Það hefur myndast mikil umræða í kommentakerfinu eftir Chelsea leikinn, þar sem menn eru að vissu leyti jákvæðir og aðrir neikvæðir, skiljanlega. Fyrr í desember skrifaði ég Mánudagspælingar sem voru í jákvæðari kantinum. Þar listaði ég upp nokkrar ástæður sem gætu orsakað bjartsýni varðandi Manchester United. Síðan þá hefur liðið hins vegar tapað fyrir Wolfsburg og þar af leiðandi dottið út úr Meistaradeildinni, einnig tapaði það fyrir Bornmouth, Norwich og Stoke áður en það gerði 0-0 jafntefli við Chelsea.
Manchester United's last eight home games at half time:
0-0 City
0-0 M'brough
0-0 CSKA
0-0 West Brom
0-0 PSV
0-0 WHU
0-1 Norwich
0-0 Chelsea— Mr. Numbers (@Mister_Numbers) December 28, 2015
https://twitter.com/UnitedPeoplesTV/status/681557853203763200
Það má því segja að þessi jákvæðni sem ég reyndi að finna þann 7. desember sé fokin út í veður og vind. Þrátt fyrir góða frammistöðu, þó aðallega í fyrri hálfleiknum, gegn Chelsea þá breytir það ekki því að leikurinn fór 0-0. Liðið hefur byrjað einstaka leiki mjög vel en tekst ekki að skora og svo í síðari hálfleik er allur vindur úr mönnum. Það jákvæðasta við leikinn gegn Chelsea var hversu sókndjarfir menn voru, liðið sótti á mörgum mönnum og var vissulega hársbreidd frá því að vinna, en það voru Chelsea líka. Nemanja Matic hefði átt að koma Chelsea yfir og David De Gea okkar átti þrjár mjög góðar vörslur í leiknum. Frammistaðan í heild sinni var ágæt en úrslitin þau sömu og oft áður, of oft hefur maður líka reynt að fyllast bjartsýni eftir svipaðar frammistöður og gegn Chelsea.
Ég verð því að viðurkenna að ég er orðinn vel þreyttur á spilamennskunni, hvort það eigi að reka Louis Van Gaal eða ekki ætla ég að láta ósagt en ég ætla samt sem áður að lista upp nokkur vandamál sem mér finnst einkenna liðið undir hans stjórn.
Taktík
Þessi eilífa áhersla á varnarskipulag og vörn er alveg orðin vel þreytt. Þetta var slæmt í fyrra en varð ennþá verra í vetur. Þar sem flest lið virðast vita hvernig á að verjast leikskipulaginu þá eru öll minni lið deildarinnar komin með hið fullkomna plan til að ná í stig gegn United. Það hafa margir bent á að 5-3 tapið gegn Jamie Vardy og félögum í Leicester City í fyrra hafi verið vendipunkturinn hjá Van Gaal, þá hafi hann ákveðið að það þyrfti að múra fyrir rammann og vona það besta. Hann gekk svo enn lengra í sumar og keypti nýjan hægri bakvörð, fékk nýja djúpa miðjumenn og hefur spilað með fjóra varnarmenn og tvo djúpa miðjumenn í nánast öllum leikjum. Þetta væri ef til vill gott og blessað ef að liðið hefði lekið mörkum í fyrra, en United fékk aðeins á sig 37 mörk í 38 leikjum. Fimm mörkum meira en stórkostleg vörn meistaraliðs Chelsea fékk á sig en aðeins Chelsea og Arsenal fengu á sig færri mörk en United í fyrra. Hins vegar skoraði liðið aðeins 62 mörk, allt í lagi tölfræði þar sem aðeins Chelsea, Arsenal og Manchester City skoruðu meira en Chelsea skoruðu samt sem áður 11 mörkum meira og City 21 marki meira.
Að sama skapi er vert að benda á að United fékk á sig 43 mörk í 38 leikjum þegar deildin vannst tímabilið 2012/2013, Hins vegar skoraði það 86. Þessi eilífa áhersla á vörn er því orðin frekar þreytt þegar það er ljóst að liðið þarf að skora meira, miklu meira, til að eiga séns á einhverri alvöru baráttu. Það er svo líklega það sem pirrar mann mest, undir venjulegum kringumstæðum væri eitt lið stungið af. En svo er ekki og þrátt fyrir hörmungina sem síðustu leikir hafa verið, þá er United aðeins níu stigum frá topp liðunum Arsenal og Leicester.
