David Gill
Núna erum við að tala um endasprettinn. Ef desember væri tímabilið í enska boltanum þá værum við að taka páskatörnina núna. Línur farnar að skýrast, við erum farin að fá nokkuð góða mynd af því hvernig þetta verður á endanum, hvort sem um ræðir stöðuna í deildinni eða dagskrána á jóladögunum, allt niður í veðurspána. Auðvitað er þetta stundum spennandi alveg fram á allra síðustu stundu, ræðst stundum í lokaumferðinni eða í hádeginu á aðfangadegi hvernig þetta fer allt saman. Og stundum koma óvæntir hlutir fyrir á síðustu stundu sem breyta öllu, leikmenn renna til eða sósan brennur. Eitthvað sem getur skemmt fyrir sumum eða aukið gleði annarra.
Við eigum núna fjóra svona jóladagatalsglugga eftir. Fjórir síðustu jólasveinarnir. Kannski eru lesendur búnir að finna aukna jóla- og United-gleði í gegnum lesturinn þessa síðustu 20 daga, kannski hafa þeir einn af öðrum helst úr lestinni og ekki nennt að lesa þessar langlokur. Einhverjir gætu verið að geyma sér þennan lestur til jólanna og ætla að lesa þetta eins og góða jólabók, undir teppi með jólaöl og konfekt. Það má allt í þessu. Sérstaklega yfir jóladagana.
Jólasveinninn sem kom til byggða núna síðustu nótt var enginn annar en sjálfur Gluggagægir. Hann kemur beint úr pervertahluta jólasveinafjölskyldunnar. Um hann var ort:
Tíundi var Gluggagægir,
grályndur mann,
sem laumaðist á skjáinn
og leit inn um hann.
Ef eitthvað var þar inni
álitlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.
Ein af undirgreinum sálfræði heitir klínísk sálfræði. Í henni fást sálfræðingar við greiningu og meðferð á tilfinninga- og hegðunarvandamálum. Þau vandamál geta verið geðsjúkdómar, geðraskanir, unglingavandamál, missætti innan fjölskyldna og ýmislegt annað. Sálfræðingar nota svo lögmál sálfræðinnar til að greina og vinna á vandamálunum. Eitt af því sem klínískir sálfræðingar geta þurft að eiga við er gægjuhneigð. Gægjuhneigð, eða voyeurismi, er ákveðin röskun sem byggist á því að fylgjast með öðrum aðilum eða liggja á gægjum. Yfirleitt er sá sem er haldinn gægjuhneigð að fylgjast með ókunnugu fólki og oftar en ekki í einhverjum kynlífsathöfnum.
Ef einhver bókstaflega heitir Gluggagægir þá er nokkuð ljóst að þessi röskun hefur náð djúpstæðum tökum á viðkomandi. Lýsingin segir líka allt sem segja þarf. Hann er grályndur maður, rétt eins og það sé eitthvað að angra hann, mögulega eins og fíkill í fráhvarfi sem þarf sinn næsta skammt. Laumast á skjáinn (þ.e. gluggann), því hann veit að hann ætti ekki að vera að gera þetta, veit það alveg en ræður bara ekkert við sig. Og lítur inn um hann, hver veit hvað hann sér svo inná heimilum fólks, inni á þeirra einkarými. Það er eitthvað sem hann sækir sérstaklega í. Hann er ekki mathákur eins og margir bræðra hans, þetta nærir hann í staðinn. Það er líka rökrétt skýring á því af hverju hann fer af stað á þessum tíma árs. Rannsóknir hafa sýnt það að hvötin eykst þegar einstaklingurinn finnur fyrir mikilli streitu. Gluggagægir er greinilega mikill jólakvíðakall, það hellist yfir hann jólastress í desember svo hann bara verður að fara á gluggana og fá sína útrás. Sem er svo líklegt til að valda ákveðnum vítahring, þegar hann veit að hann fer að verða líklegri til að þurfa á þessu að halda þá eykur það sjálfshatrið og magnar upp stressið. Sem svo veldur því að hvötin verður enn sterkari hjá honum.
