Til að koma okkur í bikarvikugír og reyna að gleyma því að það hafi yfirhöfuð verið spilað í deildinni þennan vetur ætlum við að rifja upp með ykkur hvernig Manchester United hefur unnið ellefu bikartitla og hvers vegna það er alveg ástæða til að vilja vinna bikar!
1909
Ernest Mangnall er nafn sem allir United stuðningsmenn ættu að muna. Hann var stjórinn á fyrsta blómaskeiði Manchester United, vann tvo fyrstu titla liðsins og fyrsta bikarinn með sigri á Bristol City árið 1909,
Lið United á þessum árum var frábært, miðherjalina Duckworth, fyrirliðans Roberts og Bell sú besta á Englandi, og frammi voru menn eins og Sandy Turnbull, sem dó í fyrra stríði, markakóngurinn Jimmy Turnbull og besti leikmaður United líklega allt þangað til Duncan Edwards kom fram, velski kantmaðurinn Billy Meredith.
1948
Fyrra stríð batt enda á velgengi United og það var ekki fyrr en að Sir Matt Busby var kominn til sögunnar að United byggði upp annað lið. Liðið sem vann bikarinn 1948 var uppistaðan í meistaraliðinu 1952 og var með innanborðs marga frábæra leikmenn á borð við fyrirliðann Johnny Carey, John Ashton eldri, en sonur hans, John Ashton yngri varð Evrópumeistari með United 1968, Henry Cockburn var burðarás á miðjunni, þrátt fyrir að vera bara 165cm og var sá af þessum sem lék flesta landsleiki fyrir England. Charlie Mitten var vinstri útherji, og fór til Kólombíu 1949 þegar Kólombía gekk úr FIFA og fór að borga leikmönnum meira en smánarlaun. Frammi var markahrókurinn Jack Rowley og hægri útherji var einnig frábær, Jimmy Delaney.
Sigurinn í úrslitaleiknum var á móti Blackpool sem var með frábært lið á þessum tíma og leikurinn þótti einn sá besti í langan tíma. United vann 4-2 með tveimur mörkum frá Rowley, einu frá Stan Pearson og John Anderson.
1963
Busby Babes liðið varð aldrei bikarmeistari þó að liðið kæmist í úrslit 1957 og svo aftur 1958 eftir München slysið. En aftur varð bikarkeppnin undanfari nýrra sigurtíma árið 1963. Fyrirliði var þá Noel Cantwell, en í liðinu voru auðvitað Denis Law, Bobby Charlton, Billy Foulkes, Paddy Crerand og Tony Dunne sem allir urðu Evrópumeistarar 1968. Af þeim sem ekki náðu þeim titli var Maurice Setters engu að síður lykilmaður fyrri hluta þessa áratugar, David Herd á enn markamet United í deild á einu tímabili og Albert Quixall var enn í liðinu eftir að hafa komið til United í kjölfar München slyssins. Og þau sem kannast við Johnny Giles sem gallharðan Leedsara? Hann vann þennan bikar með Manchester United
1977
Enn á ný hófst eyðimerkurganga í kjölfar Evrópubikarsins 1968 og brotthvarfs Busby. En glæsileg endurkoma úr annari deildinni 1975, bikarúrslit 1976 með hrikalegu tapi gegn Southampton, og bikarúrslit 1977 gáfu von um betri tíma. Tommy Docherty var að láta liðið spila glimrandi fótbolta og það eina sem skyggði á var að Liverpool var að ganga betur. Úrslitaleikurinn 1977 snerist um það að koma í veg fyrir að Liverpool ynni þrennuna og það tókst. Framherjarnir Stuart Pearson (óskyldur fyrrnefndum Stan) og Jimmy Greenhoff sáu til þess í 2-1 sigri. Á köntunum voru þeir Coppell og Hill og miðverðirnir Buchan og Brian Greenhoff. Ef talað er við United menn sem muna þessa tíma er þetta enn fyrir þeim skemmtilegasta og besta liðið.
https://www.youtube.com/watch?v=vVKPXIvRuXw
1983
En ólíkt öðrum bikarsigrum varð 1977 ekki upphafið að einhverju góðu, heldur endalokin. Tommy Docherty missti starfið vegna misferlis í starf þegar hann hóf að halda við eiginkonu nuddarans og misnotaði stöðu sína til að senda nuddarann í njósnaferðir um önnur lið til að geta átt ánægjustundir með frú hans. Dave Sexton tók við og fékk fjögur ár til að gera eitthvað með United en það eina sem hann sýndi var að tapa fyrir Arsenal í bikarúrslitum 1979.
