Hlutirnir eru fljótir að breytast í ensku úrvalsdeildinni. Eftir sannfærandi sigra á Spurs, Liverpool og City var Louis van Gaal frelsarinn sjálfur en í dag, eftir þrjá tapleiki í röð[footnote]Í fyrsta sinn síðan 2001 en þá hafði United þegar tryggt sér titilinn.[/footnote], er farið að glitta í #VanGaalOut merkið á Twitter á nýjan leik. Það er auðvitað fjarstæðukennt að ætla sér að losa sig við stjórann á þessum tímapunkti enda er félagið við það að ná markmiðum sínum fyrir þetta tímabil: Meistaradeildarbolti á Old Trafford 2015/2016. Það er þó ekki efni þessa pistils heldur langar mig að tala aðeins um færanýtingu og færasköpun.
Eins og allir vita hefur United mætt mjög varnarsinnuðum liðum í síðustu þremur umferðum[footnote]Í leiknum gegn WBA átti United fleiri heppnaðar sendingar en WBA, Everton og Chelsea afrekuðu til samans gegn United, 640-515.[/footnote]. Fyrir viku síðan skrifaði ég um mikilvægi þess að vera fyrri til að skora en andstæðingurinn, sérstaklega gegn þessum varnarsinnuðu liðum. Skora fyrst og andstæðingurinn verður að koma út úr skelinni og allt opnast, fá á sig mark og andstæðingurinn styrkist bara í varnarleiknum og öllu er skellt í lás. Þetta er nákvæmlega það sem við sáum í fyrradag og nákvæmlega það sem við sáum gegn Everton og Chelsea.
En alveg eins og gegn Everton og Chelsea fékk United færi til þess að skora mörk gegn WBA. Ef Robin van Persie eða Ashley Young hefðu reimað á sig skotskónna hefði United farið með forystu inn í hálfleik og í það minnsta jafntefli ef van Persie hefði skorað úr vítinu. Það er í raun alveg fáranlegt hvað færanýting United í þessum þremur síðustu leikjum hefur verið með eindæmum slök og jafn fáranlegt hvað færanýting mótherja okkar hefur verið ótrúlega góð. Tölfræðin er hreinlega sláandi:
Chelsea fékk 4 færi, skoraði 1 mark, Everton fékk 6 færi og skorað 3 mörk, WBA fékk 2 færi og skoraði auðvitað 1 mark. Í þessum þremur leikjum skapaði United sér 45 færi en skoraði ekki eitt einasta mark!
Þetta er undaverður árangur. Staðan er 45-12 í færasköpun en 0-5 í markaskorun!
Þetta er auðvitað bara einn tölfræðiþáttur og hann segir ekkert um gæði þeirra færa sem liðið er að skapa sér, í raun bendir þessi færanýting til þess að færin séu upp til hópa ekki nógu góð. Í þessum þremur leikjum fékk liðið a.m.k eitt mjög gott færi í hverjum leik til að komast yfir eða jafna en heilt yfir er liðið ekki að skapa sér nógu mörg opin færi. Það er auðvitað góð ástæða fyrir því. Það er alveg sama hvaða lið er að spila, það mun alltaf lenda í vandræðum með að brjóta niður 10-11 manna varnarmúr sem hefur engan áhuga á því að halda boltanum [footnote] WBA átti 99 heppnaðar sendingar í öllum leiknum. Ander Herrera átti 111.[/footnote].
Liðin sitja með 4-5 varnarmenn um og í kringum vítateiginn og 4-5 manna miðjulínan er aldrei meira en örfáa metra fyrir framan varnarmennina. Það er hægt að finna meira pláss á dansgólfinu á Ellefunni klukkan 4 á laugardagsnóttu en á sóknarþriðjungi United í þessum leikjum. Að því leytinu skil ég ekki afhverju Marouane Fellaini er að byrja þessa leiki. Það er kannski ósanngjarnt að taka hann einan út en ég ætla samt að gera það.
Við höfum farið yfir frammistöður Fellaini og hvað hann hefur verið að gera vel áður. Við sáum hann í essinu sínu gegn Liverpool, Spurs og City í þessu nýja ráfandi target-miðjumanna/framherja hlutverki sínu. Þar naut hann þess að allt í kringum hann var gríðarlegt pláss. Miðjumennirnir vissu ekki hvort þeir ættu að stíga niður til þess að dekka hann og miðverðirnir vissu ekki hvort þeir ættu ekki að stíga upp til þess að dekka hann. Menn fara úr stöðum, allt fer úr skorðum og enn meira pláss skapast fyrir samherja Fellaini til að nýta.
Gegn liðum sem spila eins og þau lið sem við höfum mætt í síðustu þremur leikjum glíma andstæðingarnir ekki við þetta vandamál. Á því svæði sem Fellaini starfar best eru á hverju einasta andartaki að minnsta kosti 3-4 leikmenn, enginn þarf að fara úr stöðu, ekkert fer úr skorðum og ekkert pláss skapast.
Í raun og veru spilar vera Fellaini í þessum leikjum inn á styrkleika andstæðinganna. Við dælum háum boltum inn á Fellaini og það er eitthvað sem varnarmenn WBA hafa hreinlega elskað. Gegn þessum liðum verðum við að spila inn á veikleika andstæðinganna og þessvegna eiga leikmenn á borð við Di Maria og Januzaj að spila þessa leiki á kostnað Fellaini. Hvort haldið þið að varnarmönnum eins og Terry og Cahill eða McAuley og Lescott finnist betra að glíma við Fellaini og háa bolta á hann eða t.d. að fá á sig Januzaj eða Di Maria á fullum hraða?
Ég geri mér grein fyrir því að þeir hafi átt erfitt uppdráttar að undanförnu en hraði þeirra og geta til þess að taka leikmenn á er svo mikilvæg til þess að draga varnarmenn andstæðinganna út úr stöðu. Það opnar glufur í varnarmúr andstæðinganna og ætti að leiða til þess að færin sem sóknarmenn og miðjumenn okkar fái séu betri og að einfaldara sé að nýta þau. Þá ættum við eiga auðveldara með að skora þetta upphafsmark sem er lykilinn að því að sigra þessi lið sem ekki þora að sækja á United.
Leikmannahópur United er stór og fjölhæfur, Louis van Gaal hlýtur að geta fundið leiðir innan leikspeki sinnar til þess að nýta hann á sem bestan hátt gegn mismunandi andstæðingum.
Hjörtur says
Er ekki eina ráðið gegn svona varnarsinnuðum liðum að skjóta sem mest á markið, en vera ekki alltaf að reyna að sóla sig í gegnum varnarvegginn?
Keane says
4-3-3.