Byrjum á byrjuninni. Louis van Gaal gerði tvær breytingar frá ágætum sigri á Everton um helgina. Jesse Lingard fékk langþráð tækifæri á meðan Juan Mata fékk verðskuldaða hvíld. Antonio Valencia kom svo inn fyrir Darmian til að glíma við hraða kantmenn CSKA. Liðið var því svona:
Bekkur: S.Romero, Blind (Rojo 63′) , Darmian, Carrick, Mata, Fellaini (Schweinsteiger 45′), Memphis (Lingard 80′)
Við erum farin að þekkja handritið af þessum United-leikjum. CSKA menn voru afskaplega sáttir við að sitja til baka, leyfa United að halda boltanum og keyra hratt þegar tækifærið gafst. Þetta er svo sem ekki flókin leikaðferð en hún virðist virka einstaklega vel gegn Manchester United liði Louis van Gaal.
Þetta gekk ágætlega upp hjá CSKA og ekki versnaði þegar dómari leiksins dæmdi víti eftir 15 mínútna leik. Mario Fernandes hægri bakvörður Rússana skeiðaði upp völlinn og komst inn í teiginn þar sem Anthony Martial handlék boltann. Fátt annað í stöðunni en að dæma víti en Martial hefði þó alveg getað fengið víti sjálfur skömmu áður þegar hann féll í teignum.
Hvað um það, Eremenko steig upp en David de Gea varði arfaslakt víti hans. Því miður voru varnarmenn okkar að hugsa um eitthvað annað en að ná frákastinu og var Seydou Doumbia langfyrstur til boltans og setti hann auðveldlega framhjá De Gea sem var enn að ná áttum eftir að hafa varið vítið.
Þetta var algjörlega fullkomið fyrir CSKA sem er augljóslega gríðarlega skipulagt lið. Þeir lögðust í vörn og í tæpan klukkutíma lokuðu þeir á allar sóknaraðgerðir United. Þeim fannst bara fínt að leyfa Sch-félögum okkur á miðjunni að þræða boltann handboltalega á milli kanta enda ógnaði United aldrei marki United í fyrri hálfleik.
Van Gaal brást við með því að taka Schweinsteiger út af fyrir Fellaini. Þetta var mjög fyrirsjáanleg skipting en sem betur fer fóru United-menn ekki í þetta hefðbundna plan-b sitt þegar Fellaini kemur inn. Nei, háloftaboltunum var haldið í lágmarki og United hélt áfram að spila sinn bolta en tókst að auka tempó-ið örlítið í seinni hálfleik.
Það gerði gæfumuninn og um miðbik seinni hálfleiks opnaðist vörn CSKA aðeins og við það náðu okkar menn að skapa sér tækifæri. Jesse Lingard fékk t.d. dauðafæri en slappt skot hans fór beint á Akinfeev í markinu. Örfáum mínútum seinna kom jöfnunarmarkið langþráða en ágætis sókn United endaði með því að Anthony Martial skallaði boltann á eins hnitmiðaðan hátt og hægt er í markið.
10 – Anthony Martial’s goal tonight ended a sequence of 10 passes, starting from David de Gea. Fluid. pic.twitter.com/hIOBDOgcZP
— OptaJoe (@OptaJoe) October 21, 2015
Eftir þetta virtist hreinlega eins og bæði lið væru sátt við jafnteflið. CSKA-menn án efa sáttir við að ná í stig gegn United og okkar menn án efa með það efst í huga að keyra sig ekki út fyrir leikinn mikilvæga gegn City á sunnudaginn. 1-1 jafntefli varð því niðurstaðan sem er svosem enginn heimsendir enda á United tvo heimaleiki eftir. Wolfsburg vann sinn leik gegn PSV og því er staðan í riðlinum svona. Næstu tvær leikir eru báðir á Old Trafford og því ætti United að geta komið sér í góða stöðu fyrir lokaleikinn úti gegn Wolfsburg.
Nokkrir punktar
Enn og aftur eiga miðverðir okkar góðan leik. Það mæddi kannski ekki mikið á þeim en þeir stóðu sína vakt að mestu vel auk þess sem að þeir unnu boltann aftur oft og vel af sóknarmönnum CSKA á miðju vallarins. Chris Smalling er hreinlega orðinn einn af bestu miðvörðunum í bransanum og Phil Jones byggði á góðri frammistöðu sinni gegn Everton.
Anthony Martial átti erfitt uppdráttar þrátt fyrir markið. Það er svo sem ekki skrýtið enda tvímenntu CSKA-menn alltaf á Martial og honum tókst sjaldan að leysa sig undan því. Þar saknaði ég gríðarlega að sjá Marcos Rojo ekki veita honum meiri aðstoð. Hann fór sjaldan í overlappið og því gátu bakvörðurinn og hjálparvarnarmaðurinn yfirleitt alltaf stöðvað Martial. Það breyttist þó þegar Blind kom inn á fyrir Rojo rétt áður en að Martial skoraði þetta glæsilega mark. Blind studdi mun betur við Martial og spurning hvort að hann taki sæti Rojo gegn City? Martial sýndi þó gæði sín í þau fáu skipti sem hann losnaði undan varnarmönnum CSKA og markið hans var mjög laglegt.
Wayne Rooney. Hvar byrjar maður? Hann er eiginlega alltaf skrefi á eftir öllum hinum í liðinu og veitir sóknarleik liðsins akkúrat engan brodd. Martial fram á diskinn minn takk fyrir. Mætti ekki bara hvíla Rooney gegn City? Gefa honum smá spark í rassgatið? Það græðir enginn á því að vera með öruggt byrjunarliðssæti í liðinu.
