Áður en lengra er haldið er rétt að staldra aðeins við og renna yfir yfirferð Runólfs á ungu leikmönnunum sem hafa verið að fá tækifæri með aðalliðinu.
Á þessu undarlega tímabili þar sem Leicester er að labba í burtu með titilinn og stórlið eins og United og Chelsea eiga í vandræðum er eitthvað ótrúlega þægilegt við það að West Bromwich Albion er bara nákvæmlega þar sem það á að vera. Í 13. sæti.
Liðin hans Tony Pulis spila ofboðslega fína vörn, einhæfan sóknarleik og þau eru einhvernveginn alltaf í 13. sæti. Hvorki í hættu á að falla né í neinni baráttu um eitthvað merkilegt í deildinni.
Á þessu tímabili hefur ekki orðið nein breyting á því en engu að síður bíður United afskaplega erfitt verkefni að fara á The Hawthorns og sækja þar þau þrjú stig sem liðið þarf til þess að halda sér í baráttunni um Meistaradeildarsætið.
Það hefur gengið misvel hjá United á The Hawthorns í gegnum tíðina. Eftirminnilegasti leikurinn er líklega síðasti leikur United undir stjórn Sir Alex Ferguson sem leystist bara upp í algjöra vitleysu og endaði 5-5. Þá átti United undir stjórn David Moyes eina af sínum bestu útivallarframmistöðum undir stjórn skotans misheppnaða þegar liðið valtaði yfir WBA 0-3 fyrir tæpum tveimur árum síðan. Á síðasta tímabili skoraði Fellaini svo sitt fyrsta mark fyrir United þegar liðin gerðu 2-2 jafntefli í hörkuleik.
https://www.youtube.com/watch?v=a1DGS86GLDE
Liðin mættust á Old Trafford í nóvember og þar fóru okkar menn með sigur af hólmi 2-0 í ansi fínum sigri þar sem Jesse Lingard og Juan Mata skoruðu mörkin.
Louis van Gaal hefur mætt þessu WBA-liði þrisvar frá því hann tók við og leikirnir hafa allir spilast nákvæmlega eins þrátt fyrir að úrslitin hafi aldrei orðið þau sömu. WBA-menn liggja duglega til baka og freista þess að skora mark úr eina færinu sem liðið fær í leiknum. United-menn reyna svo að brjóta þennan 10 manna varnarmúr á bak aftur með því að spila og spila og spila boltanum fyrir framan þennan múr. Þetta plan gekk t.d. fullkomnlega upp á Old Trafford á síðasta tímabili þegar WBA-menn rétt náðu 100 sendingum sín á milli í öllum leiknum en fóru samt með sigur af hólmi.
Þannig mun leikurinn án efa spilast á morgun og undir það verða okkar menn að vera búnir. Ég myndi því fastlega gera ráð fyrir því að leikurinn á morgun verði ekkert augnayndi en það er nákvæmlega eins og Tony Pulis vill hafa þetta.
Við könnumst ágætlega við nokkra leikmenn í WBA. Fyrrum United-leikmenninir Ben Foster, King Darren Fletcher og Jonny Evans leika allir með liðinu. Evans hefur verið langbesti leikmaður liðsins á tímabilinu og leiðir einkunnargjöf liðsins samkvæmt tölfræðisíðunni WhoScored. Blessunarlega fyrir okkur er hann þó meiddur og verður ekki með á morgun. Þá meiddist Chris Brunt alvarlega um daginn og verður hann ekki meira með á tímabilinu.
Þeirra helsti markaskorari er Salomon Rondon sem liðið keypti fyrir metfé fyrir tímabilið. Hann hefur þó valdið vonbrigðum en WBA er kannski ekki liðið til þess að vera í ef menn ætla að skora mikið af mörkum. Vandræðagemsinn Saido Berahino hefur þó verið að fá sénsinn að nýju hjá Pulis eftir að hafa verið út í kuldanum. Hann gerði United mikla skráveifu á Old Trafford í fyrra og er væntanlega ólmur í að sanna sig á nýjan leik svo hann komist nú í burtu frá WBA eins og hann þráir hvað mest.
Pulis & co spiluðu í vikunni gegn Leicester og geta því ekki státað af því að hafa fengið frí til þess að undirbúa sig undir þennan leik. Þar lögðu þeir allt í sölurnar og náði í hið sómasamlegasta jafntefli gegn toppliðinu. Að öðru leyti er erfitt að draga einhverjar ályktanir af gengi WBA undanfarið. Þeir unnu Everton en töpuðu gegn Crystal Palace. Mjög 13. sætislegt allt saman.