En aftur að þessu rosalega varnarskipulagi, aðal vandamálið virðist hreinlega vera að Van Gaal treystir ekki leikmönnum til að geta bæði sótt og varist. Svo þegar liðið þarf að sækja og vinna mikilvæga leiki þá vita leikmennirnir ekki hvar jafnvægið er og allt fer í háaloft eins og gerðist í Þýskalandi. Hvað varðar traustið þá er mjög þreytt að minnast alltaf á Sir Alex Ferguson en hann má eiga það, hann treysti leikmönnum sínum. John O´Shea og Darron Gibson saman á miðjunni gegn Arsenal, hví ekki? Slíkt traust myndi ég telja grunninn á því að ná alvöru árangri.
Skiptingar í leikjum
Allir þjálfarar geta tekið slæmar ákvarðanir og auðvitað ganga ekki allar skiptingar upp, hins vegar virðast 90% skiptinga Van Gaal vera gerðar af handahófi og eiga margir erfitt með að skilja hvað maðurinn er að hugsa. Við sófakartöflurnar höfum engan rétt á að gagnrýna hvað jafn sigursæll þjálfari og Van Gaal gerir en maður verður þó að setja spurningamerki við sumar ákvarðanir mannsins, og þjálfarateymisins í heild sinni.
Besta dæmið er Nick Powell og innkoma hans gegn Wolfsburg, það er allt undir og United er á leiðinni út úr Meistaradeildinni. Van Gaal grípur til þess örþrifa ráðs að skella Nick Powell inn á, sem spilaði síðast fyrir United í 4-0 martröðinni gegn MK Dons. Það voru vissulega meiðsli í hópnum og bekkurinn ekki upp marga fiska en ekki nóg með að setja Powell inn á heldur þá tók hann Juan Mata útaf, einn af fáum skapandi leikmönnum liðsins sem hafði verið að eiga fínan leik miðað við marga aðra leiki hans undanfarið. Strax í næsta leik gerðist það sama, United er að tapa gegn Bournemouth og aftur leitar Van Gaal til Powell, í þetta skipti tekur hann ekki Mata útaf. Hann tekur Marouane Fellaini útaf, líklega eina leikmann United með lífsmarki í þessum leik.
Það sem er svo einna undarlegast í þessu öllu saman er að Nick Powell lét þetta ekki á sig fá og skoraði þrennu með U21 gegn Leicester stuttu síðar, hann hefur hins vegar ekki sést á bekknum síðan gegn Bournemouth. Gegn Norwich City voru þrír varnarmenn á bekknum, og á endanum gerði United einungis eina skiptingu í leik sem tapaðist 2-1. Van Gaal fór því úr því að gera „eitthvað“ til að breyta leik (sem var útskýring hans á því að setja Powell inn á gegn Bournemoyth) í að gera gjörsamlega ekki neitt.
Þetta eru aðeins nýleg dæmi, að sama skapi má nefna endalausar bakvarðaskiptingar leik eftir leik eða þá skiptinguna gegn Chelsea þegar Jones kom inn á fyrir Blind. Á þeim tímapunkti voru Chelsea alveg sprungnir og hefði alveg eins verið hægt að smella Fellaini inn á og setja Bastian Schweinsteiger í hafsent síðustu 10 mínútur leiksins, þessi skipting er orðabókadæmi fyrir áherslu Van Gaals á eilíft öryggi. Það má ekki fórna stiginu. Þá komum við að vandamáli c) …
Engar áhættur teknar
Þetta er beintengt vandamáli a) en leikirnir hjá United eru bara svo ótrúlega leiðinlegir. Leik eftir leik þá gerist ekki neitt, bókstaflega ekki neitt. Í stað þess að reyna að sækja í stöðunni 0-0 þá er ákveðið að halda stiginu. Þetta er út í hött. Ef þér tekst að taka sénsinn í einum af þessum þremur 0-0 leikjum þá færðu jafn mörg stig og þú færð fyrir að taka ekki sénsinn í þessum þremur leikjum. „High risk, high reward“, þetta er ekki flóknara en það. Halda bolta, halda bolta, halda bolta.