Ron Atkinson hins vegar kunni betur að spila góðan bolta og vann bikarinn tvisvar.
Liðið 1983 var að mörgu leyti millibilslið, eldri leikmenn eins og Albiston, McQueen og Stapleton voru enn að, yngri leikmenn voru Mike Duxbury og auðvitað Norman Whiteside á sínu fyrsta heila tímabili. Ray Wilkins og Bryan Robson voru miðjupar United og landsliðsins. En þetta var ekki besta bikarlið United fyrr og síðar og liðið þurfti aukaleik gegn nýföllnu Brighton liði til að hala inn kærkominn og að lokum auðunninn 4-0 sigur. Til þess þurfti líka Gary Bailey að verja á ótrúlegan hátt undir lok framlengingar í fyrri leiknum í stöðunni 2-2
https://www.youtube.com/watch?v=9q4S1t2oVcA
1985
Miklu meiri vonir voru bundnar við bikarliðið 1985. Paul McGrath var farinn að sýna hvað hann gat í miðverðinum með gamla brýninu Kevin Moran, Whiteside var kominn á miðjuna með Robson og Gordon Strachan, Stapleton var enn frammi en nú með Mark Hughes sem hafði sprungið út þetta árið. Undanúrslitaleikirnir gegn Liverpool gleymast engum sem á horfðu, þrumufleygar Hughes og Robson í aukaleik á Maine Road komu liðinu í úrslit gegn nýkrýndum meisturum Everton sem að auki áttu eftir að bæta við sig sigri í Evrópukeppni bikarhafa. Og aftur eyðilagði United þrennudrauma.
Leikurinn var mesta hark og ekki síður eftir að Kevin Moran varð fyrstur til að fá rautt spjald í bikarúrslitum. Höfundur eyddi áraTUGUM í að verja brotið… en ef horft er á það með augum dagsins í dag er mesta furða að Moran hafi ekki fengið tvö rauð spjöld.
En United hélt út og Norman Whiteside tryggði sigurinn með frábæru marki í framlengingunni.
https://www.youtube.com/watch?v=iVbUoGm4lw0
1990
Haustið eftir bikarsigurinn 1985 vann United fyrstu tíu leikina í deild og vonir um nýtt sigurtímabil voru ekki bara vaknaðar, þær voru komnar í yfirgír. En allt hrundi og United endaði í fjórða sæti og haustið eftir missti Atkinson vinnuna. Sir Alex mætti á svæðið og tók nokkur ár í uppbyggingu áður en sigur vannst í bikarkeppninni 1990
Þar voru andstæðingarnir engir aðrir en Crystal Palace í sínum fyrsta bikarúrslitaleik og þeim síðasta fram til laugardagsins næsta. Og meðal leikmanna þeirra, enginn annar en stjórinn á laugardag, Alan Pardew.
Þetta tímabil var ekkert draumatímabil fyrir United. Liðið endaði í 13. sæti sem skýrir hvers vegna kenningin um að bikarinn hafi bjargað Ferguson er enn við lýði. Fyrstu lykilmennirnir í sigurgöngu næstu ára voru rétt að mæta á svæðið, Paul Ince og Gary Pallister höfðu verið keyptir um haustið og Steve Bruce nokkru fyrr. Mark Hughes var mættur til baka eftir smá útlegð hjá Barcelona og Bayern og Robson var auðvitað enn á svæðinu.
