Það var ekkert verið að flækja hlutina. Sama byrjunarlið og síðast nema Schweinsteiger kom inn fyrir Schneiderlin
Leikurinn fór fram á Soldier Field í Chicago, búist var við að hann yrði þéttsetinn, sem var raunin. Og við hjá Rauðu Djöflunum vorum meira að segja með okkar eigin mann á vellinum en fréttaritari okkar í Bandaríkjunum keyrði alla leið frá New York til að sjá leikinn.
Mættur í sætið! Fellaini og Januzaj að haga sér eins og kærustupar í upphitun. Sætt. pic.twitter.com/ISwv6Asmx3
— Sigurjón Guðjónsson (@manndjofull) July 30, 2015
Byrjunarið PSG var þannig skipað að Kevin Trapp var í markinu. Í vörninni voru Gregory Van Der Wiel, Serge Aurier, Thiago Silva og Maxwell. Þriggja manna miðja taldi Benjamin Stambouli, Marco Verratti og Blaise Matuidi. Frammi voru svo Lucas Moura, Jean Kevin Augustin og sjálfur Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan var ekki lengi að valda usla en strax eftir tvær mínútur vippaði hann boltanum inn fyrir United vörnina en David De Gea var á tánum og náði til boltans á undan leikmanni PSG. Upp úr því gerði David De Gea sig næstum að fífli en hann sendi boltann beint á Zlatan sem skaut sem betur fer yfir markið. Annars fór leikurinn rólega af stað og liðin skiptust á að hafa boltann, það var þó nokkuð ljóst að United ætlaði sér að fara upp hægri vænginn en helsta ógn liðsins fyrstu 10 mínúturnar var nýr hægri bakvörður liðsins, Matteo Darmian. Fyrirgjafirnar hefðu þó mátt vera örlítið betri. Fyrsta alvöru skot United kom svo á 11. mínútu þegar Memphis átti slakt skot sem markmaður PSG átti í litlum vandræðum með.
Á 15 mínútu leiksins fékk Memphis talsvert betra skotfæri en Wayne Rooney fékk boltann yfir toppinn frá Bastian Schweinsteiger. Rooney gerði mjög vel að snúa á varnarmann og leggja boltann út á D-bogann þar sem Memphis kom aðsvífandi en hamraði framhjá markinu. Mjög vel spiluð sókn hjá United þarna, einföld og góð. Aðeins tveimur mínútum síðar átti Michael Carrick eina af sínum trademark sendingum yfir á hægri vænginn þar sem Darmian komst upp að endalínu og átti fína sendingu á Memphis sem virtist ekki alveg átta sig á hvar boltinn væri að koma og missti hann því til varnarmanna PSG.
Á 20 mínútu leiksins átti PSG sitt fyrsta alvöru færi þegar Zlatan Ibrahimovic skallaði framhjá eftir hornspyrnu. Það sem kom hvað mest á óvart við þessa hornspyrnu var að sjá Luke Shaw dekka Zlatan. Minnti mjög á það þegar Rafael var að dekka Didier Drogba síðastliðinn vetur, mjög ójafnar viðureignir ef þú spyrð mig. Tveimur mínútum síðar skoraði svo Juan Mata með mjög snyrtilegri afgreiðslu en því miður var hann flaggaður rangstæður.
Á 25 mínútu átti Zlatan sendingu á miðjum velli inn fyrir United vörnina þar sem Phil Jones réð ekki við Blaise Matuidi ásamt því að David De Gea hikaði í markinu. Þetta endaði með því að Matuidi náði að pota í boltann, þrátt fyrir að vera umkringdur De Gea, Jones og Shaw, og boltinn lak yfir marklínuna. Staðan 1-0 fyrir PSG!
https://vine.co/v/eX6Dx0qqUEJ
Eftir um það bil hálftíma leik áttu Shaw og Memphis flottan þríhyrning úti vinstra megin sem endaði með því að Memphis lagði boltann á Rooney sem hamraði honum yfir markið af 20 metra færi. Fín sókn sem hefði mátt enda með betra skoti. Skömmu síðar vann Shaw boltann og óð upp völlinn, lagði hann út á vinstri vænginn á Ashley Young sem átti þessa fínu „Valencia fyrirgjöf“ meðfram grasinu og varnarmenn PSG hreinsuðu í horn.
