Við erum komnir í úrslit í FA bikarnum! Vá, þetta var frábær leikur í dag og fyllilega verðskuldaður sigur hjá okkur mönnum. Þurftu reyndar að hafa fullmikið fyrir honum að mínu mati, svona miðað við yfirburðina í fyrri hálfleik, en það er það bara allt í lagi því svona sigrar eru hvort sem er alltaf sætari en einhver öruggur 3-0 sigur, erum við ekki bara sammála um það?
Rennum fyrst yfir liðin, þau voru svona:
Varamenn: Romero, Darmian, Mata, Herrera (87 mín), Valencia (62 mín), Schneiderlin, Memphis
Van Gaal hefur í allan vetur notað ákveðna leikmenn í deild og svo aðra leikmenn í bikar/Evrópu. Þrátt fyrir að mér finnist liðið spila betur með Schneiderlin sem djúpan miðjumann var það alveg morgunljóst að Carrick og Fellaini myndu byrja þennan leik, sem varð svo raunin. Fosu-Mensah kom inn í hægri bakvörð fyrir Darmian en að öðru leyti var uppstillingin eins og við mátti búast.
Evertonliðið var svona skipað:
Svolítið brotinn hópur því Barry var fjarverandi á miðjunni, Jagielka ekki í 100% standi í vörninni og svo vantaði alveg hægri bakvörð í liðið. Það kom því í hlut Muhamed Besic, sem oftast spilar sem djúpur miðjumaður, að spila í hægri bakverði og það átti eftir að draga dilk á eftir sér.
Leikurinn byrjaði ansi glæfralega því eftir aðeins 5 mínútur komst Lukaku einn inn fyrir De Gea og átti bara eftir að „renna“ boltanum í autt markið en fyrirliðinn okkar var mættur á staðinn og náði að skalla glæsilega af línu. Það fór smá hrollur um mann á þessum tímapunkti því manni fannst eins og þetta gæti orðið einn af „þessum leikjum“, það voru hinsvegar óþarfa áhyggjur því út fyrri hálfleik réð United leiknum algjörlega.
Þar var fremstur í flokki Anthony Martial sem nýtti sér ítrekað veikleika Everton í hægri bakvarðastöðunni. Besic réð nákvæmlega ekkert við hann, Martial labbaði framhjá honum trekk í trekk og skapaði mikinn ursla í vörn Everton. Það bar loksins ávöxt á 34 mínútu þegar þegar Martial fór í göngutúr upp vinstri kantinn, framhjá Besic, gaf fyrir og þar var enginn annar en Marouane Fellaini mættur á nærstöngina með sokkinn góða og stakk upp í okkur sem vildu frekar sjá Schneiderlin og Herrera sem miðjuparið í leiknum. Fínt mark og staðan 1-0. United hélt áfram að halda boltanum vel út fyrri hálfleikinn, Everton náðu ekki upp neinu spili og vörnin þeirra leit ekki vel út. Það var í raun frekar svekkjandi að United skyldi ekki ná að pota inn öðru marki áður en flautað var til hálfleiks.
Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum, sérstaklega fyrri parts hálfleiksins þegar Everton bjuggu til nokkur góð færi. Á 56 mínútu fékk Ross Barkley boltann vinstra meginn í teignum og í stað þess að loka á hann renndi Fosu-Mensah sér í mjög svo illa ígrundaða tæklingu og straujaði Barkley niður. Dómarinn var ekki lengi að ákveða sig og dæmdi vítaspyrnu en í endursýningu kom í ljós að Mensah hafði snert boltann á sama tíma og hann snerti manninn og því hægt að færa rök fyrir því að þetta hafi verið rangur dómur. Ég skil dómarann þó mjög vel, án endursýningar leit þetta út fyrir að vera rakið víti og meira að segja 50/50 víti með endursýningu, að mínu mati allavega. Lukaku fór á punktinn en meistari De Gea, hver annar, varði þéttingsfasta spyrnu Lukaku glæsilega. Hvar væri Manchester borg ef ekki væri fyrir David De Gea?
Eftir þetta virtist Everton aðeins slegnir út af laginu og í kjölfarið átti United nokkur góð færi. Fyrst opið skot framhjá hjá Lingard, sem átti frekar lélegan leik greyið, og svo Fellaini sem hefði skorað ef Jagielka hefði ekki varði boltann með hendinni, sem auðvitað átt að vera víti og rautt en dómarinn sá ekki. Eftir þetta vöknuðu Everton menn heldur betur til lífsins og fóru að setja meiri pressu á United. Það skilaði sér á 75 mín þegar Gerard Deulofeu kemur með fasta fyrirgjöf inn í teig, Chris Smalling reynir að hreinsa frá en gekk ekki betur en svo að boltinn hrekkur af sköflungnum og framhjá De Gea í eigið mark. Gríðarlega óheppni og ekkert við því að gera.
