Það virðist sem Ed Woodward og Louis Van Gaal hafi ákveðið að taka létta yfirvinnu eftir að hafa staðfest kaupin á Matteo Darmian því varla var búið að tilkynna Ítalann áður en Þjóðverjinn, og heimsmeistarinn, Bastian Schweinsteiger var sagður hafa staðist læknisskoðun. Menn voru ekki hættir því fljótlega fóru sögur af stað að um að Morgan Schneiderlin hefði mætt í læknisskoðun aðeins nokkrum mínútum á eftir Schweinsteiger. Það virðist sem upprunalega plan Louis van Gaal (að vera búinn með flest sín kaup áður en liðið fer í æfingarferð til Bandaríkjanna) ætli að ganga eftir.
#MUFC signing Schneiderlin and Schweinsteiger on the same day, though, for £40m – that’s some incredible business right there.
— Connor Armstrong (@ConnorArmstrong) July 12, 2015
Morgan Schneiderlin arrived into Carrington five-minutes after Bastian Schweinsteiger this evening. Medical done, now a #MUFC player. — Craig Norwood (@CraigNorwood) July 12, 2015
Það er ekki að ástæðulausu að van Gaal er að styrkja miðjuna. Þrátt fyrir að hafa keypt Daley Blind og Ander Herrera í fyrra, og Marouane Fellaini árið áður, neyddist van Gaal til að spila Wayne Rooney á miðri miðjunni í þó nokkrum leikjum. Það var álíka áhrifaríkt og blessað 3-4-1-2 leikkerfið sem van Gaal þráaðist við að nota í alltof mörgum leikjum í fyrra. Það má því segja að van Gaal hafi brugðist frábærlega við. Tveir mjög góðir, en ólíkir leikmenn, keyptir á hreint ekki svo mikinn pening. Allavega ef við miðum við markaðinn í dag.
Þó svo að Morgan Schneiderlin sé ekki stærsta nafnið í bransanum kannast flestir við kauða. Þrjú tímabil með Southampton í ensku Úrvalsdeildinni. 91 leikur í byrjunarliði, af 114 mögulegum, ásamt því að koma inn á sem varamaður í fjórum leikjum til viðbótar. Í þessum 95 hefur hann skorað 11 mörk sem verður að teljast nokkuð gott fyrir mann sem spilar jafn aftarlega á vellinum og raun ber vitni. Í heildina hefur hann spilað rétt yfir 250 leiki fyrir Southampton í öllum keppnum.
En hver er Morgan Schneiderlin?
Ferillinn
Morgan Schneiderlin er fæddur í Frakklandi 8. nóvember 1989. Hann kom upp í gegnum unglingalið Strasbourg ásamt því að spila fyrir yngri landslið Frakklands. Hann spilaði fjóra leiki fyrir aðallið Strasbourgar áður en hann var seldur til Southampton fyrir 1.2 milljónir punda þann 27. júní árið 2008. Það verður seint sagt að fyrsta tímabil Schneiderlin á Englandi fari í sögubækurnar en Southampton féll niður í þriðju deild á Englandi (League 1) það tímabil.
Að loknu öðru tímabili sínu með Southampton sat liðið í 7. sæti deildarinnar en það þýddi að þeir rétt misstu af sæti í umspilinu til að komast upp um deild. Ef ekki hefðu verið dregin 10 stig af liðinu áður en mótið hófst fyrir að fara í greiðslustöðvun hefði félagið endað mótið í 5.sæti og komist í umspilið. Það var svo á þriðja tímabilinu í Englandi sem hjólin fóru að snúast fyrir Schneiderlin og Southampton en þeir lentu í 2. sæti í League 1 með 92 stig. Southampton eyddi aðeins einu ári í næst efstu deild Englands (Championship) en þeir lentu aftur í 2. sæti, aðeins stigi á eftir Reading.