Palace voru engin lömb að leika sér við og framherjarnir Mark Bright og Ian Wright gríðarskæðir. United var heppið að sleppa með 3-3 jafntefli frá fyrri leiknum sem var gríðarfjörugur. Sir Alex kenndi markverðinum, Jim Leighton um mörkin, að réttu, og setti varamanninn Les Sealey í markið í aukaleiknum sem vannst með marki frá vinstri bakverðinum Lee Martin.
1994
Eins og stuðningsmenn frá áttunda áratugnum dýrka liðið hans Tommy Doc, þá er liðið frá 1994 mitt United lið. Besta ellefu manna lið sem United hefur stillt upp, valinn maður í hverju rúmi, og ekki bara barist til síðasta blóðdropa, heldur farið í blóðbirgðir andstæðinganna til að ná í meira og geta barist áfram. Þetta lið varð að mestu til tímabilið 1992-3 og Roy Keane bættist í hópinn sumarið 1993.
Schmeichel; Parker, Irwin, Bruce, Pallister; Kantsjelskís, Keane, Ince, Giggs; Cantona, Hughes.
Hætti aldrei að elska þetta lið.
Já og það vann tvennuna. Úrslitaleikur gegn Chelsea sem hafði unnið báða deildarleikina 1-0 og því hugsanleg fyrirstaða. En bara hugsanleg. Leikurinn fór 4-0. Ekki vandamálið.
1996
Hvað er hægt að gera þegar búið er að vinna tvennuna, og tapa svo báðum titlunum á síðustu stundu ári síðar? Jú vinna tvennuna aftur.
Árið sem krakkarnir komu inn í liðið var líka árið sem Cantona og Schmeichel unnu tvennuna, svona næstum einir.
1-0 (Cantona)
voru algengustu úrslit vetrarins og auðvitað fór bikarúrslitaleikurinn þannig líka. Það jók á ánægjuna að mótherjinn var Liverpool í fínu hvítu jakkafötunum sínum. Markið hjá Cantona var einkar fagmannlegt og vel unnið. En krakkarnir gerðu sitt, Phil Neville, Beckham og Butt byrjuðu og Gary Neville og Paul Scholes komu inná.
1999
Það er alltaf hægt að gera betur en að vinna tvennuna. Til dæmis með að vinna þrennuna.
Leikurinn gegn Newcastle var næstum formsatriði að manni fannst áður en alvaran kæmi í Barcelona móti Bayern. United hafði samt áður skemmt partí fyrir bæði Liverpool og Everton í sömu sporum og það var mikilvægt að hrasa ekki. Teddy Sheringham og Paul Scholes sáu til þess. Sheringham kom inn á fyrir Keane á 9. mínútu og skoraði strax og eftir það var þetta aldrei í vafa. Auðveldur sigur sem gleymist stundum vegna Evrópumeistaratitilsins en er þess um leið valdandi að þetta tímabil gleymist aldrei.
2004
Það eru 12 ár síðan United vann síðast bikarinn og það hefur ekki liðið jafn langt á milli síðan 1948-1963. Það er löngu kominn tími til að bæta úr þessu. 2004 var fyrsta árið í lægð sem liðið lenti í en hirti þó bikarinn. Sumir leikmenn frá þrennutímabilinu voru á síðasta snúningi, nýir leikmenn voru ekki allir nógu góðir, Ronaldo var enn krakki og Rooney ekki kominn. En í bikarúrslitin komst liðið þó og andstæðingurinn var annarardeildarlið Millwall sem var auðvelt bráð. Ronaldo og Ruud van Nistelrooy með tvö skoruðu mörkin í 3-0 sigri. Gary Neville, Ryan Giggs og Paul Scholes áttu reyndar nokkra titla eftir sem og Darren Fletcher, John O’Shea og Wes Brown en hinir síðarnefndu voru þó aldrei meira en toppvaramenn á næstu árum
Síðan þá hefur United tapað tvisvar í úrslitaleikjum, gríðarlega óverðskuldað gegn Arsenal 2005 og 2007 gegn Chelsea í þrautleiðinlegum leik. Það er kominn tími til að bæta úr því!
Skildu eftir svar