Við tóku æsilegar 15 mínútur þar sem bæði lið hótuðu að stela sigri. Það virtist þó allt stefna í framlenginu en Anthony Martial var með aðrar hugmyndir. Þegar 55 sekúndur voru eftir af leiknum fær Martial boltann á kantinum, gefur inn á miðjuna á Herrera sem var þá nýkominn inn á, hann nær að snúa við með boltann, detta, og svo gefa inn fyrir á hlaupandi Martial sem smellir honum snyrtilega framhjá Robles í marki Everton. Wembley sprakk, þvílíkt mark, þvílíkt augnablik!
https://twitter.com/beardedgenius/status/723940825810522112
Þar við sat! 2-1 sigur staðreynd. Liðið í heild sinni var stórgott í dag, það er hægt að nefna nokkra leikmenn sérstaklega, til dæmis Fellaini, De Gea og Fosu-Mensah (þrátt fyrir vítaspyrnudóminn). Það var þó einn leikmaður sem var alveg framúrskarandi í dag og það var Anthony Martial, hann gjörsamlega tók yfir þennan leik og sigldi þessu heima. Án efa besta frammistaða United leikmanns í vetur.
Já, við erum komin í úrslit á Wembley þann 21 maí þar sem við mætum annað hvort Crystal Palace eða Watford. Þennan árangur eigum við skilið, liðið hefur jú verið frekar heppið með drátt á tíðum, en seinni leikurinn gegn West Ham og svo leikurinn í dag voru barasta mjög góðir frá United og liðið að sýna ansi góða takta. Hver veit, er þetta loksins að smella hjá Van Gaal, korteri fyrir lokun? Eitt er ljóst, við getum seint þakkað honum kærlega fyrir að hafa þorað að kaupa Anthony Martial á þá upphæð sem hann gerði. Sú fjárfesting hefur borgað sig baka strax og mun halda áfram að borga sig til baka um ókomna tíð!
Sá hlær best sem síðast hlær.
feigur says
kaupin á martial búin að borga sig og hann á bara eftir að verða betri
Atli Þór says
TONY MARTIAL CAME FROM FRANCE
ENGLISH PRESS SAID HE HAD NO CHANCE
50 MILLION DOWN THE DRAIN
AS TONY MARTIAL SCORES AGAIN!
Grímur says
Frábær umfjöllun að vanda! Smá aðfinnsla í því að þú segir móment en ekki augnablik sem er klárlega gott og gilt íslenskt orð yfir sama hlut. Veit að svona aðfinnslusemi er leiðinleg og pirrast ég yfirleitt ekki á slangri þs oft eru bara ekki til íslensk orð sem samsvara slettunum. En þegar við eigum íslenskt orð sem enn er í fullri notkun er um að gera að nota það. Vona að þessu verði frekar tekið sem vinalegri ábendingu en leiðinlegri aðfinnslusemi því þannig er það meint :) ítreka aftur ánægju mína með síðuna okkar Man Utd manna!!
Sigurjón says
Það er alveg 100% rétt hjá þér Grímur. Sannleikurinn er sá að ég hef búið í Bandaríkjunum í 10 ár núna (+ konan mín í bandarísk einnig) og er bara farinn að eiga í töluverðum erfiðleikum með íslenskuna! Ég til dæmis hugsaði endalaust um þetta orð „moment“ og bara fann ekki íslenska orðið í hausnum á mér! Ef þú hlustar á podköstin okkar þá tekur þú mjög vel eftir þessu líka, lendi oft í basli með einföldustu orð. Allavega, þakka fyrir ábendinguna, ég lofa að gera betur! ;)
Hjörtur says
Frábær fyrri hálfleikur, áttum hann gjörsamlega og hefðum átt að vera 2-0 yfir í hálfleik að minsta kosti. En það er þetta með liðið þeir reyna alltaf að juðast með boltann gegnum þéttar varnir mótherjana, svo ekkert verður úr, í stað þess að mínu mati að skjóta meir á markið. Seinni hálfleikinn leist mér ekkert á allavega það sem ég sá af honum, hætti að horfa um tíma, því mér fannst þetta að vera að fara í einhverja vitleysu, eins og hefur oft verið annar hálfleikurinn góður, en hinn brothættur. En þökk sé franska gæðingnum að við séum komnir í úrslit bikarsinns, og þá er það skilduverk að landa þessum bikar fyrst við komumst þetta langt. Góðar stundir.
