Þrátt fyrir hörmuleg úrslit í gær þá heldur lífið áfram og við höldum áfram með Jóladagatalið hans Halldórs.
Harry McShane
Laugardaginn 9. desember 1950 var bandaríski efnafræðingurinn Harry Gold dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir njósnir og fyrir að hafa leikið upplýsingum um Manhattan verkefnið til Sovétríkjanna. Manhattan verkefnið var rannsóknar- og þróunarverkefni tengt kjarnorkuvopnum sem Bandaríkin, Kanada og Bretland stóðu að í sameiningu og hófst í seinni heimsstyrjöldinni.
Harry Gold, þekktur undir viðurnefninu GUS eða GOOSE meðal sovéskra njósnara, var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem var dæmdur fyrir kjarnorkunjósnir. Hann var handtekinn í kjölfar þess að annar njósnari, eðlisfræðingurinn Klaus Fuchs, var handtekinn í Bretlandi og dæmdur fyrir að dreifa upplýsingum um verkefni bandamanna sem tengdust kjarnorkuvopnum. Hann viðurkenndi brot sín og benti á ýmsa vitorðsmenn sína, til að mynda Harry Gold. Harry Gold viðurkenndi sömuleiðis sínar njósnir og gaf upp ítarlegt tengslanet sitt innan Bandaríkjanna. Það leiddi meðal annars til handtöku Rosenberg hjónanna, Julius og Ethel. Þau voru síðar tekin af lífi fyrir njósnir, einu Bandaríkjamennirnir sem hlutu þau örlög í kalda stríðinu. Harry Gold afplánaði 14 ár af dómnum áður en honum var sleppt úr haldi.
Á Íslandi var heldur leiðinlegt veður. Mikill vindur um vesturhluta landsins og í Reykjavík voru 9 vindstig sem fóru alveg upp í 12 vindstig í mestu kviðunum. Þá snjóaði einnig og var þung færð á Hellisheiði og fleiri vegum, jafnvel búist við að það myndi teppast alveg í áframhaldandi snjókomum. Það var þó lítið á við fréttir frá Svíþjóð en í Lapplandi mældist þennan dag 41 gráðu frost sem var kaldasti dagur vetrarins.
Á Englandi var spiluð knattspyrna, eins og venjan var, og er, á laugardögum. Manchester United var fyrir daginn í 6. sæti deildarinnar og heimsótti Huddersfield, sem var í 15. sæti deildarinnar. John Aston eldri kom United yfir eftir 13 mínútna leik. Eftir rúman hálftíma fékk Huddersfield Town víti sem Vic Metcalfe skoraði úr. Stuttu fyrir hálfleik kom Jeff Taylor heimamönnum yfir. Í seinni hálfleik bætti United í, eftir 56 mínútur skoraði Clifford Birkett og jafnaði leikinn. Á 75. mínútu skoraði Aston eldri sitt annað mark í leiknum og tryggði United 3-2 sigur. Aston þessi hafði komið upp úr unglingastarfi Manchester United og byrjaði að spila fyrir aðalliðið árið 1946. Hann spilaði allan sinn feril með United. 15 árum eftir þennan leik átti svo sonur hans, John Aston yngri, eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir Manchester United eftir að hafa einnig komið upp í gegnum unglingastarfið.
Annar sem spilaði þennan leik var Harold „Harry“ McShane. Hann fæddist í þeim frábærlega nefnda bæ Holytown í Skotlandi, ekki langt frá Motherwell, árið 1920. Hann kom ekki upp úr unglingastarfi Manchester United heldur úr unglingastarfi knattspyrnufélagsins Bellshill Athletic FC frá Bellshill í Skotlandi. Sama Bellshill og ól af sér meðal annarra þá Matt Busby og Brian McClair. Frá 17 ára aldri spilaði hann svo með félögum á Englandi, Blackburn Rovers, Huddersfield Town og svo Bolton Wanderers. Þaðan var hann keyptur til Manchester United árið 1950 og var þarna á sínu fyrsta tímabili með félaginu. Ástæðan fyrir því að United keypti Harry á þessum tíma var að hann átti að koma í stað Charlie Mitten. Mitten hafði verið lykilmaður í United tímabilin á undan eftir að hafa komið upp úr sama árgangi í unglingastarfinu og fyrirliðinn Johnny Carey. Mitten var hins vegar ósáttur við reglur sem settu þak á laun sem knattspyrnumenn gátu fengið, hæstu mögulegu laun leikmanns á þeim tíma voru 12 pund á viku. Þegar hann fékk boð um að ganga til liðs við Independiente Santa Fe í Bogotá í Kólumbíu þá stökk hann á það. Kólumbía stóð á þeim tíma utan við FIFA og þurfti því ekki að lúta sömu lögum um launaþak. Segir sagan að Mitten hafi fengið í sinn hlut 5.000 pund við undirskrift auk launa upp á 40 pund á viku. Sú gleði entist þó aðeins eitt tímabil en eftir það gekk Kólumbía í FIFA. Þar sem hann var enn tæknilega séð samningsbundinn Manchester United hvað FIFA varðaði á þeim tíma gat hann ekki haldið áfram að spila í Kólumbíu.