Hornspyrnan endaði hins vegar í höndunum á Kevin Trapp og PSG fór í skyndisókn. Zlatan fékk boltann á miðjunni, með nóg af plássi fyrir framan sig þá setti hann stefnuna beint á markið, þegar nær dró vítateignum þá renndi hann boltanum út til vinstri á æskuvin sinn Maxwell sem rak boltann aðeins lengra upp vænginn áður en hann sendi þessa fínu „Valencia fyrirgjöf“ beint inn á markteig þar sem Zlatan kom aðsvífandi og setti boltann á milli fóta David De Gea. Búmm.
Staðan orðin 2-0 fyrir PSG og United menn í vondum málum. Allur varnarleikur frá A-Ö í þessu marki var hrein og bein skelfing. Engin pressa á Zlatan, engin pressa á Maxwell og enginn tók ábyrgð á Zlatan þegar hann kom inn í teiginn.
https://twitter.com/PeoplesPerson_/status/626569443594928129
United gerði sitt besta til að svara strax en þeir fengu aukaspyrnu úti á vinstri kanti sem endaði með því að Memphis átti fínt skot sem Kevin Trapp varði út í teiginn. Leikmenn United voru ekki á tánum og varnarmenn PSG bægðu hættunni frá. Á 41 mínútu áttu PSG svo góða sókn sem endaði með því að boltinn fór til Lucas Moura á vinstri vængnum, hann kom inn á völlinn og átti fínt skot rétt fyrir utan vítateig sem De Gea varði.
Staðan 2-0 í hálfleik.
Í hálfleik gerðu bæði lið þónokkrar breytingar. Sam Johnstone kom inn á fyrir David De Gea. Morgan Schneiderlin kom inn á fyrir Bastian Schweinsteiger og Andreas Pereira fyrir Ashley Young.
Hjá PSG komu David Luiz, Marquinhos, Lucas Digne og Edison Cavani inn á fyrir Van Der Wiel, Serge Aurier, Maxwell og Jean Kevin Augustin. Vegna fjölda leikmanna sem ég hef aldrei heyrt um og einstaklega flókinna nafna þá verður ekki farið nánar í skiptingar PSG í síðari hálfleik.
Pereira var ekki lengi að koma sér inn í leikinn en það var ekki mínúta liðin þegar hann fékk boltann úti vinstra megin og átti fína sendingu fyrir sem Memphis náði ekki að vinna nægilega vel úr. Með því að fá Schneiderlin á völlinn þá færði Carrick sig neðar, í það hlutverk sem Schweinsteiger hafði verið í og Schneiderlin fékk að etja kappi við þá Verratti og Matuidi en Carrick og Schweinsteiger höfðu ekki beint ráðið við þá félaga í fyrri hálfleik enda báðir með einstaklega öfluga hlaupagetu á meðan hæfileikar Carrick og Schweinsteiger liggja á öðrum sviðum.
Á 51 mínútu átti PSG enn eina langa sendinguna inn fyrir vörnina hjá United og Zlatan var við það að komast einn á einn gegn Johnstone þegar Darmian tókst að stinga sér fram fyrir hann og pota boltanum til Johnstone. Frábær varnarleikur hjá hægri bakverðinum en þessi sókn var ískyggilega lík fyrra marki PSG þar sem Jones tókst hvorki að hindra að Matuidi kæmist í boltann eða þá að komast í boltann á undan honum. Þarna kom Darmian hins vegar til bjargar. Annars byrjaði United síðari hálfleikinn eins og það endaði þann fyrri en þeir áttu erfitt með að skapa færi ásamt því að þeim gekk hálf brösuglega að halda boltanum.