Það má með sanni segja að Morgan Schneiderlin hafi bætt sig ár frá ári því að það var ekki fyrr en Southampton var komið í ensku Úrvalsdeildina sem hann varð fastamaður í liðinu. Tímabilin á undan hafði hann verið að byrja í kringum 28-30 leiki af 46 en á sínu fyrsta tímabili í efstu deild byrjaði hann 36 af 38 leikjum (og í lok tímabils var hann valinn leikmaður ársins hjá félaginu, bæði af stuðningsmönnum sem og leikmönnum). Hann hefur svo verið fastamaður í liðinu síðastliðin tvö ár. Hann spilaði reyndar aðeins 26 leiki á síðasta tímabili en hnémeiðsli sem hann varð fyrir þann 25. apríl leiddu til þess að hann spilaði ekki meira á tímabilinu. Einnig er vert að nefna að síðan 2014 hefur Schneiderlin spilað níu landsleiki og þar af einn á HM sem fór fram í Brasilíu 2014.
Schneiderlin sem leikmaður
Það má með sanni segja að koma Mauricio Pochettino til Southampton hafi hjálpað Morgan Schneiderlin að blómstra. Sóknarþenkjandi hápressu taktíkin Pochettino hefur líklega hjálpað Schneiderlin að bæta sig sem leikmann og sem íþróttamann. Schneiderlin er einstaklega öflugur í því að vernda vörnina og gefur það bakvörðum traustið sem þeir þurfa til að fara upp og niður völlinn að vild. Okkar maður sérhæfir sig í því að vinna boltann til baka, hvort sem það er með því að lesa sendingu mótherjans og stela honum þannig eða þá með groddaralegri tæklingu.
Eftir að hafa náð boltanum leitast Schneiderlin við að koma honum í leik eins fljótt og auðið er, helst á þá leikmenn liðsins sem geta valdið andstæðingum hans hvað mestum usla. Þessu til sönnunar má nota einfalda tölfræði en samkvæmt henni hefur Schneiderlin átt 625 tæklingar og inngrip (tackles & interception). Þessar tölur eru óvenju háar en aðrir miðjumenn deildarinnar hafa í mesta lagi náð 425 tæklingum og inngripum. Enginn leikmaður Manchester United var til að mynda nálægt því að fara í jafn margar tæklingar og Schneiderlin í fyrra. Schneiderlin er hins vegar ekki að tækla bara til að tækla, hann tæklar til að vinna boltann og tekst ætlunarverk sitt í 82.3% tilvika, sem þýðir að hann er að vinna 4-5 tæklingar að meðaltali í leik. Sem er vissulega hæsta hlutfallið í deildinni.
Ef við einföldum Morgan Schneiderlin sem leikmann, þá sérstaklega fyrir þá sem spila Football Manager þá er hann „Ball Winning Midfielder“; harður tæklari, með frábæran leikskilning og fjandi sterkur. Hann sker sig samt sem áður úr því hann er með einstaklega háa prósentu heppnaðra sendinga eða 89,3%. Það setur hann á Topp 3 í þeim flokki yfir miðjumenn sem byrjuðu meira en 20 leiki í fyrra. Í rauninni eru þetta allt saman eiginleikar sem má ætla má að tikki í boxin yfir þá eiginleika sem Van Gaal leitast eftir að í miðjumönnum sínum. Það sem fær Schneiderlin svo endanlega til að skera úr er hversu mörg mörk hann skoraði í fyrra, en hann skoraði til að mynda jafn mörg mörk og Falcao, Welbeck (báðir með fjögur) og fleiri en Cesc Fabregas.
Morgan Schneiderlin lowdown from last season. pic.twitter.com/IlV8cMIrkW
— Rahul Singh (@forevruntd) July 13, 2015
Í myndbandinu hér að neðan má sjá hvað Schneiderlin hefur upp á að bjóða; leikskilning, tæklingar, sendingar og góða boltameðferð ásamt eiginleikanum að skella Yaya Toure á afturendann (sést á sjöundu mínútu í myndbandinu):
https://www.youtube.com/watch?v=CRXGBPJPtLE&feature=youtu.be
Niðurstaða
Eins frábær kaup og Bastian Schweinsteger eru fyrir Manchester United gæti Morgan Schneiderlin verið enn mikilvægara púsl varðandi framtíðina. Eflaust mun hann fá ómetanlega reynslu með því að æfa og spila með Scwheinsteiger og Michael Carrick. Þegar Carrick gekk til liðs við United voru flestir sammála um að hann gæti seint tekið við af Paul Scholes sem herforinginn á miðjunni hjá stærsta félagi Englands. Það tók sinn tíma, og eins ólíkir leikmenn og þeir eru þá hefur Carrick svo sannarlega afsannað margar af þeim hrakfara spám sem gengu yfir á sínum tíma.
