á þessum myndum má sjá muninn á leikstíl Blind og Carrick: Til að glöggva sig betur á þessari mynd er samanburðurinn á þessa leið:
- Sendingar á sóknarþriðjungi: Carrick 9/13 – Blind 16/24
- Sendingar á miðþriðjungi: Carrick 10/10 – Blind 28/32
- Sendingar á varnarþriðjungi: Carrick 25/28 – Blind 3/3
Carrick vinnur sína vinnu mun aftar á vellinum og er því betur staðsettur til að stoppa sóknir andstæðinganna. Blind spilar mun framar á vellinum og er því ekki í jafn góðri stöði til að skýla vörninni. Carrick reynir jafnframt lengri sendingar og áhættusamari sendingar en Blind en er samt með hærra hlutfall heppnaðra sendinga en (86% vs 79%). Þessar lengri sendingar hraða á leik okkar manna á meðan Blind er meira í styttri og auðveldari sendingum og eins og sást í gær vantaði miklu meiri hraða í spil United. Varnarvinna Carrick er að auki betri, hann á fleiri hreinsanir, fleiri blokkuð skot og vinnur boltann oftar til baka frá andstæðingunum.
Með Carrick í liðinu er liðið því alltaf með mann fyrir framan vörnina sem getur verndað hana ásamt því sem hann dreifir og stýrir spili liðsins. Eins og ég sagði áðan veit ég hreinlega ekki hvar við ætlum að finna einn leikmann sem getur gert allt þetta nú þegar Carrick er að nálgast eftirlaunaldurinn. Blind á í það minnsta langt í land ef hann ætlar sér að leysa það hlutverk af hólmi.
No Carrick, no carnival. Það er á hreinu.
Mendes vinnur alltaf
Um helgina viðurkenndi Louis van Gaal að framtíð David de Gea hjá United væri ekki lengur í höndum félagsins. Hann væri með risastórt samningstilboð hjá United fyrir framan sig og ef hann vildi spila áfram hjá United þyrfti hann að skrifa undir samninginn sem er á borðinu, meira gæti félagið ekki gert að svo stöddu. Hann á aðeins eitt ár eftir af samningnum sínum og það er ansi margt sem bendir til þess að hann sé á leiðinni til Real Madrid, ef ekki í sumar þá næsta sumar. Að mínu mati ætti David de Gea að halda sig hjá United af ýmsum ástæðum en það er ekki það sem ég ætla að pæla í hér.
Jorge Mendes er umboðsmaðurinn hans og það verður að viðurkennast að frá hans sjónarhóli hefur hann spilað með framtíð David de Gea á algjörlega fullkomlegan hátt. Hvað á ég við? Jú, það er sama hvað gerist. Jorge Mendes vinnur alltaf.
Ef David de Gea fer til Real Madrid verður hann hæstlaunaðasti markmaður heimsins auk þess sem Mendes fær líklega sinn skerf af kaupverðinu.
Ef David de Gea skrifar undir samning hjá United verður hann hæst launaðasti markmaður heimsins.
Það er sama hvað gerist. Jorge Mendes vinnur alltaf. Mikið hefur verið talað um gott samstarf Woodward og Mendes en ég spyr, hvað er United eiginlega að fá út úr þessu samstarfi?
- Vængbrotinn og rándýran Falcao?
- Angel Di Maria á hámarksverði
- Engan samning við David de Gea
Ég geri mér grein fyrir því að tilgangurinn með Jorge Mendes er að hann og umbjóðendur hans fái sem mest út úr sínum samningum. En afhverju er United að starfa með þessu manni þegar það skilar sér í því að við borgum eins mikinn pening og hægt er fyrir umbjóðendur hans á meðan David de Gea, leikmaður sem félagið hefur lagt mikla vinnu og pening í fer á brott vegna þess að það þjónar hagsmunum Jorge Mendes? Hver er að þjóna hagsmunum Manchester United?