Harry McShane kom inn í liðið í staðinn. Hann var harðduglegur kantmaður sem gat spilað á báðum köntum. Fljótur og beinskeyttur leikmaður sem nýttist Manchester United vel á sínu fyrsta tímabili. Á því tímabili spilaði hann 31 leik og skoraði 7 mörk þegar United lenti í 2. sæti, rétt 4 stigum á eftir Tottenham Hotspur. Þar á meðal skoraði hann 2 mörk þegar United mætti hans gömlu félögum í Huddersfield Town aftur þá um vorið, í 6-0 sigri Manchester United. Árið eftir byrjaði hann vel þegar United fór hraðbyri í átt að fyrsta deildartitlinum í 41 ár. Hann var ekki leiknasti kantmaðurinn en þekkti sína styrkleika upp á 10 og notfærði sér þá. Þega hann fékk boltann þá var það bara full ferð upp kantinn og fyrirgjöf inn í teiginn. Formúla sem virkaði oftar en ekki prýðilega. Hann skoraði eitt mark í september, sigurmark í leik gegn nágrönnunum í Manchester City. Í nóvember varð hann fyrir alvarlegum meiðslum sem héldu honum úr liðinu í heilt ár. Hann náði aðeins að spila 12 leiki og þótt hann hefði vissulega spilað stórt hlutverk í þeim leikjum þá voru reglur deildarinnar að leikmaður þyrfti að hafa spilað 14 leiki til að fá medalíu svo hann rétt missti af einni slíkri.
Meiðslin setti líka strik í reikninginn í framhaldinu. Tímabilið 1952-53 náði hann aðeins að spila 5 leiki og tímabilið eftir það urðu leikirnir aðeins 9. Á þessum tíma voru líka að koma upp efnilegir unglingar úr unglingastarfinu, eins og til dæmis hinn ungi David Pegg. Ein af ástæðunum fyrir því að McShane var keyptur á sínum tíma var að Busby fannst þessir unglingar þurfa smá meiri tíma. En þarna var þeirra tími kominn og það þýddi minni tími fyrir Harry McShane.
Í febrúar 1954 var hann seldur fyrir 750 pund til Oldham Athletic, sem þá spilaði í 2. deildinni. Hann náði því miður ekki að bjarga liðinu frá falli og tímabilið eftir spilaði hann með þeim í 3. deildinni. Eftir það fór hann yfir í utandeildina, spilaði þar með Wellington Town, Droylsden og sem spilandi þjálfari með Chorley.
En afskiptum hans af Manchester United var sannarlega ekki lokið. Þrátt fyrir frekar stuttan feril með liðinu, einungis 57 leiki á 4 tímabilum, hafði dvölin haft djúpstæð áhrif á Harry sem uppfrá því var ætíð mikill stuðningsmaður félagsins. Eftir að ferlinum lauk tók hann að sér þjálfun hjá fótboltafélaginu Stalybridge Celtic í Manchester. Aðalstarf hans var þó hjá traktorsframleiðandanum Massey Ferguson, þar vann McShane sem starfsmannastjóri allt þar til hann fór á eftirlaun árið 1981.
Á 7. áratug síðustu aldar fór hann að vinna aftur fyrir Manchester United. Hann varð til dæmis vallarþulur á Old Trafford á 7. og 8. áratugnum. Þá stofnaði hann sérstakt félag fyrir fyrrverandi leikmenn liðsins, félag sem einbeitti sér til dæmis að söfnun fyrir góðgerðarmálefni og fleira. Þá var hann líka fenginn til að fylgjast með ungum knattspyrnumönnum til að leita að hæfileikaríkum leikmönnum sem gætu nýst Manchester United.