Undanfarin ár hefur hann verið einn mikilvægasti og jafnbesti leikmaður liðsins og jafnvel deildarinnar. Hann er kominn í vissan sérflokk í því sem hann gerir þó að margir (lesist: Roy Hodgson) sjái það ekki. Besta dæmið um þetta er munurinn á sigurhlutfalli liðsins þegar hann spilaði og þegar hann spilaði ekki. Reynsla er þar af leiðandi augljóslega einn mikilvægasti eiginleiki þeirra leikmanna sem spila sem djúpir miðjumenn í dag (sjáið bara Andrea Pirlo). Þar af leiðandi geri ég ráð fyrir því að Schneiderlin taki ekki strax við af Carrick en þegar það kemur tími til þá má reikna með að Schneiderlin verði klár í slaginn.
Upprunalega virtist sem Louis Van Gaal hafi ætlað sér að fá samlanda sinn Daley Blind til að leysa Carrick af hólmi en það virðist sem Blind sé ekki nægilega líkamlega sterkur til að geta leyst Carrick af sem stendur. Eins flottur knattspyrnumaður og Blind er þá er líkamleg geta hans ekki alveg nægilega öflug til að geta barist við sterkustu miðjur deildarinnar. Með tilkomu Schneiderlin ætti United hins vegar að geta veitt flest öllum liðum harða samkeppni á miðjunni. Einnig aukast valmöguleikar van Gaals til muna með tilkomu Schneiderlin en hann getur leyst Carrick af eða spilað með Blind, Scweinsteiger og jafnvel Ander Herrera á miðjunni. Svo má ekki gleyma Fellaini ef van Gaal vill vera dirty, Mourinho style.
Einn af helstu eiginleikum Schneiderlins virðist vera sá að hann getur stökkið upp um getuflokk án þess að blikka auga. Hann fór með Southampton úr League 1 upp í ensku Úrvalsdeildina og hann virðist aldrei hafa þurft tíma til að aðlagast. Svo hefur hann reynslu af landsleikjum með Frakklandi svo að hann ætti að lifa af gegn evrópskum liðum í Meistaradeildinni.
Það verður að segjast að maður er orðinn mjög spenntur fyrir tímabilinu en liðið virðist betur mannað á þessum tímapunkti heldur en í fyrra, og talsvert minna um farþega í hópnum. Þetta tímabil gæti orðið eitthvað.
Þeir sem vilja svo elta okkar mann á Twitter er bent á að notendanafn hans er; SchneiderlinMo4
Svo er einstaklega gaman að benda á það að Darmian, Schweinsteiger og Schneiderlin spila allir í takkaskóm frá Adidas, spurning hvort nýji RISA SAMNINGURINN sé eitthvað að spila inn í leikmannakaup liðsins? Einnig var Memphis í Adidas skóm en hefur skipt yfir í stækkandi risann Under Armour fyrir þetta tímabil.
Tómas says
Rosalega ánægður með þessi kaup! Southampton hefur iðulega dominerað miðjuna á móti sterkari liðum á seinustu tímabilum. Schneiderlin hefur verið frábær. Tel að þarna séum við komnir með mann sem er sambærilegur við Matic hjá Chelsea.
Meistari Gary Neville er mikill aðdáandi: https://www.youtube.com/watch?v=MmTxOxNYOs4
Atlas says
Flottur pistill. Var einmitt farinn að bíða eftir góðri samantekt um Schneiderlin :)
panzer says
Frábær kaup – ég trúi vart að United hafi náð að klófesta bæði Schneiderlin og Schweinsteiger. Þvílík styrking á miðjunni. Það er allavega ljóst að miðjan verður ekki veikur hlekkur á næsta tímabili.
Þessi gluggi er búinn að vera frábær – Depay, Darmian, Schweinsteiger og svo Scheiderlin. Eitthvað segir mér að það LVG og Woodward séu ekki hættir
Jón Þór Baldvinsson says
Guð, getur þetta tímabil ekki farið að byrja?!?!?! Vantar bara einn eðal varnarmann og þá eru kaup ársins fullkomnuð. Ég stend enn harður á því að okkur vantar ekkert annann framherja, ég vill sjá Rooney og Wilson blómstra í ár, svo getur Depay hjálpað og jafnvel Chicarito hver veit.