Ef farið er aftur í sögu þessa bloggs finnum við eina frétt frá maí 2012, sem er tekin úr eldra tilraunabloggi, og síðan fyrstu færsluna í águst 2012 þegar við fórum af stað að blogga til að vera tilbúnir með nokkrar færslur þegar við færum í loftið nokkrum dögum síðar.
Sú færsla hét ósköp einfaldlega: Robin van Persie til Manchester United (staðfest) og hófst svo
Í fyrsta skipti síðan Rio Ferdinand kom til liðsins 2002 kaupir United leikmann sem á án nokkurs vafa að smella beint inn í hópinn.
Hversu rétt við höfðum fyrir okkur sannaðist endanlega þann 22. apríl:
https://www.youtube.com/watch?v=wF5o3uMw9tM
https://www.youtube.com/watch?v=4DjLzd0vQ8o
Robin van Persie skoraði mörkin sem tryggðu Manchester United 20. Englandsmeistaratitilinn eins og hann hafði stefnt að þegar hann valdi sér treyjunúmerið 20. Tuttugu og sex mörk í þrjátíu og átta leikjum var frábær árangur og réttlæti hvert pund af þeim 24 milljónum sem United greiddi fyrir hann.
En tveim vikum síðar kom reiðarslagið fyrir Van Persie. Sir Alex Ferguson, maðurinn sem hann kom á Old Trafford til að spila fyrir ákvað að hætta.
Reyndar hafði Van Persie átt tveggja mánaða tímabil frá febrúar fram í apríl þegar hann skoraði ekki mark en lokatörnin var frábær hjá honum.
Haustið eftir undir stjórn David Moyes byrjaði Van Persie svo ágætlega og skoraði sín mörk. En síðan fóru meiðsli að segja til sín og hann lék ekki nema 21 deildarleik og 28 alls. Hann skoraði þó átján mörk í þessum 28 leikjum, þar af 12 í deild og var síður en svo búinn úr öllum æðum. Moyes var auðvitað rekinn og Robin van Persie virtist vita sitt hvað um hvað beið:
Og svo var vinur hans og stjóri í landsliðinu, Louis van Gaal ráðinn og við horfðum á þetta og við brostum út að eyrum eins og þeir félagarnir og biðum í ofvæni eftir að sjá þá vinna saman:
En það fer ekki allt eins og ætlað er.
Tímabilið byrjaði erfiðlega en samt skoraði Robin alltaf af og til. Í desember gekk vel og mörkin hlóðust inn en svo þornaði uppsprettan. Ekkert mark frá öðrum í jólum fram að síðasta degi janúarmánaðar og síðan meiðsli gegn Swansea 26. janúar. Van Persie sást ekki í liðinu aftur í tvo mánuði en á meðan gekk liðinu stórvel og meira að segja floppið Falcao var tekinn fram yfir hann. Van Persie fékk að spila með U-21 liðinu og síðan þrjá leiki án þess að skora mark. Hann brenndi af víti og fjölda færa gegn West Brom, fékk tækifæri sem varamaður gegn Arsenal án þess að gera neitt, og í síðasta leik tímabilsins sá Van Gaal ekki ástæðu til að gefa honum tækifæri til að gera út um drepleiðinlegt 0-0 jafntefli gegn Hull, en hélt honum á bekknum.
Hollenska ástarævintýrið virtist á enda.
Þegar leikmenn United komu aftur til æfinga var Van Persie ákafur í að sanna sig, en Van Gaal leist ekki betur á hann en svo að hann sendi hann í að æfa einsamlan. Svoleiðis er ekki gert nema í einum tilgangi enda varla hægt að hafa menn sem fá 12 milljónir punda í árslaun á bekknum. Það fyrsta sem Van Persie gerði þegar hann kom heim var að hringja í umboðsmanninn og segja: Komdu mér í burt.
