Jæja, þá er það taka tvö í hinni ævintýralegu Evrópudeild. Risarnir frá Danmörku mæta til leiks á morgun eftir að hafa skellt okkar mönnum á heimavelli í ansi döprum leik af hálfu United-manna.
Eins og minnst var á í upphitun okkar fyrir fyrri leikinn er FC Midtjylland ekki þetta venjulega knattspyrnulið heldur leggja eigendur, stjórnendur og þjálfarar mikla áherslu á notkun tölfræði. Hún leiðbeinir mönnum um hvaða leikmenn geta passað inn í félagið alveg niður í það hvernig á að taka aukaspyrnu.
Undarleg aukaspyrnutaktík United í leiknum gegn Shrewsbury vakti óneitanlega athygli á mánudaginn þegar Juan Mata skoraði beint úr aukaspyrnu. Ekki í frásögu færandi nema hvað að þrír leikmenn United röðuðu sér fyrir aftan vegg Shrewsbury, í rangstöðunni en væntanlega til þess að trufla markmann andstæðingsins. Sitt sýnist hverjum um að þetta hafi verið löglegt mark en eftir leik sagði Louis van Gaal að hugmyndin hefði komið frá FC Midtjylland.
„We had seen them doing that. We think it is always offside. So we asked the refs, from Portugal. They said, ‘No, it’s not, you can do that.“
„So that’s what we have learned from Midtjylland. And today we scored. That’s good.“
Þetta kemur ekki á óvart. Blaðamaður The Guardian skrifaði heilmikla grein um liðið í haust þegar það undirbjó sig undir leiki sína við í forkeppni Meistaradeildarinnar. Þar kemur hversu mikla áherslu liðið leggur á föst leikatriði.
Aðstoðarþjálfarinn, Brian Piske, sér um einhversskonar ‘Set pieces lounge’ þar sem leikmenn, þjálfarar og meira að segja eigendurnir leggja á ráðin, með hjálp myndbanda, tölfræði og guð má vita hvað til þess að finna upp hið fullkomnu taktík fyrir föst leikatriði. Liðið er til að mynda með einn þjálfara sem gerir ekki neitt annað en að þjálfa leikmenn liðsins í þeirri miklu list hvernig eigi að sparka bolta.
Sumum finnst þetta kannski pínu klikkað en þetta svínvirkar. Á síðasta tímabili tryggði liðið sér danska meistaratitilinn þrátt fyrir að eyða minni pening en liðin í kringum sig. Helmingur allra marka liðsins kom eftir föst leikatriði.
Tölfræðin kemur víða við hjá Midtjylland og fá þjálfarnir í hálfleik hvers leiks sms um það hvernig leikurinn er að ganga fyrir sig, hvort að leikmenn séu að standa sig vel og hvort að staðan í hálfleik endurspegli gang leiksins. Allt svo þeir geti tekið betri ákvarðanir og þetta virðist skila sér, a.m.k fyrir þetta félag enda fór liðið á einu ári frá því að vera nánast gjaldþrota yfir í það að vinna titilinn.
Liðið er enn í þriðja sæti dönsku deildarinnar, alveg eins og fyrir viku síðan, enda hefur deildin ekki hafið leik á ný eftir vetrarfrí. Jótlendingarnir hafa því fengið viku til þess að undirbúa sig undir Englandsför sína, ólíkt okkar mönnum.
Deildin hefst þó að nýju hjá þeim um helgina og þar mætir Midtjylland liði Álaborgar sem situr í 2. sæti þannig að það er stórt verkefni sem þeir þurfa að hafa í huga, líkt og okkar menn sem mæta Arsenal á sunnudaginn.
Liðið hefur einu sinni áður spilað í Manchester-borg þegar liðið sigraði Manchester City í þessari keppni þegar hún hét ennþá UEFA-bikarinn.
Manni finnst líklegt að þjálfarar liðsins stilli upp í sama eða mjög svipað lið og vann fyrir viku síðan. Liðið mun líklega sitja til baka, leyfa United að klappa boltanum og freista þess að sækja hratt með aðstoð Pione Sisto og félaga. Þá er afskaplega líklegt að menn leggi mikið upp úr því að nýta allar þessar pælingar varðandi föst leikatriði.