Allavega, nú vonum við að þessi leikur hafi ekki tekið of mikla orku frá okkar mönnum og að þeir mæti tvíefldir til leiks í stærsta leik tímabilsins hingað til gegn City á sunnudaginn.
Bósi says
Darmian a bekknum líka ?
Gummi says
Dettur ykkur ekki í hug að Valencia sé RB, Darmian LB og Rojo og Jones CB.
Einhvern veginn efast ég um að Valencia sé miðvörður X-D
Tryggvi Páll says
Gleymdi að setja Smalling inn og taka út Darmian. Rétt byrjunarlið komið inn.
Krummi says
Hvað hefur mata gert af sér?
ellioman says
@Krummi
Van Gaal var víst svo reiður út í Mata, fyrir að hafa spilað alla leiki liðsins á þessu tímabili, að hann gaf honum smá hvíld í kvöld :)
Helgi P says
hvað er Martial að gera
Keane says
Hvað er Rooney að gera?
bjarni says
Þar höfum við það, po po pos en engin sköpun, alltaf spilað aftur
Helgi P says
það er eins og þeir séu að spila með 20 kílóa lóð skónum því það gerist allt svo hægt
Hjörtur says
Maður gat haldið að leikmönnum hafi verið uppálagt að spila bara svona maður á mann, og láta það nægja, því þeir áttu varla skot á mark hvað fyrri hálfleik varðar að minsta kosti, og ekki voru þau ýkja mörg heldur í þeim seinni. Að vera með boltann yfir 70% þá er það skylduverk að mínu mati að gera fleiri en eitt mark.
Karl Garðars says
Gott mark hjá Martial og margt gott hægt að taka út úr þessum leik gegn erfiðu liði á erfiðum velli. Ef við náum 3 stigum úr city leiknum þá er ég sáttur. Það verður erfiður leikur.
Kjartan Jónsson says
Maður hlýtur að geta gert þá kröfu á lið sem er með boltan 72% af leiknum að það skapi sér amk einhver marktækifæri. Martial var hálfpartinn tekinn úr umferð allan leikinn og maður ætti að halda að það myndi þá losna um liðsfélaga hans, nei ekki aldeils. Rússarnir voru vel skipulagðir og eiga hrós skilið fyrir skynsaman leik.
Ingvar says
Rooney á bekkinn ekki seinna en strax. Hann er gríðarlegur dragbítur á liðið. Ótrúlegt hvað hann kemst upp með að vera ógeðslega lélegur en fær að spila allar helvítis mínúturnar. Memphis, Herrera og Mata fara rakleiðis á bekkinn ef þeir eiga slæma leiki en Rooney er í áskrift.
Runólfur Trausti says
Það er svo sem erfitt að vera gagnrýninn á liðið.
Að spila í Rússlandi, á gervigrasi, við frostmark er ekki beint það sem leikmenn eru vanir. Sama hversu góðir menn eru, svona hlutir hafa áhrif.
Það sem má gagnrýna er kæruleysi í markinu, léleg vörn hjá Martial og svo Jones í massífu kæruleysi þegar rebound-ið fellur til Moskvu manna. Sama hvað þá eiga menn að keyra inn með vítinu, það er regla númer 1.
Hvað varðar sóknarleikinn þá hefði hann mátt vera betri – mun betri í raun en ég vitna í fyrsta punktinn. Gervigras, frostmark og Rússland.
Hvað skiptingar varðar þá hefði maður viljað sjá Rooney fjúka útaf, þetta fer að verða komið gott. Martial upp á topp og Memphis út á væng hefði eflaust virkað betur á hæga vörn Rússana.
Hvað varðar leikinn á sunnudaginn þá hefði ég viljað sjá menn eins og Mata og Carrick einfaldlega vera skylda efti rheima. Þeir voru aldrei að fara koma inn á í dag og hefði því mátt leyfa þeim að vera eftir heima.
Menn leiksins eru svo De Gea – Schneiderlin – Smalling – Martial.
Í allri umræðu leiksins týndist De Gea, í færinu sem kom áður en dómarinn flautaði vítið þá varði hann skot frábærlega yfir. Svo varði hann einnig vítið + mjööög gott skot í fyrri hálfleik. Staðan hefði auðveldlega geta verið orðið 2-0 fyrir CSKA þar.
Svo fá hinir þrír punkta fyrir að vera fáir útileikmanna með lífsmarki í 90 mín.
Ps. Sérstakt S/O á Antonio Valencia. HANN LAGÐI UPP MARK !!!
Rúnar Þór says
Martial á að vera frammi en ekki út á kanti PUNKTUR! ef LVG fer að spila Martial endalaust úr stöðu gæti hann endað svipað og Welbeck. Vona innilega að LVG skemmi ekki Martial
Rúnar Þór says
finnst líka hrikalega sorglegt að Manchester United er farið að spila til baka í lok leikja bara sáttir í stað keyra á lið og reyna að gera late goal ala SIR ALEX FERGUSON!!!
Björn Friðgeir says
Ef einhver staða er staða Martial þá er það úti á kanti, þar spilaði hann langflesta leiki sína fyrir Monaco.
Svo spilaði Sörinn nú alveg meira en nóg af erfiðum útileikjum þar sem ekki var verið að taka neina sénsa undir lokin, það er alveg óþarfi að fegra það eitthvað
Ottó says
Bara ef Falcao hefði fengið sama run af leikjum og Wayne Rooney er búinn að fá í vetur