Svo þessi fáu skipti sem það eru teknir sénsar eða tekin ein og ein löng sending þá skapast hætta. Má nefna þó nokkrar sendingar Daley Blind í vetur upp völlinn sem hafa leitt beitn til marks. Einnig má taka langa sendingu Michael Carrick gegn CSKA Moskvu þar sem hann setti boltann upp völlinn á Jesse Lingard sem kom honum á pönnuna á Wayne Rooney og bingó. Afsökunin fyrir því að liðið tekur ekki fleiri sénsa síðustu 10-15 mínúturnar í jöfnu leikjunum er sú að leikmennirnir eru orðnir svo þreyttir, útaf öllu leikjaálaginu. Sem leiðir okkur að vandamáli d).
Lítill leikmannahópur
Í fyrra taldi leikmannahópur United auka 5-6 leikmenn miðað við hópinn í ár. Svo virðist sem Van Gaal hafi talið að meiðslin sem hrjáðu hópinn í fyrra myndu hverfa. Flestir sem hafa horft á United síðustu 10 ár vissu að það var ekki að fara gerast. Og viti menn, Van Gaal er búinn að þurfa nota hvern unglinginn á fætur öðrum með misjöfnum árangri. Á meðan eru leikmenn eins og Javier Hernandez, Jonny Evans, Rafael, Angel Di Maria og fleiri að spila flest alla leiki fyrir sín lið og almennt að standa sig vel. Vissulega vildu þeir fara til að spila meira en mig grunar þó að Evans hefði glaður verið áfram hefði hann fengið raunhæfa möguleika á spilatíma. Evans virtist vita manna best hversu slakur hann var meirihlutann af síðasta tímabili, hann hefði örugglega viljað sanna sig fyrir Louis Van Gaal og stuðningsmönnum United. Sama á við um Rafael og Hernandez, miðað við slúðrið um hvað Van Gaal á að hafa sagt við Hernandez þá er ekki skrýtið að hann hafi farið, 1% verða seint taldar góðar líkur. Di Maria vildi eflaust fara og nenni ég lítið að rökræða veru hans hjá United neitt meira en mig grunar að ef hann hefði fengið að spila meira, ef til vill í sinni stöðu, þá hefði hann verið til í að taka annað tímabil. Maður hefur svo sem ekki hugmynd um hvað gerist á bakvið tjöldin.
Í gegnum árin var hópurinn hjá United allavega talsvert stærri en í ár, og samt sem áður fengu flestir að spila nóg og unglingarnir fengu einnig sína sénsa sökum meiðsla. Mýtan um álagið sem fylgir því að spila á Englandi virðist sönn því Van Gaal var handviss um að hann kæmist í gegnum tímabilið á rétt rúmum 20 leikmönnum. Sú hugmynd hefur engan veginn gengið eftir.
Framkoma í garð leikmanna
Þetta Victor Valdes dæmi er svo barnalegt að það nær engri átt. Það segir mér enginn að þetta hafi ekki einhver áhrif á hópinn, tala nú ekki um hina Spánverjana í hópnum. Þetta ásamt eilífum sögusögnum um reglur þegar kemur að útileikjum og endalausum fundum er ekki að hjálpa. Vissulega eru þetta atvinnumenn sem eiga að sinna vinnunni sinni en ef mönnum hundleiðist í vinnunni þá er það ekki að hjálpa neinum. Einnig efast ég um að taktískar breytingar milli leikja gegn Norwich og Bournemouth séu það miklar að þær krefjist 4-5 klukkutíma funda milli leikja.
Að lokum
Eins og áður sagði, það eru aðeins 9 stig í efstu tvö liðin og liðið þarf aðeins einn sigur til að komast á beinu brautina. Hins vegar þarf sá sigur að koma fljótt, mjög fljótt, og þá gæti liðið átt smá séns á að bjarga tímabilinu. Hvort sem það verður Louis Van Gaal, Ryan Giggs eða Jose Mourinho sem breytir gengi liðsins verður að koma í ljós.
