Wayne Rooney. Okkar eini framherji [footnote]Wilson er óreyndur, Chicharito er spurningamerki og Memphis er kantmaður að upplagi[/footnote].
Eftir að Louis van Gaal staðfesti að Rooney yrði notaður sem ‘central-striker’ og að hinn óvæntu kaup sem LvG hefur verið að tala um væru ekki í framherjadeildinni er ljóst að Wayne Rooney verðir framherji nr. 1 í vetur. Það eru ekki allir á eitt sáttir við þetta. Wayne Rooney er nefnilega merkilega umdeildur leikmaður, hvort sem það er á meðal stuðningsmanna United eða annara liða.
Vissulega hefur hann kannski ekki orðið sá gjörsamlega frábæri leikmaður eins og efni stóðu til í byrjun en hann hefur staðið fyrir sínu og rúmlega það. Fullt af titlum og það sem meira er, þar sem hann er jú framherji, hann er á góðri leið með að verða markahæsti leikmaður í sögu Manchester United og enska landsliðsins auk þess sem hann er eini leikmaðurinn sem á einhvern möguleika á að nálgast markamet Alan Shearer.
Þetta er svolítið merkilegt vegna þess að yfirleitt hefur Wayne Rooney ekki verið aðalmaðurinn í framlínu United. Nánast alltaf hefur hann þurft að aðlagast öðrum leikmönnum og spilað hlutverk hannað til að styðja við þá. Þangað til nú hefur hann í raun aðeins einu sinni verið aðalmaðurinn í framlínu United. Skoðum þetta aðeins.
Ruud van Nistelrooy – 2004-06
Þegar Wayne Rooney mætti á svæðið var Ruud auðvitað framherji nr. 1. Einhver hæfileikaríkasti framherji sem spilaður hefur fyrir United og liðið var gírað fyrir hann og hans spilamennsku. Hann og Rooney áttu gott samstarf en það fór ekki milli mála hvor þeirra Batman og hvor þeirra var Robin.
Þetta var á þeim tíma sem liðið átti í vandræðum með að elta Chelsea en á þessum tveimur tímabilum skoraði RvN 40 mörk og Rooney skoraði 36. Ronaldo mætti á svæðið 2005 og Ruud var sparkað enda þurfti eitthvað nýtt og ferskt til að keppa við Chelsea.
Cristiano Ronaldo – 2006-2009
Cristiano Ronaldo reyndist vera algjör undramaður. Aðra eins knattspyrnuhæfileika hafði maður varla séð áður og eðlilega stillti Sir Alex Ferguson liðinu þannig upp að hægt væri að mjólka hvern einasta hæfileikadropa út úr Ronaldo.
Það þýddi að Wayne Rooney spilaði frammi en var meira í því að djöflast í andstæðingunum og draga þá frá svo að Ronaldo fengi pláss á kantinum til að leika listir sínar. Vanmetið hlutverk og stór ástæða þess að Ronaldo skoraði öll þessi mörk en engu að síður ekki aðalhlutverkið. Það var í höndum Ronaldo sem skoraði 91 mark gegn 61 marki frá Rooney.
Wayne Rooney – 2009-2012
Ronaldo fór og loksins fékk Wayne Rooney að vera aðalmaðurinn í liðinu. Einhverstaðar þurftu mörkin sem Ronaldo skoraði að koma og Rooney tók það hlutverk mjög alvarlega. Hann var fremsti maður maður og nú snerist spilamennska liðsins einfaldlega um Wayne Rooney. Hann skoraði 34 mörk á sínu fyrstu tímabili sem numero uno.
Það slettist að vísu pínu upp á vinskapinn árið 2010 þegar hann vildi fara frá félaginu en hann kom sterkur inn á næsta tímabili og setti aftur 34 mörk. Frá 2009-2012 skoraði Rooney 84 mörk. Þarna sýndi hann einfaldlega að hann gæti vel verið aðalmaðurinn í liðinu.
