Tæknilega séð er kominn 6. desember þegar þetta er birt en það skiptir ekki öllu.
Minni á leikskýrsluna hér að neðan, hún er talsvert skemmtilegri en leikurinn sjálfur.
Anthony Martial
Þessa dagana vekur mikla athygli listgjörningur ungs listnema sem nakinn heldur sig í litlum glerkassa og sjónvarpar allan sólarhringinn út á internetið. Nekt í listum er ekki ný af nálinni og það er heldur ekki nýtt að nekt vekji svona mikla athygli eða sé notuð sérstaklega í þeim tilgangi að auglýsa og selja. Fyrir nákvæmlega 20 árum síðan, þann 5. desember 1995, sögðu íslenskir fjölmiðlar frá því hvernig 20 íslenskir karlmenn hefðu mætt naktir í Austurver vegna þess að einn verslunareigandi þar hafði auglýst að þeir sem kæmu naktir í búðina til hans myndu vinna sér inn ókeypis farsíma. Líkt og í röðinni miklu fyrir framan Dunkin Donuts í sumar voru ekki allir sem fóru ferð til fjár þar sem aðeins 10 fyrstu strípalingarnir fengu farsíma. Margmenni mætti einnig til að fylgjast með þessum gjörningi og þá kom löggan líka til að taka niður nöfn á aðstandendum málsins og stefndi á að gera skýrslu um málið. Nákvæmlega hvernig síma þessir bossalingar fengu veit ég ekki hugmynd um en búðin sem um ræðir, verslunin Anton Skúlason, seldi á þessum tíma Alcatel farsíma. Það hefur þó varla verið neitt sérstaklega öflugur sími, á þessum tíma voru ennþá 3 ár í að Nokia 5110 kæmi á markaðinn og enn var hægt að fá analog farsíma.
Vinsælasta kvikmyndin í Bandaríkjunum þennan daginn var Toy Story, hún hafði rakað inn ríflega tvöfalt meira en næsta mynd sem var nýjasta Bond-myndin, Goldeneye. Í þriðja sæti var svo mafíumyndin Casino. Íslensk kvikmyndahús voru ekki farin að sýna þessar myndir ennþá en þeir sem vildu fara í bíó gátu þarna valið á milli þriggja íslenskra kvikmynda, eitthvað sem gerist sannarlega ekki á hverjum degi. Þetta voru myndirnar Benjamín dúfa, Tár úr steini og Einkalíf. Auk þeirra var til dæmis hægt að skella sér á Desperado, Clueless, Species, ShowGirls eða epíska kennaraghettodramað Dangerous Minds. Fyrir heimakæra var ýmislegt um að velja í sjónvarpinu. Á RÚV var hægt að sjá Staupastein og Derrick, Stöð 2 var með sérstakan jólaþátt af Handlögnum heimilisföður (Home Improvement), Stöð 3 sýndi Simpson’s og David Letterman og á Sýn var hægt að kíkja á Beavis & Butthead og Walker, Texas Ranger. Ekki amalegt þriðjudagskvöld!
Í íþróttafréttum var það helst að Ásgeir Elíasson hafði þá nýlega hætt sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins, KSÍ hafði samþykkt að hefja sérstaka deildarbikarkeppni sem spila átti á vorin og var hugsuð sem undirbúningsmót. Á sama fundi KSÍ var sú tillaga Breiðabliks að spilað skyldi með föst númer, líkt og tekið hafði verið upp á Englandi, felld. Þá var einnig frétt um það að Andy Cole ætti sérstaklega erfitt með að koma boltanum í markið þessa dagana og væri að misnota hvert dauðafærið á fætur öðru. Ein skýringin sem fram var komin um þetta stórmál var að ákveðin tegund knatta hentaði kappanum sérstaklega illa. Þessi tegund bolta var notuð á sumum völlum en ekki öðrum og þótti ótækt að ekki væri betra samræmi í þessum boltamálum.
Þennan sama dag fæddist í Massy, Essonne drengur að nafni Anthony Martial. Massy er úthverfi í suðurhluta Parísarborgar, tæplega 15 kílómetrum frá miðju borgarinnar. Massy var áður lítið sveitarþorp en óx á stuttum tíma úr því að vera 1.400 manna þorp yfir í að vera 40.000 manna hverfi. Martial er ekki eini knattspyrnumaðurinn sem hefur komið frá þessu hverfi. Fyrir utan eldri bræður hans tvo er Yaya Sanogo einnig þaðan.