Eftir um klukkutíma leik þá sýndi Pereira snilldar takta úti á vinstri vængnum til að halda boltanum. Boltinn barst svo af vinstri yfir á hægri og aftur til vinstri þar sem Pereira endaði á því að flengja boltanum fyrir markið til þess eins að horfa á Thiago Silva stanga knöttinn í burtu. Stuttu síðar fór United aftur upp vinstri kantinn þar sem Shaw fíflaði þrjá leikmenn PSG með léttum snúning, hann sendi síðan knöttinn á Pereira sem kom honum inn fyrir vörnina á Rooney sem flikkaði knettinum áfram til Memphis sem því miður náði ekki nægilega góðu skoti á markið. Fín sókn hjá United en enn og aftur vandaði þennan umtala endahnút.
https://twitter.com/FourFourTee/status/626581657496195072
Sóknarleikur United hafði þarna augljóslega færst af hægri vængnum yfir á þann vinstri en bæði Shaw og Pereira voru líflegustu leikmenn United fyrsta korterið í síðari hálfleiknum. Stuttu síðar sundurspilaði framlína PSG varnarlínu United en sem betur fer ákvað Zlatan að vera kærulaus og United bægði hættunni frá.
Eftir 64 mínútur komu Chris Smalling og Antonio Valencia inn fyrir Luke Shaw og Phil Jones. Við það færðist Darmian yfir í vinstri bakvörðinn. Lítið sem ekkert gerðist næstu mínútur leiksins. Hvorugt lið var að skapa sér færi og virtust margir leikmenn United alveg búnir að tæma tankinn á meðan PSG var að fóta sig eftir að hafa gert mikið af skiptingum á þessum tíma.
Á 77 mínútu gerði Carrick sjaldséð mistök þar sem hann sendi einn leikmann PSG nánast einan í gegn úti hægra megin í vítateignum en Johnstone lokaði markinu vel og skotið fór framhjá. Stuttu síðar bauð Valencia upp á klassískt Valencia móment þar sem hann gjörsamlega hamraði Lucas Digne niður og fékk gult spjald fyrir ómakið. Í kjölfarið gerði Van Gaal tvær skiptingar; Carrick kom útaf fyrir Sean Goss, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir aðallið United, og Mata fór sömuleiðis útaf fyrir Jesse Lingaard.
https://twitter.com/PeoplesPerson_/status/626585662041522176
Liðið leit þá svona út síðustu 10 mínúturnar:
Síðustu 10 mínúturnar fara ekki beint í sögubækurnar en það eina sem gerðist var að Sam Johnstone sýndi mikla yfirvegun þegar hann þurfti að koma út úr vítateignum til að taka á móti löngum sendingum PSG manna. Ein var sérlega glæsileg þegar hann tók boltann einfaldlega á bringuna, rak hann aðeins áfram og sendi hann svo innanfótar upp völlinn beint á Memphis. De Gea hefði mátt sína svipaða takta í fyrra marki PSG.
Þegar tvær mínútur voru svo eftir fékk Pereira aukaspyrnu um það bil 25 metrum frá markinu eftir gott hlaup í gegnum vörn PSG manna. Því miður var aukaspyrnan algjör skelfing hjá Pereira og endaði boltinn fyrir aftan endamörk. Lokatölur 2-0 fyrir PSG og þeir því sigurvegarar í International Champions Cup.
Ekki var spilamennskan glæsileg í kvöld, en andinn var góður. Chicago er klárlega rauð! #djöflarnir pic.twitter.com/PN3Gc0jYYF
— Sigurjón Guðjónsson (@manndjofull) July 30, 2015
Þar sem þetta var fyrsti heili leikurinn sem ég sé hjá United á þessu undirbúningstímabili þá hef ég ákveðið að taka saman nokkra punkta sem ég tók eftir:
- Það er nokkuð ljóst að það á að spila út frá markmanni og út úr vörninni almennt. Hins vegar þegar menn fóru að þreytast í síðari hálfleik þá varð það erfiðara og erfiðara og lentu leikmenn oft í smá basli. Hefði verið gaman að sjá Van Gaal nota Fellaini eins og var gert á síðustu leiktíð. En sökum þriggja leikja bannsins sem Fellaini byrjar tímabilið á þá fékk hann ekki að spila með í dag.
- Þegar United liðið pressaði hátt í fyrri hálfleik þá var allt sett á fullt. Þeir færðu sig nánast yfir í 4-2-4 og pressu alla öftustu línu PSG. Það voru nokkur móment þar sem þeir voru mjög nálægt því að vinna boltann á góðum stöðum og unnu hann 1-2x á góðum stað en tókst því miður ekki að nýta það. Verður áhugavert að sjá hvort þeir haldi þessari pressu áfram þegar tímabilið er byrjað en eina liðið sem mér dettur í hug sem hefur tekist að fullkomna svona skyndilega hápressu þegar liðið tapar boltanum ofarlega á vellinum er Barcelona.
