James Bond
Árið 2006 kom út kvikmyndin Casino Royale, 21. kvikmyndin sem Eon framleiðslufyrirtækið gerði um ævintýri breska njósnarans James Bond. Þetta var líka fyrsta myndin þar sem Daniel Wroughton Craig lék njósnarann spræka. Mads Mikkelsen fór svo á kostum í hlutverki illmennisins Le Chiffre. Þeir voru báðir flottir á skjánum, ekki síst þegar kom að spennuþrungnum senum á milli þessara erkióvina. Sú spenna náði hápunkti þegar þeir mættust í pókerleik þar sem bókstaflega allt var undir. Milljónirnar flugu fram og til baka eftir því hvernig spilin féllu og sálfræðin var notuð til hins ítrasta þegar leikmenn reyndu að blekkja og klekkja. Í æsilegum lokakafla ætlaði allt að fara yfir um þegar hver úrvalshendin trompaði þá næstu á undan. Ég myndi setja pókerhlutann af þessari mynd í topp 3 bestu pókersenur kvikmyndasögunnar með Rounders (Oreo-atriðið!) og Maverick (You gonna look at your card? -No need).
Á eftir bílahasar, byssubardögum, kvennastússi, dykkju og almennum njósnastörfum er fátt sem James Bond elskar meira en að vinna góðan pott í einhvers konar veðmálum eða öðrum spilavítisleikjum. Hann á þessa pottaást einmitt sameiginlega með fimmta íslenska jólasveininum sem kemur til byggða. Sá heitir Pottaskefill, einnig oft þekktur sem Pottasleikir.
Sá fimmti Pottaskefill,
var skrítið kuldastrá.
Þegar börnin fengu skófir
hann barði dyrnar á.
Þau ruku’upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti’ann sér að pottinum
og fékk sér góðan verð.
Þarna er líst manni sem er ekki allur þar sem hann er séður. Kuldastrá er ein leið til að segja að sumum þyki hann svalur. Að banka á dyrnar til að senda börnin eina leið meðan hann laumar sér inn aðra leið og stelur einhverju sem var ekki ætlað honum… klassískur Bond. Fyrir utan kannski að hjá Bond eru það ekki börn heldur hjálparhellur illmenna eða grunlausir karakterar sem eru á röngum stað á röngum tíma. Börnin í vísunni verða þar með ljóðræn vísun í barnslega einfeldni þeirra sem í grunleysi sínu láta blekkjast af lævísum tilburðum James Bond þegar hann eltist við það sem hann þarf að ná í með öllum tiltækum ráðum.
Þrátt fyrir að kvikmyndin Casino Royale sé frekar nýleg í Bond-seríunni þá var hún engu að síður gerð eftir fyrstu bókinni sem kom út um njósnara hennar hátignar. Bókin heitir einnig Casino Royale og kom fyrst út í apríl 1953. Í bókinni spilar Bond einnig upp á háar fjárhæðir við Le Chiffre en þar er það ekki í póker heldur í leik sem heitir baccarat. En að öðru leyti spilaðist það nokkuð svipað.
Í febrúar 1952 sat Ian Fleming á heimili sínu í Jamaica og beið eftir því að ganga í hjónaband. Hann ákvað að dreifa huganum frá væntanlegri giftingu með því að gera eitthvað sem hann hafði lengi langað að gera, allt frá því hann var sjálfur leyniþjónustumaður hjá bresku leyniþjónustunni, hann ætlaði að skrifa skáldsögu. Hann gerði það líka og það var þessi saga, Casino Royale. Upp frá því varð það að hefð hjá Fleming að fara á heimili sitt í Jamaica, sem hann kallaði Goldeneye, og skrifa Bond bækur í janúar og febrúar og hverju ári.
Hann nýtti sér að einhverju leyti eigin reynslu úr leyniþjónustubransanum en var líka ákveðinn samfélagsrýnir og nýtti sér það sem var að gerast hverju sinni sem undirliggjandi söguþræði í bókum sínum.