Robin van Persie – 2012-2015
Sir Alex Ferguson var þó ekki alveg sammála og greip gæsina þegar hann gat. Þessi gæs heitir Robin van Persie. Rooney var ýtt til hliðar og van Persie varð aðalmaðurinn. RvP skoraði 30 mörk gegn 16 mörkum Rooney og líklega má gera ráð fyrir að Rooney hefði farið frá félaginu ef Sir Alex hefði haldið áfram.
Moyes sannfærði hann þó um að vera áfram en líkt og undir stjórn Louis van Gaal var hvorugur þeirra félaga aðalmaðurinn. Þeir deildu hlutverkinu með mjög misjöfnum árangri. Á síðasta tímabili var Rooney svo löngum stundum á miðjunni sem gekk ekki upp. Hans bestu frammistöður voru undir lok tímabilsins þegar hann fékk að spila frammi eins og Gary Neville og Jamie Carragher fóru yfir á sínum tíma.
Wayne Rooney – 2015-?
Svona er staðan í dag. Wayne Rooney er framherji nr. 1 og það er alls ekki víst að nýr framherji mætti á svæðið. Ég tel að Wayne Rooney geti vel dregið vagninn í framlínu United líkt og hann gerði þegar hann var aðalamaðurinn. Eftir að hafa losnað úr viðjum Nistelrooy og Ronaldo tók Rooney einfaldlega við keflinu af þeim og átti frábær tímabil sem aðalmaðurinn.
Tímabilið 2009/2010 var hann einfaldlega stórkostlegur framherji og skoraði mörk í öllum regnbogans litum.
Hann fór auðvitað í fýlu á næsta tímabili og lét Dimitar Berbatov draga vagninn þegar hann heimtaði að betri leikmenn yrðu keyptir en er það ekki bara nákvæmlega það sama og flestur stuðningsmenn félagsins [footnote]Hann hefði þó getað sleppt því að daðra við City í leiðinni[/footnote] voru að segja þegar Antonio Valencia og Michael Owen gengu til til liðs við félagið sem arftakar Ronaldo og Tevez?
Hann kom sterkur til baka tímabilið eftir þetta og það er alveg á hreinu að þegar Rooney var aðalframherjinn í liði Manchester United skoraði hann helling af mörkum. Hann hefur ekki fengið þetta hlutverk síðan með tilkomu Robin van Persie og síðar Falcao og þurfti að leysa af á miðjunni á meðan þeir félagarnir kepptust um hvor gæti klúðrað fleiri dauðafærum.
„At this moment, we don’t have a striker who scores 20 goals.“ sagði Louis van Gaal í febrúar. Sem aðalframherji á komandi tímabili verður Wayne Rooney þessi 20 marka maður sem van Gaal vill fá. Það er á hreinu.
Björn Friðgeir says
Ég hef alltaf verið frekar anti-Rooney, sérstaklega eftir hann tók kastið fyrra, en viðurkenni hann gæti svo sem alveg sinnt stöðunni. En svo meiðist hann í september og hvað gerum við þá?
Þetta plan gengur bara upp ef hann helst alveg ómeiddur, ef hann missir svo mikið sem 5-8 leiki, þá erum við fökkd!
Bjarni Ellertsson says
Ég vona að LVG vilji fá 1 striker og 1 varnarmann (Bruce, Vidic týpu) áður en mótið hefst. Er ekkert of bjartsýnn á að mörkin eigi að koma flestöll frá miðjumönnunum, nema við endum á að spila með 4 í vörn og 6 miðjumenn með mismunandi hlutverk og höldum boltanum í 70% af leiknum eins og Barca gerir og gerði. Ég myndi ekkert gráta að sjá Otamendi og Pedro klæðast treyjunni góðu.