En gægjuhneigðir og fullur poki af gjöfum í skóinn er ekki það eina sem Gluggagægir þarf að burðast með. Hann virðist líka þjakaður af stelsýki. Stelsýki, eða kleptomanía, er endurtekin og sífelld löngun til að stela hlutum sem hinn stelsjúki hefur enga þörf fyrir, þessir hlutir þurfa ekki að hafa mikið verðgildi í sjálfu sér. Þannig hefur Gluggagægir átt það til að stela leikföngum frá krökkum. Það að Gluggagægir sé að leggjast á glugga hjá krökkum og stela frá þeim dóti sem krökkunum þykir verðmætt gæti svo bent til þess að ýmislegt fleira, og töluvert alvarlegra, gæti verið að hrjá Gluggagægi. En þar sem ég er ekki sálfræðingur þá er kannski óþarfi að fara lengra út í þá sálma. Af jólasveinunum 13 þá mætti líklega segja að þessi væri sá vafasamasti. En að vísu má benda á það á móti að allir sveinarnir gera í því að fara í glugga hjá sofandi börnum til að brjótast þar inn og skilja eftir gjafir. Gluggagægir er þó ekki að fela þann verknað á bak við grímu þess að vera kumpánlegur hrekkjalómur sem finnst gott að hnupla smá mat.
David Alan Gill er mér vitanlega hvorki haldinn gægjuhneigð né stelsýki. Enda er tenging hans við Gluggagægi aðeins annars eðlis því glugginn sem hann tengist mest er ekki sá sami og jólasveinninn fletur nef sitt við til að kíkja inn um. Glugginn sem Gill rýndi í var í raun ekki eiginlegur gluggi heldur ákveðin myndlíking. Þar er auðvitað á ferðinni félagaskiptaglugginn sívinsæli.
David Gill fæddist í Reading í ágúst 1957. Hann gekk í Háskólann í Birmingham og lærði þar ýmis viðskipta- og hagfræðitengd fræði. Að loknu námi gerðist hann endurskoðandi hjá Price Waterhouse árið 1981. Sú vinna dró hann meðal annars til San Francisco í tvö ár en hann hætti þar árið 1986 til að hefja störf í fjármáladeild olíu- og gasfyrirtækisins The BOC Group. Í kjölfarið fór hann til Avis árið 1990 og sá þar um milljóna punda samninga. Hann kleif metorðastigann frá hverju stóru fyrirtækinu á fætur öðru eftir því sem leið á tíunda áratuginn þangað til toppnum var náð árið 1997 þegar hann gekk til liðs við Manchester United.
Hann hóf störf sem fjármálastjóri hjá United árið 1997. Í ágúst 2000 fékk hann stöðuhækkun upp í aðstoðarframkvæmdastjóra (deputy chief executive) en hélt samt áfram að vera fjármálastjóri. Sumarið 2001 fékk hann enn stöðuhækkun, þá var hann farinn að sjá um daglegan rekstur fyrirtækisins sem sneri að styrkhöfum og markaðsmálum ásamt ýmsum viðskiptatendum hlutum. Í september 2003 hætti þáverandi forstjóri Manchester United, Peter Kenyon. David Gill var valinn í hans stöðu í staðinn. Hann hélt þeirri stöðu árið 2005 eftir yfirtöku Malcolm Glazer.
Þegar hann tók við þeirri stöðu hafði reglum um sérstaka félagaskiptaglugga frekar nýlega verið komið á. Umræða um slíka glugga á Englandi hafði komið upp á tímabilinu 1991-92. Þá var atkvæðagreiðsla um það hvort taka ætti upp slíkt fyrirkomulag í ensku deildinni. Þá var tillagan naumlega felld í atkvæðagreiðslunni vegna þess að sum af minni félögunum höfðu áhyggjur af því að að slíkt fyrirkomulag kæmi þeim illa. Þau þurftu stundum að selja leikmenn á miðju tímabili og sáu fyrir sér að það gæti reynst þeim erfitt að þurfa að sinna flestum sínum leikmannakaupum á sumrin þegar peningastaðan var ekki endilega sem best. Nokkrir áberandi knattspyrnustjórar á þeim tíma lýstu yfir stuðningi við þessar hugmyndir, bentu á að sambærilegt fyrirkomulag á Ítalíu gæfist vel. Terry Venables, þáverandi stjóri hjá Tottenham, vildi meina að þetta myndi bæta vinnuaðstöður hjá stjórum félaganna, þeir gætu þá einbeitt sér meira að leiknum sjálfum og að þjálfa leikmenn en þyrftu ekki alltaf að vera með annað augað á næstu mögulegu kaupum eða verjast ásókn frá umboðsmönnum.