- Á alltof löngum köflum í síðari hálfleik var liðið einfaldlega alveg eins og í fyrra. Þeir héldu boltanum löngum stundum en það gerðist gjörsamlega ekki neitt sóknarlega. Þeir fundu engar glufur. Þetta leiddi svo til þess að Wayne Rooney, helsti sóknarmaður liðsins, var kominn langt niður á miðjuna að sækja boltann til þess að gefa sendingar á menn sem ættu svo að geta sett framherja liðsins í gegnum vörnina. Nema hvað að það var enginn framherji til að gefa á.
https://twitter.com/_Rob_B/status/626584635410137088
- Bakverðir liðsins litu einstaklega vel út en bæði Darmian og Shaw voru flottir. Vantaði ef til vill aðeins meira end product á síðasta þriðjung en þeir virðast ætla að vera ill viðráðanlegir í vetur. Einnig kom Andreas Pereira vel inn í þetta og sýndi að hann er efni í alvöru leikmann. Að því sögðu þá spyr ég, hvar er Ander Herreira? Hefði haldið að hann væri fullkominn kostur til að berjast við leikmenn á borð við Matuidi og Verratti en miðjumenn United voru full staðir gegn þeim félögum. Ég hefði viljað sjá hann fá einhverjar mínutur í kvöld og í raun sjá hann fá mun fleiri mínútur á undirbúningstímabilinu. Vona að hann sé ekki á leiðinni í frystikistuna umtöluðu.
- Jones-Blind parið er dauðadæmt. Ég samþykki alveg tilraunina að spila Blind í hafsent en spilaðu þá Chris Smalling með honum í guðanna bænum. Hann er einfaldlega ljósárum á undan Phil Jones. Ég, ásamt fleirum, einfaldlega skil ekki þá pælingu að bekkja Smalling fyrir Jones. Hvað Van Gaal er að reyna hér skil ég ekki og býð spenntur eftir að hann verði spurður út í þetta á blaðamannafundi.
- Skortur á skiptingum. Ég skyldi ekki alveg af hverju fleiri leikmenn voru ekki notaðir. Sérstaklega þegar upprunalega uppleggið gegn jafn illa og raun ber vitni. Sumir leikmenn voru gjörsamlega búnir á því og sóknarleikurinn var einstaklega einhæfur. Kantmenn liðsins voru að dæla svipuðum fyrirgjöfum og í fyrra inn í vítateig andstæðinganna en það sem vantaði var stóri belginn með krullaða hárið sem sá um að vinna þessar fyrirgjafir á síðasta tímabili. Án hans eru þessar fyrirgjafir barnaleikur fyrir alvöru varnarmenn.
Lokaniðurstaða eru einfaldlega gífurleg vonbrigði en sem betur fer komu þau í þessum leik og vonandi verður búið að laga allt þegar Tottenham Hotspur koma í heimsókn á Old Trafford þann 8. ágúst.
DMS says
Núna þegar við erum loksins komnir með góða og öfluga breidd á miðjuna og LvG búinn að tala um að núna þurfi hann ekki að nota framherjann Rooney á miðjunni aftur, er þá planið að nýta þessa miðjumenn í miðvarðarstöðurnar líka?
Með fullri virðingu fyrir Daley Blind sem getur leyst flestar stöður með ágætum, þá er hann enginn leiðtogi til að stýra varnarlínunni. Í þokkabót er hann alveg skelfilega hægur á sprettinum, þegar PSG voru að koma í hröð upphlaup þá voru það last minute sprettir hjá Darmian eða Shaw sem voru að ná sóknarmönnunum en Blind átti ekki séns. Get rétt ímyndað mér okkur spila með svona háa varnarlínu gegn liðum sem eru með mun hraðari framherja.
Mér fannst Schweinsteiger eiga ágætan fyrri hálfleik. A.Young var slakur og var ég ánægður að sjá LvG gefa Pereira seinni hálfleikinn.