Pulis mun tryggja það að leikmenn WBA mæti dýrvitlausir til leiks á heimavelli og það er í raun bara eitt sem má ekki gerast í þessum leik. WBA má ekki komast yfir, það mun steinrota þennan leik.
United
Það er sama sagan hjá United þessa dagana. Meiðslin eru gífurleg að venju en það virðist ekki koma að sök. Rashford hefur komið eins og eldibrandur inn í þetta og hleypt algjörlega nýju lífi í leik United sem hefur nú unnið heila fjóra leiki í röð í öllum keppnum. Þá kom Timothy Fosu Mensah mjög ferskur inn gegn Watford í vikunni og bjargaði samlanda sínum Daley Blind oftar n einu sinni úr ógöngum.
Meiddu leikmenn United eru þó óðum að skríða saman og á blaðamannafundi í gær sagði Louis van Gaal að Smalling væri klár í slaginn á nýjan leik og afar stutt væri í að Phil Jones, Valencia og Fellaini sneru aftur eftir meiðsli. Það er þó óvíst hvort þeir verði með á morgun og reiknaði LvG frekar með því að þeir myndu spila varaliðsleik á mánudaginn til þess að komast í þetta fræga match rhythm.
Það er kærkomið að fá smá breidd aftur í liðið enda veitir ekki af með frekar klikkað leikjaprógram framundan og þar á meðal þýðingarmiklir leikir gegn Liverpool í Evrópudeildinni og átta liða úrslit í FA-bikarnum gegn West Ham.
United-menn nældu sér í baráttusigur gegn spræku Watford liði á miðvikudaginn. Þar duttu inn afskaplega mikilvæg þrjú stig á sama tíma og öll liðin fyrir ofan okkur töpuðu stigum. Það er þó ekki víst að lukkan verði okkur jafn hliðholl á morgun enda er þetta líklega erfiðasta viðureignin hjá liðunum í efri hlutanum að undanskildum leik Tottenham og Arsenal.
Það verður erfitt að spila gegn þessu WBA-liði auk þess sem að viðbúið er að leikmenn United séu orðnir pínu þreyttir eftir mikla leikjatörn og ekki svo mikla róteringu að undanförnu.
Þrátt fyrir það er ekkert hægt að segja elsku mamma. United hefur tapað það mikið af stigum það sem af er tímabili að okkar menn mega hreinlega ekkert við því að glata mikið fleiri stigum ætli liðið sér í 4. sæti.
Van Gaal talaði reyndar um að hann vildi frekar vinna FA-bikarinn eða Evrópudeildina en að ná einungis í Meistaradeildina í gegnum deildina. Ég er sammála honum að því leyti að ég væri til í að fórna 4. sætinu fyrir Evrópudeildartitilinn en FA-bikarinn er ekki nægileg verðlaun að mínu mati til að fórna fyrir Meistaradeildarbolta á næsta ári, jafnvel þó að allt of langt sé síðan United vann bikarinn.
Á morgun myndi ég stilla liðinu upp einhvernveginn svona.
Það hefur mætt ansi mikið á Blind að undanförnu og ég held að það væri rétt að veita honum smá hvíld. Líklega mun ekkert mæða neitt gríðarlega mikið á vörn United og Timothy Fosu Mensah á einfaldlega skilið að halda sæti sínu í liðinu eftir leikinn gegn Watford. Ég sæi þó alveg Rojo taka sæti Smalling ef sá síðarnefndi er ekki alveg 100% ennþá.
Á miðjunni væri ágætt að hvíla annaðhvort Schneiderlin eða Herrera og ég held að það væri sterkur leikur að eiga Mata inni á bekknum til þess að hafa hann ferskan gegn Liverpool á fimmtudaginn. Pereira gæti komið ferskur inn ásamt Lingard sem var á bekknum gegn Watford.
Þrátt fyrir að Rashford hafi verið alveg frábær væri held ég ekki vitlaust að hafa hann á bekknum í þessum leik til þess að hafa örlítið hemil á hype-lestinni sem er byrjuð að fara af stað. Það væri líka mjög fínt að eiga ferskar lappir hans inni þegar líða fer á leikinn.
Menn hafa örugglega annað augað á Liverpool-leiknum á fimmtudaginn en það þýðir samt ekki að menn megi eitthvað missa einbeitinga hér á morgun. Liðin í kringum okkur munu flest án efa vinna sína leiki og því má United ekki við að tapa hér gegn WBA.
Leikurinn hefst klukkan 16.00 á morgum, sunnudag.
Skildu eftir svar