En hvað var að gerast hjá Manchester United á meðan? Góð spurning. Þremur dögum fyrr hafði United gert 1-1 jafntefli við Chelsea þar sem hinn kviklyndi Dennis Wise hafði komið Chelsea yfir en David Beckham jafnaði fyrir United. Þennan dag, þriðjudaginn 5. desember ‘95, var liðið svo komið yfir til Belfast í Norður-Írlandi til að taka þátt í góðgerðarleik á Windsor Park. Leikurinn var styrktarleikur fyrir Co-operation North. Co-operation North, sem heitir reyndar núna Co-operation Ireland er ópólitískt góðgerðarfélag sem var stofnað árið 1979 hefur það að markmiði að efla frið og sameiningu milli Írlands og Norður-Írlands. Meðal verkefna félagsins á undanförnum árum er The George Best Community Cup sem snýst um að fá fólk frá ólíkum hverfum innan Belfast annars vegar og Dublin hins vegar, hverfum sem eru annars vegar að mestu kaþólsk og hins vegar að mestu mótmælendatrúar, til að koma saman og tengjast vinaböndum yfir fótboltanum.
United sýndi málstaðnum virðingu og mætti með ansi sterkan hóp til Belfast. Byrjunarliðið var eftirfarandi:
25 – Kevin Pilkington (hann spilaði leikina í kring í deildinni líka, líklega var Schmeichel meiddur)
2 – Paul Parker
3 – Denis Irwin
5 – Lee Sharpe
7 – Eric Cantona
9 – Brian McClair
12 – David May
17 – Andy Cole
20 – Gary Neville
22 – Paul Scholes
24 – David Beckham
Varamennirnir sem komu inn á í leiknum voru:
Pat McGibbon fyrir Denis Irwin
Simon Davies fyrir Gary Neville
Michael Appleton fyrir Brian McClair
Terry Cooke fyrir David Beckham
Philip Mulryne fyrir Lee Sharpe
Liðið sem þeir kepptu við á þessum góðgerðarleik bar það athyglisverða nafn International Select. Ekki hef ég hugmynd um hverjir tilheyrðu þessu alþjóðlega úrvali, af einhverjum ástæðum hefur ekki þótt ástæða til að halda utan um slíkar upplýsingar á netinu. En ég veit þó að 22.000 manns mættu á svæðið til að horfa á leikinn, það hlýtur að hafa bætt vel í sjóðinn hjá Co-operation North. Paul Scholes skoraði eina mark United í leiknum á 54. mínútu en alþjóðaúrvalið skoraði hins vegar 2 mörk og vann leikinn.
Helgina eftir spilaði United á heimavelli gegn Sheffield Wednesday. 9 leikmenn byrjunarliðsins höfðu líka verið í byrjunarliðinu í Belfast. Sá leikur endaði 2-2. Aftur flaug svo hópurinn í vináttuleik vikuna eftir, í þetta skiptið til Glasgow til að spila gegn Glasgow Celtic í testimonial leik fyrir Paul McStay sem var mikil Celtic hetja og spilaði allan sinn feril með þeim. Aftur var nokkuð sterku byrjunarliði stillt upp, aftur skoraði Paul Scholes eina mark United og aftur tapaði liðið, í þetta skipti 3-1. United fór svo aftur heim og tapaði næstu tveimur deildarleikjum, útileikjum gegn Liverpool og Leeds United. Ekki skemmtilegustu liðin til að tapa fyrir. Það mætti halda að það hafi kannski ekki endilega verið sniðugasta hugmyndin að þeytast tvo þriðjudaga í röð í vináttuleiki. Á aðfangadag jóla hafði Newcastle 10 stiga forskot á United. En það átti nú eftir að breytast!
En aftur að Martial. Hann byrjaði snemma að sparka bolta og sýndi strax hversu efnilegur hann var. 6 ára gamall var hann farinn að æfa með félaginu CO Les Ulis. Les Ulis er annað úthverfi í París, um það bil 9 kílómetrum sunnar en Massy. Liðið spilar í 7. deild franska boltans en er ansi lunkið þegar kemur að því að þróa hæfileika hjá ungum knattspyrnumönnum. Félagið hefur það meðal annars á ferilskránni að hafa verið fyrsta félag bæði Patrice Evra og Thierry Henry. Á svipuðum tíma og Martial var þarna var einnig Yaya Sanogo sem er núna samningsbundinn Arsenal en er lánsmaður hjá Ajax.