DMS says
Ef það fást ekki 3 stig á heimavelli gegn Swansea í næsta leik þá þarf nú stjórnin bara að leyfa Van Gaal að segja af sér (því hann sér nú um það sjálfur eins og hann sagði). Ef fregnir eru réttar um að hann hafi beðið tvisvar um að segja af sér en stjórnin neitað þá finnst mér líka eitthvað mikið vera að. Þá hlýtur hann að telja sjálfur að hann sé að komast á endastöð með þetta lið. Ef leikmennirnir eru orðnir pirraðir og trúa ekki á uppleggið hjá Van Gaal, þá er þetta hvort sem er aldrei að fara að ganga. Það sem Sir Alex gat gert var að gæða menn miklu sjálfstrausti og trú. Það er ekkert sjálfstraust í liðinu núna.
Bottom line – allt annað en 3 stig gegn Swansea og þá má Van Gaal kveðja. Menn tala um þolinmæði og allt það í þessum bransa, en við gætum líka lent í enn meira klandri ef við bíðum of lengi með að grípa inn í þennan downward spíral sem er í gangi.
Thorleifur Gestsson says
Sem talað frá mínu hjarta!
Heimir Stefánsson says
Ég veit ekki allveg með að kalla framkomu LVG barnalega, finnst hún ekkert svo ólík framkomu Ferguson (leikmenn eru ekki stærri en liðið) sem lét þá ófáa fara ef þeir spiluðu ekki með. Ekki misskilja mig ég er allveg jafn súr yfir því að gengi liðsins hefur ekki verið betra enda hefur maður verið ofdekraður af velgengni og þekkir maður varla neitt annað en góða tíma hjá United. Talandi um það þá láta sumir (ég sjálfur með talinn) stuðningsmenn Manchester United eins og OFDEKRAÐIR SMÁKRAKKAR :) þegar það kemur að gengi liðsins – LIÐSINS að sjálfsögðu leggur þjálfari upp kerfi og æfingar og fleira eftir því HINSVEGAR er það einnig ábyrggð leikmanna að standa sig á vellinum og gefa sig 110% fram og það er erfitt þegar liðið er hálf laskað og vantar lykilleikmenn og hvernig hefur LVG brugðist við jú með því að gefa ungum leikmönnum séns og flestir þeirra hafa bara staðið sig vel, er hinsvegar hægt að búast við því að leikmenn á aldrinunm 19 til 21-23 leiði liðið til sigurs í deild ? hvað þá meistaradeild ?, þá segja menn já en afhverju vorum við þá að losa okkur við alla þessa leikmennn ? Eini maðurinn sem ég sakna er Hernandez hinsvegar leikmenn eins og Anderson, Rafael, Di Maria (sem kannski hefði getað staðið sig betur á þessu tímabili en vildi fara) Persie ásamt ábyggilega fleirum sem ég er að gleyma hafa ekki sýnt það að þeir séu að blómstra annarstaðar og er ég bara nokkuð sáttur með að í stað þess að borga mönnum fullt af pening að þá ná í unga leikmenn og gefa þeim sem fyrir eru sénsa og hefur það glatt mann að sjá að þetta sé enþá hefðin hjá United að gefa ungum leikmönnum séns, það er enþá verið að fínpússa nýtt lið eftir að stólparnir sem hættu/fóru og tekur það bara tíma og menn sem eru að eiga sitt fyrsta tímabil eru bara að komast ágætlega frá því burt séð frá gengi liðsins. Blöð hafa skrifað ýmislegt um eitthvað ósætti (sem er eðlilegt því að þegar liðum gengur illa þá brosa blaðamenn því þá geta þeir farið að selja t.d. Mourinho hjá che, skrifa um að Fabregas og fl. séu komnir með nóg og Móri hafi misst klefan og hvað eina) ég veit ekki betur en að þeir sem stigið hafa fram þá nýlegast er að nefna capt. Rooney að liðið sé ánægt með LVG og allir tilbúnir til þess að stíga upp og laga stöðuna. Ok burt séð síðan frá öllu og LVG hætti eða verði rekinn hver er lausnin ? Mourinho ? maður sem er þekktur fyrir að láta liðin sín spila leiðinlegan en jújú árangursríkan fótbolta, eiga í veseni við leikmennina sína og ekki þekktur fyrir að gefa ungum leikmönnunm séns ? OG fara frá því að vera með meistaralið yfir í að vera 1 stigi frá botnbaráttu með hópinn sem hann var með ? Ferguson vildi það ekki og það var líka ástæða fyrir því, Moyes ? mannin sem borgaði 27 milljónir fyrir Fellaini (ættla ekki að byrja á því að tala um hann) og þegar hann stjórnaði liðinu þá leit það oftar en ekki út að leikmenn vissu ekki hvort þeir voru að koma eða fara. Ég er ekki með einhverja töfralausn en vil ég miklu frekar sjá okkur stuðningsmenn Manchester United bíta á jaxlinn og styðja liðið og ekki detta í þann pitt að ráða nýjan þjálfara ár eftir ár og hljóma nákvæmlega eins og „vinir“ okkar úr Liverpool að svona var þetta þegar við vorum bestir, horfum fram á veginn og styðjum við bakið á liðinu og hættum þessu væli.
