Á morgun mætir West Ham í heimsókn á Old Trafford. United hefur haft ágætis tök á West Ham í gegnum tíðina, sérstaklega á heimavelli, og ég held að við þurfum að fara einhver 5 ár aftur í tímann til að finna tapleik gegn Hömrunum, þá í deildarbikarnum gegn „varaliði“ United. Þó þetta verði án efa erfiður leikur, enda West Ham í spræklari kantinum þetta tímabilið, þá er þetta einn af þessum leikjum sem United verður hreinlega að vinna, tap eða jafntefli er bara ekki ásættanleg niðurstaða, ekki á Old Trafford. West Ham vörnin hefur lekið svolítið að mörkum á þessu tímabili og vegna meiðsla í hópnum verður framlínan hjá þeim mun bitlausari en áður (þessi setning á örugglega eftir að bíta mig í rassinn).
Það sem er hvað athyglisverðast við þennan leik, allavega fyrir mig persónulega, er liðsuppstillingin. Vegna meiðslavandræða í hópum (Rojo, Rooney, Herrera og Jones) er útlit fyrir að liðinu verði stillt upp eins og mig hefur langað að sjá það í töluverðan tíma (þ.e.a.s. sóknin). Það er nú ekki þar með sagt að Van Gaal leysi meiðslavandræðin á sama hátt og ég, en ég væri alveg til í að sjá liðið svona:
Þarna eru við með hraða á köntunum, Mata í sinni bestu stöðu og Martial sem framherji. Það er auðvitað séns að Van Gaal spili eitthvað annað kerfi, kannski með Young á kantinum og McNair í einhverskonar 3 manna vörn, en það verður að koma í ljós. Eitt er víst að Rooney missir núna af tveimur leikjum vegna meðsla í ökla, það gefur okkur tækifæri á að sjá liðið spila án hans og meta hversu mikilvægur þáttur hans er, en það hefur auðvitað verið töluvert í umræðunni í allt haust.
https://twitter.com/OptaJoe/status/672793280195743745
Stór þáttur í uppstillingunni hjá okkur eru meiðslavandræði hjá West Ham en þeir varða án síns besta manns í vetur, Dimitri Payet, svo eru þeir einnig án Enner Valencia og Diafra Sakho, sem verður líklega til þess að Andy Carroll byrjar í framlínunni. Það mun auðvitað bjóða upp á allt öðruvísi bolta en West Ham hefur verið að spila undanfarið.
Allavega, þetta verður vonandi skemmtilegur leikur sem býður vonandi upp á eitthvað meira en 0-0 eða 1-0 niðurstöðu. Leikurinn byrjar klukkan 15:00. Áfram United!
Skildu eftir svar