United
Manni fannst síðasta tímabil slá öll met hvað varðar meiðsli en þetta tímabil er á einhverju allt öðru stigi. Menn mega varla sjá grænt gras án þess að meiðast og það er svo ekkert eðlilegt við það að liðið sé að nota 4. og 5. kost í bakvarðastöðuna.
Við sjáum mynd.
Svona lítur meiðslalistinn út þegar þessi orð eru skrifuð. Því skal þó haldið til haga Rojo og Valencia æfðu í dag ásamt Lingard sem meiddist aðeins gegn Shewsbury. Öllu kærkomnara verður að fá þá Rojo og Valencia til baka enda veitir ekki af, aðeins til þess að létta á í öftustu víglínu.
Það má vel leika sér að því að stilla upp meiddir vs. heilir og velta því fyrir hvort byrjunarliðið sé sterkara?
Meiddir United
Heilir United
Miðað við skiptingar og annað gegn Shrewsbury spái ég liðinu gegn Midtjylland eitthvað á þessa leið. Í raun hefur van Gaal ekki úr miklu að spila vegna meiðsla eins og sjá má á þessum liðum hér fyrir ofan. Líklega er of snemmt fyrir Valencia og Rojo að koma inn strax þó þeir muni væntanlega detta fljótlega inn og í kringum liðið.
Það segir í raun flest um stöðu United þessa dagana að maður sé eitthvað efins um að United muni fara áfram í þessari keppni en blessunarlega á liðið inni þetta útivallarmark sem gerir verkefnið örlítið auðveldara.
Nú, eins og vera ber hélt stjórinn blaðamannafund fyrir leikinn á morgun þar sem hann kallaði eftir greddu frá eigin leikmönnum auk þess sem hann varaði við því að leikmenn danska liðsins væru að gíra sig upp í stærsta leik sinn á ferlinum.
„I was not a great player, as you know. But when I played for full stadiums, I was always at my best. So it is not a good signal for Manchester United. I think most of their players shall be excited and for them it is the biggest game of their lives, especially at Old Trafford and not at home.“
Ýmislegt til í þessu.
https://twitter.com/dtguardian/status/702518857190260736
Nokkuð ljóst að hinn ágæti blaðamaður Daniel Taylor ólst ekki upp sem knattspyrnuleikmaður á Íslandi.
https://twitter.com/beardedgenius/status/702542611094097921
Nú, ég var kannski örlítið að ýkja með meiðslin áðan. Marcos Rojo verður á bekknum og mun mögulega spila allt að 20 mínútur á morgun. David de Gea er enn meiddur, Valencia er ekki alveg klár í slaginn á meðan Will Keane, Jesse Lingard og Cameron Borthwick-Jackson eru á kannski listanum.
Maður hálfpartinn neitar að trúa öðru en að United klári dæmið og geri nóg til þess að fara áfram í næstu umferð. Á móti kemur að það er það sem maður hélt um riðlakeppni Meistaradeildarinnar fyrir áramót.
Allavega, 20.00 á morgun á Old Trafford. Líf eða dauði. United vs. FC Midtjylland
Bjarni Ellertsson says
Líst ekkert á þetta, sorry, verð að segja það. Við erum arfa slakir að verjast föstum leikatriðum þá sérstaklega ef Smalling nýtur ekki við, vantar alla hæð í vörnina. Síðustu fréttir að hann verði ekki með. Verð að setja traust mitt á sóknarleikmennina til að koma okkur áfram en ef það gerist ekki þá er það ekki nema von, með hálfan hópinn utanvallar og næstu varamenn inn eru Bobby Charlton og Denis Law.
Getum ekki alltaf ætlast til sigurs, sama hver mótherjinn er, þegar liðið er svona þunnskipað, þó við séum Manchester United. Svo er það Arsenal næst, það verður saga til næsta bæjar.