Mér fannst vanta hjá okkur að láta hlutina gerast hraðar. Þegar við unnum boltann og PSG voru hátti uppi með sínar línur þá vorum við of lengi að nýta okkur það. Aftur á móti þegar PSG vann boltann af okkur þá þurfti oft ekki meira en 1-2 sendingar og svo kom stungan inn fyrir.
Ég er hinsvegar ánægður með Darmian. Afskaplega flottur og heilsteyptur leikmaður, sterkur fram á við og til baka. Held hann muni eigna sér þessa hægri bakvarðarstöðu ansi fljótt.
Mér finnst okkur enn vanta meiri gæði í hópinn á nokkrum stöðum til að geta keppt við stærstu risana í Evrópuboltanum. Miðvörður í heimsklassa myndi gera mjög mikið fyrir okkur og svo þarf jafnvel að huga að framherjastöðunni. Hvað gerist ef Rooney meiðist í lengri tíma? Á þá unglingurinn Wilson að fá alla pressuna á sig? Svo þarf líka að huga að replacement fyrir Di Maria sem virðist nú vera búið að negla niður í Pedro. Klárlega step down hvað gæði varðar en ef Pedro smellur inn í enska boltann þá ætti hann vonandi að geta contribute-að meira en slakur og áhugalaus Di Maria.
SIS says
Er ekki New York Red Bulls sigurvegari í champions cup? PSG þurfti að vinna okkur með þremur mörkum til að fara á toppinn
Runólfur Trausti says
Nei þeir þurftu að vinna með tveimur mörkum.
Nenni ekki að setja allan linkinn hér inn en Getty Images eru með nóg af myndum af þeim að fagna titlinum allavega.
En að öðru, Phil Jones virðist mögulega hafa spilað sig út úr liðinu í kvöld:
https://twitter.com/Ian_Ladyman_DM/status/626608928151896065
Þorri says
Það sem ég gat tekið útúr þessum leik:
– De Gea mun ekki spila fyrir okkur af fullum krafti, af ótta við að meiðast.
– Það er alveg skelfilegt að Herrera sé kominn aftur út í kuldann, hann er sá miðjumaður sem er, að mínu mati, algjör „game-changer“.
– Mata á ekki að spila vinstra megin. Það skip er siglt. Ég vil fá Pedro eða bara Lingard til að leysa þá stöðu.
– Flestir leikmenn voru staðir og fyrirsjáanlegir. Í einu skiptin sem eitthvað virtist vera að gerast þá voru Shaw, Darmian eða Depay með boltann.
Það kom mér á óvart í gær hvað bakverðirnir(sérstaklega Shaw) og miðjumennirnir okkar voru villtir í hápressunni. Mér fannst það mjög ólík Van Gaal. Á meðan sóknarmennirnir okkar voru alltaf fastir í sínum kerfisbundnu stöðum, í stað þess að rótera við og við. Mér fannst United spila skemmtilegasta sóknarboltann þegar Rooney, Tevez og Ronaldo voru frammi og helst aldrei á sama stað, alltaf að skipta um stöður. Það, myndi ég halda, væri líklegra til að koma varnarmönnum á óvart. En við virðumst ekki ætla að vera mikið í því.
pnzr says
Það er rúmlega vika í fyrsta leik og ég er fullur tilhlökkunnar, en viðvörunarbjöllurnar klingja ansi hátt.
Síðasta tímabil fór í súginn að mestu útaf hrikalegri byrjun.. 13 stig eftir 10 leiki að mig minnir því liðið var ekki tilbúið. Leikmenn keyptir inn korter í lokun á glugganum með tilheyrandi róti.
Liðið er vissulega ágætlega mannað núna og á að geta keppt um 3-4. sætið en gerir ekki neitt tilkall í meistarabaráttuna. Að halda örðu fram er bara örvæntingarfull bjartsýni með blindandi rauð gleraugu.
1. Framlínan er janfvel lakari en í fyrra. Enn hefur enginn striker verið keyptur þó bæði Robin van Persie og Falcao séu farnir úr hópnum. Hugsanlega mun Memphis Depay spila frammi með Rooney en hann er ungur og ekki hægt að stóla á að 20+ mörk frá honum á sína fyrsta tímabili. Hvað gerist ef Rooney meiðist? Á þá WIlson eða Chicharito að leiða framlínuna?