Þrátt fyrir að United telji Van Persie enn til leikmanna sinna þá er ljóst að Robin van Persie er kominn til Fenerbahçe . Hann skrifaði undir fyrir framan 10 þúsund æsta stuðningsmenn á þriðjudag í síðustu viku. Eftir á þakkaði hann Edward Woodward kærlega fyrir að hafa komið vel fram og komið þessu greiðlega í gegn. Líklega fær United ekki nema 4,5 milljónir punda fyrir dreng, en ástæðan fyrir töfinni er víst ágreiningur um verð, þannig það er spurning hversu greiðlega þetta gengur. En ári eftir gleðina miklu í Salvador eftir sigurinn á Spáni minntist Robin van Persie ekki einu orði á Louis van Gaal. Fótboltinn er stundum grimmur bissniss.
Van Gaal þakkaði hins vegar Van Persie fyrir á blaðamannafundinum fræga og sagðist hafa sent honum þakkarskeyti. Van Persie minntist ekki á það SMS í stóru viðtali í Sunday Times í gær, en sagði Woodward, Gill og Sir Alex hafa sent skeyti. Í viðtalinu lýsti hann því stuttlega að eftir spjall hans við Van Gaal í vor hafi hann en vonað að eiga afturkvæmt, en þegar Van Gaal setti hann út fyrir á æfingu, sem fyrr segir, væri ljóst að svo væri ekki.
En við stuðningsmenn Manchester United þökkum Robin van Persie kærlega fyrir okkur. Þó kveðjustundin hafi verið bitur voru gleðistundirnar miklu fleiri. Robin van Persie er ein af goðsögnunum í sögu Manchester United!
Takk Robin van Persie
https://www.youtube.com/watch?v=sAsx_wZ55tc
Og hér eru öll mörk og stoðsendingar hans með United!
https://vimeo.com/133985715
Stefan says
Frábær lestur og góður leikmaður, leiðinlegt að hann clickaði ekki með Van Gaal. Verið einhver ágreiningur á milli þeirra en RVP kom auðvitað aðallega fyrir Fergie.
Grímur says
Van Persie átti vissulega góða leiki fyrir okkur en mér finnst orð eins og „goðsögn“ of oft gengisfelld í svona kveðjupóstum. Ef Persie er UTD goðsögn hvað er þá Cole eða Nistelrooy? Hvað um Charlton og Giggs? Er Persie virkilega nálægt þeim stalli?
Vil alls ekki gera litið úr framlagi Persie til liðsins. Hann var góður leikmaður fyrir okkur og dró vagninn fyrir okkur sína fyrstu leiktíð. En vandinn er sá að ef allir eru goðsögn er enginn goðsögn.
Hafsteinn says
Er komið staðfest á þetta frá MUFC?
Björn Friðgeir says
Nei, ekki komið staðfest frá United… en þetta klikkar þá er það stærsta frétt ársins.
Goðsögn? já, kannske snemmt. Sjáum til. Goðsagnartitilinn kemur fyrst einhverjum tíma eftir að menn hafa hætt.
Annars er góður brandarinn með að ef United reisti styttur fyrir goðsagnir jafnauðveldlega og Arsenal væri ekki inngengt á OT fyrir styttum…
Rúnar Þór says
frábær leikmaður sem hjálpaði okkur með titil nr 20 en goðsögn er hann nú ekki að mínu mati :)
Jón Þór Baldvinsson says
Jamm, stóðs sig vel þetta eina tímabil með Fergie en svo fór hann í frí eða hætti bara. Eitt tímabil gerir engan að goðsögn, hann getur vel talist goðsögn í London en ekki frá okkar bæjardyrum, kemst ekki með ýmindunaraflið einu sinni nálægt þar sem Cole, Nistelroy, Ronaldo, Becham og svo mætti lengi telja, hafa hælana. Þa’ hættu margir góðir leikmenn þegar Alex fór á eftirlaun, var sorglegt að sjá trausta leikmess spila eins og fávitar á vellinum árið eftir. Auðvitað vorum við með undir meðalags stjóra líka en samt engin afsökun fyrir þessa leikmenn og var bara gott að losna við þá alla. Ef menn vilja ekki leggja sig alltaf 100% fram fyrir klúbbinn þá er ekkert pláss fyrir þá á launalistunum okkar að mínu mati.
