Eftir mikinn þvæling á æfingaferðalögum síðustu ár fer United í óvenju stutt og snarpt ferðalag þetta sumarið. Tvö síðustu ár fóru í þvæling um Bandaríkin, en nú er komið aftur að Kína. Ólíkt fimm leikja Asíuferðalaginu 2013 verða einungis leiknir tveir leikir í þetta sinn í Asíu en í bakaleiðinni kemur liðið við í Svíþjóð og leikur við Galatasaray í Gautaborg.
Liðið flýgur til Kína í dag og búið er að tilkynna 25 manna hóp sem stígur upp í vélina.
David de Gea, Eric Bailly, Phil Jones, Marcos Rojo, Memphis, Juan Mata, Wayne Rooney, Chris Smalling, Jesse Lingard, Adnan Januzaj, Michael Carrick, Daley Blind, Ashley Young, Marcus Rashford, Will Keane, Sergio Romero, Ander Herrera, Hinrikh Mkhitaryan, Luke Shaw, Timothy Fosu-Mensah, Antonio Valencia, Sam Johnstone, Paddy McNair, Axel Tuanzebe, Andreas Pereira,
Samkvæmt því sem Mourinho hefur sagt má ekki búast við að Rooney, Rashford og Smalling leiki í Kína þar sem þeir eru ekki búnir að æfa neitt áður en lagt verður af stað, þannig að leikmannahópurinn er í raun sá sem lék gegn Wigan að frátöldum James Wilson.
Fyrsti leikurinn verður við Borussia Dortmund nú á föstudaginn á hádegi að íslenskum tíma í Sjanghæ.
Síðan verður farið til Beijing og spilað við nágrannana í City þar sem José og Pep mætast í fyrsta sinn sem stjórar United og City. Leikurinn verður á mánudaginn kl. hálf tólf.
Það er farið til Gautaborgar, leikurinn við Galatasaray verður laugardaginn 30. júlí þannig það er ágætis tími milli leikja til að ná sér.
Fyrsti leikurinn á keppnistímabilinu verður síðan Samfélagsskjaldarleikurinn við Leicester City sunnudaginn 7. ágúst, en 3. ágúst verður leikið við Everton í styrktarleik fyrir Wayne Rooney.
Þetta undirbúningstímabil er því eins þægilegt og á verður kosið, leikið í Kína til að styrkja budduna og auglýsingasamböndin en ekki of lýjandi áður en alvaran hefst þann 14. ágúst.
Skildu eftir svar