Ian Fleming var spurður út í innblásturinn að nafni njósnarans. Hann svaraði því til að til að byrja með hefði hann viljað fá eins hversdagslegt nafn á kappann og hægt væri, upphaflega átti njósnarinn líka að vera leiðinleg, litlaus og óáhugaverð manneskja sem lenti fyrir tilviljun í ævintýralegum hasar. Nafnið þurfti að passa við þetta. Fleming var sjálfur mikill áhugamaður um fuglaskoðun og átti fróðlega bók um efnið, Birds of the West Indies. Þegar hann var að velta nafninu á karakternum sínum fyrir sér rak hann augu í nafnið á höfundi fuglabókarinnar, James Bond. Honum fannst það einfalt nafn og mjög enskt, eitthvað sem passaði prýðilega.
Eða því hélt hann fram. Og ættum við eitthvað að fara að trúa því, bara sisona? Það vill nú svo til að ég hef hér eina betri kenningu.
Í desember árið 1950 kom 21 árs gamall leikmaður til Manchester United frá hálfatvinnumannafélaginu Leyland Motors FC. Leyland Motors er ekki lengur til sem knattspyrnufélag. Kannski var það aldrei til, kannski var félagið bara yfirvarp. Hver veit…
Þessi leikmaður mætti til Manchester United og hélt sig til hlés fyrstu 8 mánuðina. 18. ágúst 1951 spilaði hann svo fyrsta leikinn fyrir félagið þegar það fór á The Hawthorns og gerði 3-3 jafntefli við WBA. Hann hélt áfram að spila með liðinu, yfirleitt í stöðu vinstri útherja. Í október skoraði hann svo sitt fyrsta mark. í desember var hann í ennþá meira jólastuði og skoraði meðal annars í þremur leikjum í röð. Hann skoraði fyrst gegn Newcastle í 2-2 jafntefli 22. desember 1951, síðan gegn Fulham í 3-2 heimasigri á jóladag og svo aftur daginn eftir þegar United ferðaðist alla leið til London og gerði 3-3 jafntefli við Fulham. Þarna var kallinn orðinn ansi áberandi.
Þessi desembermánuður árið 1951 endaði svo vel fyrir United þegar liðið vann góðan heimasigur á Bolton Wanderers. Þetta lið stefndi á að gera það mjög gott. Og þessi leikmaður ætlaði að taka sinn þátt í því.
Þessi leikmaður fæddist í Preston 4. maí 1929. Þar var honum gefið nafnið James Ernest Bond. Já, það er rétt, James Bond spilaði fyrir Manchester United. Og ekki nóg með það, á hans fyrsta tímabili með United vann hann ensku deildina. Hann skoraði 4 mörk fyrir liðið, þar af 3 í erfiðri jólatörn, og lagði sannarlega sitt af mörkum til að titillinn kæmi í hús. En var hann kannski á meðan í leynilegu verkefni? Að öllum líkindum ekki.
Eftir þennan leik gegn Bolton 29. desember 1951 spilaði James Bond, sem að vísu var yfirleitt kallaður Ernie Bond, aðeins 4 leiki til viðbótar fyrir félagið. Hann spilaði 2 leiki í janúar og meiddist svo. En hann náði einum leik í apríl, þegar deildartitillinn nálgaðist óðfluga. Tímabilið á eftir náði hann einungis að spila einn leik, markalaust jafntefli við Arsenal á heimavelli 4. september 1952. Eftir það fór hann til Carlisle United. Þar spilaði hann með félaginu í sjö tímabil og endaði svo knattspyrnuferilinn hjá skoska liðinu Queen of the South.
Ian Fleming kláraði fyrstu bókina sína um James Bond um vorið 1952. Ári síðar kom hún svo út. Fleming segist hafa fengið innblásturinn frá höfundi fuglafræðirits í þeim tilgangi að gera karakterinn litlausan og gefa honum hversdagslegt, jafnvel óáhugavert, yfirbragð. En hvað ef Fleming var nú að fylgjast með enska boltanum? Hvað ef hann sá hversu litríkir og áhugaverðir leikmenn Manchester United voru á leið sinni á topp ensku deildarinnar? Hvað ef hann sá nú eftirminnilegan vinstri útherja sem jólin áður en Fleming byrjaði á bókinni skoraði mörk í 3 leikjum í röð? Hvað ef honum fannst ekki sem James Bond þyrfti að vera litlaus persóna heldur einmitt ætti að vera eftirminnilegur og flottur, eins og United leikmaður?
