Verst geymda leyndarmál fótboltaheimsins undanfarna mánuði er ekki leyndarmál lengur:
José Mourinho tekur við stjórn Manchester United af Louis van Gaal!
Sky Sports birti frétt áðan þess efnis að José hefði skrifað undir og Craig Norwood sem er fyrrverandi ljósmyndari United og með traustar heimildir tók undir það.
https://twitter.com/CraigNorwood/status/735870819721695233
Reyndar slær Samuel Luckhurst hjá Manchester Evening News varnagla við þessum fréttum
https://twitter.com/samuelluckhurst/status/735875554008825857
Við ætlum því að slá þessu föstu þó tilkynningin frá United sé ekki komin!
Stjóratíð Louis van Gaal lauk á mánudaginn eins og allir vita og við erum búnir að kveðja stjóratíð hans. Eftir það var aðeins tímaspursmál hvenær tilkynnt yrði um ráðninu Mourinho. Breskir fjölmiðlar greindu frá því um helgina, skömmu eftir að United vann sigur í FA-bikarnum, að búið væri að semja við Mourinho. Viðræður hafi hafist af fullu fyrir einhverjum vikum. Síðustu tvo daga hafa fréttir af samningum United og Mourinho aðallega snúist um ímyndarrétt og þá staðreynd að Chelsea á vörumerkið „José Mourinho“. Þetta var auðvitað ekki ásteytingarsteinn og samningar hafa nú náðst.
Áhuginn nær þó lengra aftur en allt frá því að Mourinho var rekinn frá Chelsea í desember á síðasta ári hafa menn velt uppi þeim möguleika að hann tæki við að Louis van Gaal. Gengi United var auðvitað hræðilegt um þetta leyti og vert er að rifja upp fréttir sem allir helstu miðlar Bretlands birtu um að Louis van Gaal yrði hreinlega rekinn myndi hann ekki ná í sigra gegn Stoke og Chelsea í jólatörninni.
Fljótlega fór slúðurvélin af stað um að Mourinho myndi taka við af Van Gaal og hún hefur ekki hætt að snúast allt tímabilið eins og flestir stuðningsmenn United ættu að þekkja. Allir miðlar heimsins hafa á einhverjum tímapunkti birt fréttir af því að Mourinho myndi taka við og nú er það staðreynd.
Einnig má rifja upp þessa frétt frá hinum afar hæfa íþróttablaðamanni Miguel Delaney þar sem hann greindi frá því að Mourinho hefði ritað bréf til stjórnar United þar sem hann á að hafa lýst því yfir hversu mikið hann vildi taka við starfinu, hvaða ákvarðanir hann myndi taka og hvað þyrfti að gera.
Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til þess að gera sér það í hugarlund að Mourinho og þjálfarateymi hans hafi stúderað lið United undanfarna mánuði til þess að sjá hvað betur mætti fara og hvernig hægt væri að bæta liðið. Mourinho ætti því að mæta reiðubúinn til leiks og klár í slaginn fyrir átök komandi tímabils.
Pressan er þó mikil eftir mögur ár frá því að Ferguson hætti en ef það er einhver sem getur staðist hana er það José Mourinho.
Jón Þór Baldvinsson says
Jæja, ætti að verða mikið um kaup þetta sumarið svo við höfum eitthvað að hlakka til. Zlatan sagan flýgur hærra og hærra hvern daginn og finnst mér það yrði epískt ef hann kæmi til okkar til að slútta einhverjum magnaðasta ferli sem skandínavar og allur heimurinn hefur séð. Hann er karakter eins og uppáhald mitt Kóngurinn og ætti að setja heldur betur lit á tímabilið sem er í vændum. Ég klippti á mér neglurnar svo ég myndi ekki naga þær af áhyggjum yfir hvað muni gerast með ungu leikmennina okkar en kannski mórinn hafi fenginð tiltal um hefðirnar í klúbbnum að búa til framtíðar stjörnur
Ef ekki væri fyrir hvernig hann kom fram við ungu leikmennina hjá Chelsea þá væri ég hæstánægður með skipan hans sem stjóra enda maðurinn bæði karakter eins og sá gamli og snillingur í að vinna.
Næsta tímabil á eftir að vera eitthvað það brjálaðasta sem við höfum séð lengi og leikjakaup sögurnar háværari en nokkurntíman áður.
Audunn says
Það hlýtur samt að vera svolítið óþægilegt fyrir mann með mjög mjög mikið egó eins og Mourinho að vita það að hann hefur aldrei verið þessi drauma þjálfari Man.Utd heldur Guardiola sem velur að fara frekar til Man.City sem gerir það að verkum að United snýr sér að Mourinho.
Þetta er svolítið skondið allt saman og ég er nokkuð viss um að menn eiga eftir að nudda Mourinho svolítið upp úr þessu.
Hann á það til að pirrast yfir skotum á sig.
En þetta verður algjör veisla fyrir okkur knattspyrnufíklana.
Mourinho, Guardiola, Wenger, Conte, Klopp, Koeman, Pochettino og Ranieri allir að þjálfa í úrvalsdeildinni á sama tíma.
Verst að Newcastle féll því þá hefði Benitez verið þarna líka.
Ég hlakka geðveikt til tímabilsins. . Get ekki beðið. . Það má byrja á morgun.
Ætla klárlega á leik snemma í haust.
United verða mjög flottir, gætu hæglega unnið deildina ef við fáum 3-4 sterka leikmenn.
Leikmenn munu pottþétt leggja sig 100% fram fyrir Móra. . Líklega 120%.
Það mun enginn komast upp með aumingjaskap.