Samkvæmt þjálfurum hans hjá Les Ulis stóð hann strax upp úr þegar hann var 6 ára gamall. Af 400 guttum á hans aldri var hann sá sem vakti sérstaka athygli sem leikmaður sem gæti náð langt, hann var fljótur að læra og fljótur að tileinka sér nýja hluti auk þess sem hann hafði augljósa náttúrulega hæfileika í bunkum. Um 9-10 ára aldurinn varð þjálfurunum ljóst að hann hafði getuna til að ná langt í Evrópuboltanum og upp úr 12-13 ára aldrinum voru þeir vissir um að hann hefði líka persónuleikann og karakterinn í það að höndla eigin getu á stærsta sviðinu. Hann lagði alltaf mikið á sig, tók aldrei hæfileikunum sem gefnum hlut heldur vann sífellt að því að bæta sig og þroskast sem leikmaður, meira að segja á þessum unga aldri. Það hjálpaði auðvitað til að hafa mikið af fótboltamönnum í nánasta umhverfi. Bæði faðir Martial sem og tveir eldri bræður spiluðu fótbolta, bræður hans spila enn fótbolta.
Martial var fljótur að gera kröfur á sjálfan sig, hann var snemma farinn að æfa fótbolta alla daga vikunnar, jafnvel með aldursflokkunum fyrir ofan sig. Það versta sem hann gat hugsað sér var að tapa fótboltaleik, hann tók því mjög illa. Þegar það gerðist þá varð hann eitt þrumuský í framan eða felldi nokkur pirringstár. En á þessum tíma gerðist það reyndar sjaldan að hann tapaði leik.
Þegar Martial var 12 ára gamall fór hann í heimsókn til Manchesterborgar ásamt fjölskyldu sinni. Manchester City bauð þeim að koma í heimsókn svo hann gæti skoðað aðstöðuna hjá þeim því þeir höfðu áhuga á að fá þennan efnilega leikmann til sín. Martial hafði gaman af borginni, kíkti á þetta hjá City en fór svo bara heim aftur og hélt áfram að æfa eins og ekkert hefði í skorist. Samherjar hans hjá félaginu og meira að segja þjálfararnir vissu ekkert um þetta fyrr en það kom frétt í blöðunum um heimsóknina. Martial sjálfum fannst þetta ekki nógu fréttnæmt til að minnast á þetta, enda tóku hann og faðir hans þá gáfulegu ákvörðun að vera ekkert að púkka upp á litla liðið í Manchester.
Patrice Evra hefur ávallt haldið góðu sambandi við Les Ulis og á enn góða vini þar. Hann hefur í gegnum tíðina átt það til að senda félaginu alls konar varning. Meðan hann var hjá United var ekki óalgengt að hann sendi þeim keppnisbúninga, skó og fleira. Þetta sama ár, þegar Martial var 12 ára, ákváðu þjálfararnir að leyfa honum að prófa að spila í takkaskóm frá Evra til að sjá hvaða áhrif það hefði á guttann. Miðað við það að 7 árum seinna endaði hann hjá United þá myndi ég segja að það hefði haft mjög góð áhrif á hann. Evra fékk líka snemma fréttir af Martial og fylgdist með honum. Hann vissi allt um heimsókn Martial til City á sínum tíma og fékk stöðugar fréttir af því hvernig hann var að þróast sem leikmaður. Þegar Martial var svo valinn í A-landslið Frakka nokkrum árum seinna fagnaði Evra honum eins og bróður og bauð hann velkominn í landsliðið. Alltaf klassagaur hann Evra.
Þegar hann var 14 ára vakti hann athygli njósnara frá Olympique Lyonnais í Lyon og Martial gekk til liðs við unglingaakademíuna þeirra árið 2009. Þar gekk honum enn betur að þróa sig sem leikmann og þegar hann var 16 ára gamall fór hann að vekja verulega athygli. Hann var þá á sínu öðru tímabili með u17 liðinu og skoraði með þeim 32 mörk í 21 leik. Sú frammistaða varð til þess að hann var valinn í u17-landslið Frakklands og fór með þeim á u17 Evrópumótið í Slóveníu 2012. Í fyrsta leik þess móts skoraði Martial annað tveggja marka Frakka gegn Íslandi. En Gunnlaugur Birgisson og Hjörtur Hermannsson jöfnuðu leikinn og hann endaði 2-2. Þetta var eina mark Martial í mótinu og þetta voru líka bæði einu mörk íslenska landsliðsins og þeirra eina stig. Ísland lenti í neðsta sæti riðilsins en Frakkarnir náðu í eitt jafntefli í viðbót og enduðu í næst neðsta sæti. Fyrir ofan þá kom Georgía og Þjóðverjar unnu riðilinn með fullt hús stiga.