1953 kom fyrsta James Bond bókin út. Það sama ár var ungur skoskur leikari, Thomas Sean Connery, á ferðalagi með leikhóp til að sýna söngleikinn South Pacific, eftir Rodgers og Hammerstein. Connery hafði alla sína ævi verið mikill knattspyrnuáhugamaður og spilaði á sínum yngri árum með skoska liðinu Bonnyrigg Rose Athletic F.C. Á þessu ferðalagi ferðaðist hann á milli bæja í Bretlandi til að sýna og þurfti þess á milli að finna sér einhverja góða afþreyingu. Í eitt skiptið bauðst honum að spila knattspyrnuleik gegn staðarliðinu. Það sem hann vissi hins vegar ekki var að akkúrat á þessum leik var Matt Busby mættur til að skoða heimaliðið til að athuga hvort þar leyndust einhverjir hæfileikaríkir leikmenn sem gætu hjálpað Manchester United. Busby varð yfir sig hrifinn af knattspyrnuhæfileikum Sean Connery, sér í lagi líkamlegu hreysti hans, og eftir leikinn bauð hann samlanda sínum umsvifalaust samning hjá United. Hann átti að fá 25 pund á viku og mætti byrja strax. Sean Connery þurfti að hugsa sig vandlega um. Þarna gat hann fengið hlutverk á einu stærsta leiksviði jarðar, aðalhlutverk í leikhúsi draumanna. En Connery þurfti að hugsa sig betur um. Hann vissi sem var að ferill knattspyrnuleikmannsins var stuttur, náði rétt yfir 30 ára aldurinn hjá þeim flestum og hann var sjálfur þegar orðinn 23 ára gamall. Hann hafði líka stuttu áður ákveðið það að leggja leiklistina fyrir sig, þar sá hann fyrir sér möguleika á lengri ferli. Hann ákvað að halda sig við þá áætlun og neitaði tilboðinu, en með semingi þó.
9 árum síðar kom fyrsta James Bond kvikmyndin út, Dr. No. Þar var Sean Connery kominn í hlutverk Bond. Ian Fleming var alls ekki hrifinn af því vali til að byrja með, fannst hinn stóri og stæðilegi Sean Connery minna meira á áhættuleikara en valdsmannlegan leyniþjónustumann. Eftir frumsýningu myndarinnar gjörbreytti Fleming þó um skoðun. Hann varð svo hrifinn af því hvernig Sean Connery lék Bond að hann bætti við skoskum ættartengslum í seinni Bond bókum.
Það er því ljóst að allt frá upphafi voru James Bond og Manchester United tengd ákveðnum böndum. Kannski voru þau bönd langsótt, kannski ekki. Eins og tíðkast um leyniþjónustu og njósnir þá er hætt við að við vitum ekki alveg allan sannleikann. En það er vissulega gaman að velta þessu fyrir sér. Auk þess er auðvelt að færa rök fyrir því að James Bond sé óttalegur jólasveinn.
Aukaefni:
Manchester United keppir við Leeds árið 1951
Pottaskefillinn James Bond spilar póker í Casino Royale
https://www.youtube.com/watch?v=H9fyOFefirQ
Mata. Juan Mata
https://www.youtube.com/watch?v=G-7mbqI5xx4
Jólamynd dagsins.
Áður en Daniel Craig tók við Bond jakkafötunum var Írinn Pierce Brosnan í þeim. Hann lék í jólamynd sem var frumsýnd núna í ár. Írska myndin A Christmas Star er jólamynd dagsins.
https://www.youtube.com/watch?v=RAg5Fv7lzAQ
Jólalag dagsins.
Söluhæsta jólaplatan jólin 1951, þegar James Bond skoraði þrjú mörk í jafn mörgum leikjum fyrir United, var platan Mario Lanza Sings Christmas Songs með bandaríska tenórnum og kvikmyndaleikaranum Mario Lanza. Jólalag dagsins er lagið The First Noel af þeirri plötu.
Skildu eftir svar