Meðal þeirra sem Harry kom auga á og benti klúbbnum á voru leikmenn eins og Nicky Butt, Andy Ritchie og Gary Walsh auk þess að hann átti sinn þátt í að bæði Paul Scholes og Neville-bræður voru uppgötvaðir.
Snemma á 10. áratugnum fékk Harry ábendingu frá vini sínum um að koma og fylgjast með ungum bakverði sem var að spila með u12 liði Fletcher Moss Rangers í East Didsbury í Manchester. Bakvörðurinn sem um ræddi heitir Clive og á þeim tíma þurfty Harry að hafa hraðann á því hann fékk veður af því að Manchester City væri við það að fá kappann til sín. Harry dreif sig á völlinn til að fylgjast með liðinu spila. Clive spilaði sem hægri bakvörður og náði ekki að heilla Harry neitt sérstaklega í leiknum. Hins vegar náði annar leikmaður að gera það, sá spilaði við hlið Clive í miðri vörninni. Harry lýsti honum sem hávöxnum, grönnum og fljótum leikmanni sem sýndi afburðar varnargetu og frábæra ákvörðunartöku miðað við svo ungan leikmann. Hann hafi verið gríðarlega snöggur en þó sterkur og mjög agaður í varnarleiknum. Þessi leikmaður ætti miklu meira erindi til Manchester United en Clive. Það kom í ljós að þarna var á ferðinni eldri bróðir Clive, Wes Brown. Eftir ábendingar Harry fór Wes Brown til Manchester United og átti þar prýðisferil sem hefði orðið enn flottari ef hann hefði sloppið betur við meiðsli. Clive fór á reynslu til Manchester City en náði aldrei að komast inn í aðalliðið þar. Seinna fór hann svo og spilaði með Hyde United, Bangor City, Mossley, Woodley Sports og New Mills.
Framlag Harry til Manchester United nær því langt útfyrir það sem hann gerði sem leikmaður. Hann var mikilvægur hluti af starfinu í mörg ár og á sinn þátt í velgengni félagsins á undanförnum árum. Þegar hann lést, árið 2012, sýndi félagið honum virðingu með því að spila með sorgarbönd í næsta leik.
Harry eignaðist einn son. Sá sonur ólst upp hjá Old Trafford og dreymdi um að verða atvinnumaður í fótbolta. Að eigin sögn var hann þó ekki nógu góður fótboltamaður svo hann leiddist út á aðrar brautir. Fyrir nokkra tilviljun endaði hann á að gerast leikari. Ian McShane er líklega þekktastur fyrir að hafa leikið hinn frábærlega yfirvaraskeggjaða Al Swearengen í þáttunum Deadwood auk þess að hafa leikið Blackbeard í fjórðu Pirates of the Caribbean myndinni. Hann er duglegur leikari og virkilega flott týpa sem hefur verið ástríðufullur stuðningsmaður Manchester United alla sína ævi.
Aukaefni:
Manchester United spilar við Arsenal árið 1951:
Manchester United spilar við Birmingham árið 1951:
Langt viðtal við Ian McShane, son Harry:
https://www.youtube.com/watch?v=U4Bk43hsXpM
Jólamynd dagsins:
Harry McShane hefur ekki leikið í jólamynd. Hann lék að vísu í myndinni The Golden Compass, sem kom út um jólin 2007 og var ævintýramynd. Þar raddsetti hann karakterinn Ragnar Sturluson. En myndin var í raun ekki jólamynd. Hann hefur þó leikið geðveikan raðmorðingja sem klæddi sig í jólasveinagalla, það var fyrir þátt úr seríunni American Horror Story. Hann var góður í því hlutverki enda iðulega góður að leika svona dekkri karaktera. Það er því honum til heiðurs sem jólamynd dagsins er hryllingsmynd.
Silent Night, Deadly Night:
Jólalag dagsins:
Árið sem Harry McShane kom til Manchester United kom líka út jólalagið Christmas in Killarney með Dennis Day
https://www.youtube.com/watch?v=RYKUpgxvdZA
Bjarni Ellertsson says
Hver er þessi Harry McShane, kannaðist ekkert við hann en forvitnin rak mig áfram og var þetta hinn ágætasti lestur og ansi merkilegar tengingar þarna á ferðinni. Já United fjölskyldan er stór og teigir anga sína víða. Held ekki vatni yfir þessu dagatali og bíð spenntur einsog fimm ára krakki eftir að fá í skóinn.