Það er um að gera að kíkja á uppgjörin okkar sem lifa enn góðu lífi. Við mátum leikmannahópinn í 10. þætti af podkastinu okkar, við gerðum upp leikmannakaup sumarsins og svöruðum svo nokkrum spurningum um tímabilið sjálft. Í dag förum yfir mögulega andstæðinga liðsins í umspilinu um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Manchester United snýr aftur í Meistaradeildina á næsta tímabili en ef það á ekki að vera skammgóður vermir þarf liðið að koma sér í gegnum umspilið fræga: Tveir leikir í ágúst-mánuði um LÍF EÐA DAUÐA, betur þekkt sem sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Nú þegar flestar ef ekki allar deilir Evrópu hafa lokið sér af er það komið á hreint hvaða lið geta mætt United í umspilinu. Eins og UEFA er von og vísan er fyrirkomulagið hvorki mjög gagnsætt né auðskiljanlegt svona við fyrstu sýn.
Forkeppnin
Undankeppnin fyrir riðlakeppni Meistaradeildarinnar er allt í allt 4 umferðir og koma lið inn í hvert stig undankeppninnar eftir því hversu hátt viðkomandi deildakeppni skorar. Undankeppninni í heild er skipt í tvennt: Meistaraumferðir og Ómeistarumferðir.
Í Meistarumferðunum keppa lið eins og Stjarnan, lið sem urðu meistarar í þeim deildarkeppnum sem eru ekki nógu hátt skrifaðar til að fá sæti beint í riðlakeppnina.
Í Ómeistaraumferðinni keppa lið eins og United, lið sem eru ekki meistarar en náðu að tryggja sér keppnisrétt með því að standa sig nógu vel í eigin deildarkeppni án þess að þó að lenda í þeim sætum sem gefa sæti beint í riðlakeppnina.
Þessar umferðir eru aðskildar. Lið úr Meistaraumferðunum geta ekki mætt liðum úr Ómeistaraumferðunum og því geta Garðbæingar hætt að láta sig dreyma um að taka á móti Manchester United á Samsung-vellinum í lok sumars.
Nógu skýrt?
Færum okkur þá yfir í mögulega andstæðinga United:
Mögulegir andstæðingar United
United og 4 önnur lið fara í hóp liða sem eru með flesta Evrópupunkta og geta þau ekki mæst innbyrðis. Í þeim flokki auk United eru Valencia, Leverkusen, Shakhtar og Ajax.
Hin liðinu eru eftirfarandi:
- Sporting Lisbon
- CSKA Moskva
- Lazio
- Club Brugge
- Monaco
- Young Boys Bern
- Sparta Prag
- Fenerbahce
- Rapid Vienna
- Panathinaikos
Af þessum 15 liðum eru United, Valencia, Leverkusen, Sporting Lisbon og Lazio örugg með sín sæti í lokaumferð forkeppninnar. Hin 10 þurfa að fara í gegnum fyrri umferðir forkeppninnar. 5 af þeim munu detta út og eftir munu samtals standa 10 lið sem berjast um 5 sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Þar sem Shahktar og Ajax þurfa að fara í gegnum 3.umferð forkeppninnar geta þau augljóslega dottið út úr keppninni áður en í lokaumferðina er komið. Ef annaðhvort þessara liða dettur út er Sporting Lisbon næsta lið inn í efri flokkinn, ef bæði Ajax og Shakthar detta út kemur CSKA inn ásamt Sporting. CSKA þarf reyndar einnig að fara í gegnum 3.umferðina og Lazio er næsta lið inn fyrir CSKA ef Rússarnir asnast til að detta út.
Lokahópurinn sem United getur ekki mætt gæti því breyst áður en endanlegur dráttur fer fram þann 7. ágúst nk.
Best væri að sleppa við mæta Monaco og Lazio auk þess sem ferðir til Rússlands eða Tyrklands eru alltaf lúmskar, hvað sem því líður má ekki klúðra þessu verkefni, annars bíður DAUÐINN, betur þekktur sem riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Bjarni Ellertsson says
Það verður bara að koma í ljós hverja við fáum, ég geri kröfu á að liðið fari áfram sama hver mótherjinn er, en slys geta altlaf átt sér stað í fótbolta, það er það skemmtilega við hann. Hins vegar er vafamál hvaða leikmenn eru linkaðir við okkur daglega og hvað er satt í öllu þessu fjaðrafoki sem kallað er silly season. Ég verð að viðurkenna að ég dett stundum í þann gír að vona og svekkja mig yfir því hverjir eru leiðinni til okkar og hverjir ekki. Mér líst illa á þennan Dante gaur og vona að umfjöllun um að hann sé á leiðinni til okkar sé byggð á sandi. Flestir aðrir sem nefndir hafa verið Schneiderlin, Alves, og Cavani td eru fínir liðsmenn en okkur vantar leiðtoga í liðið og það strax, höfum verið leiðtogalausir lengi og menn stigið í hlutverkið með misjöfnum árangri. Líka lið fullt að stórum nöfnum og stjörnum er ekki endilega ávísun á gott gengi né fallega knattspyrnu, ástríða er það eina sem leikmenn þurfa að vera gæddir, fyrir utan smá vott af hæfileikum :)
Annars líst mér þokkalega á næsta vetur og bíð spenntur eftir pre season, .þar getur maður séð c.a hvaða áherslur verða lagðar í vetur.
GGMU, forever