Við töpum, hann vinnur. Þannig er það alltaf með Jorge Mendes og Woodward og co eiga einfaldlega ekki að láta plata sig í það að halda að þeir séu í einhverju „samstarfi“ við þennan mann. Þannig virka hlutirnir ekki.
Jorge Mendes vinnur alltaf.
Runólfur says
Topp pælingar að venju.
Varðandi mikilvægi Carrick þá sé ég alveg Blind fyrir mér sem langtíma arftaka. Menn verða að muna hversu mikilvægur Scholes var á sínum tíma – Carrick er í rauninni orðinn jafn mikilvægur en þegar Scholes hætti þá hrundi samt heimur okkar allra og hann varð að snúa aftur. Carrick þarf bara aðeins að skóla Blind til og við erum í fínum málum.
Að því sögðu þá myndi ég ekki segja Nei við einhverjum hágæða miðjumanni eins og Gundogan, Strootman eða einhverjum öðrum (þó þeir passi að því virðist full vel í meiðsla hópinn okkar).
Hvað varðar leikaðferðina þá hefur liðið strögglað að skora gegn liðum sem pakka (á skipulagðan hátt) í allan vetur á meðan liðið blómstrar gegn liðum sem vilja pressa hátt. En svona umbreyting á leikaðferð tekur tíma og það koma slæmir leikir.
Fyrir þennan WBA leik vil ég helst sjá MJÖG sóknarsinnað lið – WBA spilar með Brunt (miðjumannI í vinstri bakverði og hafsent í hægri bakverði – svo mér finnst vera kominn tími til að opna frystikistuna og hleypa Di Maria og Januzaj út á slétturnar frá byrjun leiks með Mata sitt hvorum megin við sig. Fellaini má vera plan B í þessum leik.
Góðar Stundir.
Kv. RTÞ
Valdi Á. says
Væri ekki fínt að fá einhvern ungan hollenskan eða þýskan markvörð? Meiri líkur að við getum haldið honum að mínu mati.
Halldór Marteinsson says
Skora fyrst er snilldar gameplan! :D
Maður er löngu farinn að búa sig undir De Gea flutninginn. Það verður súrt en með því að ná í markmann eins og Cech eða Lloris þá ætti að vera hægt að redda þessu.
Þessi Mendes-væðing er hrikalega leiðinleg en væntanlega verður framtíðarþróunin enn meira í þessa átt
Rauðhaus says
Hjartanlega sammála flestu sem kemur þarna fram. Veit reyndar ekki hvort þetta hafi verið lélegasta frammstaða liðsins undir stjórn LvG, en skal skrifa undir það að þetta var amk sú andlausasta.
Nokkrar pælingar:
1. Það vantar meiri gæði í hópinn. Ég tek algjörlega undir það sem Auðunn skrifaði í komment við leikskýrsluna gegn Everton – og sem Tryggvi var sammála. Það hefur sýnt sig í vetur að gæði hópsins eru takmörkuð, við erum í miklu basli þegar einstaka leikmenn eru í meiðslum. Þetta þarf að laga og ég held að menn séu fullkomlega meðvitaðir um þetta.
2. Mikilvægi Carrick fyrir liðið er algjörlega ótrúlegt. Hann er svo mikill lykilmaður að það er nánast óþolandi. Til viðbótar því sem talað er um hér að ofan um gæði hans og eiginleika má nefna það sem er ef til vill það mikilvægasta af öllu (og ein helsta ástæðan fyrir því að LvG elskar hann): Hann er snillingur í því að hefja sóknir um leið og boltinn hefur unnist. Þetta er það tímamark sem LvG kallar „transition“, sem hann telur vera eitt það mikilvægasta í fótbolta – hvernig þú nýtir þennan tímapunkt. Þetta er líka ástæðan fyrir því að Jurgen Klopp lét hafa eftir sér að í raun væri „Gegenpressing“ (aggressív hápressa) „besti leikstjórnandinn“ eins og hann orðaði það. Þá var hann að vísa til þess að með því að vinna boltann ofarlega á vellinum þegar andstæðingurinn er ekki varnarlega skipulagður, þá sé það í raun öflugra en einhver killer pass frá afburða leikstjórnanda. Þetta snýst allt um að koma sér í sem bestar leikstöður og Carrick er ótrúlega góður í því að taka rétta ákvörðun STRAX og hann vinnur boltann.