DMS says
Hrikalega skemmtilegur leikur, alvöru bikarleikur eins og þeir gerast bestir. Hinsvegar hefðum við getað gert út um þennan leik mun fyrr ef seinna markið hefði dottið okkar megin eftir alla þessa pressu. Því fleiri færi sem fóru í súginn þá fór maður að verða áhyggjufullur um að Everton myndu rífa sig í gang sem þeir og gerðu í síðari hálfleik.
En mér fannst við bara nokkuð beittir fram á við í dag. Martial og Rashford koma með hrikalega mikinn hraða í sóknaraðgerðirnar og De Gea bjargar okkur þegar þarf. Ótrúlegur markmaður.
Björn says
Vá hvað Lukaku er ofmetinn leikmaður!
Annars vil ég bara óska öllum til hamingju með þetta, við virðumst loksins vera farinn að sjá fyrir endann á þessu leiðindartímabili sem síðustu 3 ár hafa verið. Ég vil líka fá að segja það að ég hef alltaf verið á LVG vagninum og verð það áfram, held það væru ekki margir sem myndu þora að gera það sem hann hefur gert. Þ.e.a.s hreinsa út 15-20 leikmenn á 2 árum og byggja upp með efnilegum leikmönnum í staðinn, og þetta hefur hann gert ásamt því að ná öllum þeim markmiðum sem sett hafa verið hingað til. Ég vona innilega að hann fái að klára sinn samning og síðan sjáum við bara til hvort það verði Giggs eða einhver annar sem tekur við. Held að hans verði minnst vel eftir nokkur ár þegar Memphis, Martial, og Rashford fara að tæta úrvalsdeildina í sig.
Thorleifur Gestsson says
Galinn að gera góða hluti með unga leikmenn og mun fleiri að koma inn úr meisturum u21 liðinu framtíðin er björt þurfum bara þolinmæði ;) Grunar að við fáum krakka lið sem deildarmeistara aftur á næstu 3 til 4 árum :)
Halldór Marteinsson says
Æðislegur leikur. Það eru svona leikir sem er ástæðan fyrir því að maður hefur saknað þess að sjá United leggja meiri áherslu á enska bikarinn. Everton fær hrós fyrir sína frammistöðu í þessu leik og United liðið fær hrós fyrir að hafa unnið verðskuldað.
Kannski er United að ná að kúltivera aftur smá bikarstemningu í liðið. Mér hefur fundist það vanta síðustu ár, m.a.s. síðustu árin undir stjórn Fergie. Það er engin tilviljun að það eru 12 ár frá síðasta bikartitli. Það er allt önnur stemning sem þarf í liðið til að vinna svona bikarkeppnir en deildarmót. Þess vegna sjáum við stundum lið eiga góðar skorpur í þessum keppnum þegar þau hafa þetta bikarstuð. Chelsea var svona um tíma, Arsenal hefur verið svona líka. Stundum er hægt að yfirfæra svona bikarstemningu yfir á aðrar keppnir (væri kannski helst yfir í Evrópukeppnina) en það er þó ekki algilt.
Í öllu falli er ég gríðarlega ánægður með þetta. Og tala nú ekki um að fá svona ekta United mark í lokin, sigurmark í blálokin. Gerist ekki sætara!
Frikki11 says
Vil ekki gagnrýna neinn eftir þennan frábæra sigur en Jesse Lingaard er því miður ekki nógu góður fyrir byrjunarliðið, sjá bara þegar hann hittir ekki boltann og skýtur langt framhjá í dauðafæri á algjöru crucial mómen… augnabliki til að koma okkur í 0-2. Væri fínn squad player.
Haukur Guðmundsson says
Þetta er svo fallegt 😇
Rúnar Þór says
Sigurjón, sjálfsmarkið hjá Smalling var ekki óheppni og það var vel hægt að koma í veg fyrir það. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ákvað Smalling að fara niður og reyna að hreinsa með hægri fæti þegar hann hefði auðveldlega getað hreinsað með vinstri. Bara mjög klaufalegt og vitlaust hjá honum :)
Karl Garðars says
Þetta slapp hjá Smalling. Hann tekur þetta með sér og kemur sterkari frá þessu. Mistök eru af hinu góða á meðan við töpum ekki þeirra vegna og liðið læri af þeim.
Annars góður leikur og ég gleðst sérstaklega fyrir hönd liðsins og þjálfaranna. Megi þeir vinna þennan stauk og byggja áfram á því.