DMS says
Rooney hefur líka yfirleitt skorað sín mörk í törnum. Tekur kannski 10 leiki þar sem hann skorar slatta en svo ekkert í næstu 10 leikjum eftir það. Hef pínu áhyggjur af því. Sé fyrir mér að Memphis verði notaður mikið á toppnum eða fyrir aftan fremsta mann ef við fáum ekki inn framherja. En það er mikið eftir af glugganum ennþá. Við erum líka enn með Javier Hernandez sem backup, ætli þetta endi ekki bara með Fellaini on top þegar Rooney er frá?
Talandi um Fellaini, hvar er sá kauði staddur núna? Meiddur? Hef ekkert séð af honum í æfingatúrnum.
Björn Friðgeir says
Fellaini missir af fyrstu þrem í deild útaf rauða spjaldinu móti Hull og Van Gaal sér ekki ástæðu til að hafa hann kláran fyrir fyrsta leik!
Auðunn says
Ég hef lúmskan grun um að Fellaini sé kominn út í kuldan hjá herra Van Gaal, annars get ég ekkert fullyrt um það, bara mín tilfinning.
Hvað Rooney varðar þá get ég tekið smá undir með Björn Friðgeir, hef alltaf verið smá anti-Rooney-isti. Sérstaklega eftir þessar tvær uppákomur hjá honum sem við ættum öll að þekkja.
Hann hefur einhvernvegin aldrei náð að komast inn í þessa Man.Utd fjöldskyldi hjá mér presónuleg. Hann er mikill tækifærissinni og hann virkar á mig að hann komi fyrst og svo Man.Utd. Það er bara ekki að skora hátt hjá mér persónulega.
Já já það er alveg ómögulegt að ætla bara að stóla á hann þegar kemur að markaskorun, United vinnur enga titla á því. Lið á þessu caliberi þarf að eiga amk tvo algjöra topp topp class framherja, hvorki Fellaini, Hernandes né Wilson eru á þeim stalli.
Hef reyndar bullandi trú á Wilson en hann er bara ekki tilbúinn ennþá, það er svo einfalt.
Runar says
Bíddu… Ronaldo kom sumarið 2003, bara svo menn séu með staðreyndirnar á hreinu ;)
Tryggvi Páll says
Og Ruud van Nistelrooy gekk ekki til liðs við félagið árið 2004…
…Ártölin eiga við þau ár sem viðkomandi leikmenn voru aðalmennirnir í liðinu og 2004 er útgangspunkturinn því þá gekk Wayne Rooney til liðs við félagið.
Ég held að Wayne Rooney geti alveg staðið undir þeirri áskorum að skora 20+ mörk á tímabilinu. Þetta er hinsvegar talsverð áhætta því að ef hann meiðist og verður frá í nokkrar vikur eða mánuði verður pressan gríðarleg á Chicharito og James Wilson. Ef menn vilja vera öruggir með sig verður að kaupa annan framherja í gæðaflokknum fyrir ofan Chicharito.
Það jákvæða við þetta er þó að nú fær James Wilson bullandi séns til þess að standa undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar. Það er jákvætt og ef enginn verður keyptur er hann að fá hér ótrúlegt tækifæri. Þeir sem hafa fylgst með honum í unglingaliðunum tala um að þeir hafi varla séð betri framherja kom upp úr unglingaliðunum.
Ég segi kannski ekki að ég sé anti-Rooney en ég get alveg tekið undir að þessar æfingar hans árið 2011 og 2013 hafi skemmt fyrir honum hvað varðar álit stuðningsmanna en ef hann nær að leiða liðið inn í nýja tíma titla er ekki loku fyrir skotið að hann nái fyrri stað.
Ég er þó mest þakklátur fyrir það að hann mun aldrei aftur spila á miðjunni. Hann er framherji, þar á hann heima og ég held að hann muni eiga gott tímabil.
Ég myndi líka ekki pæla of mikið í frammistöðunu hans í leikjunum tveimur sem búnir eru. Hann er þannig týpa að hann er svolítið lengi að koma sér af stað á undirbúningstímabilinu enda líklega búinn að vera aðeins í bjór og burger í sumar ef ég þekki okkar mann rétt.