Árið 1998 hittust fulltrúar 9 stærstu knattspyrnudeilda Evrópu á fundi þar sem meðal annars var lögð fram sú tillaga um að samræma reglur um félagaskiptaglugga. Uefa leist vel á það og það hófst langt ferli að fá þetta í gegn. Til að byrja með var enska knattspyrnusambandið fylgjandi hugmyndinni en þegar leið á ferlið breyttist afstaða Englendinga. Þegar gluggafyrirkomulagið var innleitt, tímabilið 2002-03, var enska knattspyrnusambandið ekki ánægt með hugmyndina og forsvarsmenn stóru klúbbanna á Englandi lýstu yfir óánægju sinni með þessar breytingar.
Manchester United hugsaði meira um gæði en magn á leikmannamarkaðnum þetta fyrsta tímabil með félagaskiptagluggum. Að vísu keypti félagið spænska markvörðinn Ricardo frá Real Valladolid, því verður seint haldið fram að hann hafi átt blómlegan feril hjá Manchester United. En hinn leikmaðurinn sem United keypti var Rolls Royce varnarmaðurinn Rio Ferdinand. Janúarglugginn var algjörlega ónotaður í þetta skiptið. Sumarglugginn 2003 var töluvert aktívari. Þetta var síðasta skiptið sem Peter Kenyon sá um leikmannakaupin hjá Manchester United og hann fór út með ákveðnum hvelli hvað það varðar. Byrjaði á að kaupa franska hlaupaundrið David Bellion frá Sunderland. Þá kom Kamerúnmaðurinn Eric Djemba-Djemba frá Nantes, svo góður að hann skrifaði nafnið sitt tvisvar á samninginn. Tim Howard var næstur, kom alla leið frá MetroStars í Bandaríkjunum. Heimsmeistarinn Kléberson kom síðan í ágúst frá brasilíska félaginu Paranaense. Sama dag komu svo bestu kaup gluggans þegar unglingurinn Cristiano Ronaldo kom frá Sporting.
Eftir það tók David Gill við. Í 19 næstu félagaskiptagluggum var Gill maðurinn sem sá um að redda þessu hjá Manchester United. Ef það þurfti að versla, þá var hann maðurinn sem fór í það verkefni. Hann var sá sem rýndi inn um félagaskiptagluggann í leit að einhverju álitlegu sem hann gæti reynt að ná í eins og Gluggagægir. Ófá jólin hafa líklega farið í pælingar um leikmannamál hjá Gill. Hann var auðvitað ekki einn í þeim pælingum, sá sem hafði mest um þetta að segja var auðvitað stjórinn sjálfur, Sir Alex. En Gill þurfti að teikna upp plön um það hvernig hann næði þeim kaupum í gegn sem Fergie vildi.
Í þessum 19 gluggum fékk Gill 48 mismunandi leikmenn til liðsins. Mikill meirihluti þeirra kom í sumargluggunum, 34 komu þá. 13 komu í janúargluggum. Svo var einn sem kom á lánssamningi í mars og fellur þar með utan hinna hefðbundnu glugga. Fyrsti gluggi Gill var þó janúargluggi og þá komu 2 leikmenn til liðsins. Sá allra fyrsti sem Gill fékk til liðsins var kínverska goðsögnin Dong Fangzhuo sem kom til United frá Dalian Shide 12. janúar 2004. Í sama glugga kom einnig Louis Saha frá Fulham. Síðasti leikmaðurinn sem Gill fékk til félagsins var Wilfried Zaha. Sá kom einnig í janúarglugga, 9 árum eftir að Dong hafði komið frá Shide.
Gluggarnir voru auðvitað æði misjafnir eins og gengur og gerist, bæði hvað magn og gæði varðar. Þeir sem sjá um þessa hluti hjá United eru væntanlega þegar farnir að huga að næsta glugga sem opnast núna strax upp úr áramótum. Með skynsamlegum kaupum í janúar má oft redda ýmsu. En að sama skapi getur verið mun erfiðara að gera góð kaup í þeim glugga en sumarglugganum. Af þeim 10 janúargluggum sem Gill fékk voru 2 þar sem ekkert kom inn.
En hvaða gluggi var svo bestur? Hvenær heppnaðist best hjá Gluggagæginum Gill að ná í það álitlega? Það er bara um að gera að bera gluggana saman. Að vísu í einfaldaðri mynd. Til að fá betri heildarmynd af gluggum þarf auðvitað að taka með í reikningin alla hreyfingu, bæði inn og út um gluggann, bæði það sem er til sölu og láns. En það er stærra verkefni sem verður að bíða betri tíma. Hérna kemur listi yfir hvern glugga fyrir sig og hvað kom inn í þeim gluggum. Það er svo um að gera að velja sinn uppáhalds Gill-glugga.