Helgi P says
það er bara ein goðsögn og það er Alex Ferguson
Tryggvi Páll says
Robin van Persie var plástur á lið sem var farið að haltra allsvakalega. Hann keyrði þennan síðasta titil félagsins heim og fer þar með í flokk með mönnum eins og Dimitar Berbatov og Nani. Menn sem munu kannski ekki fá mikið pláss í sögubókum United en áttu risastóran þátt í að liðið vann titla á einstökum tímabilum. Ég mun alltaf hugsa með hlýhug til þessara leikmanna og er glaður að þeir hafi spilað með Manchester United.
Ég efast stórlega um að Robin van Persie sjái eftir tíma sínum hjá United. Þetta fyrsta tímabil hans hjá United setur hann nefnilega í sérflokk sem margir leikmenn daðra við en fáir leikmenn ná að komast í:
Hann var besti maðurinn í besta liðinu og var sá leikmaður sem vann titilinn fyrir sitt lið. Hann var auðvitað frábær með Arsenal en náði samt aldrei að stíga þetta skref sem hann tók svo með United. Með þessu er óhætt að segja að hann sé einn besti framherji í sögu Úrvalsdeildarinnar.
Ég get þó ómögulega tekið undir það að Louis van Gaal hafi ekki gefið honum séns eins og hann talar um í nýlegu viðtali. Leikmaður sem fær um 250.000 pund í vikulaun á ekki að þurfa að fá einhverja sénsa, hann á einfaldlega bara að vera ómissandi og síðustu tvo tímabil hafa sýnt að það var Robin van Persie einfaldlega ekki. Jafnframt hefur United, þrátt fyrir að synda í seðlum, ekki efni á því hafa menn með svona vikulaun á bekknum.
„Very few players are happy when they leave United“ skrifaði Andy Mitten um daginn og þetta er hverju orði sannara í tilviki Robin van Persie. En líkt og Sir Alex Ferguson er Louis van Gaal ekkert í greiðastarfseminni, liðið er í forgangi, ekki einstaklingarnir.
En maður lifandi hvað Robin van Persie var góður tímabilið 2012/2013…
Óskar Óskarsson says
fyrir mér er hann algjört legend fyrir það að hafa fært okkur deildartitil nr 20 uppá sitt einsdæmi..hann átti þennan titil !
Auðunn A Sigurðsson says
Er algjörlega sammála Grím hvað varðar goðsagnir, RVP var jú frábær fyrir United tímabilið 2012-2013 en ég get ekki tekið undir það að hann sé goðsögn hjá félaginu, það þarf meira til en eitt gott tímabil til þess að fá þann titil.
Þegar hann spilaði vel þá var hann einn besti framherji í heimi en hann brann ótrúlega fljótt út að mér fannst.
En hann á að sjálfsögðu inni þakkir fyrir sitt framlag, hann lagði sig allan fram fyrir klúbbinn.
Ingvar says
Er einhvernvegin ekkert voðalega sorgmæddur yfir þessari brottför. Vissulega átti hann 20 titilinn nánast en eftir það fannst mér leiðinlegt að horfa á hann spila. Held að hann hafi aldrei sæst á það þegar Fergie hætti, var í fýlu með Moyes og hálf þreyttur/meiddur eftir HM.
Kemst þrátt fyrir tímabilið 12/13 aldrei í Hall of fame, hvorki hjá mér né hjá klúbbnum.
En takk Robin fyrir marga góðar stundir og gangi þér vel í komandi verkefnum.