2. Enginn almennilegur hafsent. Nú virðist staðan vera sú að það verði enginn CB keyptur. Þetta lið öskrar af örvæntingu á commanding og sterkan hafsent ala Vidic. Nú virðist trompið hans LVG vera að setja Blind í CB stöðuna ásamt annað hvort Jones eða Smalling. Ekki mjög vænlegt til árangurs þó svo að þetta gangi líklegast gegn hægum/lakari liðum.
3. Almenn óvissa með top-leikmenn. Verður De Gea seldur eða ekki. Þetta virðist verða eitthver damned if we do, damned if we don’t. Slæmt að missa hann en einnig ekki vænlegt að hafa mann í liðinu sem vill burt og hugsanlega með hugan á Spáni. Evrópumót þó næsta sumar og nægar ástæður fyrir hann að vilja standa sig vel. Di Maria virðist algjörlega búinn að kúpla sig út og þessi fjarvera hans óskilanleg. Þessir leikmenn er heimsklassa báðir tveir og að missa þá myndi setja skarð í hvaða lið sem er. En ef ég að vera hreinksilinn held ég að það sé best að rífa plásturinn af og losa sig við þá og fá inn pening til að fjárfesta.
Það jákvæða er þó miðjan virðist, ótrúlegt en satt, vera okkar sterkasta vígi! ´Það er ansi mörg ár síðan maður gat síðast sagt það..
Audunn says
Ég held að þetta tap hafi ekki verið svo slæmt til lengri tíma, ætti að gefa mönnum eitthvað til að hugsa um.
United brilleraði á undirbúningstímabilinu í fyrra og þegar allt kom til alls þá gerði það liðinu ekki mikinn greiða því það myndaðist eiginlega ofmat á hópnum sem kom liðinu um koll þegar út í alvöruna var komið.
Ég er nú ekki búinn að útiloka fleiri kaup ennþá, við eigum jú líka Rojo og Evans til góða en það er því miður ekki hægt að stóla neitt á Evans og maður veit ekki alveg með Rojo ennþá.
Sjáum til en það var fínt að fá þessi úrslit núna.. vona það amk.
Bjarni Ellertsson says
Sammála síðasta ræðumanni, en mér finnst þessir æfingaleikir ekki segja mér neitt og hafa aldrei gert, ungir leikmenn fá tækifæri, standa sig vel en svo sitja þeir á bekknum í vetur eða fara á lán. Eini plúsinn virðist vera meiðslalaust lið í byrjun móts sem er gott, hins vegar eru erfiðir fyrstu 5 leikirnir + 2 í meistaradeildinni sem munu reyna á taugarnar og þó við séum búnir að bæta okkur hér og þar þá vantar okkur greinilega varnarmann og sóknarmann. Annars sýnist mér við séum enn með liðið í mótun og það mun taka nýju mennina tíma að komast inn í leik liðsins og meðtaka Guðsorðið en ég vona að liðið komist vel frá ágústleikjunum því annars verður þetta þungur róður.
Það verður samt að hreinsa þetta De Gea og di Maria mál sem fyrst, þetta getur drepið móralinn niður að hafa svona uppákomur hangandi á sér langt inn í mót.
DMS says
Mig grunar að uppbyggingarstarfsemin hjá LvG að koma okkur aftur í hóp topp klúbbanna í Evrópu muni taka lengri tíma en búist var við.
Að fara inn í tímabilið með markvarðarmálin óleyst, Di Maria á útleið, engan nýjan miðvörð og tveimur framherjum færra en í fyrra er ekkert sérlega heillandi. Sennilega verður Pedro keyptur í stað Di Maria en finnst hann vera þannig týpa af leikmanni sem muni taka tíma til að venjast menningunni á Englandi – svo er spurning hvort hann tali nokkuð ensku frekar en Di Maria. En Pedro mun þó vonandi leggja meira á sig til að láta hlutina ganga upp heldur en uppgjafarhermaðurinn frá Argentínu.