3. Daley Blind. Hann er að svo stöddu fínasti squad player, en ekkert meira en það. Hann kostaði ekki formúgu, ca. 13-14 milljónir ef ég man rétt, og á að svo stöddu ekki að spila svona stórt hlutverk hjá liði eins og Man.Utd. Þarna er ég auðvitað fyrst og fremst að tala um hann sem miðjumann, en reyndar er það líka mín skoðun að hann sé ekki besti vinstri bakvörðurinn okkar. Ég hef gagnrýnt hann áður í vetur fyrir að vera allt of linur og það sannaði sig betur en nokkru sinni fyrr um síðustu helgi. Tek undir það sem ég sá í umfjöllun um þá frammistöðu: „Some dubbed Blind the Dutch Cleverley after his performance at Goodison Park and that’s not overly harsh, he appeared to be drifting through the game without so much of an idea that he had some responsibility in the middle of the park.“ Kannski hart en því miður of mikið satt í þessu.
4. Við verðum að kaupa alvöru leikmann til að koma inn í liðið á miðjuna og getur þá tekið við keflinu af Carrick. Leikmenn sem mér dettur í hug sem gætu haft þessa hæfileika sem þarf í þetta hlutverk eru t.d.: Gundogan (sem er algjörlega tilvalinn ef hann verður ekki alltaf meiddur), Strootman, Khedira, Schneiderlin?. Svo eru náttúrulega leikmenn eins og Pogba, Verratti, Modric o.s.frv. sem ég tel ekki mjög raunsætt að líta til. Einnig leikmenn sem tikka ekki í öll boxin en gætu alveg þjónað góðu hlutverki í styttri tíma, t.d. Nigel De Jong.
5. Antonio Valencia hefur staðið sig ágætlega undanfarið en var algjörlega fjarverandi í síðasta leik. Hann á í raun stærstan hlut í öllum mörkunum sem við fengum á okkur. Við þurfum einfaldlega betri leikmann þarna sem hægt er að treysta í öllum leikjum (þetta síðastnefnda útilokar Rafael sem er að mínu mati réttilega á leiðinni burt frá klúbbnum). Ég vil Clyne sem er mjög sterkur leikmaður. Ef ekki hann þá væri ég til í að skoða hinn ítalska Matteo Darmian, sem er mjög góður leikmaður.
6. David De Gea. Það eru orðnar mjög miklar líkur á því að hann yfirgefi okkur í sumar. Hefur átt frábæra leiktíð og yrði leiðinlegt að horfa á eftir honum á þessum tímapunkti – þegar enn er talsvert í að hann toppi. En þrátt fyrir það hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu. Ff hann fer þá held ég að við náum alveg að jafna okkur fljótt af því. Spurning bara hvort Valdez verður þá nr. 1 eða hvort við kaupum annan mann í þá stöðu, t.d. Lloris. Hins vegar ættum við klárlega að nota aðstöðuna til hins ítrasta og fá annað hvort Bale eða Varane í hina áttina ef DDG fer.
7. Radamel „get ekki staðið í lappirnar“ Falcao. Lýsi yfir ánægju minni á þessu viðurnefni sem honum var gefið í síðustu leikskýrslu. Segir allt sem segja þarf um kólumbíska búðinginn. Þvílík og önnur eins vonbrigði sem hann hefur verið, því miður.
Björn Friðgeir says
Sammála Rauðhaus í öllu held ég bara.
Ég hef verið að spá í þennan hóp okkar og hvað þarf að gera í sumar og datt niður á samlíkingu. Byrjum á að segja að meistaralið sé lið upp á 100%. Þá eru auðvitað sumir leikmenn yfir hundraðinu og aðrir eitthvað minna. En, meistarar eru viðmiðið.
