Roy Keane
Góðan hluta af sínum rúmlega 12 ára ferli hjá Manchester United var Roy Keane fyrsti maður á blað þegar átti að velja byrjunarliðið. Þegar ég fékk þá hugmynd að gera þetta litla jóladagatal mér, og vonandi einhverjum fleirum, til jólagleði og ánægju þá var nákvæmlega þessi gluggi, Roy Keane sem Hurðaskellir, fyrstur á blaðið. Það smellpassar svo mikið að það væri eiginlega hægt að láta staðar numið hér. Það þarf ekkert meira. Roy Keane ER Hurðaskellir.
Sjöundi var Hurðaskellir,
sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í rökkrinu
fá sér vænan dúr.
Hann var ekkert sérlega
hnugginn yfir því,
þó harkalega marraði
hjörunum í.
Að vísu hefði ég vel getað þurft að velja allt annan leikmann því jólasveinninn hefði mögulega getað verið annar. Fyrr á öldum var það æði misjafnt hvaða jólasveinar komu hvenær eftir því á hvaða landshluta litið var. Í þjóðsögum var fjallað um tröll, skessur og ýmsa vætti en jólasveinar birtust fyrst í rituðum heimildum seint á 17. öldinni. Það var svo ekki fyrr en á 19. öldinni sem farið var að nafngreina þessa vitleysinga. Tenging þeirra við Grýlu gat líka verið misjöfn. Oftast voru þeir vissulega synir hennar en gátu einnig verið bræður hennar eða einfaldlega vitorðsmenn. Fjöldinn var líka misjafn eftir því hvar gripið var niður en þó eru heimildir frá síðari hluta 18. aldar sem segja að þeir hafi verið 13. Þegar farið var að reyna að samræma þetta komu ýmis nöfn í ljós. Í Skagafirði voru meðal annars þekktir jólasveinarnir Bandaleysir, Lampaskuggi og Guttormur, í Strandasýslu gátu íbúar átt von á heimsókn frá Lækjaræsi, Bitahængi, Froðusleiki, Litla-Pungi, Steingrími og fleirum. Í Mývatnssveit kannaðist fólk við Flórsleiki, Þvengjaleysi, Hlöðustranga og fleiri, í Dölum voru Kleinusníkir og Lummusníkir jólasveinar, í Skarðströnd voru til dæmis sveinarnir Skófnasleikir og Þambaraskelfir. Dýrafjörður og Önundarfjörður voru nokkuð sérstakir fyrir þær sakir að þar gengu sögur um kvenkyns handhafa sveinsprófs frá jólasveinaskólanum, það væru þær Flotnös og Flotsokka.
Þegar Jón Árnason fór að taka sama þjóðsögurnar í bækur var þó komin nokkuð góð mynd á fjölda og röð jólasveinanna. Þeir voru þá orðnir þrettán og komu alltaf í sömu röð. Árið 1932 kemur svo út bókin Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum. Þar kemur meðal annars fyrir hið þekkta kvæði Jóhannesar Jólasveinarnir. Það er þetta kvæði sem festi enn betur í sessi hefðina um jólasveinana sem koma á hverri nóttu síðustu 13 næturnar fyrir aðfangadag. Þar var Jóhannes hins vegar búinn að gera eina breytingu frá þeirri runu sem hafði birst hjá Jóni Árnasyni. Ærslabelgurinn Hurðaskellir kom þar nýr inn. Að vísu ekki glænýr, hann var þekktur víða um land og er talið að Jóhannes hafi farið eftir þeirri hefð sem hann lærði sem ungur piltur vestur í Dölum. En þó gæti líka verið að hann hafi einfaldlega verið að ritskoða jólasveinana því jólasveinninn sem hann tók út fyrir Hurðaskelli var hinn frekar vafasami Faldafeykir. Sá hafði sérstakt yndi á að blása höfuðfötum af kvenfólki og feykja upp pilsföldum. Kannski hefur Jóhannesi úr Kötlum ekki fundist það viðeigandi að semja skondna vísu í barnabók um slíkan pervert.
En Hurðaskellir var víst ekki barnanna bestur sjálfur. Ekki frekar en Roy Keane. Eins og svo skemmtilega er komist að orði í kvæðinu þá urðu þeir ekkert hnuggnir yfir því að harkalega marraði í einhverjum hjörum. Þeir voru bara með sinn hávaða og létu menn heyra það duglega ef sá gállinn var á þeim.