Náði Rojo að mæta í ferðina eftir vegabréfaklúðrið eða fannst mönnum ekki taka því og hann látinn bíða heima?
Bjarni Ellertsson says
Ditto, DMS.
Björn Friðgeir says
Rojo fékki ekki áritun til US, það nægði ekki þessi venjulega ESTA rafræna áritun útaf dómsmálinu þarna í fyrra og hann hafði bara ekki hugmynd…
Þannig að hann fer beint til Manchester.
Mín spá núna er De Gea út, og Cillesen inn, Ef Ajax kemst áfram gegn Rapid er Cillesen hins vegar bikarbundinni í Meistaradeildinni þannig það yrði þá Romero! Síðan fer Di María og Pedro kemur. Miðað við síðasta ár eru það ekkert slæm skipti.
Þá er bara spurning hvort það bætist við varnarmaður og framherji, en þeir þyrftu að vera af dýrari sortinni til að þeir bættu liðið.
Óskar Óskarsson says
Rojo a eftir að koma inn,,,enn ef við ætlum okkur stóra hluti i vetur..þá getum við ekki leyft okkur að spila jones eða blind i miðvarðar stöðunni…engan veginn nógu góðir
Rúnar Þór says
Björn Friðgeir, yrðiru í alvöru sáttur með Cillesen af öllum mönnum? Cillesen fyrir De Gea er STÓRT skref aftur á bak. Segir allt sem segja þarf að LVG skipti Krul inná á HM því hann treysti ekki Cillesen
Hann er alls ekki í United klassa og persónulega finnst mér hann ömurlegur gk og langar alls ekki að sjá hann á Old Trafford
1 spurning. afhverju skyldi ekki hafa verið reynt við Chech eða Lloris af meiri krafti? Þetta er kalíber af gk sem þarf
Runólfur Trausti says
Það skiptir litlu hvað mönnum finnst um Cillesen. Fyrir LvG þá passar hann inn í „philosophy“ + að þeir þekkjast og allt það. Varðandi vítin þá er búið að signa vítabanann Sergio Romero, svo að LvG tekur bara sömu Super skiptinguna og þegar hann setti Tim Krul inn á ef til þess kemur.
Ástæðan fyrir því að það var ekki reynt að fara meira á eftir Cech er sú að hann passar illa inn í leikplan (philosophy) United ásamt því að vera of gamall til að geta breytt um leikstíl. Hjá Chelsea hefur hann aldrei verið mikið í uppbyggingu – hann er meiri línumarkvörður sem getur þó augljóslega tekið þær fyrirgjafir sem koma.
Hér skiptir ekki bara skoðun Van Gaal máli en markmannsþjálfari liðsins, Frans Hoek, er einnig mjög sérstakur hvað þetta varðar. Viss tegund af markmanni hentar vissri tegund af leikstíl – það virðist oft gleymast að ekki eru allir markmenn eins.
Ef menn vilja lesa meira um hugmyndir Frans Hoek þá er það hægt hér; http://soccercoachinginternational.com/pdf/SCI%2005.8%20Frans%20Hoek.pdf
Hvað varðar Hugo nokkurn Lloris þá … persónulega finnst mér hann ekki nægilega góður. Slembilukku markamður að vissu leyti. Á stórkostlegar (sjónvarps) markvörslur inn á milli – æðir voða fínt út úr markinu en heldur nánast aldrei hreinu ásamt því að vera einstaklega mistækur inn á milli. Ég hef allavega lítinn áhuga á að sjá hann í markinu hjá United á næstunni.
-RTÞ
MUfan#1 says
Ég held nú að það sé ekki mikið vandamál að vera með tveimur færri framherja en í fyrra. Fyrir ári átti að keyra á 3-5-2 en nú 4-3-3 með einum framherja sem á víst að vera Rooney svo ég er ekkert að stressa mig á þessu.
Varðandi PSG leikinn þá er ég bara sáttur með að hafa séð augljósa veikleika liðsins. Þá sér Van Gaal kannski enn frekar þörfina á alvöru varnarmanni.
Að öðru leyti tel ég liðið vera tilbúið. Otamendi inn og kannski framtíðar-striker eins og Lacazette og þá ætti liðið að geta barist um titla af alvöru.