Fyrsti leikur Martial með aðalliði Lyon var daginn eftir 17 ára afmælisdaginn sinn. 6. desember 2012 kom Martial inn á í leik í Evrópudeildinni gegn Hapoel Ironi Kiryat Shmona frá Ísrael. Martial náði næstum því að skora úr sinni fyrstu snertingu í leiknum. Fyrsti deildarleikur Martial kom svo 3. febrúar þegar hann kom inn á og spilaði síðustu 11 mínúturnar í 1-3 tapi gegn AC Ajaccio. Alls urðu leikirnir sem hann kom við sögu í 4 á þessu tímabili og spilamínúturnar 47, eins og einn hálfleikur með uppbótartíma. En það nægði AS Monaco til að sjá að þetta væri leikmaður sem þeir vildu fá. Væntanlega hafa þeir þó vitað meira af honum en þessar 47 mínútur sýndu.
Í júní 2013 keypti Monaco hann fyrir 5 milljón evrur sem var merkilega há upphæð fyrir jafn ungan og reynslulítinn leikmann. 24. nóvember sama ár spilaði hann sinn fyrsta leik fyrir liðið þegar hann kom inn á sem varamaður fyrir Radamel Falcao. Hann kom sterkur inn og átti þátt í sigurmarki liðsins. Í sínum fyrsta leik í byrjunarliði Monaco, sex dögum síðar, skoraði hann sitt fyrsta mark fyrir liðið.
Á tveimur tímabilum með Monaco spilaði hann 70 leiki. Í þeim skoraði hann 15 mörk og gaf 8 stoðsendingar. Þann 26. ágúst 2015 var hann valinn í landsliðshóp A-landsliðs Frakka fyrir vináttuleiki gegn Portúgal og Serbíu í byrjun september. Hann þurfti að fá smá frí frá landsliðinu til að skutlast yfir til Manchester og skrifa undir samning við sitt nýja lið, Manchester United. Svo skaust hann aftur til Dider Deschamps og félaga í landsliðinu. Hann hélt upp á samninginn við United með því að spila sinn fyrsta A-landsleik, 4. september gegn Portúgal.
Árið 2009 var stórt ár fyrir Martial, það var árið sem hann færði sig yfir til Lyon. Á 14 ára afmælisdag hans það sama ár fór Manchester United á Upton Park í London til að keppa við West Ham United. Eins og til að senda þessum unga gutta smá afmælisgjöf frá framtíðarfélaginu þá sýndi United skínandi fínan leik og valtaði yfir hamrana, lokastaðan í leiknum var 4-0. Mörk United skoruðu Paul Scholes, Darron „sleggja“ Gibson, Antonio Valencia og Wayne Rooney. Annað sem var merkilegt við þann leik var að vegna mikilla meiðsla meðal varnarmanna United bæði fyrir leikinn og í leiknum þá endaði varnarlínan á að vera Fletcher í hægri bak, Giggs í vinstri bak og miðvarðaparið Carrick og Evra. Fyrir aftan þá var Kuszczak í markinu. Eiginlega alveg magnað að ná að halda hreinu. Nákvæmlega sex árum síðar fær Martial sjálfur að spila með Manchester United við West Ham á sínum eigin afmælisdegi.
———-
Aukaefni:
Mjög dramatísk farsímaauglýsing frá 1995:
Celtic – Manchester United, desember 1995:
Syrpa með unglingnum Martial:
Jólamynd dagsins:
Þótt jólamyndin Santa Clause, með Tim Allen, hafi komið út árið 1994 þá var hún jólamyndin í íslenskum kvikmyndahúsum í desember 1995.
https://www.youtube.com/watch?v=t067u2Jnks0
Jólalag dagsins:
Jólalag dagsins er að þessu sinni íslenskt. Árið 1995 kom út frábær jólaplata sem heitir Kósýjól með hljómsveitinni Kósý. Á henni er að finna lagið Jólastelpa sem er jólalag dagsins.
Skildu eftir svar