Auðunn says
Þetta er nú meiri pósturinn.
Tek undir það sem Heimir segir að menn láti eins og ofdekraði smákrakkar.
Georg says
ArgastA dras** pistlahöfundur má taka hausinn úr rass** !!
Nei nei grín.
Flott samantekt þarna.
Ég er enn á LvG in vagninum því að mér finnst að þjálfarar eigi að fá séns til að koma sínu af stað, sérstaklega þá menn eins og LvG, hell ég hefði líka vilja að DM hef fengið meiri tíma.
Eitt til eitt og hálft tímabil er enginn tími til að koma upp heilsteyptu vinningsliði.
Risa væntingar í millibilsástandi eru ekki að hjálpa okkur fordekruðum áhangendum þar sem við gátum treyst á að SAF færði okkur inna 4 efstu liða ár eftir ár. Sjáið bara Liverpool, þeir detta úr gullaldartímabili sínu í megaþynnku og þar koma fram gamlar kempur í röðum og röfla þetta „þegar ég var að spila blabla“ aka Scholes og Ferdinand, það er bara rugl og enganveginn uppbyggjandi en áhangendur lepja þetta upp þvímiður.
Annar endurtek ég flott samantekt og miðað við hana þá líta hlutirnir ekkert rosalega vel út en á botninn er komið þá er leiðin bara upp sjáið bara Chelsea :)
Góðar stundir og KOMA SVO RAUÐIR DJÖFLAR!!
Ingvar says
Flott samantekt. Í síðustu tveim póstum hafa verið skiptar skoðanir á kommentakerfinu um bæði árangur og lausnir liðsins, sem er að sjálfsögðu gott og blessað, og fagna ég aukinni umræðu um liðið. Æ fleiri stigu fram eftir frækið 0-0 jafntefli við Chelsea á mánudaginn og töldu bestu lausn vera að gefa LVG meiri tíma því menn telja sökina minnst vera hans. Ég held samt sem áður að staðreyndirnar séu það margar, eins og Runólfur fór vel yfir í pistlinum, að það sé óumflýjanlegt að skella skuldinni á manninn sem er við stjórnvölin.
Einhverjir vilja meina að Woodward hafi ekki staðið sig nógu vel í að versla inn það sem Van Gaal vildi? Í fyrsta lagi var innkaupalistinn glórulaus og í öðru lagi þá erum við að tala um leikmenn sem eru í 3 bestu liðum heims. Því miður er staðan hjá okkur þannig í dag að við getum ekki reynt við leikmenn hjá þessum liðum á þessu kaliberi. Þannig að sumar fór að mér finnst til spillis, kenni LVG um það.
Spilamennskan hefur svo verið í takt allt þetta ár, þetta er ekkert nýtt á nálinni hjá Gaalnum. 13 mörk skoruð á Old Trafford í vetur!!! 13 mörk. Næsta lið á listanum yfir fæst mörk skoruð á velli eru lið sem ná niður í 4 deild með 5 mörkum meira. Manchester United býður uppá minnsta skemmtanagildi í efstu 4 deildum enska fótboltans. Ég er kannski að væla þegar ég tala um þessa hluti en þetta er staðreynd og þetta böggar mig óheyrilega mikið.