Gluggi 1 – janúar 2004
12/1 Dong Fangzhuo frá Dalian Shide
23/1 Louis Saha frá Fulham
Gluggi 2 – sumar 2004
26/5 Alan Smith frá Leeds
11/6 Gabriel Heinze frá PSG
1/7 Gerard Piqué frá Barcelona
6/7 Giuseppe Rossi frá Parma
31/8 Wayne Rooney frá Everton
Gluggi 3 – janúar 2005
Ekkert í gangi
Gluggi 4 – sumar 2005
1/7 Edwin van der Sar frá Fulham
8/7 Ji-Sung Park frá PSV
19/9 Ben Foster frá Stoke
Gluggi 5 – janúar 2006
5/1 Nemanja Vidic frá Spartak Moscow
10/1 Patrice Evra frá Mónakó
Gluggi 6 – sumar 2006
31/7 Michael Carrick frá Tottenham
10/8 Tomasz Kuszczak frá WBA (lán til árs en var keyptur sumarið eftir)
Gluggi 7 – janúar 2007
2/1 Henke Larsson frá Helsingborg (lán til 12. mars)
Gluggi 8 – sumar 2007
1/7 Owen Hargreaves frá Bayern Munchen
2/7 Anderson frá Porto
2/7 Nani frá Sporting
10/8 Carlos Tevez frá Media Sports Investments (lán til 2ja ára)
Gluggi 9 – janúar 2008
1/1 Manucho frá Petro Atlético
30/1 Rodrigo Possebon frá Internacional
Gluggi 10 – sumar 2008
13/6 Davide Petrucci frá Roma
1/7 Fábio frá Fluminense
1/7 Rafael frá Fluminense
1/9 Dimitar Berbatov frá Tottenham
Gluggi 11 – janúar 2009
2/1 Zoran Tosic frá Partizan
8/1 Ritchie De Laet frá Stoke
Gluggi 12 – sumar 2009
30/6 Antonio Valencia frá Wigan
3/7 Michael Owen, var án félags
8/7 Gabriel Obertan frá Bordeaux
30/7 Mame Biram Diouf frá Molde
Gluggi 13 – janúar 2010
Ekki neitt
Gluggi 14 – sumar 2010
1/7 Marnick Vermijl frá Standard Liege
1/7 Chris Smalling frá Fulham
1/7 Javier Hernandez frá Guadalajara
16/8 Bébé frá Vitória de Guimaraes
Gluggi 15 – janúar 2011
1/1 Anders Lindegaard frá Aalesund
Gluggalaus í mars 2011
31/3 Rafael Leao frá Desportivo Brasil. Lán í eitt ár.
Gluggi 16 – sumar 2011
13/6 Phil Jones frá Blackburn
23/6 Ashley Young frá Aston Villa
29/6 David De Gea frá Atlético Madrid
Gluggi 17 – janúar 2012
8/1 Paul Scholes, var hættur
31/1 Freddie Veseli frá Manchester City
Gluggi 18 – sumar 2012
1/7 Shinji Kagawa frá Dortmund
1/7 Nick Powell frá Crewe Alexandra
17/8 Robin van Persie frá Arsenal
21/8 Alexander Büttner frá Vitesse
5/9 Ángelo Henríquez frá Universidad de Chile
Gluggi 19 – janúar 2013
26/1 Wilfried Zaha frá Crystal Palace
Aukaefni:
Viðtal við David Gill eftir að Berbatov kom til félagsins
https://www.youtube.com/watch?v=UVZmTS4YY40
Sir Alex ræðir um Gill eftir að tilkynnt var að Gill myndi hætta hjá United
https://www.youtube.com/watch?v=8SeyF05G6RY
Gill ánægður með að hafa landað snillingnum Bébé
Jólamynd dagsins:
Það er gluggaþema í dag, líka í jólamyndadeildinni. Árið 2013 gaf sjónvarpsstöðin Hallmark Channel út jólamyndina Window Wonderland um fólk sem vinnur við að hanna gluggaútstillingar. Getur ekki klikkað.
Jólalag dagsins:
Árið 2003 tók David Gill við af Peter Kenyon sem forstjóri Manchester United. Sama ár kom út hin frábæra jólamynd Love Actually. Í þeirri mynd er að finna eitt besta jólalag seinni tíma. Jólalagið Christmas is all around með karakternum frábæra Billy Mack er jólalag dagsins.
Skildu eftir svar