Halldór Marteinsson says
Held það sé nú harkalegt að segja að Smalling hafi ákveðið að fara niður og hreinsa með hægri, ekki eins og hann hafi getað legið yfir þessari ákvörðun í einhvern tíma. Þetta var pjúra instinct hreyfing hjá honum, réttfættur maður ómeðvitað að nota sinn sterkari fót. Þetta gerðist á engum tíma. Einfaldlega óheppni og ekkert annað. Hann gat aldrei gert ekki neitt, hann varð að gera eitthvað. Hefði getað virkað en gerði það ekki í þetta skipti. Næst sendir hann boltann uppí stúku.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Leikur Sunderland og Arsenl var að klárast með jafntefli.
City 64 stig
Arsenal 64 stig
United 59 stig (eiga leik til góða)
City eiga eftir að spila gegn Arsenal (næst seinasti leikurinn). Þannig að annaðhvort liðið tapar eða bæði eitt stig.
Ef United, City og Arsenal vinna öll restina af leikjunum sínum nema City VS Arsenal fer jafntefli að þá endar United í 5sæti og liðin í 3,4 og 5 sæti enda öll með jafn mörg stig.
Það yrði grátlegt, verðum að treysta á að við vinnum allt og hin liðin tapi einhverjum leik.
Dogsdieinhotcars says
Martial er þannig leikmaður að ég get ekki beðið eftir að sjá næsta leik með honum.
Miðað við seasonið, þá segi ég LvG eigi að fá annað ár ef hann skilar Fa titli og fjórða sætinu. Ef ekki bæði, þá annan þjálfara.
Runólfur Trausti says
Ég vill ekki vera Negative Nancy hérna en gott bikarævintýri og mögulegt fjórða sæti ætti ekki að vera nóg til að halda Van Gaal í starfi, og í raun ekki heldur Ryan Giggs.
Fyrir mér er tímabilið ennþá hálfgert FUBAR þar sem þetta 4. sæti og sigur í FA gæti verið reddingin / sjálfstraust spýtingin sem leikmenn þurfa. En ég tel Van Gaal ekki geta komið liðinu þangað, ef ekki væri fyrir vesen á nánast öllum öðrum toppliðum deildarinnar þá værum ekki nálægt Meistaradeild á næsta tímabili (Skulum nú ekki gleyma árangri okkar í vetur í þeirri blessuðu keppni).
Knattspyrnan í ár hefur bara ekki verið boðleg og ef ekki væri fyrir Martial þá veit maður varla hvar við værum. Ég meina, liðið er búið að skora jafn mörg mörk og Bournemouth. Og það er ekki einu sinni með bestu vörnina í deildinni! Það er Tottenham, með 22 mörkum meira skorað og 5 færri fengin á sig.
FA bikarinn, 4. sætið og debut á alla kjúklinga er fínt send off fyrir Van Gaal en send off verður það að vera. Eins og bretinn segir, þetta væri bara „papering over the cracks“.
Audunn says
Það er endalaust hægt að tala svona Runólfur.
Ef það hefði ekki verið fyrir RVP þá hefði Ferguson aldrei unnið deildina á sínu síðasta tímabili, liðið þá var nú ekki upp á marga fiska þannig séð og spilaði oft á tíðum alveg hörmulegan fótbolta en RVP reddaði okkur hvað eftir annað.
Stuðningsmenn Arsenal og Man.City geta sagt það nákvæmlega sama þagar kemur að því að ef ekki væri búið að vera vesen á öllum öðrum toppliðum þá væri þau lið ekki þar sem þau eru. Ég meina er það ekki alltaf svoleiðis? Ef Chelsea eða önnur lið undir stjórn Móra einhvertíma unnið tiltla með blússandi og skemmtilegum fótbolta? Ég man bara aldrei eftir því.
Ef og hefði eru oftar en ekki nefndir til sögunnar þegar verið er að fjalla um knattspyrnu, ef það hefði ekki verið fyrir lélegheit andstæðingsins þá hefði þetta verið öðruvísi osfr.
Ég get svo sem skilið að menn vilji að Van Gaal taki pokann sinn þótt ég skilji eða sjái reyndar ekki hver ætti að taka við. Ráðning Móra yrði bara til ´fárra ára, hann endist aldrei lengi hjá neinum klúbbi því hann er yfirleitt búinn að gera allt vitlaust eftir x tíma. Eins er hann ekki þekktur fyrir að spila skemmtilegri bolta en Van Gaal, hans ráðning yrði bara tímabundinn plástur, svo þyrfti að byrja upp á nýtt þegar hann fer. ég fatta ekki hver gróðinn yrði til lengri tíma.
