Andreas Pereira kom til Manchester United 15 ára gamall frá PSV árið 2011. Þá var hann belgískur unglingalandsliðsmaður. Reyndar skrifaði hann ekki undir samning fyrr en í janúar 2012 vegna reglna um alþjóðleg félagaskipti. Hann lék sinn fyrsta U-18 leik gegn Sheffield Wednesday í apríl það ár. Pereira lék allt í allt 3 leiki það tímabilið.
Tímabilið á eftir lék hann 20 leiki og skoraði 5 mörk. Nokkur tækifæri komu frá varaliðinu eða U-21 liðinu eins og það heitir núna. Pereir skrifaði svo undir sinn fyrsta atvinnumannasamning í janúar 2013.
Tímabilið 2013-14 fór hann virkilega að slá í gegn bæði með U-18 og U-21 liðunum. Til dæmis var hann fyrirliði liðsins í Mjólkurbikarnum og var að lokum valinn leikmaður mótsins. Einnig lék hann í UEFA Youth deildinni. Hann skoraði 2 mörk i 3 leikjum í ungliðabikarnum, þar á meðal glæsilegt mark gegn Burnley af löngu færi. Þetta tímabilið lenti U-21 í 3.sæti í deildinni og tapaði gegn Chelsea í úrslitum bikarsins. Árið 2014 valdi Pereira að leika með Brasilíu frekar en Belgíu.
Á nýloknu tímabili kom loks fyrsta tækifæri Pereira með aðalliðinu. Því miður fyrir hann var það í afhroðinu gegn MK Dons en hann kom inná fyrir Saidy Janko. Næsta tækifærið kom ekki fyrr en 15. mars en þá kom hann inná fyrir Juan Mata á 77.mínútu í 3-0 sigri á Tottenham. Eftir það var hann oftar en ekki á bekknum án þess þó að fá fleiri mínútur.
Í vor var mikið rætt um að pilturinn væri leiðinni til PSG sem ætlaði sko að þrefalda launin hans og ég veit ekki hvað. En þann 1.maí skrifaði Pereira undir þriggja ára samning við Manchester United og virðist ætla sér að komast í liðið á næsta tímabili.
Fyrr í mánuðinum fór fram HM U-20 ára. Keppnin var haldin í Nýja-Sjálandi. Andreas Pereira var í hópnum hjá Brasilíu og stóð sig nokkuð vel og var á köflum hálfgerður „supersub.“ Brasilía var í E-riðli ásamt Nígeríu, Ungverjalandi og Norður-Kóreu.
Fyrsti leikur Brasilíu var gegn liði Nígeríu en sá leikur var fjörugur og endaði 4-2. Pereira lék allan fyrri hálfleikinn en var tekinn af velli í hléinu fyrir Boschilia. Sá drengur skoraði fyrir Brassana í leiknum og kom þeim yfir.
Næsti leikur var gegn Ungverjum en þar byrjaði Pereira á bekknum en kom inná í hálfleik fyrir áðurnefndan Boschilia. Breytinga var þörf en Ungverjar leiddu 1-0 í hálfeik. Brössum tókst þó að jafna eftir 5 mínútna leik í seinni hálfleik og var þar á ferðinni hinn bráðefnilegi Danilo. Undir lok leiksins fékk Brasilía vítaspyrnu og á punktinn steig okkar maður og skoraði sigurmark sinna manna.
Lokaleikur Brasilíu í riðlinum var gegn slöppu Norður-Kóreu liðinu sem þó tókst að stríða andstæðingunum sínum með góðri vörn. Eins og í leiknum á undan kom Andreas Pereira af bekknum og leysti félaga sinn Boschilia af hólmi. Fyrsta mark leiksins kom svo á 60.mínútu en Kóreumenn skoruðu það mark sjálfir. Brasilía vann á endanum 3-0 sigur og vann riðillinn sinn örugglega.
Andstæðingarnir í 16 liða úrslitum var sterkt lið Úrúgvæja. Ekkert mark var skorað í leiknum og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni. Pereira sem hafði komið inná í upphafi framlengingar skoraði úr sinni spyrnu og unnu hans menn vítakeppnina 5-4.
Næst á dagskrá voru þá 8 liða úrslitin. Þar mættu þeir Portúgölum í leik sem einnig var markalaus. Aftur þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni og aftur skoraði Pereira úr sinni spyrnu en hann hafði enn og aftur komið inná sem varamaður. Niðurstaðan varð 3-1 sigur Brasilíu.
Í undanúrslitunum voru andstæðingarnir Senegal. Leikunum lauk með 5-0 bursti Brasilíu en Andreas Pereira kom ekkert við sögu í leiknum.
Þá var loksins komið að sjálfum úrslitaleiknum gegn Serbum. Það sem var áhugavert við þann leik fyrir United-fólk, var að sama hvort liðið ynni leikinn þá yrði leikmaður United heimsmeistari. Hinn leikmaður er markvörðurinn ungi Vanja Milinkovic, sem var á bekknum hjá Serbum. Leikurinn sjálfur var frekar spennandi og fyrsta markið leit dagsins ljós á 70. mínútu en þá skoraði Mandic fyrir Serba. Það tók ekki nema 3 mínútur fyrir Brassana að jafna en það var enginn annar en Andreas Pereira sem hafði komið inná 8 mínútum áður.
https://vine.co/v/eip2Ivjz5Q3
https://vine.co/v/eijzPtg0ZLF
Leikurinn fór í framlengingu en það voru á endanum Serbarnir sem höfðu sigur með marki frá Sergej á 118. mínútu.
Frábært mót hjá Brasilíu sem endaði á mjög svekkjandi hátt. En hinn ungi Andreas Pereira er klárlega nafn sem menn ættu að leggja á minnið.
Bjarni Ellertsson says
Sammála þér, Magnús, og það er fleiri spennandi leikmenn að koma upp, sá nokkuð af leikjum í vetur hjá unglingaliðinu og academíunni og hef alltaf fylgst með þessum guttum koma upp. Græt enn yfir ruglinu með Pogba, það var unun að horfa á hann leika sér að jafnöldrum og eldri leikmönnum. Jæja verð að hætta að hugsa um það. Vona að þessir strákar fái tækifæri í leikjunum á undirbúningstímabilinu.