Við hér hjá Rauðu Djöflunum höldum áfram að kynna nýja leikmenn liðsins til sögunnar. Nú er það nýi markmaðurinn okkar, Sergio Romero sem kemur til liðsins á frjálsri sölu. Hann mun eflaust spila minna hlutverk en hinir fjórir leikmennirnir sem hafa nú þegar gengið til liðs við félagið en það stefnir í að Romero muni vera varamarkmaður fyrir David De Gea, allavega í vetur.
https://twitter.com/ManUtd/status/625508416514097152
Sergio Romero er fæddur 22. febrúar árið 1987 í Argentínu. Það gerir hann 28 ára í dag, sem er nú frekar ungt miðað við stöðuna sem hann spilar. Romero er uppalinn í Argentínu og spilaði fimm leiki fyrir Racing Club áður en hann var keyptur til AZ Alkmaar. Við stjórnvölin hjá AZ Alkmaar á þeim tíma var Louis van Gaal og spilar það líklega hvað stærstan þátt í að Sergio Romero er orðinn leikmaður Manchester United í dag. Hann þekkir Van Gaal, hann þekkir hugmyndafræðina og leikstílinn ásamt því sem hann virðist vera nokkuð sáttur með að sitja á bekknum.
https://twitter.com/forevruntd/status/625492366036594688
Eftir fjögurra ára dvöl í Hollandi þar sem AZ Alkmaar vann meðal annars hollensku deildina og spilaði í riðlakeppni Meistarardeildar Evrópu þá fór Romero til Sampdoria á Ítalíu árið 2011. Það má deila um hversu gott skref á ferlinum það var en Sampdoria voru þá í Serie B. Það tímabil endaði Sampdoria í sjötta sæti deildarinnar en komst upp um deild eftir umspil. Eftir fínt tímabil með Sampdoria í Serie A árið eftir ákvað Romero að fara á lán til Monaco. Þar spilaði hann aðeins þrjá leiki og þegar hann snéri aftur til Sampdoria á síðasta tímabili hélt bekkjarsetan áfram. Hann var á eftir Emiliano Viviano í goggunarröðinni, aðdáendur enska boltans gætu kannast við kauða en hann sat á varamannbekk Arsenal tímabilið 2013-2014. Þrátt fyrir bekkjarsetu undanfarin tvö tímabil þá hefur Romero samt sem áður verið aðalmarkmaður Argentíska landsliðsins á þeim tíma og spilað yfir 60 leiki fyrir þjóð sína frá því að hann spilaði sinn fyrsta landsleik 2009.
Á HM í fyrra var Romero einn af bestu leikmönnum Argentínu Hann fékk reyndar á sig þrjú mörk í riðlinum gegn Bosníu Herzegóvínu og Nígeríu en þessi varsla hans gegn Íran
https://www.youtube.com/watch?v=kg-i3j4Xpzw
leiddi til þessa tísts hér
https://twitter.com/rihanna/status/480401980389478400
Hann hélt síðan hreinu gegn Sviss og Belgíu þannig að eitt mark nægði Argentínu til sigurs í þeim leikjum og svo líka gegn Hollandi Van Gaal. Það kom Argentínu í vítakeppni og þá varði Romero frá Vlaar og Sneijder og kom Argentínu í úrslit, þar sem mark Mario Götze nægði Þjóðverjum til sigurs.
Sem fyrr segir dugðu þessar hetjudáðir hans þó ekki til að koma honum í lið hjá Sampdoria síðasta vetur.
Í Sergio Romero er Manchester United að fá ágætlega reynslumikinn markmann sem Van Gaal virðist treysta. Að því sögðu þá treysti Van Gaal líka Victor Valdes á svipuðum tíma í fyrra. Að öllum líkindum mun Romero verja tréverkið mest megnis af vetrinum og ef til vill spila með U-21 liðinu til að viðhalda leikformi. Hvað þetta þýðir fyrir hina markmenn liðsins veit ég ekki en fyrir voru þeir David De Gea, Anders Lindegaard, Sam Johnstone og auðvitað Victor Valdes. Það má þó reikna með því að Victor Valdes verði seldur hvað úr hverju og líklega munu Lindegaard eða Johnstone einnig yfirgefa félagið í þessum félagaskiptaglugga. Þegar það er komið á hreint munum við renna lauflétt yfir markmannsmálin hjá félaginu.
Skildu eftir svar