Eins hef ég miklar áhyggjur af því starfi sem Van Gaal hefur unnið þegar kemur að yngri leikmönnum, er ansi hreint hræddur um að sú vinna fari strax út í veður og vind með komu Móra.
En Van Gaal er eitt og Giggs er annað, hversvegna í óssköðunum þyrfti Giggs líka að taka pokann sinn? Er þá ekki líka krafa um að allir leikmenn mínus 1-3 taki poka sinn líka? Ef það á að hengja Giggs fyrir tímabilið þá ætti fara alla leið í þeirri afhausun.
Sigurjón says
Hvað er þetta endalausa tal alltaf um að ráða einhvern þjálfara „til lengri tíma“? Eru menn ekki að átta sig á því að kallar eins og Alex Ferguson og Arsène Wenger eru hvítir hrafnar?
Að ná meira en 4 árum út úr þjálfara í nútíma fótbolta er talið ansi góður árangur. Fyrir utan Wenger þá hefur Eddie Howe setið lengst allra þjálfara í ensku deildinni, rétt rúm 3 ár. Þannig að ef menn vilja ráða þjálfara bara út frá því hversu lengi hann er tilbúinn að sitja í starfi, gangi ykkur þá allt í haginn með það, það eru eflaust nokkrir prestar og kennarar þarna úti sem eru tilbúnir í slaginn.
Persónulega vil ég ráða mann sem er með hærra sigurhlutfall en nokkur annar þjálfari í boltanum. Hvort hann sé síðan tilbúinn að vinna eftir okkar hugmyndafræði, það er áhætta sem ég er tilbúinn að taka, ef hann stykir hópinn með góðum leikmönnum á næstu 3-4 árum (plús tekur kannski einhverja titla hér og þar, sem myndi auka sjálfstraustið í hópnum) þá tel ég það skref fram á við miðað við núverandi ástand.
Auðunn says
Það er nú kannski rétt að þjálfara endast ekki mjög lengi í nútíma knattspyrnu en þetta er líka spurning um hvað þeir skilja eftir sig til lengri tíma.
Mourinho gæti jú vel unnið einhverja titla á 3-4 árum sem stjóri Man.Utd en það er samt alls ekki sjálfgefið fyrirfram.
Lið eins og Spurs, Arsenal, City, Chelsea og jafnvel Liverpool verða mjög líklega sterkari með tímans tönn og því ekkert fast í hendi.
Ég hef sagt það áður og segi það enn að ég er mjög svo efins um að það væri gæfu skref fyrir United að ráða Mourinho.
Hann passar bara einhvern veginn ekki inní það sem United stendur fyrir.
Það er ákveðin uppbygging í gangi núna sem ég er mjög hræddur um að fari út um gluggann með komu Mourinho.
Ég myndi miklu frekar fagna komu manns eins og Pochettino þótt ég sé ennþá á því að það ætti ekki að skipta um stjóra í sumar.
Hef ennþá trú á að starf Van Gaal muni skila sér þótt það taki lengri tíma en maður vonaðist eftir.
Rauðhaus says
Ég er mjög þakklátur LvG fyrir það sem hann er að gera fyrir liðið okkar og er handviss um að mestu áhrif hans séu ekki komin í ljós. Sagan sýnir að það mark sem hann setur á klúbba kemur mest fram síðar. Held ég hafi verið hvað mest í að verja LvG af þeim United mönnum sem ég þekki.
Það breytir því þó ekki að það hefur legið fyrir allann tímann að LvG ætlar að hætta eftir eiit ár. Ef við skiptum ekki um mann í brúnni núna í sumar munum við því finna okkur í nákvæmlega sömu stöðu eftir eitt ár. Þetta vita Ed Woodward og félagar.
Ég veit ekki með Jose Mourinho, eina stundna er ég mjög spenntur en aðra er ég efins. Ég er hins vegar alls ekki á því að Ryan Giggs eigi að taka við liðinu, mér finnst það alltof mikil áhætta.
Það blasir hins vegar við að klúbburinn þarf einhvers konar director of football. Með slíkri stöðu væri komið í veg fyrir að hver einasta þjálfaraskipting muni kollvarpa öllu aftur og aftur. Það er nefninlega alveg rétt sem Sigurjón nefnir að bransinn er bara þannig í dag að það er ólíklegt að menn verði 5 ár hjá sama klúbbnum. Hversu gott eða slæmt sem það nú er.