Ég veit hvað þið eruð að hugsa, ég er að hugsa það sama; Af hverju er Elli (Spaki Maðurinn) ekki að hita upp fyrir þennan stórleik. Elli hefur hitað upp fyrir síðustu tvo leiki og í þeim hefur liðið skorað sex mörk. Því miður er Elli upptekinn í barnauppeldi og tölvustússi sem enginn eðlilegur maður skilur, svo þið sitjið uppi með mig.
Mótherjinn
Mótherja sunnudagsins þekkjum við nokkuð vel en okkar mönnum hefur ekki beint gengið vel á Brúnni undanfarin ár. Í fyrra töpuðum við 1-0 þökk sé marki frá leikmanni ársins, Eden Hazard. Ef ég man rétt var United samt ekki lakara liðið í þeim leik. Undir stjórn David Moyes tapaði liðið 3-1 og á síðasta tímabilinu hans Sir Alex Ferguson unnu United 3-2 sigur þar sem Chelsea menn enduðu 9 inn á vellinum eftir brottrekstra Ivanovic og Torres. Leikirnir á undan því fóru annarsvegar 3-3 í leik sem er hvað þekktastur fyrir rosalega markvörslu David De Gea eftir aukaspyrnu núverandi Manchester United leikmannsins Juan Mata. Svo tapaði liðið 2-1 á Brúnni fyrir fimm árum síðan. Það má því reikna með erfiðum leik á morgun en United hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm deildarleikjum á Brúnni, ekki nóg með það heldur eru Chelsea ósigraðir í síðustu níu viðureignum gegn United.
https://www.youtube.com/watch?v=VwSu_nvKE1U
Tölfræði Chelsea á Brúnni í síðustu leikjum er reyndar ekkert til að hrópa húrra yfir, eftir að Jose Mourinho var rekinn þá hefur Guus Hiddink gert sitt besta til að sigla skútunni í höfn án frekari vandamála. Hins vegar hafa Chelsea gert þrjú jafntefli í röð á heimavelli, gegn; Watford, West Brom og Everton. En að sama skapi hafa þeir unnið útileiki gegn Crystal Palace og Arsenal. Chelsea eru ekki aðeins að gera jafntefli á heimavelli en í 5 af síðustu 7 leikjum hafa þeir gert jafntefli. Það kæmi ekkert á óvart ef 6 jafnteflið í 8 leikjum kæmi á morgun.
Samkvæmt Physio Room er ekki mikið um meiðsli í herbúðum Chelsea en Pedro Rodriguez gæti náð leiknum. Loic Remy og Falcao missa hins vegar af leiknum sökum meiðsla. Talið er að nýjasti leikmaður Chelsea, Pato, sé ekki í nægilega góðu formi til að spila. Þó að þrír af þessum fjórum leikmönnum væru eflaust í hóp hjá Chelsea á sunnudaginn þá efast ég um að neinn þeirra kæmist í byrjunarlið liðsins þar sem Diego Costa er búinn að vera mjög heitur undanfarið. Nokkuð ljóst að Mike Smalling og öll varnarlína United fær verðugt verkefni um helgina.
Reiknar undirritaður annars með því að Chelsea liðið á sunnudaginn verði mjög svipað og gegn Watford í vikunni, grunar mig að Hazard komi inn fyrir Fabregas en annars verði liðið eins. S.s.
Fyrir leikinn á sunnudaginn eru Chelsea í 13. sæti með 29 stig og -2 í markatölu. Með sigri gætu þeir náð Everton sem situr í 11. sæti að stigum.
Manchester United
Eins og allir vita þá eru okkar menn búnir að vinna tvo leiki í röð og spila glimrandi fótbolta í þessum tveimur leikjum. Liðið hefur hins vegar áður í vetur spilað glimrandi [lesist; ágætan] leik og hent því svo frá sér í næsta leik. Vonandi var þessi Stoke leikur svokallaður turning point og liðið getur rifið sig aftur í gang. Ég ætla þó að leyfa mér að efast um að Chelsea verði nálægt því jafn opnir og Stoke voru á Old Trafford núna í miðri viku en ef United tekst að fá Martial til að keyra á Ivanovic þá gæti hvað sem er gerst. 0-0 leikurinn á Old Trafford situr enn í manni, hvernig liðið vann ekki þann leik er með hreinum ólíkindum.
Á blaðamannafundi liðsins sem var að ljúka rétt í þessu þá talaði Louis Van Gaal um að síðustu dagar hefðu verið jákvæðir og léttar væri yfir mönnum á æfingum en undanfarnar vikur. Van Gaal talaði sérstaklega um hversu erfiðir Chelsea væru eftir að Hiddink tók við og að þeir töpuðu hreinlega ekki lengur. Hann sagði samt sem áður að hann og Michael Carrick væru báðir sammála um að ef United tækist að vinna leikinn á sunnudaginn þá væri baráttan um titilinn ennþá galopin [Innsk: Þar sem Leicester City mæta Manchester City og Arsenal núna í næstu tveimur leikjum þá er topp fjögur baráttan galopin. Einnig mætast Tottenham Hotspur og City á þessum tíma].
Van Gaal var spurður út í ástæðuna fyrir því að Luke Shaw hefði verið skráður í leikmannahóp United fyrir Evrópudeildina en Van Gaal telur að Shaw eigi möguleika á því að vera orðinn heill heilsu fyrir úrslitaleikinn, sem Van Gaal ætlast til að United komi sér í.
Að lokum blótaði [samt ekki] Van Gaal þeim meiðslum sem United hefðu lent í og taldi að núna þegar leikmenna hópurinn væri að ná fullri heilsu þá gæti liðið hrokkið aftur í gang og farið að ná í sömu úrslit og skiluðu liðinu í 1.sætið um miðjan nóvember mánuð. Þrátt fyrir bjartsýni Van Gaal þá er reiknað með því að Ashley Young og Bastian Schweinsteiger missi af leiknum sökum meiðsla, sem og auðvitað Marcos Rojo, Antonio Valencia og Luke Shaw. Phil Jones er hins vegar búinn að æfa í vikunni og gæti verið á bekknum. Engar fréttir voru af Marouane Fellaini sem fór útaf gegn Stoke sökum meiðsla. Spurning hvort það hafi verið fyrirbyggjandi skipting sökum þess að hann var tæpur.
Eftir frábæran leik gegn Stoke í miðri viku ætla ég að spá sama byrjunarliði og byrjaði þann leik. Að sama skapi ætla ég að spá 0-1 útisigri, mjög svipuðum og í Liverpool leiknum. Segjum að umræddur Fellaini skori eftir enn eina eitraða fyrirgjöfina frá Cameron Borthwick-Jackson.
Dómari leiksins er Michael Oliver og hefst leikurinn klukkan 16:00.
Að lokum óskum við hjá Rauðu Djöflunum Adnan Januzaj til hamingju með afmælið, vonandi nær drengurinn að rífa sig upp á komandi vikum.
Runar says
Nei…… :( Afhverju er Elli ekki að skrifa þessa grein…..?
Sveinbjörn says
Nú er mikilvægt að byggja á fátíðum öruggum sigri á Stoke.
Ég spái 1-2 sigri, þar sem King Fellaini og BJ skora, eftir að Costa kemur þeim bláu yfir.
Dogsdieinhotcars says
Skemmtileg spá með sigurmarkið. Ég segi þá Lingard 1-0 tap in eftir góða sókn þar sem Martial á laust skot sem er varið.