Við erum nokkuð frá meistaraliði, ekki mikið samt og getum kannske kallað það 95%. En vandamálið er að það er ekki eins og við séum með nokkra vel undir 90% sem séu að draga okkur niður, mér finnst meira eins og meira eða minna allt liðið sé í 95. Að vísu eru nokkrir vel þar undir, en það er ekki nóg að skipta þeim út, við þurfum meiri gæði útum allan völl í raun. Ég ber vonir til að við séum með menn sem geta aukið við sig, sér i lagi ef þeir fá toppmenn sér við hlið en ég er að komast á þá skoðun að við þurfum bráðnauðsynlega í sumar að fá:
* frábæran miðvörð
* frábæran miðjumann (og þá eins og Rauðhaus talar um)
* frábæran framherja. Mætti hugsanlega slaka á kröfum hér en þá þarf líka Robin van Persie að eiga almennilegt tíma
* flottan vinstri bakvörð
* flottan miðjumann til að styrkja breiddina
* flottan kantmann (sérstaklega þó ef Di María fer)
og svo eru það markmannsmálin sem eru alveg sérkapituli
Þannig að það sem ég hef verið að sjá að við séum bara þrem leikmönnum frá því sem þarf, það er aðeins van. Þurfum a.m.k. fjóra og helst svona sex. Enda er það í línu við það sem við erum að sjá í orðrómi, t.d. Hummels, Clyne, Gundogan, Depay… og þá vantar senter.
Þannig að ég býst við frekar bissí sumri
Halldór Marteinsson says
Ef ég fengi að ráða myndu framherjakaup alveg bíða þangað til á næsta ári. Annars vegar liggur meira á að styrkja hinar stöðurnar sem minnst er á hér að ofan og jafnvel stækka hópinn þar. Hins vegar gæti sagan frá því síðasta haust endurtekið sig þegar það eru allt í einu komnir þrír stjörnuframherjar í hópinn og í stað þess að þeir séu að berjast um 1-2 stöður þá er reynt að skítmixa einhverja uppstillingu svo það sé hægt að troða þeim öllum inn.
Rooney er fyrirliðinn, hann er fyrsti maður á blað hjá Van Gaal og hann má vera aðalmaðurinn frammi. Ef liðið spilar bara með einn framherja (sem ég vona, svona oftast allavega – hitt er gott þegar þarf að mixa í hlutunuþhlutunum) þá þarf ekkert að kaupa fleiri. Kannski halda Van Persie, kannski gefa Wilson fleiri sénsa. Ef Depay kemur þá getur hann leyst þessa stöðu. Ef þeir eru allir frá þá gæti jafnvel Mata dottið inn sem fölsk 9.
Svo það er mín von að Woodward eyði orkunni sinni í sumar í að hámarka afköstin þegat kemur að því að styrkja miðju og vörn og landi Memphis!
En ætli hann fari samt ekki og reyni við Cavani…
DMS says
Súrt að missa De Gea eftir að félagið stóð með honum í gegnum umbreytingartímana hans á sínum ferli. Hann var ansi óslípaður þegar hann kom til okkar en er núna kominn í heimsklassa. Það er alveg á hreinu að hann hefði aldrei fengið svona þolinmæði hjá ömurlegum aðdáendum Real Madrid sem púa á stjörnurnar sínar ef þeir eiga slakan dag.
Svona sé ég sumarið fyrir mér.
Hummels, Clyne, Depay og sterkur varnarsinnaður miðjumaður með auga fyrir spili. Hver verður fyrir valinu er erfitt að segja. Strootman og Gundogan eru of miklir meiðslapésar held ég. Strootman stórt spurningamerki eftir alvarlegu meiðslin sín. Pogba mun kosta einhverja ruglaða upphæð og óvíst hvort hann vilji koma.
Hef á tilfinningunni að Chicharito fari sem skiptimynt í Clyne. Rafael mun finna sér nýtt heimili og fer á frekar lága upphæð. Ef De Gea fer þá tel ég að Chech væri ekki slæmur kostur. Er hann ekki að klára samninginn sinn hjá Chelsea?