Við sjáum ekki einn einasta þjálfara sem ráðinn er til heimsklassa liðs búa til 3 ára plan um að á þeim tíma liðnum sé liðið tilbúið til að vera samkeppnishæft. Öll stærstu liðin búast við árangri, þó það nú væri að spila þokkalegan fótbolta. Er nokkuð viss um ef þessi þrjóska hefð MANU um að halda í stjórann fram í rauðan dauðann væri búið að láta hann gossa.
Það er ekki ósk neins stuðningsmanns Manchester United í öllum heiminum að við þróumst í lið sem rekur stjórana sína með reglulegu millibili en ég sé alls engan tilgang og finnst hann ekki eiga það nokkuð skilið að fá að halda áfram eftir þessa slöku stjórnun. Hvenær verður það of seint? Þegar við náum ekki top 4? Eða þegar búið er að eyða hundruðum milljóna í leikmenn sem skilar ekki árangri?
Ég segi #lvgout því sama hver tekur við þá finnst mér það ekki getað versnað.
Sigurjón Arthúr Friðjónsson says
Aldeilis frábær úttekt Runólfur Trausti, mæli með að þú sækir um hjá Sky eða BBC….þette er EKKI kaldhæðni :-)
Einnig er ég hrifin að því sem Ingvar skrifar hér að ofan :-)
kv.
SAF
Halldór Marteinsson says
Mjög gott, er eiginlega bara sammála öllu í þessum pistli.
Siggi P says
Ég vil breytingu, veit bara ekki hvernig breytingu ég vil. Ég hef lengi vonast til að Van Gaal sjálfur sæi að þetta virkaði ekki og breytti leikstíl, liði eða reyndi að bæta móral. En það gerðist ekki, eða það gerðist mjög undarlega og þá á röngum tíma eins og greinin kemur inn á. Svo þá þarf að breyta því að hann stýri liðinu. En hver? Með hverjum degi verð ég svartsýnni að Guardiola vilji taka við þessu liði. Ég vil ekki Mourinho, hann er ekki að fara bæta liðið. Ég efast um að Giggs ráði við djobbið því hann er á of góðum vinatengslum við marga í liðinu, eða kannski er hann bara of góður gaur. Það er skortur á heimsklassa stjórum og United er ekki lengur það aðdráttarafl sem það áður var. Það er ekkert eftir nema vona að Guardiola sjái aumur og tækifæri í þessum ruslahópi sem við höfum og taki slaginn. Langskot er að Ferguson komi til baka, en staðan er líklega of slæm til að hann vilji skemma arfleið sína. Svo án Guardiola er ég mjög efins um að góðir tímar séu framundan, jafnvel um langa tíð.
óli says
Eins og einhver nefnir her að ofan, þá finnst mér algjör brandari að ætla að gera Manchester United „samkeppnishæft“ á þremur árum. Þetta er ekki Leeds eða Tottenham. Félagið var samkeppnishæft jafnvel þegar Moyes var rekinn.
Þegar það mætir þjálfari sem er á toppi síns ferils og fær að velja leikmenn eins og Van Gaal þá verður félag á borð við Manchester United samkeppnishæft um leið. Dæmi: Þegar Mourinho kom frá Portúgal til Chelsea varð liðið að vél frá degi númer eitt. Ef Diego Simeone tæki við Chelsea næsta sumar, maður með sjalfstraustið í hæstu hæðum og maður sem nýtur virðingar, þá get ég lofað því að hann byrjar ekki að tala um þriggja ára áætlun þó félagið sé í vandræðum.
Van Gaal er forstjóri fyrirtækisins og hann er bara leiðinlegur, óspennandi, hræddur, og einfaldlega löngu búinn að missa sinn „fear factor“. Við erum í svipuðum sporum og stuðningmenn Liverpool þegar þeir lugu því að sjálfum sér að Brendan Rodgers væri rétti maðurinn. Innst inni vissu þeir að svo var ekki.
Ég vona innilega að Van Gaal nái að snúa þessu við en ég hef bara litla sem enga trú á því.