Fyrir sléttu ári síðan, 18. desember 2014, birtist frétt hjá Sky Sports þar sem Paul Lambert, þáverandi stjóri Aston Villa en núverandi stjóri Blackburn Rovers, staðfesti við Sky að Roy Keane hefði farið í smá desemberheimsókn til Tom Cleverley stuttu áður. Fyrr um daginn höfðu birst ansi krassandi fréttir í slúðurblöðunum um að Keane hefði mætt sótillur til Cleverley, tilbúinn í að láta hnefana sjá um talið, en hafi þurft frá að hverfa eftir að hafa hamast á dyrabjöllunni og barið á dyrnar í korter. Ástæða þessarar heimsóknar átti að hafa verið sú að Keane, sem hætti mánuði fyrr sem aðstoðarstjóri Aston Villa, hafi verið ósáttur við sögusagnir um að það hafi verið vegna rifrilda og slagsmála sem hann lenti í á æfingu og hann hafi viljað vita, með góðu eða illu, hvort þær sögusagnir hefðu verið frá Cleverley komnar. Cleverley var víst ekki heima þegar Keane mætti. Tjah, eða í öllu falli svaraði hann ekki til dyra. Ef ég fengi froðufellandi, bandbrjálaðan og hurðarberjandi Roy Keane í heimsókn til mín að kvöldi til þá hugsa ég að ég myndi líklega henda mér beinustu leið undir rúm. Áður fyrr voru Grýla, Leppalúði, jólasveinarnir, jólakötturinn og allt þetta lið notuð til að hemja óþæga krakka með hótunum um lítt skemmtilegar heimsóknir frá þessum villingum, jafnvel að líf krakkanna væri í bráðri hættu ef þau gerðu ekki það sem foreldrarnir vildu að þeir gerðu. Það væri ekki erfitt að nota Roy Keane í þessu sama hlutverki. Hversu margir myndu trassa það að baða sig, hátta sig, bursta sig og fara að sofa ef þeir vissu af Roy Keane á glugganum, tilbúnum að taka viðkomandi í gegn við minnsta agabrot?
Lambert vildi aftur á móti meina að þetta hefði verið blásið upp í fjölmiðlum, að breska slúðurpressan hefði gert ákveðinn úlfalda úr mýflugu þarna, aldrei þessu vant. Hann sagðist hafa rætt við Tom á æfingu sem hefði staðfest að þetta hefði ekki verið neitt neitt en þó vissulega að Keane hefði mætt í heimsókn.
Keane hefur þó aldeilis átt það til að vera í frábæru jólastuði í desember. Á þessum degi fyrir 16 árum, á því frábæra ári 1999, spilaði United deildarleik gegn West Ham United á útivelli. United var í feiknarstuði á þessum tíma, undir styrkri stjórn fyrirliðans Keane. Paulo Di Canio skoraði 2 mörk í leiknum en það dugði skammt því Dwight Yorke og Ryan Giggs skoruðu báðir 2 mörk í leiknum svo United vann 4-2. Þetta var 3. leikurinn af 5 sem United spilaði þennan desembermánuð. Roy Keane kom sérdeilis ánægður inn í mánuðinn, hann hafði endað nóvember á því að skora sigurmark United gegn Palmeiras í úrslitaleik um Intercontinental Cup á Ólympíuleikvangnum í Tokyo. Þetta mikla stuð smitaðist yfir í liðsfélagana þannig að eftir mánuðinn hafði United unnið 3 deildarleiki og 1 meistaradeildarleik ásamt því að gera eitt jafntefli. Markatalan eftir þessa 5 leiki var 18-5 fyrir United, þar af hafði Roy Keane skorað 3 mörk. Hann var í kjölfarið valinn leikmaður mánaðarins í deildinni fyrir desember 1999. Þetta var ansi gott tímabil fyrir hann að flestu leyti, hann skoraði til dæmis 12 mörk á tímabilinu en það var í eina skiptið sem hann komst í tveggja stafa tölu í markaskorun fyrir United. 6 þessara marka komu í meistaradeildinni. Eftir tímabilið var hann valinn leikmaður ársins af leikmönnum og íþróttafréttamönnum. Hann var líka valinn í lið ársins bæði á Englandi og í Evrópukeppninni.
Desember 2005 var töluvert blendnari mánuður en þessi 6 árum áður. 15. desember kom fréttatilkynning um að Roy Keane væri orðinn leikmaður Glasgow Celtic. Mánuði áður hafði Keane yfirgefið United eftir töluverða hurðaskelli og læti. Lokaleikur Keane fyrir United var í september í markalausu jafntefli við Liverpool á Anfield. Roy Keane náði að spila 6 leiki með United á þessu síðasta tímabili hans og var taplaus í þeim leikjum. United vann 4 þeirra og gerði 2 jafntefli með markatöluna 9-1. Þótt Keane hefði samið við Celtic þarna í desember þá byrjaði hann ekki að spila með félaginu fyrr en í janúar. Hann spilaði með þeim út tímabilið, náði 10 leikjum með félaginu og skoraði eitt mark. Í lok tímabils fagnaði Celtic svo skoska deildartitlinum í 40. skiptið. Liðið vann deildina með miklum yfirburðum, 17 stigum fyrir ofan næsta lið. Helstu tíðindin þetta tímabilið voru að Hearts endaði í 2. sæti deildarinnar, það var í fyrsta skipti frá 1988 sem Rangers enduðu ekki í 1. eða 2. sæti deildarinnar. Það var líka í fyrsta sinn í áratug sem lið sem ekki var Glasgow Celtic eða Glasgow Rangers endaði í 1. eða 2. sæti.
Síðasti leikurinn sem Keane spilaði fyrir Celtic var heiðursleikur á Old Trafford gegn Manchester United 9. maí 2006. Keane spilaði fyrri hálfleikinn með Celtic og seinni hálfleikinn með United. 69.591 áhorfandi mætti á Old Trafford til að fylgjast með þeim, metfjöldi fyrir heiðursleik á Englandi. Eftir þann leik lagði Keane skóna á hillun.
Desember 2008 var jafnvel enn leiðinlegri fyrir Keane. Þá var hann knattspyrnustjóri hjá Sunderland. Hafði þar tekið við af góðkunningja sínum Mick McCarthy (talandi um hurðaskelli!) haustið 2006. Hann kom liðinu upp í úrvalsdeildina og stýrði þeim þar eitt tímabil. En næsta tímabil á eftir fór að halla undan fæti. Samkvæmt fréttum voru samstarfsörðugleigar milli Keane og leikmanna auk erfiðleika milli Keane og stjórnarmeðlima hjá Sunderland. Liðið hafði tapað 5 af síðustu 6 leikjum og var í 18. sæti þegar Keane hætti þann 4. desember 2008.
Í ár ætti Roy Keane þó að eiga töluvert betri jól en oft áður. Hann hefur verið aðstoðarmaður landsliðsþjálfara Írlands síðan 2013 og í ár náði Írland þeim árangri að komast á Evrópumeistaramótið í Frakklandi á næsta ári. 12. desember í ár var svo dregið í riðla, eins og flestir Íslendingar ættu nú að vita, og þar fékk Írland ansi safaríkan riðil þegar þeir lentu með Svíum, Ítölum og Belgum í E-riðli. Keane getur því látið sig hlakka til 13. júní, þegar hans menn spila fyrsta leikinn, gegn Svíum á Stade de France. Kannski fær hann líka eitthvað skemmtilegt í jólagjöf. Og mögulega hendir hann í eins og einn góðan hrekk, eins og Hurðaskelli er einum lagið.
Aukaefni:
Roy Keane með smá hávaða í göngunum á Highbury
Roy Keane með smá læti inná vellinum
https://www.youtube.com/watch?v=Mlc5D8E4irM
Roy Keane í smá spjalli við Ian Wright
Jólamynd dagsins:
Árið 1993 hélt Roy Keane upp á fyrstu jólin sín sem Manchester United leikmaður. Hann hafði byrjað þetta fyrsta tímabil sitt vel, skoraði meðal annars 2 mörk í sínum fyrsta heimaleik fyrir United. Í desember spilaði hann 5 leiki með United, liðið vann 3 þeirra og gerði 2 jafntefli en tapaði engum. Þetta var ansi góður tími þar sem liðið var á leiðinni að sinni fyrstu tvennu. Þessi jól kom líka út afskaplega góð jólamynd, The Nightmare Before Christmas eftir Tim Burton. Það er jólamynd dagsins:
Jólalag dagsins
Desember 1999 var frábær fyrir Roy Keane og fyrir United. Það ár kom líka út jólaplata með sænsku poppsöngkonunni Carola Häggkvist. Platan heitir Jul i Betlehem og sló rækilega í gegn í Svíþjóð og Noregi. Hvort Roy Keane hafi skellt henni í gang í Manchester er ekki vitað, það gæti þó alveg hafa gerst…
Skildu eftir svar